03.11.1964
Neðri deild: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef nú í rauninni ekki miklu við það að bæta, sem ég sagði hér um daginn, þegar þetta mál var hér til umr., en ræða hæstv. fjmrh. gefur mér þó tilefni til þess að fara um málið á ný örfáum orðum.

Hæstv. ráðh. gerði tvö atriði þessa frv. nokkuð að umtalsefni á síðasta fundi, þegar þetta mál var til meðferðar. Hann taldi þá öll tormerki á því, að ríkissjóður gæti, að því er manni skildist helzt, yfirleitt nokkuð látið af hendi rakna til þess að leiðrétta þau mistök, sem gerð voru í vor. Og ég gat ekki skilið ræðu hans á annan veg en svo, að við svo búið yrði að standa og þannig væri þá allt talið um of háa skattlagningu og ráðstafanir, sem gera þyrfti vegna hennar, markleysa ein. Af þessu tilefni vaknar m.a. sú spurning, hvernig farið hefði um hag ríkissjóðs, ef útkoman úr skattadæminu hefði orðið eins og búizt var við. En allir hafa játað, að því fari víðs fjarri. Það er hætt við, ef rétt hefði komið út úr dæminu, að mikil vandkvæði hefðu orðið í stjórnarráðinu.

Við þá mynd, sem hæstv. ráðh. dró hér upp, er fleira að athuga. Hann lét þess t.d. ekki getið, sem skiptir þó vitanlega miklu máli, hvað það var mikið, sem ríkissjóður fékk í auknar tekjur af tekjuskatti umfram það, sem ráð var fyrir gert, ef tekjur manna hefðu reynzt eins og búizt var við. Það hlýtur þó a.m.k. að vera hægt að nota þessa fjárhæð til þess að skila því aftur, sem oftekið var, enginn vafi getur leikið á því. Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir víðtækri rannsókn á skattaframtölum ársins 1963 og ef nokkuð væri hæft í því, sem almennt hefur verið talað, að mikið hafi verið um röng skattaframtöl á s.l. ári, er óhugsandi annað, en miklar fjárhæðir gætu komið til skila eftir rannsóknarleiðinni. Og vissulega er það svo, að allt það, sem haldið hefur verið fram um skattsvikin hér, er ekki úr lausu lofti gripið og það hlýtur að vera hægt að upplýsa margt eftir þeim leiðum, sem frvgr. gerir ráð fyrir. Og þá mætti enn fremur í þessu sambandi minna á það, að í fyrra, í febrúar, var lagður á hér nýr söluskattur upp á nokkur hundruð millj. kr. Þá báru þm. Framsfl. fram till. um það, að nokkur hluti af honum yrði látinn renna til jöfnunarsjóðs, en það var fellt, heldur var þessum söluskatti varið í ákveðnu skyni. Nú er það svo um nokkurn hluta af því verkefni, sem þessum söluskatti var ætlað að leysa, að það hefur verið horfið frá þeirri leið, og þá vaknar sú spurning: Má ekki taka einhvern hluta af því, sem þannig var ætlað að ráðstafa, til þess að lagfæra þessi mistök?

Hér var sagt, að tekjuafgöngum undanfarinna ára væri ráðstafað og þeim væri m.a. ráðstafað sem rekstrarfé ríkissjóðs og af þeim ástæðum væri útilokað, að hægt væri að sjá af nokkrum hluta þess í þessu skyni. Það, sem tekið var af mönnum í formi skatta og útsvara umfram það, sem tilætlunin var með l. frá í vor, hefur lagzt svo þungt á mörg heimili, að þar er ekkert rekstrarfé lengur til og víða vantar mikið á, að tekjurnar dugi fyrir nauðþurftum. Dýrtíðin hefur vaxið svo risavaxið að undanförnu, að menn hafa ekki lengur undan margir hverjir. T.d. hefur verð meðalíbúðar hækkað á einu ári um 120 þús. kr. Og húsnæðiskostnaðurinn einn er þannig að verða mönnum alveg ofviða. Óbeinir skattar og tollar eru innheimtir hærri, en nokkru sinni fyrr. Þegar þar við bætist, að beinir skattar verða milljónatugum hærri, en jafnvel hæstv. ríkisstj. átti von á, þá er augljóst, að hér er of langt gengið og að ráð verður að finna til úrbóta. Þetta viðurkenndu allir í sumar, eins og ég leyfði mér að sýna fram á hér í umr. um daginn. Það, sem var sagt í sumar, er enn í fullu gildi. Skattheimtan var of hörð, skattbyrðin er orðin of þung og þyngri í mörgum tilfellum en undir verði risið. Eina leiðin til að bæta úr þessu er að veita afslátt af þessum álögum, hvort sem það verður gert eftir þeirri leið, sem frv. okkar framsóknarmanna gerir ráð fyrir eða einhverri annarri leið, það er ekkert aðalatriði, eins og ég tók fram hér síðast. Og við flm. frv. höldum því fram, að þennan afslátt sé hægt að veita, ef vilji er fyrir hendi. En það er vitanlega alger forsenda fyrir því, að nokkuð sé gert, að hæstv. ríkisstj. geri sér ljóst, að mistök hafi átt sér stað og hún hafi vilja til að lagfæra þau. Annars er aðvitað tómt mál að tala um þetta. Þess vegna verður að mínum dómi, ef önnur ráð eru ekki tiltæk, að grípa til einhvers af rekstrarfé ríkissjóðs í þessu skyni og reyna þá að jafna metin umfram það, sem með öðrum leiðum er hægt, með þeim sparnaði, sem löngum hefur verið boðaður, en lítið hefur sézt af í framkvæmd.

Hæstv. fjmrh. var ánægður yfir þeim ummælum mínum, að ég gerði ráð fyrir tekjuafgangi á þessu ári og taldi það sýna traust mitt á fjármálastjórn hans. Það er fjarri mér að vanmeta hæfileika hæstv. ráðh. og ég vona, að til þess komi aldrei, að ég geri það. En ég tel hann þó ekki það ofurmenni, að honum einum beri að þakka einmuna afla, gott árferði, hækkandi afurðaverð og aðra þá hluti, sem ég í minni fyrri ræðu byggði þessa skoðun mína á. Þar hygg ég, að fleira muni til koma en fjármálastjórnin ein.

Þá var þess saknað nokkuð um daginn, að ég vitnaði ekki í Tímann, þegar ég las nokkrar umsagnir úr dagblöðunum um skattamálin í sumar. Ég get vel skilið það, því að málflutningur Tímans um þessi mál var mjög skeleggur. En ég sagði þá, að það væri engin nýlunda, að stjórnarandstöðublöðin væru harðorð um skattana og þess vegna sleppti ég að vitna í skrif Tímans og skrif Þjóðviljans, sem líka voru mjög skelegg um þessi mál, en alls ekki af því, að þau væru slakari í kröfum sínum í þessu efni, nema síður væri. En það, sem var óvenjulegt í sumar, var það, að stjórnarblöðin voru sammála hinum í því að fordæma álögurnar. Þess vegna vitnaði ég til þeirra. Úr þessu atriði er að sjálfsögðu mjög auðvelt að bæta, en ég mun þó ekki fara út í það nú.

Hæstv. ráðh. sagði, að úrræði okkar framsóknarmanna væru að lækka skatta með því að leggja á nýjan skatt. Ég hef nú raunar þegar rakið, að við flm. frv. teljum ekki þörf á nýjum skatti, heldur teljum, að ríkissjóður geti tekið byrðarnar á sig og ég skal ekki endurtaka þann rökstuðning einu sinni enn. En það eru fleiri, sem hugsa eitthvað þessu líkt og m.a. einn af allra orðheppnustu þm. stjórnarliða, hv. S. þm. Austf., Jónas Pétursson. Hann hefur sagt frá því í Morgunblaðinu, að frv. minnti sig á úrræði Münchausens í hinni frægu för hans til tunglsins, þegar hann skar ofan af kaðlinum og hnýtti við fyrir neðan. Nú hefur því verið lýst yfir af hæstv. ríkisstj. og m.a. af hæstv. fjmrh. í Varðarmálstofunni, að hann muni beita sér fyrir lækkun tekjuskatts og útsvara á þessu þingi, og ég skal ekkert draga það í efa, að við þetta fyrirheit verði staðið. Hvort ríkissjóði og sveitarfélögunum verður bættur sá tekjumissir með nýjum tekjustofnum, liggur enn ekki fyrir. E.t.v. finnast á þessu þingi úrræði til þess, að ríkissjóður geti tekið á sig skattalækkun, úrræði, sem ekki sjást núna. En ef það þarf að leggja á nýja skatta til þess að lækka tekjuskatta og útsvar, þurfa menn þó a.m.k. ekki að vera í vafa um það, hvaðan hugmyndin er fengin. Svo er hv. 3. þm. Austf. fyrir að þakka.

Þess hefur nokkuð gætt að undanförnu, að stjórnarliðar vilja afgreiða frv. þetta á þann hátt að kalla það óraunhæft yfirboð, sem ekkert mark sé á takandi. Þetta kemur okkur ekkert á óvart. Úrræði hæstv. ríkisstj. í skatta- og útsvarsmálum, þau að hækka persónufrádrátt, fjölga skattþrepum og taka upp umreikning, voru líka nefnd þessu nafni, þegar við framsóknarmenn bárum þau fram hér í vor. Þau voru kölluð yfirboð, sem ekkert mark væri á takandi, þó að siðar hafi ekki fundizt önnur úrræði tiltæk til að bæta úr málunum, en þessi. Það er því ekki líklegt að mínum dómi, að þessi málflutningur hafi mikil áhrif eða skaði framgang þessa frv.

Því hefur líka verið haldið fram. að við framsóknarmenn leggjum fram till. um niðurfellingu skatta og lækkun útsvara í því skyni einu að afla okkur vinsælda. Ég hef nú sýnt fram á, að tillöguflutningur okkar er í samræmi við það álít í skatta- og útsvarsmálum, sem allir virtust hafa í sumar, en það er, að mistök hafi átt sér stað og að þau beri að leiðrétta. En það er svo sem engan veginn í fyrsta sinn, sem vinsældir ber á góma í sambandi við skatta- og útsvarsmál. Frásagnir stjórnarblaðanna af hinum rómuðu skattalækkunum í vor benda sannarlega ekki til þess, að hæstv. ráðh. hafi óttazt óvinsældir þeirra vegna. Nei, það var áreiðanlega talið vinsælt þá að halda því fram, að allar meðaltekjur skyldu vera tekjuskattsfrjálsar. Það var meira að segja svo vinsælt umræðuefni meðal stjórnarliða, að þeir höfðu uppi miklar ráðagerðir um það fyrir hönd fólks, hvað skyldi nú gera við alla þá peninga, sem skattalækkunin færði mönnum. Þannig segir í forustugrein Vísis í júní s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Hundruð, ef ekki þúsundir manna fara nú utan í sumarleyfi, sem ekki hafa haft efni á því fyrr. Ástæðan er sú, að svo mjög hafa skattar verið lækkaðir á launamönnum, að þeir hafa nú efni á að veita sér ærlegt sumarfrí. Þorri þeirra hefur nú verið gerður alveg skattlaus. Þeir geta því eytt þeim 10–15 þús. kr., sem þeir greiddu áður í gjöld, til sumarleyfis, hvíldar og hressingar. Þannig finna menn hagsbætur hinna miklu skattalækkana í verki og það mun heldur ekki gleymast, að núverandi ríkisstj. var sú fyrsta, sem lækkaði skattana.“

Ætli þessi orð séu rituð til þess að ófrægja ríkisstj.? Nei, ég býst við því, að greinin sé skrifuð í því skyni að afla vinsælda. Hitt er svo annað mál, að hér var tekið nokkuð hrikalegt forskot á sæluna, og hætt er við, að sólbrennd andlit ferðalanganna hafi fölnað nokkuð, þegar heim kom og þeir tóku að handfjalla gjaldseðilinn hálfringlaðir, svo að notuð sé lýsing Morgunblaðsins á því, sem gerðist í sumar.

Hér er ekki verið að fara fram á neinar orlofsferðir eða frístundagreiðslur fyrir íslenzka skattgreiðendur í þessu frv., sem hér liggur fyrir, heldur aðeins það að bægja voða frá dyrum fjölmargra heimila, sem svo er ástatt fyrir mörgum hverjum, að opinber nefnd telur þau þurfa á kreppulánum að halda til að komast af í mesta góðæri, sem elztu menn muna. Og þó er í rauninni enn meira hér í húfi. Í yfirlýsingu, sem Alþýðusamband Íslands lagði fram um miðjan ágúst í sumar, segir svo, með leyfi forseta:

„Andi þess samkomulags, sem A.S.Í. gerði á liðnu vori við ríkisstj. Íslands, var sá, að lífskjör launþega skyldu ekki skert á samningstímanum. Með þeim drápsklyfjum skatta, sem launþegum er nú ætlað að bera, er algerlega raskað grundvelli þeim, sem griðasáttmáli ríkisstj. og A.S.Í. byggðist á. Þegar hann var gerður, voru allir fulltrúar verkalýðssamtakanna, sem að honum stóðu, í góðri trú um, að skattar mundu lækka, en ekki hækka, a.m.k. á lágtekjum og miðlungstekjum. Fyrir því höfðu menn hátíðlegar yfirlýsingar og fyrirheit sjálfs fjmrh., sem nú eru að engu orðin. Í stað lækkaðra skatta hafa hinar ofsalegu skattahækkanir, sem nú blasa við, komið eins og reiðarslag yfir launastéttirnar. Greiðsluþoli velflestra launþega er algerlega ofboðið. Mestur hluti launa nokkuð fram á næsta ár fer til skattgreiðslu og lítið og í sumum tilfellum ekkert verður eftir til lífsframfæris. Hér gengur skattníðslan á launþegum því langt úr hófi fram. Er það ástand óþolandi með öllu. Augljóst er, að skattsvik vaða uppi og stórgróðafyrirtækjum og auðmönnum er hlíft við réttmætum skattbyrðum. Þannig eru launþegar að borga fyrir aðra, þeir fátækari fyrir þá ríkari. Skattabyrðar þær, sem launþegum er nú ætlað að bera,jafngilda verulegri kauplækkun og ógna þeim friði, sem samið var um.“

Og í framhaldi af þessum rökstuðningi fer stjórn A.S.Í. fram á viðræður við ríkisstj. í því

skyni að finna ráðstafanir í einhverri mynd launþegum til kjarabóta. Þannig er því til viðbótar, afkomu fjölda heimila um það að tefla, hvort staðið skuli við þau fyrirheit, sem gefin voru í vor, eða ekki, hvort gera á þann áfanga til vinnufriðar, sem náðist í vor, að engu og stofna þannig málum þessum í nýjan voða. Þegar þetta allt er haft í huga, hygg ég, að mönnum verði það ljóst, að hér er ekki nein vinsældakeppni á ferðinni, heldur alvarlegt vandamál, sem finna verður lausn á. Þess vegna er frv. borið fram og þess vegna treystum við flm. þess því, að það fái góðar undirtektir og raunhæfar leiðir verði fundnar til þess að leiðrétta þau mistök, sem urðu í vor.