09.11.1964
Neðri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

23. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. þdm. eru farnir að kannast það vel við þetta frv., að ég sé ekki ástæðu til að fara að kynna það almennt fyrir mönnum oftar, heldur eru það aðeins þrjú atriði, sem eru mjög brýn orðin til úrlausnar í okkar þjóðarbúskap nú sem stendur, sem ég vildi leyfa mér að taka fyrir og lausnir felast á í þessu frv. og láta annars eiga sig þá almennu framsögu sem ég hef oft haldið áður um þetta mál hér.

Af þessum þrem atriðum vildi ég fyrst taka eitt. Það er nauðsyn á samræmingu þeirra áætlana, sem gerðar eru eða réttara sagt að útbúa heildaráætlun. Eins og vitað er, er þessi áætlanagerð og annað slíkt komin ákaflega mikið í tízku og það eru allir mögulegir að tala um áætlanir og gera áætlanir. Það er talað um 10 ára áætlun í landbúnaði, það er talað um 10 ára áætlun í raforkuframleiðslu, það er jafnvel, held ég, talað um 5 eða 10 ára áætlun um vegalagningu og það er farið að tala þannig um áætlanagerð á öllum einstökum sviðum. Hæstv. ríkisstj. hefur meira að segja látið gera sérstaka áætlun um ríkisbúskapinn sjálfan fyrir hvert ár. En allar þessar áætlanir eru meira eða minna óskalistar og gerðar út í hött, út í bláinn, á meðan það er ekki til ein heildaráætlun, þar sem þetta er samræmt. Það er ekki til neins fyrir eitt þjóðfélag að ætla að búa til lista yfir, hvað það ætlar að gera á hverju einstöku sviði og athuga aldrei, hvort þjóðfélagið sjálft hefur aðstöðu til að gera allt þetta til samans. Það þýðir t.d., að þeir, sem eiga að útbúa áætlun um landbúnaðinn, þeir, sem eiga að útbúa áætlun um vegina, þeir, sem eiga að útbúa áætlun um framkvæmdir ríkisins, þeir gera hver um sig þessa áætlun eins og kannske er þeirra óskadraumur, en þeir

athuga ekkert, hvort þetta rekst ekki allt saman á. Og þannig er það. Þetta er að verða tóm vitleysa, þegar á að fara að framkvæma þetta, ef ekki hefur verið tekið tillit til þess, hvað þjóðarbúskapurinn í heild þolir, hvað fjárfestingin í heild á að verða mikil. Menn óska kannske eftir svona og svona mikilli fjárfestingu í vegum, svona og svona mikilli fjárfestingu í raforku, svona og svona miklu í landbúnaði. En hvernig er þetta í samræmi við þá fjárfestingu, sem þjóðfélagið sem heild ætlar að leyfa sér? Þess vegna vil ég leggja áherzlu á, að það er hreinn molbúaháttur að vinna á þann máta að vera að búa til áætlanir og það jafnvel langt fram í tímann um hvert atriði, um hvert einstakt svið út af fyrir sig, en enga áætlun um þjóðarbúskapinn í heild. Með þessu móti verður ekkert samræmi milli þessara áætlana og svo strax og hæstv. ríkisstj. er búin að útbúa eina áætlun, um t.d. ríkisbúskapinn og hans framkvæmdir, þá kemur hæstv. ríkisstj. með löggjöf um, að henni leyfist að draga úr þessum áætlunum, eftir því sem þörf þykir, m.ö.o. gera það ekki að neinni áætlun, vegna þess þá hvað hennar ráð rekast á við allt, sem verið er að athuga af einkaframtakinu, samvinnuframtakinu og öðrum slíkum á öðrum sviðum þjóðfélagsins, m.ö.o. tóm ringulreið og vitleysa og það er undir tilviljun komið, hvort þetta rekst á eða ekki.

Svona er ekki hægt að stjórna þjóðfélagi og það er það, sem menn þurfa að gera sér ljóst. Þess vegna er heildaráætlun í þessu sambandi alveg óhjákvæmileg. Núna t.d. er verið að tala um heildaráætlun viðvíkjandi raforku og það er sett hver nefndin á fætur annarri til að vinna að þessu. Í sambandi við þessa heildaráætlun um raforku er svo verið að gera þær mismunandi eftir því, hvort tekst að koma upp þessari verksmiðju, tekst að koma upp hinni, en ekkert samræmi þarna á milli. Ég veit, að það er t.d. talað um, að það sé áætlun um að þrefalda áburðarframleiðsluna fram að 1980, áætlun um það, engin ákvörðun tekin. Auðvitað er hrein fásinna að vera að tala um að þrefalda áburðarframleiðslu fram til 1980 hér á Íslandi án þess að taka um leið það með í reikninginn, þegar verið er að ákveða raforkuframleiðsluna. Það eru óhæf vinnubrögð að láta sér detta slíkt í hug. Auðvitað verður sami aðili, sama stofnun endanlega að ákveða: Svona skal raforkuframleiðslan aukin mikið, m.a. með tilliti til þess, að svona skal áburðarframleiðslan aukin mikið.

Ég hélt satt að segja. að menn hefðu átt að vera búnir að læra ofur lítið af þessu. Þegar deilan stóð um áburðarverksmiðjuna hér fyrir 12–14 árum á þinginu, bentum við á, að það ætti, um leið og ákveðin væri stærð áburðarverksmiðjunnar, að ákveða raforkuframleiðsluna og reikna með, hve hún yrði mikil. Nei, það var ómögulegt að koma vitinu fyrir menn með slíkt. Áburðarverksmiðjan og hennar stærð var ákveðin með tilliti til þess, hvaða ónotað rafmagn væri á því augnabliki og svo var haldið áfram, ómögulegt að fá menn til þess að samræma þetta. Hver er svo afleiðingin? Jú, afleiðingin varð náttúrlega sú, að það verður að minnka áburðarframleiðsluna ár frá ári, vegna þess að við höfum ekki nægilegt rafmagn handa áburðarverksmiðju. Alveg sama var, þegar sementsverksmiðjan var staðsett á Akranesi. Það voru ein höfuðrökin fyrir þeirri staðsetningu, að það væri svo mikil rafmagnsframleiðsla í Andakílsvirkjuninni á því augnabliki, þá var Andakílsvirkjunin ekki fullnotuð. En hvað varð að gera svo skömmu seinna? Það varð auðvitað að leggja streng frá Sogsvirkjuninni til Andakílsvirkjunarinnar upp á Akranes, til þess að það væri hægt að reka sementsverksmiðjuna. M.ö.o., við allt það, sem gert hefur verið enn sem komið er á Íslandi af þeirri stóriðju, sem við höfum komið upp, þá hefur aldrei verið hugsað fram í tímann, hvernig þetta skyldi skipuleggjast. Það hefur hvað rekizt á annars horn. Og svo flytja menn inn dýran áburð frá útlandinu, af því að áburðarverksmiðjan stendur meira eða minna kyrr, vegna þess að raforkuframleiðslan var ekki skipulögð á sama hátt og áburðarframleiðslan og með tilliti hvort til annars. Og nú á líklega að fara út í þessa vitleysu einu sinni enn þá, að segja: Það á að þrefalda áburðarframleiðsluna, það á ekkert að hugsa um, hvernig eigi að fara með raforkuna á sama tíma.

M.ö.o., það er alveg lífsspursmál, ef maður ætlar að stjórna þjóðarbúskap þessa þjóðfélags af einhverju viti, að þetta sé gert samtímis allt saman. Og það er eitt af því, sem raforkufræðingarnir sérstaklega bollaleggja um í þeim áætlunum, sem þeir leggja fyrir okkur. Þeir segja: Við þurfum að athuga, hvernig við eigum að fara að því að skapa markað fyrir rafmagnið og við þurfum að athuga, hvort við verðum ekki að koma upp olíustöðvum, rándýrum í rekstri, fyrst til þess að skapa markaðinn. — En þeim dettur ekki í hug að leggja til á sama tíma, sem verið sé að undirbúa virkjanirnar, að þá sé verið að undirbúa verksmiðjustofnanir líka í landinu. Auðvitað á þetta að fylgjast að og auðvitað eru engin vinnubrögð að ætla sér að ákveða raforkuframleiðsluna alveg án tillits til þess, hvaða verksmiðjur skuli koma upp í landinu. Þess vegna er það alveg óhjákvæmilegt, ef nokkurt vit á að vera í þessum vinnubrögðum, að það verður að vera ein miðstofnun í þessu, eins og áætlunarráð, sem samræmir þessa hluti. Hver einasti einkaatvinnurekandi mundi reka þessa hluti svona og þetta verður ríkið að gera, þegar það hefur þriðjunginn af öllum rekstrinum á Íslandi, þegar það á að sjá um alla raforkuframleiðsluna og þegar það á áburðarverksmiðjuna og ætlar að margfalda hana og annað slíkt. Þess vegna vil ég nú vonast til þess, að menn íhugi, af því að menn tala um stórar framkvæmdir hér hjá okkur á Íslandi og allir eru sammála um að vilja leggja í þær, að þessar framkvæmdir verða meira eða minna vitleysa, sem reka sig hver á annars horn, svo framarlega sem þetta er ekki skipulagt af einni miðstofnun, sem hugsar um þetta í einu. Það þýðir ekki, að hún eigi að hafa öll völd um þetta. Ríkisstj. og Alþingi og allir þeir aðilar hafa völdin eftir sem áður, en þau komi saman í einum miðdepli.

Annað einstakt atriði, sem ég vildi ræða um, er skipulagning iðnaðarins í sambandi við heildaráætlun. Ég skal taka fram, að það gilda tvennskonar lögmál um okkar atvinnurekstur: Önnur um landbúnaðinn og sjávarútveginn, hin um iðnaðinn. Hvað landbúnaðinn og sjávarútveginn snertir, þar á ég við fiskveiðarnar sjálfar, þá byggjum við það náttúrlega fyrst og fremst á dugnaði einstaklinganna, þeirra framtaki og það mun eiga heima áfram sem grundvallaratriði í landbúnaðinum og sjávarútveginum, þó að samstarf, tækni og allt annað slíkt hafi þar eins miklu hlutverki að gegna og við allir vitum. En þegar við komum að iðnaðinum, er það ekki einstaklingsframtak eða neitt slíkt, sem er aðalatriðið. Þá er aðalatriðið skipulagning. Nútímaiðnaður byggist fyrst og fremst á einu: það er tækni og skipulagning. Ef menn eru að tala um iðnað og ætla sér að koma upp iðnaði og ætla að láta þann iðnað lifa, án þess að taka tillit til þessa lögmáls, sem gagnsýrir allt líf iðnaðarins í heiminum, þá fer sá íslenzki iðnaður á hausinn. Þegar um er að ræða íslenzkan iðnað fyrir innlendan markað, þá er okkar innlendi markaður svo litill, að það er venjulega, að ein verksmiðja eða í hæsta lagi tvær geta framleitt það, sem þarf til að fylla þann íslenzka markað. Það er það raunverulega ástand. Nútímatækni í iðnaði er svo fullkomin og hún heimtar svo mikinn stórrekstur, að það er ekki rúm nema fyrir 1–2 verksmiðjur í hverri grein, — miðað víð einokun, mundu menn náttúrlega segja. Við skulum segja, að við gætum stundum haft þær tvær, ef önnur væri rekin af einhverjum einstökum atvinnurekanda, hin væri rekin af t.d. samvinnufélögunum, þær kepptu sín á milli, þær fengju þó einhvers að njóta af þeirri frjálsu samkeppni, ef það færi þá ekki svo, að þær allt í einu tækju upp á þeim fjanda að koma sér saman um verðið, eins og t.d. olíuútsölur eða eitthvað slíkt. Ég býst þess vegna við, að íslenzkur iðnaður, sem framleiðir fyrir innlendan markað, þurfi alltaf að vera undir mjög skörpu opinberu eftirliti, því að vegna tækninnar og nauðsynjar á stórrekstrinum á hann svo að segja að hafa allt að því einokunaraðstöðu.

Ég veit, að það er talað núna í íslenzka iðnaðinum um nauðsynina á mikilli hagræðingu. Í flestum tilfellum er þessi hagræðing, sem talað er svo mikið um, raunverulega aðeins skipulagning á vinnuþrældómi, aðeins skipulagning á því að reyna að pína verkakonur, sem vinna í hraðfrystihúsum, til þess að flýta sér meir og lækka um leið við þær kaupið raunverulega eftir afköstunum. Sums staðar er dálítið vit í þessari hagræðingu, sums staðar jafnvel til hreinnar skammar, meira að segja svo, að teikningarnar, sem gerðar eru og farið er að framkvæma, stemma alls ekki við plássið, sem vélarnar standa í. Það er í raun og veru hrein blekking að tala um hagræðingu í öðrum eins smáatvinnurekstri og víðast hvar er í íslenzka iðnaðinum. Það, sem er spurningin á þessu sviði, er hagræðing í sjálfu atvinnulífinu og það er það, sem er verið að taka fyrir.

Við skulum taka nokkur dæmi viðvíkjandi þessum íslenzka iðnaði. Að vísu þekkjum við ekki þróunina þar í öllum atriðum nógu vel, það mundi kannske fjhn. athuga betur, þegar hún fengi það til meðferðar. Eftir iðnaðarskýrslunum 1960 voru 9 skógerðir á öllu landinu. Þar unnu alls 190 manns. 8 af þessum skógerðum voru í Reykjavík. Meðaltal í hverri af þessum skóverksmiðjum var 20 manns. Ég þekki að vísu ekki mikið inn á skóframleiðslu. En við, sem fórum til Bretlands í vor, sú þingmannasendinefnd kom inn í eina af skóverksmiðjum í gömlum, ekkert mjög stórum bæ, þar á austurströnd Bretlands. Okkur var sýnd þar m.a. ein skóverksmiðja. Það er, eftir því sem gerist í Bretlandi, líklega frekar lítil verksmiðja. Þar unnu 1000 manns. Þar var tiltölulega vel skipulögð vinnan. Það, sem framleitt var, voru eingöngu kvenskór og það ekki kvenskór miðaðir við t.d. Lundúnamarkaðinn, heldur eftir því sem okkur var sagt, kvenskór miðaðir við — eigum við að segja sveitirnar. M.ö.o.: 1000 manna skóverksmiðju var hægt að reka þarna sæmilega með því að einbeita sér einvörðungu á kvenskó og einvörðungu fyrir þá, sem gerðu ekki eins háar kröfur og t.d. Lundúnabúar. Ég heyri sagt, að hér hafi verið reynt í skóverksmiðjum að framleiða máske allt frá inniskóm upp í sjómannastígvél og allt, sem þar væri á milli. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að það er ekki hægt að standast neina samkeppni við útlönd með svona smárekstri. Ég heyri sagt, að mikið af þessum nýju skógerðum á Íslandi sé nú farið á hausinn, það séu ekki nema 1–3, sem séu eftir, — ég veit ekki, hve margar. Það er kannske einhver að kvarta yfir þessu, en líklega hefur enginn minnzt á, að það kæmi til mála fyrir þessa aðila að reyna einhvern veginn að sameina sig. Það er sú þróun, sem svona iðnaður mundi hafa tekið í hverju öðru landi. Það er það, sem hefur einkennt alla 20. öldina, að vélarnar hafa verið að færast saman á einn stað, kannske á eina hönd. Það hefur einhver verið leiður yfir þeirri þróun, en þetta er þróun, sem tæknin og skipulagningin hefur skapað og þýðir, að menn geta framleitt vörurnar ódýrar og praktískar og borgað miklu hærra kaup en áður.

Hér á Íslandi munu vera samkv. iðnaðarskýrslunum 1960 um 18 súkkulaði- og sælgætisgerðir, 14 í Reykjavík og 4 utan Reykjavíkur. í þeim vinna um 200 manns. Ég býst við, að ein einasta súkkulaðiverksmiðja, sem er til norður á Akureyri, mundi geta afkastað öllu því, sem allar þessar verksmiðjur afkasta. A.m.k. man ég fyrir einum 10 árum, þegar okkur þm. voru sýndar hér nokkrar iðnaðarverksmiðjur í Reykjavík, þá sáum við þar t.d. eina sjálfvirka karamelluvél, sem gat framleitt allar þær karamellur, sem étnar eru á Íslandi, og miklu meira til vafalaust, og efast ég þó ekki um, að það hafi verið til fleiri slík sjálfvirk karamellutæki í svo að segja hverri einustu af þessum verksmiðjum. Það, sem einkennir okkur í þessum efnum, er, að við höfum fjárfest í vélunum margfalt meira en nokkur þörf er á. En notkunin á vélunum er fyrir neðan allar hellur, hún er svo lítil og skipulagningin á vinnunni til skammar og tjóns. Ef meira væri gefið frjálst hérna um innflutning á súkkulaði, þá efast ég ekki um, að mikið af okkar súkkulaðiverksmiðjum fer á hausinn, endar með því, að það er kannske ein, sem rís upp, og hún reynir að hafa útlendan markað líka. En það er ósköp vitlaust nú á siðari hluta 20. aldar að vera endilega að beita þeim aðferðum, sem gerðust á 19. öldinni, við að láta verksmiðjurnar fara á hausinn á þennan máta í staðinn fyrir að reyna að ráðleggja mönnum frá upphafi, hvernig skipuleggja skuli þessa hluti.

Hér í Reykjavík eru 72 fatagerðir eða aðrar verksmiðjur, og kannske er sumt af þeim aðeins klæðaverkstæði. Það vinna í 90 vinnustöðvum alls, 72 í Reykjavík og 18 utan Reykjavíkur, um 800 manns eða að meðaltali undir 10 í hverri. Ég sá nýlega í blöðunum, að það væri verið að kvarta yfir, að það væru of ódýr föt, sem kæmu til Íslands, almenningur í dýrtiðinni gæti fengið of ódýr föt, það væri alveg stórhætta á ferðum. Hvaða hætta er á ferðum, þegar menn geta fengið ódýr föt? Vilja ekki íslenzkir iðnrekendur gera svo vel að athuga sinn gang ofur litið betur og sjá til, hvort þeír hafa gert allt, sem þurfti, til þess í fyrsta lagi að skipuleggja betur sína eigin framleiðslu og af meira viti og um leið að borga hærra kaup þar?

Þessa hluti alla verðum við að taka mjög alvarlega. Það er ekki nóg að heimta bara vernd frá ríkinu, styrk frá ríkinu, uppbætur frá ríkinu eða segja, þegar vinnudeilur hefjast, að þjóðfélagið þoli þetta ekki, atvinnureksturinn þoli þetta ekki. Það er vitleysan í atvinnurekendunum, sem það þolir ekki. Það er þeirra ómögulegi rekstur. Þeir, sem reka dálítið stórt hér á Íslandi, standa sig betur í þessu. Þeir eru komnir upp í verksmiðjur, sem hafa 100–200 menn í vinnu, og þá fer skipulagningin að verða af einhverju viti, og til allrar hamingju höfum við líka hér í Reykjavík einmitt þó nokkuð af verksmiðjum, sem þannig eru skipulagðar, en það eru verksmiðjur, þar sem eigendurnir hugsa stórt í þessum efnum, þar sem þeir kunna eitthvað um nútímaskipulagningu. Við verðum að gá að því, að með smárekstrinum erum við að dauðadæma þann iðnað, sem rekur hann. Og með því að tvistra honum svona er þetta vonlaust; nema með því að skapa honum einokunaraðstöðu, bara til að vernda þetta hraðfrysta, gamaldags stig, sem ætti að hverfa.

Ég verð að segja, að það er hart, að ég skuli verða að segja þetta sem einn af fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar hér á Alþingi. Þetta er það, sem auðmannastéttin venjulega sér sjálf um í öllum löndum, að skipuleggja skynsamlega sinn iðnað. En svo framarlega sem svona ástand í iðnaðinum er notað til að segja við verkafólk: Við getum ekki borgað meira kaup, þá náttúrlega kemur til kasta verkalýðshreyfingarinnar að segja á móti: Gerið þið svo vel að skipuleggja ykkar iðnað af viti, — og það þýðir: skipuleggja hann í stærri stíl. Ég ætla ekki að tala um það, þar sem hneykslið er kannske allra algerast hérna, það er í byggingariðnaðinum, ekki sízt í Reykjavík, þar sem menn vinna á þann máta að vera að teikna eitt og eitt hús og byggja eitt og eitt hús, þar sem eru þó byggð nokkur hundruð húsa á ári, og fá svo út úr því náttúrlega einhverjar dýrustu og að sumu leyti ópraktískustu byggingar, en góðar byggingar, en væri hægt að gera það alveg jafngott með miklu meiri skipulagningu á þessu.

Ég þykist vita, að það sé til fyrirtæki hér í Reykjavík, sem t.d. tekur að sér að steypa upp parta af húsum. Við getum hugsað okkur, það er hægt að steypa upp hús fram með heilli götu einvörðungu með slíku móti og ætti að geta verið margfalt ódýrara, en sá handverksmáti, sem við höfum á þessu. En við verðum að komast yfir í þennan stórrekstur, svo framarlega sem við ætlum að fara að gera alla þessa hluti verulega ódýrt og það getum við vel gert og borgað þó um leið hærra kaup.

Þegar eitthvað slíkt steðjar að, eins og t.d. fatagerðunum, sem finnst þær vera að fara á hausinn, vegna þess að það sé samkeppni frá útlöndum, þá væri það, sem lægi næst fyrir, að sameina sig, að verða sterkari, skipuleggja sig betur, koma á miklu meiri hagræðingu, nota tæknina betur og um leið miklu stærri verksmiðjur. Ég þykist vita, að þær verksmiðjur, sem koma til með að standast bezt í þessu, það eru þær stærstu og þær, sem bezt eru skipulagðar. En þetta þýðir allt saman, að ef við ætlum ekki að bíða eftir því, að menn fari á hausinn með þeim harmkvælum, sem það þýðir í ýmsum iðngreinum, þá á sú stofnun, það áætlunarráð, sem á að skapa, að ráðleggja iðnaðinum, hvernig sé praktískast að reka þessa hluti og hjálpa og aðstoða með það, að slíkt sé gert. Erlendis mundu bankarnir gera slíkt. Bankar mundu skipta sér af því, til hvers væri verið að verja peningunum, sem þeir lána í. Þeir mundu segja jafnvel við atvinnurekendur: Viljið þið ekki heldur, þegar þið komið hérna tveir og viljið stofna sína litlu fataverksmiðjuna eða litlu súkkulaðiverksmiðjuna hvor, — viljið þið nú ekki heldur slá ykkur saman og reka þetta eins og menn? Ég held, að bankastjórar hugsi ákaflega lítið í slíkum efnum. Það virðist yfirleitt ekki mikill skilningur á því að reyna að þróa íslenzkt atvinnulíf eitthvað svipað og iðnaðurinn erlendis þróast.

Hvað snertir nýjar verksmiðjur, vitum við, að það eru til og eru alltaf að skapast nýjar iðngreinar og auðvitað eiga þær að hafa sitt rúm hér á Íslandi eins og annars staðar. Plast er að verða mjög auðvelt að framleiða. Ég veit ekki, hvað margar plastgerðir eru komnar upp hér á Íslandi. Ég býst ekki við, að það sé í neinum iðnaðarskýrslum frá 1960, en trúað gæti ég því, að tilhneigingin væri sú gamla, að koma helzt plastgerðum upp í öðru hverju þorpi. Svo mundi enda með því, að eftir allmörg harmkvæli fjárhagslegs eðlis fyrir eigendurna færi svo og svo mikið af því á hausinn og eitt til tvö lifðu, í staðinn fyrir, að það, sem við eigum að gera nú og vafalaust komum til með á næstu 5–10 árum, þá væri möguleiki til að skapa verksmiðjur í greinum, sem ekki eru til á Íslandi núna, kannske 10–20 verksmiðjur. Við eigum að hugsa það fyrir fram, hvar og hvernig sé praktískast að koma þessum verksmiðjum fyrir. Þjóðhagslega séð höfum við, þegar undan eru skildar sjálfar afurðirnar, sjálf úrvinnsla afurðanna úr sjávarútveginum og landbúnaðinum, þá höfum við ekki pláss fyrir venjulega nema eina verksmiðju í hverju af þessu. Ég hef oft tekið dæmi t.d. af nælonsokkaverksmiðju eða einhverju slíku. Það er enginn vafi á því, að ein nælonsokkaverksmiðja eða eitthvað slíkt, sem er sett niður; getur framleitt með þeim vélum, sem hún hefur, ef rétt eru reknar og vel passað upp á, alla þá nælonsokka, sem með þarf á Íslandi. Þegar við ætlum að setja slíka verksmiðju niður, þá er rétt að taka tillit til þess með slíka vöru, að það er alveg sama upp á markaðinn, hvort hún er staðsett á Blönduósi, Sauðárkróki, Akranesi eða Hafnarfirði. Flutningskostnaður er ekkí neitt. En fyrir bæi eða smáþorp, sem eru að berjast við atvinnuleysi, getur það þýtt líf eða dauða, hvort slíkar verksmiðjur eru staðsettar þar.

M.ö.o.: okkar þjóðarbúskapur á að vita af því fyrir fram, að við getum á næstu 10 árum kannske komið upp 20–30 verksmiðjum í nýjum greinum, þar sem við vinnum úr útlendum efnum fyrir íslenzkan markað og þurfum raunverulega bara eina verksmiðju í hverri grein. Það getur verið einn einstaklingur, sem rekur hana, það er alveg sama, hvort það er einstaklingur, samvinnufélag eða hvað það er þannig, en tæknilega séð er það praktískast, að það sé einn aðili og það sé sett niður á einum ákveðnum stað. Ég veit, að það koma einhverjir og fara að syngja um frjálsa samkeppni. Hún er dauð fyrir langalöngu. Og það eru aðeins afturgöngur í Morgunblaðinu, sem reyna að halda þessu við, þar sem kjörorð nútímans er skipulagning á þessum sviðum. Það, sem nútímatæknin heimtar, er skipulagning. Og ef þið ætlið að stofna 10 nælonverksmiðjur fyrir nælonsokka á Íslandi, fáið þið ekki neina frjálsa samkeppni út úr því, heldur þvert á móti. Þið fáið alla ókosti við einokun, margfalt dýrari vöru, en ella og ópraktískustu notkun á vélum, sem hægt er að hugsa sér. Þess vegna er það frá sjónarmiði skipulagningar iðnaðarins á Íslandi, bæði þess iðnaðar, sem fyrir er, hvað snertir fyrir innlendan markað og þess íðnaðar, sem á eftir að koma upp, líka fyrir innlendan markað, þá er það lífsnauðsyn, að þetta sé skipulagt frá upphafi, þannig að það sé ekki nema 1–2 verksmiðjur í hverri grein og undir góðu opinberu eftirliti, vegna þess að menn fá meira og minna einokunaraðstöðu, sem tæknin og skipulagningin í nútímaþjóðfélagi heimtar.

Hvað það snertir hins vegar, þegar um er að ræða okkar framleiðslu fyrir útlendan markað, þá kemur allt annað til greina í sambandi við úrvinnslu úr okkar landbúnaðarvörum, úrvinnsluna úr okkar fiski. Þá náttúrlega þurfum við ótal verksmiðjur. Í fyrsta lagi þurfum við úti um allt land í sambandi við sjávarútveginn hraðfrystihús á hverjum stað. Hins vegar skal taka annað dæmi aftur. Það er molbúaháttur að koma upp t.d. í Ólafsvík tveim hraðfrystihúsum og tveim fiskimjölsverksmiðjum. Svona eiga menn ekki að vinna. Það á að vera ein verksmiðja á hverjum stað. Upp á reksturinn er það, það eðlilegasta. Ef menn koma sér ekki saman um, hverjir eigi að eiga þetta, látið þá ríki eða bæ eiga þetta og látið sjómennina og útvegsmennina reka þetta. En að koma upp tveimur verksmiðjum af sama tagi, það þýðir venjulega, að annað fyrirtækið fer á hausinn. Svona var gert á Sauðárkróki. Það þýðir, að annað fer á hausinn á endanum og bær eða ríki eða einhverjir aðilar stórtapa fé á þessu. Þetta er reynslan, vegna þess að náttúrlega Ólafsvík og Sauðárkrókur þurfa ekki nema eitt hraðfrystihús og eina fiskimjölsverksmiðju, og sjómennirnir fá meira fyrir fiskinn, ef það er bara eitt af hvoru, svo framarlega sem það er ekki beitt einhverri einokun í sambandi við verðið og þess vegna þyrftu sjómenn og útgerðarmenn sjálfir í raun og veru að hafa allan reksturinn, jafnvel þó að aðilinn, sem ætti þetta, væri það opinbera.

Alveg sama gildir svo, þegar um er að ræða t.d. niðursuðu, niðurlagningarverksmiðjur og allt annað slíkt. Þar er náttúrlega eins og margt, sem við framleiðum til útlanda, þar er möguleiki fyrir margt. Þá þurfum við á ótal stöðum að hafa þetta, vegna þess að það stendur í sambandi við okkar fisk, þannig að það er alveg tvennt ólíkt, sem við þurfum á að halda í skipulagningu, eftir því, hvort við eigum við íslenzkan íðnað, sem framleiðir fyrir innlendan markað, eða hvort við eigum við íslenzkan iðnað, sem framleiðir fyrir útlendan markað.

Samt verðum við að gá að því, að á vissum sviðum kemur þetta sama spursmál um tæknina og skipulagninguna upp. Við skulum segja eins og spursmálið um kassagerðina. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það hrein vitleysa að ætla að koma upp tveim kassagerðum. Hins vegar, svo framarlega sem okkar ágætu kapítalistar koma sér ekki saman um það, annars vegar þeir, sem fiskiðnað reka og hins vegar þeir, sem kassagerðina eiga, hvernig eigi að skipta arðinum af þessu og hvaða verð skuli vera þarna á, þá er langbezt að hafa það eins og forðum, þegar var verið að deila um slíkt, að taka af þeim kassagerðina og ríkið reki hana og þeir geti fengið að hafa menn þarna í stjórn til að líta eftir þessu. Tæknin heimtar bara eina kassagerð. Verðlagningin heimtar kannske, að það sé opinber rekstur og til þess að hann sé praktískur, getur verið eðlilegt, að eigendur hraðfrystihúsa og aðrir slíkir hafi sína fulltrúa einmitt í stjórn slíks fyrirtækis. En við verðum að hugsa iðnaðinn á Íslandi eins og við værum að hugsa út frá einum einasta aðila, þ.e. þjóðinni sjálfri, hvað sé praktískt, hvað samsvari kröfum tækninnar.

Það verðum við að vísu líka að gera hvað hraðfrystihús snertir. Ég hef talað um það áður og skal ekki tala um það aftur, að það var engin þörf fyrir 22 hraðfrystihús á svæðinu frá Sandgerði til Reykjavíkur. Og það var sízt af öllu nokkurt vit að byggja hraðfrystihús langt frá höfninni í Reykjavík, í staðinn fyrir að byggja þau á Grandagarðinum, eins og áætlað var í gamla daga í nýbyggingarráði og stækka Grandagarðinn og gera hann jafnbreiðan alla leið í land. Það var það eina, sem vit var í. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að draslast með hvern þorskhaus frá 10 upp í 20 km, þegar raunverulega ætti fiskur aldrei að koma á bíl. Dansinn með þorskinn fram og aftur, út á Seltjarnarnes og inn á Klett, er til athlægis fyrir atvinnurekstur. Og svo koma þeir sömu menn, sem standa að þessu skipulagsleysi og stjórnleysi, og heimta árlega stórfé úr ríkissjóði og segja árlega, þegar vinnudeilur eru: Við stöndum ekki undir þessu. — En þeir ætlast til þess, að þjóðfélagið eigi að standa undir allri vitleysunni í skipulagningunni. Við verðum sem sé meira að segja líka í hraðfrystihúsunum að taka tillit til samkeppni.

Ég man það ekki núna, en ég hef sagt frá því hér áður, hvað stórt það hraðfrystihús er, sem Findus er að byggja í Hammerfest og hve vel skipulagt. Og við verðum að gá að því, við hverja við erum að keppa. Við erum að keppa við bezt skipulagða auðhringa í Evrópu, þar sem Findus og Unilever eru og við verðum að kunna að skipuleggja hér heima og þora að skipuleggja. Meðan við erum að fást við fiskinn úr sjónum, draga hann, þá erum við í toppi alls þess, sem til er í Evrópu, fremstir allra hvað afköst snertir. Og þegar við erum komnir með fiskinn á land, erum við eins og molbúar, drifum hann upp á bíla, dönsum með hann fram og aftur, hálfeyðileggjum hann, hvað gæðin snertir og leggjum margfaldan kostnað á hann. Þarna verðum við að taka okkur á, einmitt til þess að geta slegizt við þessa aðila, sem við komum til með að keppa við. Ég held þess vegna, að fyrir skipulagningu iðnaðarins á Íslandi, bæði þess iðnaðar, sem framleiðir fyrir íslenzkan markað og þess iðnaðar, sem framleiðir úr okkar landbúnaðar- og sjávarútvegsvörum fyrir útlendan markað, þá sé það lífsspursmál, að við komum heildarskipulagningu á okkar þjóðarbúskap, komum upp miðstöð eins og áætlunarráð á að vera, til þess að hafa yfirstjórn á þessu, hvað snertir sumpart hugmyndirnar, sumpart valdið, náttúrlega í samráði við ríkisstj. og Alþingi.

Í þriðja lagi vildi ég aðeins minna á eitt út af þeim umr., sem hér fara fram um vandamál dreifbýlisins. Mannfækkun í dreifbýli, ég skal endurtaka það einu sinni enn þá, hún stafar af því, að lögmál, blint lögmál óhefts peningavalds er látið ráða. Meðan peningavald fær að staðsetja atvinnutæki þar, sem því þóknast, út frá gróðasjónarmiði, þá staðsetur peningavaldið tækin þar, sem gróðamöguleikarnir eru mestir og þar sem þægilegast er að vera og þar sem atvinnurekandinn helzt kýs að njóta þess gróða, sem hann hefur, en það þýðir: í Reykjavík eða þar rétt í kring. Meðan þetta peningavald er látið ráða og þess lögmál óheft, heldur áfram sú þróun, að atvinnutækin safnast til Reykjavíkur og fólkinu fækkar út um allar byggðir landsins. Það, sem þarna þarf að gera er, að þjóðfélagið sjálft taki í sínar hendur völdin á því, hvar atvinnutækin eru staðsett, eins og gengið er út frá í 3. gr. þessa frv. Þar með getur þjóðfélagið ákveðið að staðsetja þau með það fyrir augum, hvað praktískast sé fyrir þjóðarheildina, líka upp á að ráða byggðaþróuninni á landinu, ráða því, hvar við viljum láta myndast bæi, sem hafa sína 20–30 þús. íbúa, hvar við viljum skapa slíkar miðstöðvar í landinu, hvernig við viljum láta þróunina í byggð landsins verða. Það er staðsetning atvinnutækjanna, sem er undirstaðan að því, hver verður byggðaþróunin. Menn eru stundum að hugsa um og ég veit, að Framsfl. hefur stundum verið að flytja á þingi frv. um að mynda einhvern sjóð, það eigi að leggja nokkrar millj. eða milljónatugi í einhvern sjóð og veita úr þessum sjóði einhverjum, sem vill koma upp einhverju fyrirtæki einhvers staðar úti í dreifbýlinu. Þetta er eins og að kasta snjóboltum í helvíti. Þeir bráðna. Það dugir ekkert í þessum efnum annað, en að stjórna þessu frá einni miðstöð, ráða því, hvar maður ætlar að láta byggðina verða. Ég vil í sambandi við þetta minna á það, fyrir utan það, sem ég talaði hér áðan um staðsetningu atvinnufyrirtækja, sem framleiða fyrir íslenzkan markað, sem hægt væri að staðsetja hringinn í kring í dreifbýlinu og hjálpa því þannig, þá vil ég koma ofur lítið og örstutt inn á stóriðjuspursmálið.

Allt það, sem talað hefur verið um stóriðjuna með útlendum efnum, hefur verið tilviljanakennt. Það hefur allt saman eiginlega verið eftir því, hvaða útlendir stórhringar hafa sýnt áhuga á því að vilja t.d. ná í fossafl hjá okkur, við skulum segja eins og alúminíumhringarnir núna. Hins vegar hefur ekkert í svo að segja miðstöð hér, eins og t.d. í slíku áætlunarráði, verið athugað um aðra möguleika. Ég skal nefna sem dæmi, einmitt ef menn væru að hugsa um stóriðju úr útlendu efni fyrir dreifbýlið, — ég tala ekki um úr íslenzka hráefninu, sem ég álít höfuðatriðið í þessu, ég er búinn að undirstrika það oft, að næsta tímabil hjá okkur verði fyrst og fremst fullvinnslan úr okkar sjávarafurðum og landbúnaðarafurðum, — en við skulum segja, að við værum að hugsa um, að við þyrftum samt að koma upp stóriðju úr einhverju aðfluttu efni og þyrftum að ráðast í það eftir 5 eða 10 ár eða eitthvað svoleiðis, þá eigum við að rannsaka þetta hér, fá hér sérfræðinga, íslenzkt áætlunarráð til að athuga, hvað tæknilega kæmi hér til greina. Menn tala helzt um eitthvað úr alúminíum. Vissulega var alúminíum fyrir 70–80 árum svo dýrt, að það var dýrara en gullmolar og var sýnt á sérstökum diski fyrir Bretakonunga á þeim tímum, einmitt að það hefði tekizt að framleiða þennan hlut, sem nú er orðinn algengasti hlutur í daglegri notkun. En það er ekki fyrst og fremst þróun alúminíums, sem hefur tekið stórum stökkum í heiminum nú. Sú bylting, sem er núna í veröldinni í stóriðjuframleiðslu, er fyrst og fremst á einu sviði og það er svið, sem kallað er á útlendu máli „petrolkemi“. Það er efnaiðnaður, sem vinnur úr olíu sem hráefni. Það á ekkert skylt við olíuhreinsunarstöð eða slíkt, heldur það, að olían sjálf er klofin niður í efni, sem hægt er að framleiða úr hvort heldur maður vill nælon, plast, sem maður getur notað í vefnaðarvörur eða sem maður getur notað í það, sem maður nú mundi kalla stálskip eða annað slíkt, þ.e.a.s. í staðinn fyrir stál og annað þess háttar. Og þetta er sá iðnaður, sem hefur tekið langsamlega hröðustu þróun í veröldinni á síðustu 10 árum. Þetta er sí raunverulega stórkostlega iðnbylting, sem þarna er að gerast.

Ef menn væru að hugsa um einhverja stóriðju fyrir utan þá, sem við kæmum upp sjálfir, Íslendingar, úr okkar eigin efnum, okkar fiski og öðru slíku, sem getur áreiðanlega dugað okkur næstu 5–10 árin og lengur, þá held ég, að menn ættu að athuga dálítið með hlíðsjón af því, hvaða hráefni er þægilegast fyrir okkur og ódýrast að flytja og hagnýta og hvaða hráefni við gætum unnið mest úr sjálfir. Við skulum segja, að olían er eitt af því allra praktískasta sem hráefni til að flytja eða skipa upp og annað slíkt, einmitt fyrir land, sem er umflotið sjó eins og okkar og allir bæir við sjóinn. Þannig er olían að mörgu leyti langpraktískasta hráefnið til að vinna úr og hún skapar okkur hins vegar möguleika til að skapa við hliðina á verksmiðjum, sem framkvæma þennan klofning efnisins, úrvinnsluverksmiðjur í stórum stíl, fullvinnsluverksmiðjur. Það, sem við þurfum fyrst og fremst til þess, er raunveruleg þekking. Ég hef nokkrum sinnum lagt hér til í sambandi við fjárlögin, að við létum nokkra menn fara í það að stúdera þennan efnaiðnað, læra hann. Það hefur því miður aldrei verið samþykkt. Ég ámálgaði þetta í þeirri atvinnumálanefnd ríkisins, sem ég hef átt sæti í og talað hefur verið um. Formaður hennar fór síðan að kynna sér þetta mál og sagðist vera alveg sammála mér um það, að þetta væri eitt af þeim málum, sem þyrfti endilega að taka fyrir. Hins vegar er ekkert gert í svona málum, nema því aðeins að við getum fengið sérfræðinga, sem við getum treyst í þessum efnum, íslenzka sérfræðinga. Og það að framleiða slíka sérfræðinga íslenzka, það tekur 5–6 ár. Ef við ætlum bara að láta nokkra menn, sem við treystum vel, fara að læra þessa hluti og komast helzt inn á laboratoríum og annað slíkt erlendis, þá tekur það slíkan tíma.

Það, sem svona áætlunarráð þarf að gera í slíkum efnum, er að hugsa alilangt fram í tímann um þessi efni, bæði hvað mannkraft, hráefni, sérþekkingu og allt annað slíkt snertir. Þetta tilviljanakennda í öllum þessum undirbúningi, ég hef tiltölulega fylgzt vel með því. Ég veit ósköp vel t.d., að menn fóru að tala um alúminíum bara vegna þess, að tveir ákveðnir menn, raunar báðir framsóknarmenn, höfðu mjög mikinn áhuga fyrir þessu alúminíumi og settu sig í samband við vissa hringa í Bandaríkjunum í þessu sambandi og það eru meir en 7 ár síðan það gerðist. En þetta má ekki vera komið undir slíku einkaframtaki einstaklinga. Við þurfum að rannsaka þessa hluti. Það þýðir, að við þurfum að hafa eina miðstöðvarstofnun, eina stofnun eins og áætlunarráðið, sem geri þetta.

Ég vildi aðeins minnast á þetta þrennt: Samræmingu áætlananna á hinum ýmsu sviðum, skipulagningu iðnaðarins íslenzka og vandamál dreifbýlisins, til þess að minna á, hve brýnt verkefni það er orðið fyrir Alþingi að samþ. frv. eins og þetta hérna.

Ég vildi svo að endingu setja fram þá aðvörun til hæstv. ríkisstj. og til atvinnurekendastéttarinnar í landinu að daufheyrast ekki eins við þessum málum og þessir aðilar hafa gert fram að þessu. Ég fullyrði, að íslenzk atvinnurekendastétt sé hlutfallslega dýrasta atvinnurekendastétt í rekstri af öllum atvinnurekendastéttum Evrópu. Og ég vil sanna það með því, að hún sé hlutfallslega fjölmennari, atvinnureksturinn smærri, hver einstakur atvinnurekandi, meira að segja í smáholu, álítur sig helzt vera einhvern stórlax, sem helzt þurfi bæði að eiga sína villu, sinn bíl og annað slíkt og hann lætur meira eða minna af sinni persónulegu eyðslu yfir á skattaframtal atvinnurekstrarins, gerir kannske sjálfan sig og atvinnureksturinn meira eða minna skattfrjálsan með því, svo að allt dengist yfir á launþegana. Eyðsla íslenzkrar atvinnurekendastéttar, ég býst við, að allur þorrinn af heldri kaupsýslumönnum finnist þeir þurfa að sigla oft á ári til þess að kaupa inn og annað slíkt og svo fær maður lélegasta vörusafn, sem til er í Evrópu, þannig að ferðafélögin skipuleggja sérstakar flugferðir til Bretlands, til þess að menn geti keypt inn ódýrara, en á Íslandi. Íslenzk atvinnurekendastétt er sú dýrasta í rekstri af öllum atvinnurekendastéttum Evrópu hlutfallslega, m.a. vegna þess, að hún hefur ekki kunnað að skapa og þróa stórrekstur á sama hátt og aðrar atvinnurekendastéttir. Því stærri hins vegar sem reksturinn er, því ódýrari hlutfallslega eru atvinnurekendurnir fyrir þjóðfélagið.

Ég held, að það hafi verið einmitt á aðalfundi Félags ísl. iðnrekenda, sem var sagt frá því nýlega, samkv. skýrslu Efnahagssamvinnu- og framfarastofnunarinnar, þá hefði fjárfestingin á Íslandi verið 28% af þjóðarframleiðslunni, meðan meðaltal annarra auðvaldslanda í Evrópu var 20%, en hagvöxturinn á Íslandi hins vegar 4% á ári og var það lélegt samanborið við það, sem var úti í Evrópu. Íslenzk atvinnurekendastétt tekur til sin hlutfallslega stærri hluta til fjárfestingar af þjóðartekjunum, en nokkur atvinnurekendastétt önnur í Evrópu og skilar lélegri hagvexti af því, — ég undanþigg alltaf sjávarútveginn, — heldur en aðrar þjóðir. Af hverju? Af því að það fer of mikið í vitlausa fjárfestingu af þessu, sem þarna er varið. Ég skal þó taka það fram til að vera fullkomlega sanngjarn, að það eru vissir hlutir hjá okkur á Íslandi, sem eru af eðlilegum ástæðum dýrari alltaf, en annars staðar. Við þurfum vandaðri hús, við þurfum að verja meiru til húsbygginga og annars slíks. En jafnvel þótt við tækjum það einvörðungu hvað snertir sjálfan okkar iðnrekstur og annað slíkt, þá er ég hræddur um, að útkoman yrði sú sama. Okkar atvinnurekendastétt hefur lélegustu stjórnina á þjóðarbúskap, sem við höfum í Evrópu, og þetta á ekki að þýða það, að íslenzkir atvinnurekendur yfirleitt séu svona lélegir. Við höfum nokkrar verksmiðjur og nokkur fyrirtæki á Íslandi, sem eru til fyrirmyndar í þessum efnum, sem eru nákvæmlega eins vel rekin og önnur fyrirtæki í sínum greinum. Það gildir bæði með sumt af járniðnaðinum, sumt af fatagerðunum og slíku, en ekki nema sumt. Ég veit, að við höfum tekið stórframförum á vissum sviðum, með viss fyrirtæki, frá 1945. Og samanborið t.d. við fyrirtæki, sem voru meira að segja í Svíþjóð, hefur staðið þannig tiltölulega vel, en sem sé, það eru undantekningarnar. Heildin í þessu er slæmur rekstur.

Það, sem gerir, að ég er að undirstrika þetta, er, að íslenzkur verkalýður ætlar sér ekki að borga fyrir þessa óstjórn. Hann er búinn að gera það nógu lengi. Það er ekki til neins að koma, þegar vinnudeilan kemur og segja: Þjóðfélagið ber ekki hækkað kaup, atvinnureksturinn þolir ekki hækkað kaup, — en hafa látið það viðgangast, að stjórnin á atvinnurekstrinum væri fyrir neðan allar hellur. Það er gott að hafa sín 22 hraðfrystihús á hringavitlausum stöðum og keyra eins og vitlausir menn í sambandi við þau og koma svo og segja við verkamennina: Ég stend ekki undir þessu kaupi, sem þú vilt fá, þú verður að una við sama kaup og fyrir 20 árum. — En verkamenn vilja bara ekki sætta sig við þetta, og þjóðfélagið á ekki að sætta sig við þetta. Þjóðfélagið á að skapa aðhald til handa atvinnurekendunum í þessum efnum. Það er ákaflega ópraktískt, að allt aðhald að atvinnurekendunum þurfi að fara fram á þann máta, að verkamenn verði að stöðva verksmiðjurnar 1–3 mánuði til þess að kúska þá til að láta undan kaupkröfunum. Það er hringavitlaust fyrirkomulag í einu þjóðfélagi. Þvert á móti, áður en til vinnudeilnanna kemur, á þjóðfélagið að taka þennan atvinnurekstur fyrir og segja: Heyrið þið nú, mínir góðu atvinnurekendur, sem segið í júní á vorin: Atvinnureksturinn ber ekki kaupið, — hvað hafið þið gert til að laga þetta? Nú er nóvember, nú eru 8 mánuðir enn þá eða svo til júní næsta árs. Nú er tíminn til að lagfæra þennan atvinnurekstur. Og þennan tíma á að nota og ef sá tími er ekki notaður, er það ekki sök verkalýðshreyfingarinnar, ef atvinnurekendurnir segjast ekki vera færir um að bera hærra kaup í vor, þegar að vinnudeilunum kemur.

Við leggjum til, að þetta áætlunarráð sé skipað 9 mönnum, 4 tilnefndir af hverjum núverandi þingflokka, 4 tilnefndir af A.S.Í, Stéttarsambandi bænda, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Félagi ísl. iðnrekenda. Það þýðir, að allir þeir pólitísku flokkar og allar höfuðstéttirnar á landinu hefðu aðstöðu til að vinna saman að þessu. Og ég sé satt að segja ekki, hvernig hægt er að þverskallast ár eftir ár við því að verða við þessum kröfum, því að bak við þessar kröfur stendur A.S.Í. líka. Ár eftir ár hefur það á sínum þingum gert samþykktir um þetta. Mér er nær að halda, að raunverulega sé farinn að verða meiri hl. hér á þingi hvað viljann snertir fyrir því að fara inn á eitthvað slíkt. Alþfl. hefur t.d. lengi staðið með þessu. Ég man eftir því fyrir nokkrum árum, að hæstv. menntmrh. kom hér fram út af þessu frv. og sagði við mig: Við erum bara að framkvæma þetta allt saman, sem þú ert að leggja til, Einar. Ríkisstj. ætlar að framkvæma þetta. Það er hreinasta vitleysa af þér að vera með nokkurt frv. — En það hefur ekki orðið sú reyndin. Það eru einhverjar taugar til stjórnleysisins, til hinnar svokölluðu frjálsu samkeppni í þessu enn þá. Og hins vegar hefur mér heyrzt stundum á Framsókn hún vera farin að nálgast þetta eitthvað, þótt hún því miður bæri ekki gæfu til að gera það þegar í vinstri stjórninni, þegar hún hafði valdið til að framkvæma þetta og sprengdi allt þá frekar en að gera slíkt.

Ég vil þess vegna að síðustu segja, að það er núna, sem við eigum að taka höndum saman um að vinna að þessu. Það er of seint í júní í vor. Verkamenn munu gera sínar kröfur um verulega kauphækkun þá og það verður að verða við þeim og það er engin afsökun fyrir að verða ekki við þeim. En það er núna, sem við getum hjálpað atvinnurekendunum til að skipuleggja dálítið skynsamlegar sinn rekstur. Við verðum að hugsa um þjóðarbúskap Íslands sem eina heild og það er þó lítil heild á heimsmælikvarða séð. Það eru ekki fleiri verkamenn hér á Íslandi en vinna hjá einu stóru sænsku fyrirtæki, rafmagnsfyrirtækinu ASEA. Það þarf að stjórna þjóðarbúskapnum sem einni heild, en innan þeirrar heildar getum við haft öll þau rekstrarform, sem við viljum: einstaklingsrekstur, samvinnurekstur, bæjarrekstur, ríkisrekstur og hvað sem er. Ég álít það þess vegna ábyrgðarleysi að taka ekki afstöðu til þessa frv. nú. Ég legg til, að það fari til fjhn. Ég legg til, að sú nefnd afgreiði það, það komi í ljós, hvaða afstöðu menn taka til þessa máls. Ég veit að vísu, að það er hægt að svæfa frumvörp og það hefur lengi verið gert, ekki sízt með þetta frv. En verkföllin í vor verða ekki svæfð. Og verkalýðurinn á Íslandi, sem enn þá býr við lægri kjör hvað snertir kaupmátt tímakaups en 1945, hann mun ekki vera viljugur þess að láta sér blæða endalaust fyrir vitlausa og eyðslusama stjórn á þjóðarbúskapnum af hálfu atvinnurekendastéttarinnar.

Skipulagningin á atvinnulífinu er óhjákvæmileg. Það þýðir ekkert að koma til verkalýðshreyfingarinnar og segja: Þjóðfélagið ber ekki þetta og þetta. — Þjóðfélagið ber 20, 30, 40% hærra kaup, en það er núna. En það ber ekki þann óskapnað, sem reksturinn á þessu er. Þess vegna er tækifærið núna í vetur, núna í nóvember og desember, til þess að taka ákvarðanir um að stofna til skynsamlegrar skipulagningar á íslenzkum þjóðarbúskap, stærri og betri rekstrar á íslenzkum atvinnufyrirtækjum, heldur en verið hefur og gera þannig atvinnurekendastéttinni íslenzku kleift að komast út úr sínu stjórnleysi og rísa verulega vel undir stórfelldum kauphækkunum hjá verkalýðnum og geta jafnvel kannske um leið lækkað sína vöru, því að það er það, sem hægt er að gera með því að skipuleggja allan iðnaðinn og allan okkar atvinnurekstur af verulegri skynsemi.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessu frv. sé vísað til fjhn. og 2. umr.