05.11.1964
Neðri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Halldór E. Sigurðason:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. í fyrradag, tók til máls hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason. Út af ræðu hans ætla ég að segja hér nokkur orð.

Nokkuð efni af ræðu þessa hv. þm. var þetta venjulega innihald úr ræðum þeirra stjórnarsinna, að þingmál okkar framsóknarmanna væru sýndarmennska og yfirboð. Ég held, að ef hv. stjórnarsinnar hugleiddu það, að þeir hafa sjálfir gefið út yfirlýsingu á s.l. sumri, að það þyrfti að breyta l. um skatta og útsvar á yfirstandandi þingi, sem þeir settu á síðast, þá ættu þeir að gera sér grein fyrir því, að það er full þörf á því að gagnrýna frv. þeirra og fylgjast fullkomlega með þeim og það væri þá helzt, sem þeir hefðu við það að athuga frá okkar hendi, að við hefðum ekki verið nógu skeleggir í gagnrýni á þessi mál, þegar þau voru hér til meðferðar í fyrra.

Ég minnist þess úr ummælum blaða á s.l. sumri um þetta mál, að það var eitt af haldreipum stjórnarblaðanna, að Framsókn hefði greitt atkv. með frv. Það var alveg rétt. Það gerðum við, eftir að okkar till. höfðu verið felldar og við höfðum sjálfir gert okkur grein fyrir því, að frv., sem þá voru til meðferðar, voru þó skárri en lögin, sem í gildi voru.

Þess vegna held ég, að ef þeir skoða þetta betur og gera sér grein fyrir því, hve mikið af málum, sem við höfum borið fram, þeir eru nú á einhvern hátt farnir að framkvæma, þá ættu þeir að spara sér þetta tal um sýndarmennsku.

Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Sunnl. gat um jöfnunarsjóðinn, þá er það alveg rétt, að núverandi hæstv. ríkisstj. kom á l. um jöfnunarsjóð. En hvernig var það gert? Á Alþingi 1960 lagði hæstv. ríkisstj. söluskatt á allar vörur og þjónustu. Á fjárlagafrv. því, sem nú liggur hér fyrir hv. Alþingi fyrir árið 1965, er gert ráð fyrir því, að þessi söluskattur gefi ríkissjóði hvorki meira né minna en 600 millj. kr. Á þessu sama þingi lagði hæstv. ríkisstj. á nýjan söluskatt í innflutningi, sem var 8% og sá söluskattur, áður en hann var felldur inn í tollskrána á fjárlögum, var gert ráð fyrir að gæfi ríkissjóði 270 millj. kr. Það var af þessum söluskatti, sem hæstv. ríkisstj. ákvað að sveitarfélögin skyldu fá hluta. Það var af þessum nýja tekjustofni, sem ríkisstj. ákvað handa ríkissjóði og nú mun samtals gefa ríkissjóði sennilega hartnær 1 milljarð.

Það er alveg rétt, að það er óvanalegt, að hæstv. ríkisstj. láti öðrum eftir af þeim sköttum, sem hún hefur lagt á þjóðina, heldur en sjálfri sér til ráðstöfunar og þess vegna var þetta atriði breyt. frá því og þakkarvert. Og ég mun sýna fram á síðar, að þetta var hið mesta nauðsynjamál, svo sem hefur sýnt sig. En það var gert með því að leggja nýjan skatt á þjóðina, en ekki að ráðstafa neinu af þeim tekjustofnum, sem fyrir voru. Þeir hæstv. stjórnarsinnar þekkja það vel í fleiri tilfellum en þessu, hvernig það er að leysa mál með nýjum sköttum.

En ég vil benda hv. 3. þm. Sunnl. og öðrum á, að það, sem hefur gerzt, síðan þessi ákvörðun var tekin, er það, að þrátt fyrir jöfnunarsjóðsframlagið, sem nú er áætlað um 150 millj. kr. á næsta ári, hafa sveitarstjórnirnar orðið að leggja á svo há útsvör sem raun ber vitni um, vegna þess að dýrtíðin og aðrar álögur ríkisstj. eru búnar að eyða þessu.

Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Sunnl. sagði, sveitarstjórnirnar ákveða heildarútgjöld sín. Þær gera það með hliðsjón af lögum og þeim þörfum, sem þær verða að leysa á hverjum tíma. Og það ömurlega við þetta er það, að dýrtíðin er þarna sem annars staðar á valdatíma núv. hæstv. ríkisstj. búin að eyða því ágæti, sem þessi sjóður átti raunverulega að vera sveitarfélögunum. Þrátt fyrir framlagið úr jöfnunarsjóðnum hafa sveitarstjórnirnar orðið að ganga svo langt í útsvarsálagningu sem raun ber vitni um, eins og hv. þm. benti á, að sumum nægði ekki útsvarsstiginn. Þetta sýnir, til hvers stjórnarstefnan hefur leitt og sú óðaverðbólga, sem gengið hefur yfir á valdatíma hennar.

Það er líka annað atriði, sem þarna kemur til greina. Með breytingu á skattalögum og framkvæmd þeirra, var því haldið fram af núverandi hæstv. ríkisstj., að veruleg breyt. yrði í þá átt að útiloka skattsvikin. Hvað hefur gerzt í þessum efnum? Hafa skattsvikin verið útilokuð? Hvað sögðu stjórnarblöðin um það á s.l. sumri?

Það, sem hefur gerzt, er það, að skattsvikin hafa ekki verið útilokuð og það, sem er sýnilegt af breyt. á framkvæmd skattalaga, sem gerð var hér 1960, er það, að kostnaðurinn við framkvæmdina hefur margfaldazt, en framkvæmdin ekki gert þessi mál auðveldari eða betur af hendi leyst, en áður var, heldur hefur það átt sér stað víðs vegar um landið, að skattstofurnar hafa verið svo seinvirkar, að til stórra vandræða hefur horft í ýmsum bæjar- og sveitarfélögum, vegna þess að það hefur ekki verið hægt að framkvæma álagningu á réttum tíma, vegna þess að skattstofurnar hafa ekki verið búnar að leysa sín verk af hendi.

Auðvitað verða hin grófu skattsvik, sem nú eru orðin og hafa færzt í vöxt á síðustu árum, þess valdandi, að útsvörin á hina almennu borgara verða hærri og það var á síðasta þingi boðað, að skattaeftirlit yrði hert og skattdómstóll upp settur. Nú á þetta að vera komið í framkvæmd, og vonandi verður eitthvað úr þessu bætt. En betur má, ef duga skal. Og sú aðferð, sem við leggjum til í þessu frv., er sú leið, sem happadrýgst mun reynast til að fyrirbyggja skattsvik.

Þá vék hv. 3. þm. Sunnl. að því, að ef sú breyt. yrði gerð, sem við leggjum til í okkar frv., að lækka álagt útsvar um 20%, ef framkvæmdin yrði gerð á þann veg, sem við leggjum til, þá mundi þetta koma misjafnt niður í krónutölu. En hvað er hér á ferðinni? Ekkert annað en það að framkvæma útsvarslögin, eins og þau eru nú. Þegar við í hinum einstöku sveitarfélögum lækkuðum útsvörin frá útsvarsstiga, gerðum við það eftir þessari reglu og við gátum ekki gert það eftir neinni annarri reglu, því að lögin heimila það ekki.

Það, sem um er að ræða, er það, að ef ekki er þörf fyrir útsvörin samkv. útsvarsstiganum, þá á að lækka þau öll hlutfallslega, og allar aðrar leiðir eru bannaðar samkv. lögum. Þess vegna er ekki hér verið að gera neitt annað en að framkvæma lögin, eins og þau liggja fyrir og lækka útsvörin hlutfallslega, eins og gert hefði verið, ef jöfnunarsjóðsframlagið hefði verið hærra og útsvörin þar af leiðandi lægri. Hér er því nákvæmlega verið að fara eftir gildandi útsvarslögum og þeim reglum, sem þar eru settar um heildarlækkun útsvaranna, eftir að álagning hefur farið fram, ef þörf er ekki á þeim tekjum, sem útsvarsstiginn gefur. Og þess vegna var engin önnur leið framkvæmanleg í raun og veru til lækkunar, en fylgja þeim reglum, sem í gildi eru.

Hv. þm. virtist vera hissa á því, að þetta mál skyldi vera til umr. frekar nú, en áður hefði verið. Það hefur að vísu verið gerð ýtarleg grein fyrir því af 1. flm., að hér er óvanalegt á ferðinni. Og ég vil minna þennan hv. þm. á það, að stjórnarblaðið Alþýðublaðið sagði frá því, að aldrei hefði skattskráin valdið annarri eins reiði, sagði einn af blaðamönnum þess blaðs og sagðist vera búinn að fylgjast með þessum málum í 40 ár. Var því ekki eitthvað óvanalegt á ferðinni? Var nokkuð að undra, þegar framkvæmdin gerðist með þeim hætti, að engin 40 ár höfðu gefið aðra eins ástæðu til gagnrýni, þó að einhverjar frekari ráðstafanir verði gerðar nú, en áður hefur verið? Ég vil líka minna hv. þm. á það, að í Alþýðublaðinu 14. ágúst var sagt frá sögulegum fundi ríkisstj., þar sem í fyrsta sinn í sögunni væri fjallað um skattskrána á fundi ríkisstj. Heldur hv. þm., að stjórnarblaðið Alþýðublaðið hefði verið að segja frá þessu að gamni sínu? Hér var óvanalegur atburður á ferðinni og þess vegna var farið að fjalla sérstaklega um málið. Heldur hv. 3. þm. Sunnl., að hæstv. ríkisstj. hafi farið að beina þeim tilmælum til sveitarstjórna í landinu að fjölga gjalddögum á útsvarsinnheimtu, ef ekkert hefði sérstakt verið að gerast? Í lögin 1960 voru sett þau ákvæði, að útsvör skyldu öll vera greidd fyrir áramót og menn skyldu njóta þess við álagninguna næsta ár. Hæstv. ríkisstj. varð að gera frávik frá þessu atriði. Af hverju? Ekki af því, að málið væri venjulegt, heldur af því, að það var að hennar dómi komið út af venjulegri leið. Heldur hv. 3. þm. Sunnl., að hæstv. ríkisstj. og Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefði farið að skipa sérstaka viðræðunefnd um þessi mál, ef ekkert sérstakt hefði verið að ske? Hvað var þá ríkisstj. að gera? Var hún að leika sér að því að reyna að búa til vandræðamál úr venjulegri framkvæmd á skattheimtu til ríkis og sveitarfélaga? Nei, hér var það óvanalega að gerast og þess vegna var það, sem hæstv. ríkisstj., þó að hún neitaði því, sem Framsfl. benti réttilega á, að allir þingflokkar settust að samningaborðinu og reyndu að leita að lausn í þessu máli, þá sá hæstv. ríkisstj. sér ekki fært annað en skipa n. ásamt Alþýðusambandi Íslands, m.a. út af þeim samningum, sem hún hafði nýlega gert við stéttasamtökin í landinu um kaup og kjör. Og hvers vegna heldur hv. 3. þm. Sunnl., að ríkisútvarpið, sem þeir stjórnarsinnar ráða, hefði farið að efna til sérstakra spurningaþátta hjá forráðamönnum stjórnmálaflokkanna í landinu um framkvæmd þessara laga, ef ekkert hefði verið að ske utan það venjulega? Það hefur ekki verið venja hér á landi, þó að menn hafi borið sig illa undan sínum sköttum og útsvari, að það væri gert slíkt veður út af því. En það var af þeirri einföldu ástæðu, að hér var óvenjulegt mál á ferðinni, sem nú er reynt að gera að venjulegu máli. En það er ekki til framdráttar fyrir hæstv. ríkisstj. að láta sér detta það í hug.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að það er ekkert lítið að gerast. Það er ekkert undarlegt, þótt fólkið í landinu gerði ráð fyrir, að beinir skattar lækkuðu verulega, þegar búið var að leggja á söluskatta upp á nærri einn milljarð. Það er ekki að ástæðulausu, þó að fólk hafi búizt við því, að skattar lækkuðu. En það er síður en svo, heldur eru þeir hærri en áður.

Ég vil líka benda á, að það eru fleiri skattar á fólkið í landinu, sem hafa hækkað verulega hin síðari ár, og þegar það allt er saman komið, — við skulum gera okkur grein fyrir því, að gjald af borgurum núna til almannatrygginga og sjúkrasamlaga og sóknargjöld, þessi gjöld í heild eru nú orðin eins og meðalútsvar var fyrir 3 árum, — þegar þetta bætist við á útsvarsseðlinum, þá er ekki að undra, þó að fólk finni til. Og við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að það er ekki venjulegt, að sú hugmynd skjóti upp kollinum, eins og nú hefur átt sér stað, að það væri farið að lána fólki kreppulán með 9% vöxtum til þess að greiða skatta sína. Og ef ekkert óvenjulegt var á ferðinni, hvernig datt þá mönnum í hug, að skattborgararnir gætu bætt ofan á greiðslu útsvara og skatta á næstu tveim árum því, sem afgangs yrði af árinu í ár. Þess vegna held ég, að það sé fásinna ein að halda því fram, að hér sé ekkert óvanalegt að ske.

Hv. 3. þm. Sunnl. sagði og það mun einnig hafa komið fram í ræðu hæstv. fjmrh., að ríkissjóður gæti engu sleppt af sínum tekjum, það væri ekki of mikið, sem hann næði til sín. En hvernig hefði nú farið fyrir ríkissjóði, ef tekjuskatturinn og eignarskatturinn hefðu ekki gefið nema þessar 255 millj., sem áætlaðar voru, því að það er ekki hægt að rökstyðja það, að þessir skattar gefi ekki verulega hærri upphæð í ár, þegar því er haldið fram í grg. fjárlagafrv., að þessir skattar mundu að óbreyttum skattstiga gefa 480–500 millj. kr. á næsta ári. Því er haldið fram í grg. fjárlagafrv. og það segir okkur það, að þessir skattar hljóti að gefa nú á milli 300 og 400 millj. kr. a.m.k.

Hvernig á fólkið að fara að, sem hefur fengið í launaumslögum sinum aðeins kvittanir? Ég þekki ung hjón, sem hófu búskap í fyrra og þegar bóndinn, sem er kennari, fór að sækja sín laun í ágúst í sumar, þá fékk hann 50 kr. Þannig verður þetta fram að jólum. Og halda menn, að þetta fólk hafi meiri möguleika til þess að komast af heldur en ríkissjóður, þó að hann skilaði aftur því, sem hann hefur fengið umfram sínar áætlanir í þessum eina tekjustofni?

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er fullkomin ástæða til að vera hér vel á verði. Á síðustu árum hefur hver skatturinn rekið annan, bæði þeir, sem greiddir eru í sambandi við fjárlögin og til annarra, en allir sækja þeir sitt í vasa borgaranna í landinu. Það er fullkomin ástæða til þess að vera vel á verði um þessa hluti, því að þessari stefnu verður ekki haldið áfram óbreyttri. Og ég sé nú ekki, hverjir það verða hér á hv. Alþingi, sem verða á verði í þessu máli, ef það verður ekki Framsfl., því að frá hinum stjórnarandstöðuflokknum heyrist lítið um þessa hluti. Það er rétt, Framsfl. hefur verið á verði áður og mun halda því áfram.

Ég vil svo að lokum segja það, að við skulum gera okkur grein fyrir því, að þrátt fyrir framlag jöfnunarsjóðs hefur dýrtíðin nú eytt því öllu. Þess vegna er fjárþörf sveitarfélaganna svo mikil sem raun ber vitni um. Þess vegna verður það að vera verkefni okkar á þessu þingi, jafnframt því sem almennir skattar verða lækkaðir, að finna aukinn tekjustofn til sveitarfélaganna

í gegnum jöfnunarsjóðinn. Það er ábyggilegt, að til þess er ætlazt af okkur og það verðum við að gera.