30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

198. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. S.l. aldarfjórðung hefur verðbólga verið helzta efnahagsvandamál Íslendinga. Verðbólguþróunin hefur að vísu ekki verið sérstætt íslenzkt fyrirbæri. Síðan á árum síðari heimsstyrjaldarinnar má segja, að verðbólguþróun hafi verið alþjóðlegt vandamál. Ekki hefur aðeins verið um að ræða verðbólgu í þeim löndum, sem búa við svonefnt frjálst eða líberalistískt hagkerfi, heldur einnig í löndum, sem búa við áætlunarbúskap. Og verðbólgu hefur ekki aðeins gætt í háþróuðum iðnaðarríkjum, heldur einnig í þróunarlöndunum, sem verið hafa að öðlast stjórnarfarslegt sjálfstæði og búa við frumstæða atvinnuhætti. Á áratugunum frá 1920–1940 mátti segja, að aðalviðfangsefnin í efnahagsmálum hafi verið fólgin í því að vinna bug á atvinnuleysi og kreppu. S.L. 25 ár hefur meginvandamálið verið að hafa hemil á verðbólgu og koma í veg fyrir skaðleg áhrif hennar á hagvöxt og skiptingu þjóðartekna.

Þótt verðbólga hafi að vísu ekki verið og sé ekki sérstakt íslenzkt fyrirbæri, hefur hún samt reynzt meiri og erfiðari viðfangs hér á landi, en í flestum öðrum nálægum ríkjum. Á þeirri staðreynd er ekki til nein ein og ekki nein einföld skýring. Það er augljóst, að stefnan í peningamálum hefur síðan s styrjaldarlok lengst af verið þannig, að hún hefur stuðlað að verðbólgu og verðbólguþróunin hefði ekki getað átt sér stað nema samhliða slíkri stefnu í peningamálum. Með þessu er þó ekki sagt, að hægt sé að telja stefnuna í peningamálum orsök verðbólguþróunarinnar og unnt sé að stöðva hana einvörðungu með ráðstöfunum í peningamálum. Það er einnig augljóst, að stefna launþegasamtakanna í launamálum og kjarasamningar þeir, sem gerðir hafa verið, hafa ekki samrýmzt jafnvægi í verðlags- og efnahagsmálum yfirleitt. En með því er samt ekki sagt, að stefna launþegasamtakanna sé orsök verðbólgunnar og að verðbólgan væri úr sögunni, ef launþegasamtökin breyttu um stefnu.

Verðbólguþróunin á Íslandi er mjög flókið fyrirbæri, sem ég tel að eigi sér djúpar rætur í gerð íslenzks efnahagslífs og þróun þess síðan á styrjaldarárum. Engin ein ráðstöfun getur stöðvað hana. Ef á að takast að stöðva hana, er þörf mjög margvíslegra og samræmdra aðgerða, sem smám saman hafa í för með sér mikilvægar breytingar á sjálfri gerð íslenzks efnahagslífs. En það, sem gerir þetta vandamál einmitt sérstaklega erfitt viðfangs er, að sjálf verðbólguþróunin torveldar einmitt þær breytingar, sem eru nauðsynlegar til þess að kveða hana í kútinn. Þess vegna má segja, að í vissum skilningi sé hér um vitahring að ræða. Verðbólgan er hemill á hagvextinum og veldur ranglæti í tekjuskiptingunni. En einmitt þessi hemill á hagvextinum og þetta ranglæti í tekjuskiptingunni gerir það torveldara en ella að hafa hemil á verðbólgunni.

Enginn ágreiningur ætti að þurfa að verða um það, að ein af alvarlegustu afleiðingum verðbólguþróunar er sú, að raunverulegt verðgildi peningaskuldbindinga er sífellt að breytast. Skuldarar hagnast, eigendur peningakrafna, svo sem sparifjáreigendur tapa. Hagnaðarvonin, sem því er tengd að skulda, er einmitt einn af sterkustu þáttunum, sem gera erfitt að kveða verðbólguna í kútinn. Þótt verðbólguþróun leiði til augljóss ranglætis í tekju- og eignaskiptingu, eru á hinn bóginn sterkir hagsmunir tengdir við verðbólguþróunina. Hér er einmitt dæmi um þann vítahring, sem ég var að nefna áðan og gerir baráttuna gegn verðbólgunni jafnerfiða og hún er í raun og veru. Gera má þó ráð fyrir, að menn séu í grundvallaratriðum yfirleitt sammála um, að það væri æskilegt að eyða óvissunni um framtíðarverðgildi peninganna úr viðskiptum sparifjáreigenda og annarra fjármagnseigenda annars vegar og lántakenda hins vegar. Einkum og sér í lagi ættu menn að geta verið sammála um þetta, eftir að á ný var um það samið á s.l. sumri, að kaupgjald skuli breytast í samræmi við breytingu á vísitölu framfærslukostnaðar. En þetta frv., sem hér er flutt um verðtryggingu fjárskuldbindinga, miðar einmitt að því að verðtryggja fjárskuldbindingar og er þannig einn þáttur þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru til þess að eyða skaðlegum og ranglátum afleiðingum verðbólguþróunar og er þannig í raun og veru mikilvæg ráðstöfun í baráttu gegn áframhaldandi verðbólguþróun. Skal ég nú í fáeinum orðum rekja aðalatriði frv.

Frv. hefur verið samið í Seðlabankanum. Því er ætlað að vera almenn löggjöf um hvers konar verðtryggingu í viðskiptum, öðrum en kaupgjaldsmálum. Gert er ráð fyrir því, að Seðlabanki Íslands geti veitt heimildir til verðtryggingar samkv. frv., og er ekki heimilt að stofna til annarra fjárskuldbindinga í íslenzkum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis, að greiðslur skuli breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölu, vöruverði, gengi erlends gjaldeyris, verðmæti gulls, silfurs eða annars verðmælis umfram það, sem Seðlabankinn heimilar samkv. lögum þessum. Það er meginstefna frv., að verðtrygging sé aðeins leyfð, þegar ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Gert er ráð fyrir sjálfstæðri, en takmarkaðri heimild til verðtryggingar hjá lífeyrissjóðum og fjárfestingarlánastofnunum. Verðtrygging á innlánum eða útlánum innlánsatofnana yrði háð ákvörðun Seðlabankans, svo og verðtrygging í samningum milli annarra aðila. Megintilgangurinn er sá að eyða óvissunni um framtíðarverðgildi peninganna úr viðskiptum sparifjáreigenda annars vegar og lántakenda hins vegar. Er þannig að því stefnt að skapa svipaðar aðstæður að þessu leyti og vera mundi, ef verðlag væri stöðugt. Í reynd hefur óvissunni um framtíðina verið mætt með hærri vöxtum, en ella mundi eiga sér stað. Að öðru jöfnu er þó erfiðara að meta þessa áhættu, því lengra sem horft er og er þess vegna ávinningur að verðtryggingu samanborið við hærri vexti því meiri, því lengri sem fjárskuldbindingin er. Þess vegna er lagt til í frv. að heimila verðtryggingu á fjárskuldbindingum til langs tíma. Má telja líklegt, að við þetta örvist sparnaður og framboð lánsfjár aukist, en jafnframt dragi úr verðbólgufjárfestingunni. Í frv. er gert ráð fyrir, að verðtrygging sé því aðeins leyfð, að fjárskuldbindingin standi í a.m.k. 3 ár. Til greina kemur þó að heimila styttri tíma í verðtryggðum innlánum við innlánsstofnanir.

Í frv. eru margvísleg ákvæði, sem koma eiga í veg fyrir misnotkun verðtryggingarinnar og tryggja nauðsynlegt eftirlit með henni. En þar sem hér er farið inn á nýtt svið, ekki aðeins í löggjöf, heldur einnig í sjálfu skipulagi peningamálanna, er þó hæpið að binda öll atriði í löggjöfinni sjálfri. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn geti haft veruleg áhrif á það, hve ört veðtryggingarákvæði í samningum verði tekin upp og í hvaða formi. Mundi þá verða hægt að láta reynsluna skera úr því, hve hratt skuli farið og hvaða fyrirkomulag endanlega valið.

Hin almennu skilyrði verðtryggingar samkv. frv. eru þau, að verðtryggingin skuli yfirleitt miðuð við vísitölu framfærslukostnaðar, eins og hún er reiknuð á hverjum tíma. Seðlabankanum er þó heimilað að leyfa, að verðtrygging sé miðuð við aðra vísitölu eða breytingar tiltekins vöruverðs, enda sé sú viðmiðun betri mælikvarði á greiðslugetu þess aðila, sem tekst á hendur verðtryggða skuldbindingu. Sé ekki um opinbera, skráða vísitölu eða verðlag að ræða, skal Seðlabankinn í samráði við Hagstofu Íslands setja sérstakar reglur um þann verðtryggingargrundvöll, sem miðað er við. Þá er og gert ráð fyrir því, að verðtrygging sé fyrst og fremst heimiluð í fjárskuldbindingum, sem eru tengdar öflun fasteigna eða annarra fjármuna, sem ætla má að hækki í verði með almennum verðlagabreytingum. Skulu verðtryggð lán ætíð vera tryggð með veði í slíkum eignum eða öðrum verðtryggðum kröfum. Þá skal, eins og ég gat um áðan, fjárskuldbindingin vera gerð til eigi skemmri tíma en þriggja ára, og er þá miðað við greiðslu í einu lagi eftir á. Sé samið svo um, að greiðslur hefjist, áður en 3 ár eru liðin, skal fjárskuldbindingin vera gerð til lengri tíma eða sem því nemi, að hún standi eigi skemur en 3 ár að meðaltali. Þannig er gert ráð fyrir því, að lán með jöfnum árlegum afborgunum sé skemmst til 5 ára. Skal ekki miðað við samningstíma, heldur þann tíma, sem skuldbindingin raunverulega stendur. Þá er bannað að reka peningaviðskipti með þeim hætti að endurlána með verðtryggingu fé, sem fengið er með öðrum kjörum. Sé um endurlán að ræða, skal það vera meginreglan, að verðtryggingarákvæði standist á í báðum samningum. Þá er þess enn fremur krafizt, að verðtryggðar kröfur og skuldbindingar séu ætíð skráðar á nafn. Gert er ráð fyrir því, að Seðlabankinn geti heimilað bönkum og öðrum innlánsstofnunum að taka á móti innstæðum gegn verðtryggingu og lána út samsvarandi fé auk jafnvirðis eigin fjár með verðtryggingu. Opinberar fjárfestingarlánastofnanir, sem stofnaðar eru með lögum, skulu hafa heimild til að veita verðtryggð lán af eigin fé sínu og endurlána verðtryggt fé. Viðurkenndum lífeyrissjóðum skal einnig heimilt að ávaxta sjóði sína í verðtryggðum lánum, tryggðum með veðum í íbúðarhúsum og með sömu kjörum og íbúðarlán húsnæðismálastofnunar ríkisins við veðdeild Landsbankans eru á hverjum tíma. Önnur verðtryggð lán lífeyrissjóða eru því aðeins heimil, að samþykki Seðlabankans komi til. Seðlabankinn getur og heimilað líftryggingarfélögum að veita lán með verðtryggingu, enda njóti þá eigendur líftryggingarsamninganna alls hagnaðar af þeim verðbótum, sem um kann að vera að ræða. Að síðustu er rétt að geta þess, að gert er ráð fyrir því, að verði ágreiningur um grundvöll eða útreikning verðtrygginga, geti hver aðili vísað ágreiningsefninu til þriggja manna nefndar, sem skuli vera skipuð hagstofustjóra og fulltrúum frá hæstarétti og Seðlabankanum. Getur sú n. þá fellt fullnaðarúrskurð um deiluatriðin.

Þetta eru meginatriði þessa frv. Hér er um mikið og merkilegt nýmæli að ræða, sem nauðsynlegt er að rætt sé og athugað mjög vandlega. Ríkisstj. telur, að með lagaákvæðum eins og þeim, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, væri stórt spor stigið í baráttunni við verðbólguþróunina og til aukins réttlætis í efnahagsmálum.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. fjhn.