29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2382)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til 1. umr., fjallar um ráðstafanir til þess að létta skatta- og útsvarsbyrðina á þessu ári og að nokkru um framtíðarskipulag þeirra mála. Það er alkunna, að þessi mál hafa undanfarna mánuði vakið alveg óvenjumikla eftirtekt og verið jafnvel enn þá meira umræðuefni manna á meðal og áhyggjuefni, en venja er til og er þá vissulega töluvert sagt, því að það er ávallt þýðingarmikill liður í afkomu fólks hverju sinni, hversu háa beina skatta þarf að greiða og þess vegna er alltaf beðið eftir útkomu skattseðlanna með eftirvæntingu. En athyglin, sem skattskráin vakti að þessu sinni, er alveg sérstaklega mikil. Ég mun því leyfa mér að rekja nokkuð aðdraganda þessa máls, áður en ég sný mér að því að gera grein fyrir því, um hvað frv. fjallar.

Þar er þá fyrst til máls að taka, að með l. nr. 18 frá 12. apríl 1960 var afnuminn umreikningur á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans, en sú aðferð að umreikna þessa liði með hliðsjón af raunverulegu gildi teknanna hafði verið í l. frá árinu 1954 og með l. nr. 43 frá 1960 voru enn fremur ákveðnir fastir útsvarsstigar, sem ekki gerðu ráð fyrir breytingum, þó að verðgildi peninganna breyttist. Þessar ráðstafanir höfðu þær óhjákvæmilegu afleiðingar, að skattbyrðin þyngdist stöðugt vegna vaxandi dýrtíðar á því tímabili, sem þessi regla var í gildi. Þessar breytingar voru sagðar vera liður í framkvæmd á því stefnuskráratriði hæstv. ríkisstj. að breyta um í skattamálum, þannig að ríkistekjurnar skyldu í vaxandi mæli innheimtar í formi óbeinna skatta og tolla, enda voru jafnframt lagðir á þjóðina nýir söluskattar, er námu hundruðum millj. kr.

Niðurfelling umreikningsins hefði vitanlega ekki komið að sök, ef hæstv. ríkisstj. hefði tekizt að framkvæma annað af aðalstefnuskráratriðum sínum, sem gefið var á sama tíma, nefnilega það að halda dýrtíðinni í skefjum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sú barátta hefur mistekizt. Allir viðurkenna nú dýrtíðarvöxtinn, enda annað vitanlega gersamlega þýðingarlaust. Á árinu 1963 óx dýrtíðin meira en nokkru sinni fyrr og sá vöxtur á því ári varð til þess, að miklar launahækkanir áttu sér stað á miðju árinu. Tekjur manna urðu því miklu hærri að krónutölu en verið hafði undanfarin ár. Það var því öllum ljóst og hæstv. ríkisstj. auðvitað líka, að samkv. óbreyttum álagningarreglum hlutu tekjuskattur og útsvar að hækka stórkostlega og langt umfram það, sem nokkrir möguleikar væru á að innheimta. Þess vegna var á siðasta þingi lagt fram frv., sem gerði ráð fyrir hækkun á persónufrádrætti, en samhliða var í því frv. að finna ákvæði um breytingar á skattstigunum, sem leiddu til hækkunar, þannig að lagfæringin, sem fékkst með hækkun persónufrádráttarins, var að verulegu leyti tekin aftur með fækkun skattþrepanna. Þegar á s. i. vori, þegar þetta frv. var til meðferðar á hv. Alþingi, var augljóst, að hér var hvergi nærri nóg að gert og á það var bent, að samþykkt frv. hæstv. ríkisstj. í óbreyttu formi mundi valda því, að skattar og útsvar hækkaði meira en hóflegt væri.

Þm. Framsfl. bentu rækilega á þetta hér á hv. Alþingi og hér í þessari hv. d. og báru fram brtt. til lagfæringar, sem voru fólgnar í þrennu: Í fyrsta lagi að hækka persónufrádráttinn meira en frv. gerði ráð fyrir, í öðru lagi að fella niður þá grein frv., sem gerði ráð fyrir fækkun skattþrepanna og í þriðja lagi að taka upp á ný umreikning á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans, eins og var í l. frá 1954, óbreytt að öðru leyti en því, að miða skyldi við framfærsluvísitölu, vegna þess að kaupgjaldsvísitala var ekki lengur reiknuð. Þessar lagfæringar mundu hafa haft þær afleiðingar, að afskræming verðbólgunnar á skatta- og útsvarsreglunum frá 1960, hefði verið afnumin, ef samþykktar hefðu verið, en því miður voru þær kolfelldar með atkv. viðstaddra stjórnarsinna á Alþingi og þeim voru valin hin háðulegustu eftirmæli í blaðakosti ríkisstj. Þær voru kallaðar yfirboð, sem ekkert mark væri á takandi og ýmislegt fleira í þeim dúr.

Við umr. hér á hv. Alþingi í vor, bentum við á það, að brtt. okkar gerðu ráð fyrir því, að tekin væru upp á ný ákvæði skattalaga frá 1954 um umreikning tekjutalna og persónufrádráttar og við lögðum áherzlu á, að það færi ekki á milli mála, að nauðsynlegt væri að hafa slíkan öryggisventil sem umreikningurinn er í skattalögum á slíkum verðbólgutímum sem nú eru hér. Ef það væri ekki gert, mundi afleiðingin óhjákvæmilega verða sú, að skattbyrðin þyngdist með hverju árinu vegna stighækkunar skattsins. Þær tekjur, sem taldar voru hátekjur árið 1960, þegar umreikningurinn var numinn úr gildi, eru nú aðeins þurftartekjur eða kannske tæplega það. Hæstu laun það ár voru t.d. 100 þús. kr. Það þykja ekki há laun núna. Það samsvarar launum í 12. launaflokki og það þykja ekki hálaunamenn, sem þar eru settir, þegar þess er gætt, að launaflokkarnir eru nú 28. Nei, aukning skattbyrðarinnar án umreiknings er óhagganlegt lögmál og þetta bentum við á og að það væri vegna þessa lögmáls, sem hæstv. ríkisstj. varð á s.l. vori að fá samþykktar breytingarnar á skattal., sem þá voru gerðar, til þess að skila aftur nokkrum hluta af því, sem verðbólgan hefur tekið af mönnum í formi tekjuskatts umfram það, sem l. sjálf gerðu ráð fyrir. Við bentum líka á það, að endurgreiðslan væri ekki næg, vegna þess að persónufrádrátturinn væri aðeins hækkaður um 30%, en dýrtíðin hefði hækkað meira og að ekkert tillit hefði verið tekið til dýrtíðaraukningarinnar að því er snertir þann hluta teknanna, sem umfram eru persónufrádráttinn. Og við sögðum, að ef frv. hæstv. ríkisstj. yrði samþ. án nokkurs varnagla, eitthvað svipað því sem okkar brtt. gerðu ráð fyrir, þá mundi misræmið verða enn þá meira á næsta ári en það er nú, vegna þess að meðalvísitala framfærslukostnaðar ársins 1964 mundi verða miklu hærri, en meðaltalið var árið 1963 og ákvæði frv. dugðu þó ekki einu sinni til að jafna þau met, sem orðin voru á árinu 1963. Þess vegna mun, sögðum við, á næsta ári verða að bera fram enn þá frv. um hækkun persónufrádráttar eða eitthvað, sem jafngilti því.

Þetta voru þau rök, sem við færðum fram fyrir brtt. okkar á s.l. vori, og margt fleira. Þetta var sá málflutningur, sem kallaður var yfirboð, sem ekkert mark væri á takandi, í blöðum hæstv. ríkisstj. En nú hefur allt þetta, sem við sögðum, komið fram. Það hefur komið fram, að skattabyrðin samkv. lögum hæstv. ríkisstj. frá því í vor er svo gífurleg, að mjög miklum fjárhagsörðugleikum veldur á fjölmörgum heimilum í landinu og víða er nú svo komið, að langmestur hluti launanna fram að n. k. áramótum a.m.k. fer til að greiða opinber gjöld og það eru dæmi til þess, að öll launin hrökkva ekki einu sinni til. Mér sýnist það alveg augljóst og það hygg ég, að fleiri muni gera, að þegar þannig löguð skattheimta bætist ofan á þær miklu fjárhæðir, sem heimilunum er nú gert að greiða í ríkissjóð í formi óbeinna álaga, þá er gjaldgetu fólks alveg ofboðið og víða horfir til hreinna vandræða af þessum sökum. Þetta finna allir. Og strax eftir að gjöldin höfðu verið á lögð og kunnugt varð um álagninguna, var það, að því er virtist, allra manna mál, að nú hefði verið gengið lengra, en fært væri í álögunum og ekki kæmi annað til greina en leiðrétta þau mistök, sem orðið hefðu. Þessi skoðun var almenn og mjög útbreidd og m.a. gengu dagblöðin hér í Reykjavík mjög rösklega fram í að skýra frá því, hversu útkoman úr reiknivélunum væri í hrópandi ósamræmi við það, sem allir hefðu átt von á. Það er auðvitað engan veginn óþekkt fyrirbæri, að menn telji opinber gjöld, sem þeim er gert að greiða, of há og þeir, sem eru í andstöðu við yfirvöldin, hvort sem það er hjá ríki eða hjá sveitarfélögum, tala mjög gjarnan hátt um það skattrán, sem verið sé að fremja. Það má því segja, að engum hafi komið á óvart, þó að dagblöð stjórnarandstöðunnar í Reykjavík, Tíminn og Þjóðviljinn, héldu því fram, að of langt væri gengið í skattheimtunni og þau viðhefðu nokkuð stór orð um þessa skattaálagningu, sem fór fram í sumar. Þó verður það að segjast, að meira að segja þeirra málflutningur var talsvert harðorðari en oft áður, enda gild ástæða til. En það, sem var óvenjulegt að þessu sinni, var þó hitt, að stjórnarblöðin voru engu mildari í dómum sínum, a.m.k. fyrst eftir að kunnugt varð um skattaálagninguna og að einnig þau réðust harkalega á niðurstöðurnar. Til þess að minna á, hvernig þau skrifuðu í sumar, ef einhverjir skyldu kannske hafa gleymt því, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að fara með nokkrar tilvitnanir úr Morgunblaðinu, Vísi og Alþýðublaðinu. Þar er af nógu að taka, því að svo að segja í hverju tölublaði þessara blaða í sumar voru skattamálin gerð að umtalsefni, en ég skal reyna að takmarka tilvitnanirnar við örfá atriði, með því líka að tónninn var mjög á einn veg. Ég vitna þá fyrst í Alþýðublaðið. 1. ágúst birtist ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu, í henni stóð þetta:

„Hin mikla krónuhækkun útsvara og skatta skapar alvarlegt innheimtuvandamál, sérstaklega fyrir fastlaunamenn. Fyrstu sjö mánuði ársins hafa verið heimtar af þeim upphæðir, sem miðaðar voru við eldri útsvör. Nú er krafizt greiðslu á því, sem á vantar, á 4–5 mánuðum, með þeim afleiðingum, að fjöldi manns fær lítið sem ekkert annað, en kvittanirnar í launaumslögum sínum.“

Sama dag skrifaði sá blaðamaður Alþýðublaðsins, sem nefnir sig „Hannes á horninu“, m.a. þetta :

„Stopp. Ég sagði í fyrradag: Vomurinn kemur. Hann kom og er orðinn landfastur, a.m.k. í hugum fólksins. Ég hef fylgzt með því, þegar skattskráin hefur komið, í 40 ár og aldrei hefur hún valdið annarri eins reiði, undrun og furðu og í þetta sinn. Álögurnar hafa hækkað hjá fjölmörgum, sem ég hef talað við, um 30–60%, án þess þó að tekjurnar hafi hækkað nálægt því síðan í hittið fyrra.“

Þessi skrif halda áfram. 14. ágúst segir í Alþýðublaðinu, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. hefur haldið fund út af skattskránni.

Þetta er sögulegur viðburður, því að aldrei fyrr hefur verið haldinn sérstakur ráðuneytisfundur af tilefni skattskrárinnar. Hvers vegna var það gert? Til hvers bendir það? Svörin liggja í augum uppi, þó að þau séu ekki látin fylgja með. Skattskráin er vandræðamál. Útkoma hennar kemur á óvart, einnig ríkisstj.

Og sama blað, Alþýðublaðið, talar um það 18. ágúst, þegar heitast brann í kolunum vegna skattamálanna og reiði almennings var við suðupunkt, að sjálfsagt væri að athuga það, hvort ekki væri rétt að endurgreiða þau opinberu gjöld, sem á hefðu verið lögð á þessu ári.

Ég læt þessar tilvitnanir til Alþýðublaðsins nægja að sinni. En það er, eins og ég áðan sagði, af nógu að taka og hægt að lesa hér í allan dag. Svo mjög voru þessi mál ofarlega í hugum þeirra, sem rituðu blöðin og svo mjög fundu þeir andúð almennings gegn þessu máli. Ég mun þá leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að vitna örlítið í dagblaðið Vísi, en einnig þar birtust löng skrif um þessi mál. Laugardaginn 15. ágúst í sumar var birt viðtal við ríkisskattstjórann, þar var haft eftir honum:

„Breytingarnar, sem gerðar verða á skatta- og útsvarsl., munu felast í tvennu, sagði ríkisskattstjóri, persónufrádráttur verði hækkaður og

skatta- og útsvarsstigaþrepunum verði breytt í samræmi við launahækkanirnar á undanförnum mánuðum, þannig að menn þurfi ekki að greiða hlutfallslega hærri upphæð af launum sínum í skatta og útsvar þrátt fyrir auknar tekjur.“ Svo segir blaðið í viðtalinu: „Í vor, þegar skatta- og útsvarsl. nýju voru samþykkt á Alþingi, var þegar ljóst, segir ríkisskattstjóri, að enn á ný þurfti að breyta skatt- og útsvarsstiganum vegna þeirra hækkana, sem þá höfðu orðið á kaupgjaldi í landinu, m.a. eftir desemberverkfallið. Í ljós hefur nú komið, að tekjuaukning almennings árið 1963 var mun meiri ,en reiknað hafði verið með og nýju skattal. voru byggð á. Til þeirrar aukningar verður að taka tillit í sambandi við þær breytingar, sem nú eru fyrirhugaðar.“

Og forustugrein blaðsins fjallar um þetta viðtal og segir svo, með leyfi forseta:

„Í viðtali á forsiðu Vísis í dag greinir ríkisskattstjóri frá því, að unnið sé nú að breytingum á skattal., persónufrádráttur verði hækkaður og skatta-og útsvarsþrepunum breytt í samræmi við auknar tekjur manna, þannig að þrátt fyrir hækkuð laun þurfi menn ekki að greiða hlutfallslega hærri upphæð í skatta. Hér er verið að leiðrétta það misræmi, sem skapazt hefur í skattlagningunni vegna þeirrar dýrtíðarþróunar, sem verið hefur í þjóðfélaginu síðustu árin og hinnar miklu aukningar á tekjum manna. Munu menn almennt telja þetta góð tíðindi og vissulega má segja, að slíkar breytingar séu tímabærar vegna fyrrgreindrar þróunar. Hún hefur valdið því, að margir skattgreiðendur hafa færzt mun ofar í skattstiganum, þótt aðeins hafi verið um venjulegar launatekjur að ræða.“

Þetta segir Vísir 15. ágúst blaðið, sem lengst gekk í því fyrir 2–3 mánuðum þar á undan að kalla till. okkar framsóknarmanna hér á hv. Alþingi til breytinga á skattal. yfirboð, sem ekkert mark væri á takandi. Nú er þetta orðinn heilagur sannleikur, hafður eftir sjálfum ríkisskattstjóranum og þannig undirstrikað, að það var algert fleipur, sem blaðið fór þá með, að okkar till. væru óraunhæfar. Þvert á móti, þær voru nauðsynlegar, eins og nú er játað. Að þessu sinni hef ég ekki fleiri tilvitnanir í Vísi uppi hér, þær eru margar, eins og ég hef áður sagt.

Ég mun leyfa mér að vitna örlítið í Morgunblaðið. Þar segir í ritstjórnargrein 5. ágúst: „Eins og Morgunblaðið hefur áður sagt, hefur tekjuaukning orðið svo mikil, að skattalagabreytingarnar á síðasta þingi hafa naumast nægt til þess, að heildarniðurstaðan yrði jafnhagkvæm fyrir skattgreiðendur og næstu árin á undan.“

Hún byrjar fremur hógværlega, játningin í Morgunblaðinu, en það á eftir að koma meira. Í því blaði er 9. ágúst skrifað á þessa leið, með leyfi forseta:

„Það hlýtur að vera leiðindastarf að standa í því að telja öðrum trú um hluti, sem maður trúir ekki sjálfur og veit jafnvel að aðrir fást ekki til að trúa heldur. Þetta hafa leiðarahöfundar eins dagblaðsins í Reykjavík verið að fást við upp á síðkastið í sambandi við alræmda álagningu opinberra gjalda. Okkur hefur verið sagt það mjög ótvíræðum orðum í nefndu blaði, að skattar og útsvör hafi lækkað, að almenningur standi betur að vígi fjárhagslega, en áður og sé hæstánægður með útreikninga skattheimtunnar. Þetta og annað svipað lesa menn í blaðinu, meðan þeir handfjalla gjaldseðilinn hálfringlaðir, því að hann segir allt aðra sögu og miklu ískyggilegri um stórauknar opinberar álögur, skattpíningu, sem ekki á sér hliðstæðu um mörg undanfarin ár. Mér hefur lengi verið það hrein ráðgáta, hvaða tilgangi leiðarahöfundar þykjast vera að þjóna með slíkum skrifum. Nú er það að vísu rétt, að íslenzkir kjósendur eru sauðtryggir og einstaklega fylgispakir. En dettur umræddum skriffinnum raunverulega í hug, að menn taki meira mark á fjálgum orðum þeirra, en óhugnanlegum tölum á skattseðlinum? Það er út af fyrir sig gott og blessað að geta kastað fram háfleygum hagfræðilegum skýringum, studdum töfraformúlum tölvísinnar, á hinu nýja skattafargani. En sagði ekki hæstv. núv. forsrh. einhvern tíma, að buddan væri, þegar öll kurl kæmu til grafar, öruggasti hagfræðingurinn og nú segir hún vissulega ömurlega sögu á þessum síðustu tímum opinberrar bjartsýni.“

Þetta var tilvitnun úr Morgunblaðinu 9. ágúst s.l. Í sama blaði segir í forustugrein 14. ágúst, með leyfi forseta:

„Eins og margsinnis hefur verið bent á hér í blaðinu, voru breytingar á skatta- og útsvarslögunum, sem samþ. voru á síðasta þingi, miðaðar við það að létta byrðar lágtekjumanna, þótt það yrði til þess, að hinir tekjuhærri fengju hærri skatta en ella. Það er nú ljóst, að almennar launatekjur eru miklu hærri, en menn þá gerðu sér grein fyrir og fjöldi launamanna fær því hærri skatt, en tilætlunin var.“

Hér er sagt alveg berum orðum, að fjöldi launamanna fái hærri skatt, en tilætlunin var. Enn segir í sömu forustugrein:

„Enn á ný urðu hér miklar kauphækkanir og verðhækkanir í kjölfar þeirra,“ — sem áður er minnzt á í greininni, — „þannig að skattstigar röskuðust og hin heilbrigðu skattalög urðu úrelt. Á þeim voru að vísu gerðar breytingar til úrbóta, en nægðu þó ekki, eins og í ljós hefur komið.“

Og ég skal fara að ljúka þessum tilvitnunum í Morgunblaðið. Það er aðeins ein enn, sem ég vildi leyfa mér að fara með að þessu sinni. Hún birtist í blaðinu 25. ágúst og er svona:

„Kröfurnar á hendur ríki og sveitarfélögum hafa stöðugt aukizt undanfarna áratugi. Af því hefur að sjálfsögðu leitt mikla skattheimtu. Menn gera sér nú grein fyrir því, að of langt hefur verið gengið í þessu efni og þess vegna eru menn á einu máli um það, að draga þurfi úr sköttum.“

Eins og þessar fáu tilvitnanir, sem ég hef leyft mér að fara með, sýna ljóslega, var það allra manna mál, eftir að skattskráin kom út, að útkoman væri í ósamræmi við það, sem allir höfðu búizt við og að of langt væri nú gengið í innheimtu opinberra gjalda.

Ég hef sleppt hér tilvitnunum í Þjóðviljann og Tímann, en þær voru mjög á sama veg og ég tel ástæðulaust að gera grein fyrir þeim af ástæðum, sem ég gat um í upphafi. Þessi skoðun, sem dagblöðin hér túlkuðu og ég hef leyft mér að vitna til, var svo útbreidd á þessu tímabili, að sjálft ríkisútvarpið hófst handa um það að efna til sérstaks þáttar, þar sem fulltrúum frá öllum þingflokkunum var gefinn kostur á því að koma fram og svara tveim spurningum þessu máli viðkomandi. Þeir, sem komu fram í útvarpinu, voru fyrir hönd Alþb. formaður þess, Hannibal Valdimarsson, fyrir hönd Alþfl. kom fram hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, fyrir hönd Framsfl. kom fram formaður flokksins, Eysteinn Jónsson, og fyrir hönd Sjálfstfl. hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen. Og ég vil nú leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna örlítið til þess, sem hver þessara manna sagði í þessum útvarpsþætti, vegna þess að mér finnst það skipta máli, þegar verið er að gera sér grein fyrir, hvaða viðbrögð útsvars- og skattaseðlarnir vöktu á sínum tíma. Ef ég leyfi mér að taka þessa hv. ræðumenn í sömu röð — stafrófsröð flokkanna, eins og ég áðan gerði, þávil ég fyrst vitna til þess, sem Hannibal Valdimarsson, hv. 5. þm. Vestf., sagði. Hann sagði:

„Núverandi skattalöggjöf verður að breyta eins fljótt og við verður komið. Sú skattaálagning, sem þessa dagana hefur verið birt almenningi, hefur sannfært alla réttsýna menn um nauðsyn þess. Það er alkunna, að árlega nöldra sumir gjaldendur yfir sköttum, sem á þá eru lagðir. Þá skortir þegnskap til þess að bera sínar þjóðfélagsbyrðar án möglunar. Ég tek ekki undir við þessa sérhlífnu skattanöldrara. En eru hin almennu viðbrögð skattborgaranna nú ástæðulaust nöldur eitt? Nei, nú hefur reiðialda risið og hún fer hækkandi með hverjum degi. Hér er um að ræða heilaga bræði þess fólks, sem sér sig rangindum beitt, horfir á réttlætið fótum troðið og krefst réttlætis.“

Hæstv. viðskmrh. sagði í sama útvarpsþætti m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Íslendingum hefur því miður aldrei tekizt að setja sér skynsamlega og heilbrigða löggjöf um tekjuöflun til opinberra þarfa. Þeim hefur þó tekizt miklu verr að koma á laggirnar embættiskerfi, sem sé fært um að framkvæma slíka löggjöf af myndarskap og réttsýni. Og sjálfu siðferði þjóðarinnar í þessum efnum hefur verið svo ábótavant, að mikill hluti þjóðarinnar virðist telja það jafnsjálfsagt að hafa fé af opinberum aðilum með því að skjóta sér undan að greiða skatt og útsvar eða toll og menn telja það fráleitt að hafa fé af náunga sínum, jafnvel svarnasta fjandmanni. Gallana á skipulagi þessara mála hér hjá okkur tel ég fyrst og fremst vera þessa: 1) Algerlega ófullnægjandi eftirlit með því, að raunverulegar tekjur séu taldar fram. 2) Tekjuskatts– og útsvarsstigarnir eru of háir og þá sérstaklega: hámarkinu er náð við of lágar tekjur. Þegar skattstigar eru jafnháir og hér á sér stað, verður ranglæti þess, að sumir skjóta tekjum undan, en aðrir ekki, enn þá tilfinnanlegra. 3) Skattarnir eru greiddir heilu ári eftir að tekjurnar myndast. 4) Tollar eru hér allt of háir og valda verulegu misræmi á verðlagi innanlands og erlendis og hafa í för með sér smygl. 5) Tollaeftirliti er hér eins og skattaeftirliti stórlega áhótavant.“

Síðan segir hæstv. viðskmrh. í útvarpinu 17. ágúst :

„Það er skiljanlegt, að mönnum hafi þótt hækkun opinberu gjaldanna mikil og meiri, en þeir höfðu búizt við. Menn hafa áreiðanlega ekki gert sér nógu ljósa grein, að tekjuaukning þeirra á s.l. ári var að miklu leyti verðbólguaukning, en ekki raunveruleg tekjuaukning. Hér við bætist það, að tekjuaukning á s.l. ári var meiri, en almennt var gert ráð fyrir. Ef Alþingi og ríkisstj. hefðu vitað það, þegar skatta- og útsvarslögin voru sett á síðasta þingi, hverjar tekjur manna raunverulega yrðu 1963, er líklegt, að skatta- og útsvarsstigar hefðu verið hafðir nokkuð öðruvísi, en reyndin varð.“

Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. Austf., sagði í þessum sama útvarpsþætti 17. ágúst m.a.: „Ástandið núna eftir nýjustu álagningu skatta og útsvara sýnir glöggt, að knýjandi nauðsyn ber til að breyta mjög skatta- og útsvarslöggjöfinni. Mikill þorri manna sér enga leið til að greiða gjöld sín, eins og nú er komið málum. Opinberu gjöldin, sem nú er búið að leggja á, eru öllum fjöldanum alveg óviðráðanleg. Mín skoðun er því sú, að það verði að lækka þessi gjöld.“

Og hæstv. fjmrh. sagði í sama útvarpsþætti, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er svo annað mál, að æskilegt er að gera frekari breytingar á skattalögunum. Tekjur manna hafa almennt hækkað mikið á s.l. ári og munu einnig hækka verulega á þessu ári. Þeir láglaunamenn, sem síðasta skattalagabreyting var einkum fyrir, virðast vera miklu færri, en áður var talið, en fleiri og fleiri komast of ört upp í hina hærri skattstiga.“

Og síðar í sömu ræðu segir hæstv. fjmrh. þetta: „Ég tel æskilegt að gera ýmsar breytingar á skattalöggjöfinni til viðbótar þeim umbótum, sem að undanförnu hafa verið gerðar, bæði í lögum og í framkvæmd. Meðal þeirra breytinga, sem ég tel æskilegar, eru þessar: Að hækka enn persónufrádráttinn eða skattfrjálsar tekjur. Að breikka þrepin í skattstiganum, þannig að það þurfi hærri tekjur, en nú, til þess að komast upp í 20% og 30% skatt. Að setja í lögin ákvæði um breytingar á persónufrádrætti og skattstiga með hliðsjón af kaupgjalds- eða framfærsluvísitölu. Að innheimta bæði tekjuskatt og útsvar af tekjum jafnóðum og þeirra er aflað.”

Mér finnst þessar breytingar, sem hæstv. fjmrh. telur æskilegt að gera á skattalögunum, koma mér nokkuð kunnuglega fyrir sjónir. Mig minnir, að við framsóknarmenn hér í þessari hv. d. hefðum í vor, fyrir 4 eða 5 mánuðum, flutt þessar brtt. og hæstv. fjmrh. eða blað hans a.m.k. hafi þá talið þær marklaust yfirboð. Ég verð að segja, að það eru orðin mikil og ánægjuleg sinnaskipti þarna, en vitanlega hefði það verið æskilegra, að þau hefðu komið svolítið fyrr, þannig að við þyrftum ekki nú að standa frammi fyrir því vandamáli, sem hér er til umr., að skatta- og útsvarsálagningin er svona óviðráðanleg, eins og reyndin var og miklu hærri, en nokkur maður átti von á. (Gripið fram í.) Ekki spillti það áliti mínu á honum, ef svo væri.

Eftir allar þær yfirlýsingar, sem ég hef hér rakið, hygg ég, að allir landsmenn hafi trúað því, að ekki mundi koma annað til mála, en að gjöldin á þessu ári yrðu lagfærð, þar sem svona háttsettir menn í öllum þingflokkunum, formenn tveggja þeirra og ráðherrar hinna tveggja, höfðu sagt, að útkoman á skattaálagningunni væri allt önnur, en menn hefðu átt von á. Og annar þeirra hæstv. ráðh., sem ég vitnaði til að talaði í útvarpið á sínum tíma, sagði það beinlínis berum orðum, að ef Alþingi og ríkisstj. hefðu vitað það, þegar skatta– og útsvarslögin voru sett á síðasta þingi, hverjar tekjur manna raunverulega yrðu árið 1963, þá sé líklegt, að skatta- og útsvarsstigar hefðu verið hafðir öðruvís, en reyndin varð.

Miðstjórn Framsfl. sendi hæstv. ríkisstj. ályktun, sem var svona, með leyfi hæstv. forseta: „Vegna þess alvarlega vanda, sem nú hefur skapazt eftir síðustu álagningu skatta og útsvara, leggur stjórn Framsfl. til eftirfarandi:

1) Að ríkisstj. gangist án tafar fyrir skipun n. með þátttöku allra þingflokka til þess að gera nú þegar till. um endurskoðun þeirra opinberu gjalda, sem nú hafa verið á lögð og réttmæta skipan skatta- og útsvarsmála til frambúðar.

2) Að ríkisstj. geri þær ráðstafanir til bráðabirgða að fresta innheimtu á verulegum hluta af álögðum opinberum gjöldum, á meðan þessi endurskoðun fer fram.“

Og svipuð ályktun barst, að mig minnir og áreiðanlega var það svo, frá miðstjórn Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins, þar sem einnig var farið fram á, að ríkisstj. gerði einhverjar ráðstafanir í tilefni af þessari skattaálagningu. Og það var í tilefni af þessum ályktunum, sem ríkisstj. hélt hinn sögufræga fund, sem Alþýðublaðið skýrði frá á sínum tíma og ég leyfði mér lítillega að drepa á áðan. Í þeirri samþykkt ríkisstj., sem gerð var á hinum sögufræga fundi, fyrsta og eina fundinum, sem haldinn hefur verið í tilefni af skattskránni, var mönnum gefinn kostur á því að fresta greiðslu á nokkrum hluta af álögum sínum fram á næsta ár. Og stuttu síðar, þegar samtök launamanna vildu ekki una því, að þetta eitt væri að gert, þá mun hafa verið skipuð n. frá Alþýðusambandinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Sambandi íslenzkra sveitarfélaga ásamt fulltrúa frá ríkisstj. til þess, eins og þar segir, „að athuga alla möguleika á því að veita afslátt og frekari greiðslufrest á álögðum opinberum gjöldum.“

Það var því, eins og ég hef leyft mér hér að fullyrða, allra manna mál á s.l. sumri, að ekki kæmi annað til greina, en að lagfæring yrði gerð á álagningunni á þessu ári. Nú virðist mér aftur á móti svo komið, að ráðamenn hér séu að komast á þá skoðun, að þrátt fyrir allt þetta, sem ég hef hér gert grein fyrir, sé það nú svo, að það þurfi kannske lítið eða ekkert að gera til að lagfæra ranglætið.

Í frásögn, sem ég las í Morgunblaðinu af fundi í Varðarfélaginu um daginn, er það haft eftir hæstv. fjmrh., að rannsóknir sýndu, að eiginlega væru skattar hér á landi alls ekki hærri, en annars staðar gerðist. Og það voru birtar margar tölur þessu til staðfestingar. Þó varð niðurstaðan samt sú, að óhjákvæmilegt var talið að lækka skattana hér. Og nú er talað um að hjálpa fólki til að greiða þessa árs skatta með því að lána því til tveggja ára einhvern hluta hinna opinberu gjalda, auðvitað með vöxtum. Þessi niðurstaða finnst mér skjóta skökku við þær forsendur, sem áður eru raktar, um það, að skattabyrðin hér sé léttbærari, en annars staðar, því að það þekkist þó ekki annars staðar, mér vitanlega, að fólki sé lánað, af opinberri hálfu, til að greiða opinber gjöld. Og þessi niðurstaða er náttúrlega í hrópandi ósamræmi við yfirlýsingar, sem ég hef leyft mér að vitna til.

Þegar talað er um að lána fólki fyrir sköttum, þá finnst mér það helzt minna á, að tveir menn hefðu átt skipti saman og kæmust svo að því, að verðið, sem þeir hefðu komið sér saman um, væri of hátt og þá mundi fara fram samtal eitthvað á þessa lund: Kaupandinn segði við seljandann: „Þú hefur haft af mér í viðskiptunum. Verðið á ekki að vera svona hátt.“ Og seljandinn mundi svara þessu svona: „Þetta er alveg rétt hjá þér. Ég hef látið þig borga of mikið. Ég skal bara bæta þér þetta upp með því að láta þig hafa frest. Þú mátt borga það, sem þú átt ekki að borga, á tveimur árum með 9% vöxtum. Það er alveg sjálfsagt. Ég er svo sanngjarn í viðskiptum.“

En ég er hræddur um, að þetta yrðu taldir dálítið einkennilegir viðskiptahættir. Og það er áreiðanlega ekki svona lagfæring, sem fólk vonaðist eftir og það telur sig mega eiga von á eftir þær yfirlýsingar valdhafanna og stuðningsmanna þeirra, sem ég hef hér lítillega gert grein fyrir.

En hér þurfa annars konar aðgerðir að koma til, raunhæfar aðgerðir. Og það frv., sem hér er til umr., er flutt til að koma skriði á það mál. Það, sem lagt er til í frv. til lagfæringar á álagningunni á þessu ári, er tvennt:

Í fyrsta lagi að lækka tekjuskatt einstaklinga á árinu 1964 um 7.000 kr. á hvern gjaldanda, en einstaklingstekjuskattur, sem lægri er, en 7.000 kr., falli niður. Þessi eftirgjöf, 7.000 kr., jafngildir því, að skatturinn sé felldur niður af fyrstu 50 þús. kr. af skattskyldum tekjum og byrjað að reikna skattinn á 30% þrepinu. Vissulega hefði verið miklu æskilegra að breyta persónufrádrættinum og haga álagningunni eitthvað svipað því, sem till. okkar framsóknarmanna frá því í vor gerðu ráð fyrir. En til þess að því mætti verða við komið að þessu sinni, þyrfti að endurreikna öll framtölin. Og við, sem flytjum þetta frv., teljum þá aðferð of seinvirka. Við höfum valið að benda á þá fljótvirkustu leið til lagfæringar, sem völ er á.

Ég vil taka það fram fyrir mína hönd og að ég held allra annarra flm. þessa frv., að ef bent væri á aðrar leiðir til lagfæringar á ástandinu á þessu ári, sem teldust heppilegri og hægt væri að framkvæma, þá er það að sjálfsögðu ekkert kappsmál hjá okkur, að það sé sú aðferð, sem við bendum á, sem valin verður. Aðalatriðið er hitt, að það verði eitthvað gert, því að lagfæringar þurfa til að koma.

Hin leiðin, sem við leggjum til að farin verði, er sú, að öll tekjuútsvör, sem lögð voru á einstaklinga á árinu 1964, verði lækkuð um 20%. Okkur er ljóst, að sveitarfélögin geta ekki tekið þessa lækkun á sig, eftir að vera búin að gera sínar fjárhagsáætlanir og við gerum þess vegna tillögu um það, að þessi lækkun verði þeim bætt úr jöfnunarsjóði sveitarfélaganna, en ríkissjóður leggi honum það fé, sem til þarf og við teljum, að ríkissjóður geti það, eins og ég mun aðeins koma að síðar.

Þessi tilhögun, að lækka útsvörin um 20%, hefði að sjálfsögðu jafngilt því, að sveitarfélögin öll hefðu notað fimmtungi minna af útsvarsstiganum, en þau hvert um sig gerðu, en fengju þess í stað meiri greiðslur úr jöfnunarsjóði. En jöfnunarsjóður er, eins og öllum er kunnugt að sjálfsögðu, til þess stofnaður og starfræktur að fá sveitarfélögunum í hendur fjármagn, til þess að þau geti lækkað útsvörin, því að útsvarsbyrði hvers sveitarfélags er vitanlega það, sem á vantar til þess að bera uppi útgjöldin, sem áætluð eru hverju sinni.

Það má í þessu sambandi benda á það, að við þm. framsfl. fluttum till. um það á s.l. þingi, í febr. s.l., þegar verið var að ákveða nýjan 300 millj. kr. söluskatt, að nokkur hluti af honum gengi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í því skyni að létta undir með sveitarfélögunum, en sú tilhögun mundi hafa jafngilt útsvarslækkun og í rauninni jafngilt því, sem hér er verið að leggja til.

Önnur ástæða fyrir því, að við bendum á þessa leið sem heppilega og mögulega að framkvæma, er sú, að það er auðvelt og verður að vera auðvelt fyrir jöfnunarsjóð að reikna út þær endurgreiðslur, sem hvert sveitarfélag um sig á að fá. Og sú framkvæmd þess verður auðveldust á þann hátt, að það sé um fastan hundraðshluta að ræða, sem útsvörin í heild eru lækkuð um.

Þessi ákvæði, sem ég hef nefnt, miða að skjótri og sem sanngjarnastri leið til úrbóta. Ég er ekki að segja, að það sé allra sanngjarnasta leiðin, sem hér er bent á. Sanngjarnasta leiðin er önnur, en við teljum, að hún sé hartnær ófær vegna þess, hve mikið verk er að framkvæma hana.

Þeir, sem hafa talað hér á hv. Alþingi og annars staðar fyrir hönd hæstv. ríkisstj., hafa gefið þær skýringar m.a. á því, hve skattarnir urðu háir á þessu ári, að tekjur manna á árinu 1963 hafi farið langt fram úr áætlun og menn hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvað þær væru raunverulega háar, þess vegna væri afskræmingin svona ofboðsleg. Sé þetta rétt, sem ég rengi ekki, þá lætur að sjálfsögðu að líkum og er augljóst mál, að tekjuskatturinn hefur þá einnig farið mikið fram úr áætlun og ríkissjóður hefur fengið miklu meiri tekjur af þeim tekjustofni, en ráðgert var. Þá má ætla, að sú eftirgjöf, sem hér er gert ráð fyrir, verði ríkissjóði ekki þungbær, vegna þess að það er hægt að nota þær tekjur, sem hann átti ekki von á og ekki var reiknað með, þegar fjárlagafrv. var gert, til þess að standa undir þessum hluta endurgreiðslunnar.

Við gerum einnig ráð fyrir því í frv., að ríkissjóður bæti sveitarfélögunum lækkun útsvaranna, þannig að hann leggi jöfnunarsjóði fé það, sem hann þarf til þess að bæta þeim það upp, sem á vantar. Og við höldum því fram, að ríkissjóður geti þetta. Við bendum því til staðfestingar fyrst og fremst á raunverulega greiðsluafganga undanfarinna ára. Og mér þykir sennilegt, að sú verði einnig raunin á að þessu sinni, að það verði greiðsluafgangur. Ég byggi það á því árferði, sem við höfum búið við, þeim aflabrögðum og ýmislegu þess konar, sem ég skal ekki fara út í að rökstyðja frekar.

Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að fram fari víðtækari rannsóknir á framtölum manna, en átt hafa sér stað að undanförnu og einnig þannig er líklegt, að ríkissjóði bætist enn tekjur til að mæta þeim álögum, sem hér eru ráðgerðar.

Ég segi, að okkur þyki það sérstaklega líklegt, vegna þess að ég minnist þeirra skrifa, sem sett voru á prent hér í sumar, þegar skattskráin kom út, um það, hvernig framtölum væri nú hagað hér á landi og hversu mikið ósamræmi væri þar í framtölum og raunverulegum tekjum.

Þessi ákvæði, sem ég nú er að tala um, eru í 4. gr. frv. og eru á þann veg, að það skuli fara fram sérstök rannsókn á skattframtölum ársins 1964, þ.e. fyrir tekjuárið 1963. Þess er skylt að geta, að við meðferð tekjuskattslaganna hér í vor báru þm. Alþb. nokkrir fram till., sem gekk í þá átt að láta fara fram sérstaka rannsókn á skattframtölum, nokkuð svipað því, sem hér er tekið upp. Þetta var ágæt till., en hún hlaut ekki stuðning stjórnarliða hér á Alþingi, frekar en aðrar till., sem reynslan hefur sýnt að áttu þó rétt á sér.

Við gerum ráð fyrir því, að þessi rannsókn nái til 3% allra framtala þeirra, sem bókhaldsskyldir eru og til 2% af öðrum framtölum. En fyrst og fremst og það vil ég undirstrika, á þó að rannsaka þau framtöl, sem gefa tilefni til grunsemda. Það er auðvitað augljóst mál og þarf kannske ekki að taka það sérstaklega fram, en ég geri það þó til að fyrirbyggja misskilning, að við viljum að sjálfsögðu leggja megináherzlu á, að þau framtöl, sem gefa tilefni til grunsemda, séu rannsökuð og nú hefur verið stofnuð sérstök rannsóknardeild, sem hlýtur að hafa það hlutverk.

En við teljum það bara ekki nóg. Við viljum tryggja það, að enginn maður í landinu, hversu góða aðstöðu sem hann telur sig hafa til að telja rangt fram, geti treyst því, að hans framtal verði ekki rannsakað. Og það er þetta, sem till. okkar miðar að. Segja má, að það væri hægt að fela rannsóknardeild skattstofunnar að ákveða sjálf, hvaða reglur hún hefði við það að tína úr framtöl til rannsóknar, þ.e. handahófsúrtaks rannsóknir, en hér í frv. er gert ráð fyrir því, að framtölin séu valin með úrdrætti úr öllum framtölum landsins af Hagstofu Íslands samkv. reglum, sem hún setur.

Þetta ákvæði er alls ekki sett til þess að lýsa neinu vantrausti á þá ágætu menn, sem falið hefur verið að rannsaka skattaframtöl, það er öðru nær. En við flm. viljum bara hlífa þeim við þeim vanda að þurfa að ákveða það sjálfir, hvaða framtöl þeir taki til rannsóknar og við teljum það fullkomlega réttmætt, að hagstofan framkvæmi þessi úrtök eftir reglum, sem hún setur sjálf, þannig að fulltryggt sé, að enginn geti verið viss um að sleppa við rannsóknina.

Það var mikið skrifað um skattsvikin í vor, og ég skal ekki þreyta hv. þm. á því að rifja mikið af því upp, en það var skrifað í öll blöðin um það, hvað skattsvikin væru almenn og það eins og hitt, að skattálögurnar væru of háar, var mjög almenn skoðun. T.d. segir í Alþýðublaðinu 5. ágúst svona, það er Hannes á horninu, ,sem skrifar, með leyfi forseta:

„Mér datt ekki í hug, að skattskráin liti svona út. Ég hélt, að einhvers konar vit væri í þessu. En það er ekkert vit í þessu. Hverjir kunna að telja fram? Kunna þeir einir að telja fram, sem bera byrðar samkv. tekjum sínum eða er það í raun og veru svo, að þeir einir kunni að telja fram, sem bera nú léttustu byrðarnar? Það er að verða trú fólksins, að svo sé. Ég fullvissa stjórnarvöldin um, að þetta getur ekki gengið. Það er alveg ljóst, að skattskráin nú, hin augljósu skattsvik, stórþjófnaðirnir, þjófnaðir einstaklinga og fyrirtækja, hlýtur að hafa varanleg áhrif í stjórnmálalífinu.“

Og til þess að gera nú báðum stjórnarflokkunum alveg jafnhátt undir höfði, leyfi ég mér að fara með eina eða tvær tilvitnanir í Morgunblaðið því til staðfestingar, hversu almenn sú skoðun var, að skattsvikin hefðu aldrei verið meiri en nú. Þar segir 9. ágúst:

„Íslenzkt þjóðfélag hefur á undanförnum áratugum þokazt æ meir í átt til hreinræktaðs braskarafélags og það er löngu kominn tími til að þjarma að braskaralýðnum og lukkuriddurunum, sem grassera í þjóðfélaginu.“

Og Morgunblaðið segir í Reykjavíkurbréfi þann 16. ágúst :

„Menn eru óánægðir með háa skatta, en ekki síður yfir því, að þeim er kunnugt um einstaklinga, sem berast mikið á, en greiða lítil gjöld. Menn sjá því skattsvik fyrir augunum og una því ýmist illa að greiða af öllum sínum tekjum eða þá að þeir freistast til þess að skjóta einnig undan skatti. Viðreisnarstjórnin hefur upprætt margháttaða spillingu, sem þróaðist í skjóli haftanna og uppbótanna. Hún hefur afnumið bitlingana og margvíslegt brask. Engu að síður er enn mikið verk óunnið í þessu efni og er margt af því, sem miður fer, bein eða óbein afleiðing af því, að ekki hefur tekizt að tryggja rétt og heiðarlegt framtal.“

Mér finnst hálfgert ósamræmi í þessu og því, sem ég las áðan, en þetta er samt úr sama blaðinu. Það er ekki við mig að sakast um það. Ég hygg, að þessar litlu tilvitnanir, — sem raunar kannske voru óþarfar, því að það var allra manna mál, að skattsvikin væru nú meiri, en nokkru sinni fyrr, — að þær rökstyðji það, svo að ekki verður um deilt, að til mjög róttækra ráðstafana þarf að grípa til þess að uppræta þennan ósóma. Og sú till., sem við flytjum í 4. gr. þessa frv., sem hér er til umr., miðar að því.

Þá kem ég að síðasta atriði þessa frv., en það er ákvæði til bráðabirgða, sem er þannig, að sameinað Alþingi kjósi 7 manna nefnd hlutfallskosningu til þess að gera tillögur um skipan skatta- og útsvarsmála. N. skal leggja till. sínar fyrir Alþingi svo fljótt, að hægt verði að afgreiða nýja löggjöf um þessi mál á yfirstandandi þingi.

Ég hygg, að varla verði um það deilt, að skatta og útsvarsmálin séu nú orðið mjög mikið vandamál, sem brýna nauðsyn ber til að ráða fram úr. Og okkur flm. þessa frv. finnst það vera a.m.k. tilraun til þess að leita að viðeigandi ráðstöfunum í þessu efni, að allir þingflokkar leggist þar á eitt til þess að finna sem sanngjarnasta lausn málsins, því að hér er komið í hreinan voða.

Ef nokkur efast um það og það þykir ekki nóg, sem vitnað hefur verið til, þá vil ég að síðustu leyfa mér að vitna til greinar, sem ritstjóri Fjármálatíðinda skrifar í síðasta blaðið, sem út kom, júlíblaðið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það virðist nú almennt álitið, að þær skattareglur, sem í gildi eru, hafi bæði leitt til hærri skattbyrðar á launþegum, en þeir vilja sætta sig við og jafnframt því hafi stórfellt ranglæti átt sér stað vegna útbreiddra skattsvika. Beinir skattar á tekjur hér á landi séu með öðrum orðum orðnir hærri en svo, að hægt sé að tryggja sæmilega réttláta skiptingu skattbyrðarinnar, jafnframt því að sú hætta sé yfirvofandi, að skattarnir dragi verulega úr áhuga manna á starfi og heilbrigðri tekjuöflun. Augljóst virðist, að úr þessu virðist ekki bætt nema með verulegri lækkun beinna skatta.“

Þegar svo er komið, að við borð liggur, eins og hér segir, að skattarnir eru farnir að draga úr „áhuga manna á starfi og heilbrigðri tekjuöflun“, þá er augljóst, að komið er í óefni og það er ekki lengra síðan, en svona klukkutími, að þess var minnzt hér í þingsölunum, að ástandið á skipaflotanum, síldveiðiflotanum sérstaklega, væri orðið þannig, að margir vildu ekki vinna eins mikið og þeir gætu, vegna þess að allt færi í skattinn, eins og þar var sagt. Og þetta er alveg rétt. Ég minnist þess, að það er ekki langt síðan ég las um það í einu dagblaðanna hér í borg, að tveir landsþekktir aflakóngar ætluðu sér á næsta ári að skiptast á um skip. Það var ekki getið um, vegna hvers það væri, berum orðum, en það skildu allir, vegna hvers það var og annar af þessum landsþekktu aflakóngum ætlaði sér að eiga frí að sumrinu til, til þess að vera þá betur búinn undir vetrarvertíðina. Þegar svona er komið, er um mikið vandamál að ræða og það er skoðun okkar flm., að skynsamlegt sé að játa það, að vandamálið sé stórt og freista þess að taka höndum saman um lausn þess. Og þess vegna er till. í bráðabirgðaákvæði okkar fram borin, að allir þingflokkar takist það sameiginlega á hendur að reyna að leysa þetta mikla vandamál.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.