05.11.1964
Neðri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2389)

19. mál, lækkun skatta og útsvara

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Hann átaldi það, að ég hefði sagt í minni ræðu, þegar þetta mál var til umr. fyrir tveimur dögum, að ég teldi, að þarna væri um sýndarmennsku eina að ræða með flutningi frv., eins og það lægi fyrir. Ég byggði þetta á því, sem ég held að allir muni sjá, að þegar lagt er til, að greitt sé úr ríkissjóði fast að 300 millj. kr., án þess að nokkur tilraun sé gerð til að benda á tekjur til að standast þau útgjöld, þá hljóti þar að vera um hreina sýndarmennsku að ræða.

Það hefur af hæstv. fjmrh. verið upplýst, hvernig tekjuafgangi fyrri ára hefur verið ráðstafað. Það hefur einnig af honum verið bent á, að sá tekjuafgangur, sem kynni og hefði mátt reikna með að hefði orðið á þessu ári, mundi fara til niðurgreiðslu á vöruverði í landinu, þannig að það væri ekki hægt að byggja, eins og stæði í dag, á neinum tekjum til að mæta þeim útgjöldum, sem þarna er gert ráð fyrir.

Hv. 3. þm. Vesturl. benti á, að boðað hefði verið af stjórnarflokkunum, að lögum um skatta og útsvar mundi verða breytt á þessu þingi, en ég tel, að þar sé um allt annað mál að ræðan en að ætla sér að láta ríkissjóð greiða niður útsvör, sem búið er að leggja á og eru þegar að mestu leyti orðin gjaldfallin: Ég tel, að þarna sé mikill munur á og ekki um nein skyld mál að ræða að því leyti. Annað er um álagningu skatta framvegis og hins vegar um niðurgreiðslu á sköttum eða útsvörum, sem þegar hafa verið lögð á og gjaldfallin að mestu leyti.

Hv. 3. þm. Vesturl. viðurkenndi sem sveitarstjórnarmaður, að jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem stofnaður var með l. frá 1960, hefði verið mjög til þess að styrkja og bæta aðstöðu sveitarfélaganna fjárhagslega. Er ég honum þar að sjálfsögðu sammála, eins og ég réttilega mjög undirstrikaði í minni ræðu, þegar þetta mál var hér til umræðu.

Hv. 3. þm. Vesturl. benti á og vildi draga úr gildi jöfnunarsjóðs með því að benda á, að það hefði verið lagður nýr söluskattur á til að afla honum tekna. Og er það alveg rétt, að sveitarfélögin komust nú í fyrsta sinn í þá aðstöðu að fá hluta af tekjum ríkissjóðs til ráðstöfunar til sinna þarfa. Ég vil í þessu sambandi benda á, að það hefur áður verið lagður á söluskattur hér á landi og einmitt þá fóru sveitarfélögin fram á, að þau fengju hluta af þessum skatti handa sér, til þess að með því móti væri unnt að lækka útsvörin hjá þeim. Það er rétt í þessu sambandi að benda á, að þegar á sínum tíma var flutt till. um það á Alþingi, að sveitarfélögin fengju hluta af þeim söluskatti, sem þá var í gildi, gekk Framsfl. fram fyrir skjöldu um, að það frv. næði ekki fram að ganga. Sjálfstfl. og Framsfl. voru í stjórnarsamvinnu og eftir því sem hér hefur verið upplýst á Alþingi, var því beinlínis hótað af Framsfl., að ef þetta frv. næði fram að ganga, væri stjórnarsamvinnan þar með rofin. Hann lagði það ofurkapp á, að sveitarfélögin kæmust ekki í þá aðstöðu, sem þau síðar komust, að fá hluta af óbeinum tekjum ríkissjóðs til ráðstöfunar í því skyni að geta lækkað útsvörin hjá sér hvert fyrir sig og þar með einnig betur en áður tryggt fjárhagsafkomu sína.

Þá vildi hv. 3. þm. Vesturl. mjög láta í það skína, að sú bætta aðstaða, sem sveitarfélögin fengu með lögum um jöfnunarsjóð, væri horfin vegna aukinnar dýrtíðar í landinu og þar með að sjálfsögðu hækkaðs rekstrarkostnaðar hjá sveitarfélögunum. Ég held, að þetta sé haldlítil röksemdafærsla, því að ef hv. þm. vill horfa eitthvað aftur í tímann, hefur það fyrr skeð hér á landi, en hin síðustu 3-4 ár, að almenn verðhækkun hefur orðið. Dýrtíðin hefur verið að hækka jafnt og þétt síðustu einn eða tvo áratugina og er það ekki neitt nýtt fyrirbæri, þó að hún hin síðari ár, hafi einnig vaxið. Því miður hefur ekki enn þá náðst nægilega sterk samstaða um það á Alþingi að koma í veg fyrir verðhækkanir, sem s.l. tvo áratugi hafa átt sér stað hér á landi. En ef hv. 3. þm. Vesturl. er eitthvað að efast um, að dýrtíðin hafi aukizt hér á landi fyrr, þá ætti hann að lesa yfirlýsingu þáv. formanns Framsfl., þegar stjórnarskiptin urðu 1958, þar sem því var beint lýst yfir, að stjórnin treysti sér ekki til að halda störfum áfram vegna vaxandi dýrtíðar, sem þá var nefnd óðaverðbólga. Ég hygg, að sú stjórn hafi ekki hrokkið úr hálsliðnum vegna þess, að þar hafi allt verið með felldu, heldur var þetta beint gefið upp sem ástæða fyrir stjórnarslitunum, að skollin væri á óðaverðbólga í landinu, sem stjórnin treysti sér ekki til að ráða við. Það þýðir þess vegna lítið að halda því fram nú, að þetta sé nýtt fyrirbæri í rekstri sveitarfélaganna, að þeirra útgjöld hafi vaxið vegna aukinnar dýrtíðar almennt í landinu.

Hv. 3. þm. Vesturl. benti á það, sem er rétt, að það er í l. um tekjustofna sveitarfélaga, ef útsvarsstiginn er ekki fullnotaður, þá skal hann lækkaður jafnt á öllum útsvörum, jafnt á háum og lágum. Ég hygg, að þetta sé nokkur þyrnir almennt í augum sveitarstjórnarmanna. Það er einmitt af þessari ástæðu, að alltaf hefur verið miðað að því með öllum þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á útsvarslögunum, að hafa útsvarsstigann þannig, að ekki þyrfti að koma til lækkunar á honum. Hann hefur verið lækkaður á lægri tekjum það mikið, að ekki þyrfti að koma til lækkunar á stiganum og þar með ekki til afsláttar, eins og lögin gera ráð fyrir.

Ég benti á það, þegar ég ræddi þetta mál hér fyrir tveim dögum, að sú breyting, sem gerð var á útsvarsstiganum á síðasta þingi, hefði frekar, en aðrar breyt. áður, miðað í þá átt að lækka útsvörin á hinum lægri tekjum og var þá reiknað með, að farið væri allt upp undir meðaltekjur, sem lækkunin næði, eða vel það. Það var engin breyting gerð á hámarki útsvarsstigans. Hámarkið var áður 30% og það er í l. enn 30%. Af þessu hlýtur að leiða, að útsvör geta ekki hlutfallslega af tekjum neins hækkað, útsvarsstiginn er bara ekki lækkaður að hámarki, en hann var lækkaður á lægri tekjum. Þar af leiðandi geta útsvörin ekki hlutfallslega hækkað af tekjum hjá einum eða neinum útsvarsgreiðanda. Það er öllum ljóst, að það, sem skeði var, að tekjur urðu meiri árið 1963, en reiknað var með. Hafi það verið vitað fyrir fram, hvernig tekjurnar urðu, þegar verið var að breyta l., hefði að sjálfsögðu verið reynt að miða útsvarsstigann við það. Það, sem kom mönnum á óvart, eftir að búið var að leggja á útsvör, var, að tekjurnar höfðu almennt hækkað meira, en gert var ráð fyrir. Þó sýndi það sig, eins og ég hef bent réttilega á hér áður, að sum sveitarfélög komust þó ekki af með þennan útsvarsstiga, eins og frá honum var gengið eftir breytinguna 1963. Önnur gáfu nokkurn afslátt. Meðalafsláttur mun hafa verið í kringum 10%. Þetta sýnir og sannar, að farið var eins neðarlega með útsvarsstigann og þá var nokkur hugsanleg leið að gera, því að hefðu tekjur ársins 1963 orðið eins og almennt var þá reiknað með, þegar verið var að ganga frá þessum málum, er nokkurn veginn öruggt, að mun fleiri sveitarfélög hefðu þurft að fullnota stigann og bæta við hann heldur en þó varð, þegar til kastanna kom.

Hv. 3. þm. Vesturl. benti á greiðslu sveitarfélaganna til almannatrygginga, að hún hækkaði þeirra útgjöld. Þetta er alveg rétt. En ég held, að við hljótum að vera sammála um, að það sé einhver bezta ráðstöfun, sem víð gerðum við sveitarfélögin, það er hækkun almannatrygginganna. Það fólk, sem nú nýtur þar góðra ellilauna og eftirlauna, ég er sannfærður um, að margt af því hefði átt erfitt með að komast af, án þess að sveitarfélögin hefðu eitthvað þurft að greiða fyrir því, ef það hefði ekki þessa aðstöðu, sem það hefur nú í dag, að fá þau ellilaun og eftirlaun, sem nú hafa verið lögfest. Ég tel því, að sveitarfélögin geti mjög vel tekið á sig hækkuð framlög til þessara mála. Ég held, að sveitarstjórnarmenn hljóti frekar að fagna því heldur en álasa það, þótt þeir verði fyrir einhverjum meiri útlátum í bili, því að það kemur óbeint til þeirra aftur í mjög bættri aðstöðu í hverju sveitarfélagi hjá því fólki, sem undir þau lög heyrir.

Ég skal nú ekki orðlengja meira um þetta, aðeins undirstrika það, sem ég sagði, þegar frv. var hér rætt síðast, en hv. 3. þm. Vesturl. kom ekki inn á, að Framsfl. hefur, frá því að ég fór fyrst að kynnast sveitarstjórnarmálum, alltaf verið neikvæður hér á hv. Alþingi um að laga á nokkurn hátt fyrir sveitarfélögunum með auknar, óbeinar tekjur og þar af leiðandi að sjálfsögðu neytt sveitarfélögin til að leggja á útsvör fyrir megninu af öllum sínum gjöldum. Með tilkomu jöfnunarsjóðs hefur þetta mjög breytzt til batnaðar og ekki einungis með tilkomu jöfnunarsjóðs, heldur einnig með vegal., þar sem sveitarfélögin fá verulegan hluta af benzínfé til gatnagerðar úr varanlegu efni með breytingunni, sem gerð var á hlutfalli sveitarfélaganna í sambandi við lögreglukostnað og hlutfalli þeirra í sambandi við byggingu og rekstur sjúkrahúsa. Eftir því sem ég í fljótu bragði hef séð, hygg ég, að þetta sé 20–30% af álögðum útsvörum hjá kaupstöðunum. Það er að sjálfsögðu nokkuð misjafnt, en ég hygg, að almennt sé þetta milli 20 og 30%, miðað við álögð útsvör í kaupstöðum. Þetta eru verulegar bætur, sem sveitarfélögin hafa þarna fengið og þau sannarlega nutu ekki áður, meðan Framsfl. réð hér málum á Alþingi.