12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Um efni þessa frv. þarf ég ekki að vera fjölorður, sökum þess að nákvæm grein hefur verið gerð fyrir efni þess átta sinnum hér á hv. Alþingi og ættu því hv. alþm. að vera farnir að kannast við efni þess. Í fáum orðum má þó segja, að efni þessa frv. er mjög sniðið eftir efni þeirra l., sem í gildi eru um hinn almenna menntaskóla

í Reykjavík. Í frv. eru gerðar mjög svipaðar kröfur til náms og kennslu í skólanum, deildaskipting í honum fyrirhuguð á sama hátt og sömu prófkröfur og gerðar eru til nemenda menntaskóla, sem ganga skulu undir stúdentspróf í hinum almenna menntaskóla og Menntaskólanum á Akureyri og öðrum þeim skólum, sem rétt hafa til að brautskrá stúdenta. Meginefnið er sem sé alveg hliðstætt við ákvæði l. um hinn almenna menntaskóla. Um efni þess tel ég ekki ástæðu að fara fleiri orðum af þeirri ástæðu, sem ég í upphafi máls míns gat um.

Um flutning málsins fram að þessu vil ég aðeins rekja nokkrar helztu staðreyndir, en þær eru á þá leið, að í fyrstu er frv. flutt í hv. Ed. af mér og þáv. hv. þm. Norðmýlinga, Páli Zóphóníassyni. Það mun hafa verið á þinginu 1946. Málið fékk ekki afgreiðslu. Og árið eftir, 1947 var það flutt á ný af sömu flm. og var það í bæði þessi skipti breyting við menntaskólalögin á þann veg, að í landinu skyldu vera fjórir menntaskólar, þ.e. í Reykjavík, á Akureyri, á Ísafirði og að Eiðum. Einnig fluttum við þetta frv. í þriðja sinn, sömu flm., á þinginu 1948. Svo liggur málið niðri um skeið, en á þinginu 1959 er málið flutt í fyrsta sinn í því formi, sem það liggur nú fyrir hv. Alþingi, þ.e. sjálfstætt frv. um Menntaskóla Vestfirðinga á Ísafirði. Flm. voru þá Hannibal Valdimarsson, Birgir Finnsson og Sigurður Bjarnason eða m.ö.o. þeir þm. Vestfjarðakjördæmis, sem þá áttu sæti í Nd. Alþingis. Síðan hefur málið verið endurflutt og flm. ávallt verið þeir Vestfjarðaþm., sem sæti eiga í Nd. Alþingis, nú síðast þeir Sigurvin Einarsson og Matthías Bjarnason í viðbót við fyrri flm. En ávallt hefur flutningi frv., síðan það var flutt fyrst í þessu formi, verið hagað þannig, að því hefur verið yfirlýst að, að málinu stæðu einnig þm. Vestfjarða í hv. Ed. og þar með stæðu allir Vestfjarðaþm. að baki þessu máli.

Þetta er saga málsins, og má af því sjá, að svo hefur hér til tekizt, að eikin hefur ekki fallið við fyrsta högg. En ég er þeirrar skoðunar, að þetta mál sé þannig vaxið, að hverjir sem sæti eiga á Alþingi í umboði Vestfirðinga, þá eigi málið svo mikil ítök í vilja kjósendanna á Vestfjörðum, að það verði ekkert undanfæri fyrir Vestfjarðaþm. að flytja þetta mál á Alþingi, þangað til það verður afgreitt héðan sem lög. Vestfirðingar telja sig ekki aðeins vera að fylgja hér fram sér mjög þýðingarmiklu og nauðsynlegu máli, heldur telja þeir sig eiga jafnréttiskröfu við aðra landsmenn um það, að efnilegir námsmenn á Vestfjörðum eigi þess kost að njóta stúdentsmenntunar og fá þannig undirbúningsnám undir háskólanám heima á Vestfjörðum.

Þegar málið var fyrst flutt, var aðeins einn menntaskóli í Reykjavík. Það var hinn almenni menntaskóli, fyrrum nefndur hinn lærði skóli eða latínuskólinn. Það virtist lengi vera skoðun hv. alþm., að þjóðin hefði ekki neina þörf fyrir fleiri menntaskóla, almenni menntaskólinn í Reykjavík fullnægði þörfinni. A.m.k. var þetta upp á teningnum fyrir 1920, þegar þm. Norðlendinga hófu að berjast fyrir menntaskóla Norðlendinga á Akureyri. Það mál var margflutt, fyrir því var þvælzt og vafizt af alþm. lengi, en málið var flutt hvað eftir annað, þangað til það loks náði fram að ganga. Helztu rökin, sem fram voru borin gegn menntaskólamáli Norðlendinga, voru þau, að það væri ekki þörf nema fyrir einn menntaskóla og það færi langbezt á því, að þeir væru allir brautskráðir í Reykjavík. Sumir héldu því fram, að það væri ekki hægt að fá kennarakost til Akureyrar, norður í land, til þess að halda þar uppi stúdentafræðslu. En öll þessi rök, sem flest voru sýndarrök og önnur á misskilningi byggð, ultu þó um koll og menntaskóli Norðlendinga sigraði, það varð til annar menntaskóli í landinu. Og það sýndi sig brátt, að það var full þörf á því, að menntaskólarnir væru tveir.

Þegar menntaskólarnir voru orðnir tveir og nokkur ár liðin þar frá, leið ekki á löngu, áður en það varð skoðun manna, að það væri þörf á því að stofna til hins þriðja menntaskóla í landinu, og það var gert með nokkuð sérstökum hætti, sem virðist benda til þess, að þörfin hafi verið talin ákaflega aðkallandi og brýn. Það gerðist nefnilega á þann hátt, að þáv. menntmrh. gaf út ráðherrabréf, er heimilaði einum skóla í Reykjavík, Verzlunarskóla Íslands, að mega brautskrá stúdenta. Þannig varð þriðji menntaskólinn í landinu til, alveg óefað og tvímælalaust fyrir mjög brýna og aðkallandi nauðsyn, því að ef málinu hefði ekkert legið á, hefðu aðstandendur málsins vafalaust gefið sér tóm til þess að láta málið fara gegnum Alþingi Íslendinga og stofna hann að lögum, eins og áður hafði verið gert um hina tvo menntaskólana. En þarna var þá kominn annar menntaskóli í Reykjavík, og hann starfar enn og hefur brautskráð marga stúdenta og er mér ekki kunnugt um annað en stúdentar frá honum hafi þótt jafnhlutgengir í þjónustu þjóðarinnar sem menntamenn og stúdentar frá hinum tveimur menntaskólunum, sem starfa samkv. settum lögum. Með þessu var að fullu viðurkennd nauðsyn þess að fjölga menntaskólum.

Og enn verður engum stoðum undir það rennt, að offramleiðsla stúdenta sé hjá íslenzku þjóðinni, námskröfur hafa vaxið svo, kröfur til menntunar hafa vaxið svo, að ekki verður um það deilt, að stúdentsmenntun er nokkuð almenn undirbúningsmenntun undir hvers konar framhaldsnám og að mörgu leyti alveg bundið því, að menn fái leyfi til að stunda háskólanám, að þeir hafi áður stúdentspróf. En hér var ekki látið staðar numið. Nú komu upp kröfur um það, að það væri ekki rétt og þjóðhollt, að allir menntaskólar landsins væru í Reykjavík og í kaupstöðum landsins, heldur mundi það vera réttara, að næsti menntaskóli, sem komið yrði á fót, yrði í sveit. Og um þá kröfu fylktu sér margir alþm. og þá ekki sízt sunnlenzkir þm. og höfðu það fram, að stofnaður var menntaskóli í sveit og hann staðsettur á Suðurlandi. Þar með höfðu þá Norðlendingar og Sunnlendingar fengið menntaskóla og Reykvíkingar tvo.

Nú líður nokkur tími og áfram er haldið að flytja það mál, að Vestfirðingar og Austfirðingar eigi báðir nokkurn rétt á því, að þar verði reistur menntaskóli og málið flutt á Alþingi, eins og ég hef gert grein fyrir. En á meðan þetta mál er margflutt og túlkað í sölum Alþingis, er á það fallizt, að enn þá sé þörf fyrir nýjan menntaskóla og hann í Reykjavík. Og það er ekki langt siðan Kennaraskóla Íslands var með l. heimilað að brautskrá stúdenta og þar með honum veitt að nokkru leyti, auk síns upprunalega hlutverks að brautskrá kennara, einnig það hlutverk að brautskrá stúdenta. Þannig er það þá staðreynd, sem öllum Reykvíkingum hlýtur að vera kunn og landslýðnum ætti að vera kunn, ef blekkingum væri þar ekki beitt, að það er ekki aðeins einn menntaskóli í Reykjavík, heldur eru þeir þrír. Þeir eru þrír, sem brautskrá stúdenta og þegar nú er hreyft því máli að bæta við menntaskóla í Reykjavík, þá væri það sá fjórði í Reykjavík, en ekki annar, eins og birt er í blöðum fyrir fólkið úti á landsbyggðinni. Í dag er í einu af dagblöðum borgarinnar með feitu letri sagt, að menntaskólar í Reykjavík skuli verða tveir. En þeir eru fyrir, hinn almenni menntaskóli, Verzlunarskóli Íslands, sem hefur heimild til að brautskrá stúdenta og Kennaraskóli Íslands, sem einnig hefur heimild til að brautskrá stúdenta. Samkv. íslenzkri málvenju er sá skólí, skóli með menntaskólaréttindi, lærður skóli, sem undirbýr menn til háskólanáms og útskrifar nemendur sína með stúdentsprófi, það er menntaskóli að íslenzkum skilningi. Ég felli mig því fremur illa við það, að slíkar blekkingar séu í frammi hafðar, að það sé nú verið að breyta l. um hina almennu menntaskóla á þann veg, að það megi verða tveir menntaskólar í Reykjavik, af því að sannleikurinn er sá, að það er verið að breyta menntaskólal. á þann veg, að hér bætist við fjórði menntaskólinn í Reykjavík, áður en Austfirðingar og Vestfirðingar fái sína menntaskóla.

Ég hygg, að flestum alþm. sé ljóst, að það fer varla gegnum Alþingi á einu þingi að stofna þrjá menntaskóla, þann fjórða í Reykjavík og svo vestfirzkan og austfirzkan menntaskóla og ég leyfi mér því að halda því fram, að það sé veila í heilindunum við málstað Austfirðinga og Vestfirðinga að hamra jafnframt á því á sama þingi að bæta við fjórða menntaskólanum í Reykjavík, enda er fólkinu úti á landsbyggðinni ekki kunngert, að það standi til að bæta við fjórða menntaskólanum í Reykjavík, heldur að menntaskólarnir í Reykjavík verði tveir.

Nú gæti það verið, að það væri skoðun manna, að það, sem væri mest aðkallandi í landinu, væri að bæta við fjórða menntaskólanum í Reykjavík, og þá eiga menn að segja það og láta það berast út um landsbyggðina líka, að það væri afstaða manna. En hins vegar fer ég ekki dult með þá skoðun mína og hygg, að ég tali fyrir munn allra okkar flm., að við teljum þörf á auknu skólarými á menntaskólastiginu og við teljum, að þar sem Reykjavík er með þrjá skóla af þessari tegund, Sunnlendingar hafa sinn stúdentaskóla og Norðlendingar sinn, en Vestfirðingar og Austfirðingar ekki, þá sé það, sem eigi að sitja fyrir í þessu máli, að koma upp litlum menntaskóla á Vestfjörðum og öðrum í framhaldi af því á Austfjörðum. Þetta þyrftu vafalaust ekki að vera stórar stofnanir. Ég geri ráð fyrir, að fyrstu árin yrði þarna farið af stað með fjögurra deilda skóla,fjögurra bekkja skóla með 20–25 nemendum í ársdeild og þannig yrðu þessir skólar til að byrja með hvor um sig ekki nema með 100 nemendur eða svo, ekkert bákn og algerlega óþarft að láta þá kosta hvorn um sig marga milljónatugi. En ef svona væri tekið á málinu og litið á þetta mál sem nauðsynjamál, og réttlætismál og jafnréttismál landsbyggðarinnar móts við þéttbýlið, ætti að taka þannig á málinu að gefa út lög frá Alþingi um þessa skóla austanlands og vestan. Sú úrlausn mundi líka létta á þessum þremur menntaskólum hér í Reykjavík í bili a.m.k. En þegar það sýndi sig, að sá menntaskólakostur, sem þá væri fyrir hendi, dygði ekki, þá mundi ég a.m.k. ekki beita mér gegn því, að fjórða menntaskólanum í Reykjavik væri bætt við.

Það er almennt á orði haft í umr. um jafnvægi í byggð landsins eða í umr. um þá þjóðfélagsnauðsyn að byggja upp þéttbýliskjarna til þess að veita fólki sem jafnasta aðstöðu til að byggja þetta land, að til þess þurfi ekki aðeins uppbyggingu atvinnulífs, sem sé hið fyrsta skilyrði, heldur einnig uppbyggingu samgöngumála á sjó og landi og í lofti, þannig að aðstaða manna á þessum sviðum verði sem jöfnust í landinu. Í þriðja lagi, að það sé nauðsynlegt út frá þessum sjónarmiðum að veita fólkinu nokkurn veginn fullnægjandi aðstöðu til félagslegrar og menningarlegrar starfsemi og aðstöðu til menntunar, og það er kannske ekki veigaminnsti þátturinn. Þetta segja menn a.m.k., þegar þeir tala um jafnvægi í byggð landsins. En er það samt svo, að jafnvel þm. dreifbýlisins telji það réttmætt að bæta samt við fjórða menntaskólanum í Reykjavík, áður en Austfirðir og Vestfirðir fái hvor litla menntastofnun, sem brautskrái stúdenta? Ég fæ ekki séð, að það samrýmist a.m.k. Ef það gæti leyst málið, að menntaskóli á Vestfjörðum mætti ekki heita menntaskóli, en hafa samt að lögum rétt til þess að brautskrá stúdenta, þá fullnægði það mér nokkurn veginn. Ef gagnfræðaskólinn á Ísafirði fengi frá Alþingi lagaheimild til að reka fjórar ársdeildir menntaskóla og heimild til að brautskrá stúdenta, þá væri það lausn á málinu. Ef það leiðir til þess, að það sé aðeins einn menntaskóli í Reykjavík, að einn þeirra heitir Verzlunarskóli Íslands, annar heitir Kennaraskóli Íslands, en hafa báðir rétt til þess að brautskrá stúdenta og hægt sé þá að segja: Það er bara einn menntaskóli í Reykjavík, — gætu menn glatt sig við að segja, að það væri enginn menntaskóli á Vestfjörðum, þó að gagnfræðaskólinn á Ísafirði hefði fengið lagaheimild til þess að brautskrá stúdenta, en í sama stað kæmi, að það væri kominn þar menntaskóli. Ég geri nú ekki ráð fyrir því, að þetta skipti máli, heldur sé það staðreynd, að við verðum að gera það upp við okkur, alþm., hvort við teljum rétt að byggja áfram út menntaskólakerfi í Reykjavík, þannig að sá fjórði bætist við, áður en Vestfirðingar fái sinn menntaskóla, áður en Austfirðingar fái sinn menntaskóla. En þá tel ég réttmætt, að fólkið í landinu fái að vita það, að Alþingi hafi bætt við fjórða menntaskólanum í Reykjavík, en ekki öðrum. Ég held, að það mundi eiga þátt í að aftra fólksflótta úr

Vestfjarðakjördæmi og af Austfjörðum, en aðstaða er mjög svipuð á margan hátt í báðum þessum landshlutum, ef unga fólkið þar, sem hefur hæfileika og löngun til að þreyta nám til stúdentsprófs, fengi aðstöðu til að gera það í sínum heimabyggðum, því að mér er kunnugt um, að það eru ekkert fáar fjölskyldur, sem flutzt hafa af Vestfjörðum, höfðu þar sæmilega lifsaðstöðu á flestan hátt, en fluttu sig úr sínum heimabyggðum, þegar að því kom, að fyrsta barnið þurfti að fara að þreyta menntaskólanámið í Reykjavík eða á Akureyri. Og ef börnin voru fleiri, sem höfðu hæfileika og getu og löngun til þess að stunda slíkt nám, þá átti fátækt fólk eða fólk með miðlungstekjur einskis annars úrkosta en að fylgja börnunum eftir til þess að veita þeim aðstöðu til að vera á heimilinu og stunda námið jafnframt og þá varð auðvitað að flytjast til Reykjavíkur. Þetta hefur í mörgum tilfellum verið frumorsök til þess, að mjög mannvænlegt fólk hefur tekið sig upp, þrátt fyrir það að það hefði alls enga löngun til að skipta um búsetu og flýja sinn landshluta. Það var til þess að fullnægja skyldum sínum við börnin og að búa þau til manndóms og mennta, eins og kostur væri á. Það eru því áreiðanlega ekki neinar grillur, þegar þeir halda því fram, að ef menn meina eitthvað með því, að það eigi að byggja upp jafnvægi í byggð landsins, þá verði það ekki aðeins að gerast gegnum umbætur í atvinnumálum og samgöngumálum og félagsmálum, heldur ekki hvað sízt menntamálum. Og það er á þessu sviði sem fólkið, hvar sem það er búsett á landinu, á hinn fyllsta rétt til að heimta jafnrétti við aðra. Og í þessu tilfelli er hægt að verða við þeirri kröfu. Ég vil heldur segja: Það er ekki hægt að komast undan því að fullnægja þessari réttlætiskröfu, hvort sem mönnum tekst að vefjast fyrir því 1, 2 eða 3 ár.

Eru nú líkur til þess, að lítill menntaskóli á Vestfjörðum gæti orðið nokkuð nema nafnið tómt? Eru líkur til þess, að þangað fengjust kennarar? Það er einmitt það, sem sagt var um Akureyri, hann mundi aldrei fá kennara. Það hefur nú tekizt nokkurn veginn hjá skólameisturunum á Akureyri að afla sæmilegs kennaraliðs þangað eins og til menntaskólans í Reykjavík. Það má vera, að þetta sé nokkrum erfiðleikum bundið og þurfi atfylgi forstöðumanns skóla, það skal ég ekki fortaka, en þetta hefur tekizt utan Reykjavíkur og það mundi eins takast á Vestfjörðum og annars staðar. En svo mikið er víst, að menntaskóli með 100–300 nemendur væri að öðru jöfnu betri uppeldisstofnun, en menntaskóli með 900 nemendur. Það fullyrði ég af þeirri þekkingu, sem ég þó hef á skólamálum. Það er ekki leiðin til þess að byggja upp hina fullkomnustu uppeldisstofnun að hrúga þar saman þúsund nemendum, þegar sundur slitna öll tengsl að heita má milli kennara, þ.e. uppalendanna og nemenda. En í skóla upp að 300 nemendum er hægt fyrir skólastjóra og kennara að hafa persónuleg áhrif á nemendurna og vera þeim stoð og stytta að því er snertir þroska þeirra og uppeldi. En allt hvað skóli verður stærri, en þetta og hefur nemendur á hinu erfiðasta aldursskeiði, þá fer lítt að gæta uppeldisáhrifa kennara og skólastjóra og þá missir einn skóli mikið. Ég fullyrði því, að lítill menntaskóli á Austfjörðum og Vestfjörðum mætti hafa mun verra kennaraliði á að skipa, en stór menntaskóli hér í Reykjavík, ef hann ætti að verða lakari fræðslu- og uppeldisstofnun, en sé þó enga ástæðu til að ætla annað en ötulum skólastjóra mætti takast að fá þangað jafnhæfa menn og hingað.

Þá kemur að hinu: Er nokkur þörf fyrir Vestfirðinga að fá menntaskóla? Eru til svo margir unglingar í þessum litla og fámenna landshluta, sem ljúka miðskólaprófi og eiga þar með rétt á því að hefja menntaskólanám, að það svari til ársbekkjar í menntaskóla? Og þessu er til að svara, reynslan sýnir það, að það er ekki undir 20 nemendum, sem á ári hverju fara af Vestfjörðum í menntaskólana í Reykjavík og annars staðar á landinu til þess að hefja stúdentsnámið. Héraðsskólar og gagnfræðaskólar á Vestfjörðum hafa á undanförnum árum útskrifað svo marga nemendur með landsprófi, að það er fyllilega efni í eina ársdeild menntaskóla, t.d. með 20–25 nemendum. Auk þess er það nú mín reynsla, að skóli fær, ef hann hefur ekki á sér bókstaflega óorð, alltaf á ári hverju aðsókn af nemendum úr öðrum landshlutum einnig og ég álít það hollt, að nemendur skiptist þannig á og jafnvel unglingur úr Reykjavík setjist á skólabekk við menntastofnun utan Reykjavikur á einhverju skeiði ævi sinnar.

Auk þess er það mín sannfæring, að það muni ekki líða mörg ár, þangað til við bætist héraðsskóli á Vestfjörðum, þ.e.a.s. héraðsskóli á Reykhólum í Barðastrandarsýslu. Ég er alveg sannfærður um, að það er eitt af málunum, sem að kallar að leysa og er réttlátt og hagstætt fyrir þjóðina að leysa, að koma upp héraðsskóla á Reykhólum, svo að þeir yrðu tveir á Vesturlandinu, Reykholtsskóli og héraðsskóli á Reykhólum. Þeir eiga því áreiðanlega fyrir sér frekar að fjölga, héraðs- og gagnfræðaskólarnir á Vestfjörðum, en frá slíkum skólum komast nemendurnir í menntaskólana.

Ég skal nú ekki þreyta miklu lengra mál um þetta, aðeins geta þess enn einu sinni, að gagnfræðaskólinn á Ísafirði fékk fyrir mörgum árum heimild til þess að kenna sínum nemendum námsefni 1. bekkjar menntaskóla og það varð til þess, það er mér fullkunnugt um, að nokkuð margir unglingar, sem annars höfðu ekki efnahagslega aðstöðu til þess að fara út í langskólanámið, hófu þá nám í þessari byrjunardeild og reyndu síðan að klifa þrítugan hamarinn til að geta haldið þessu námi áfram til stúdentsprófs og hafa síðan orðið nýtir og góðir embættismenn, sem þjóðin hefði ekki fengið sem starfsmenn sína á því sviði, ef þessi litla byrjun hefði ekki verið gerð. Að því kom svo eftir nokkur ár, þó að menntaskólinn á Akureyri og síðar menntaskólinn í Reykjavík viðurkenndu prófið frá þessari deild, að hún fékk ekki ráðherraleyfi til að starfa lengur. Sá menntmrh., sem þá kom, felldi heimildina niður. Og svo liðu nokkur ár. En fyrir þrábeiðni og margendurteknar, ákveðnar, þungar kröfur Vestfirðinga um, að deildin fengi aftur að taka til starfa, þá veitti núv. hæstv. menntmrh. gagnfræðaskólanum á Ísafirði heimild til að hefja þessa 1. bekkjar kennslu menntaskóla að nýju, og hefur sú deild starfað fram á þennan dag. En þetta er Vestfirðingum ekki nóg. Þeir vilja fá menntaskóla, sem hafi að lögum heimild til að brautskrá stúdenta, svo að efnilegir unglingar í landsfjórðungnum geti lokið sínu stúdentsprófi þar heima og þurfi ekki að fara burt úr sínu byggðarlagi, fyrr en háskólanámið tekur við.

Ég hef hér rætt um þörf Vestfirðinga fyrir að fá þessu máli framgengt. Ég hef rætt um rétt þeirra til þess, og ég hef rætt um það, hvaða grundvöllur sé fyrir nemendamateríali í slíkan lítinn menntaskóla og ég held, að ekkert af þessu verði véfengt, allt þetta sé fyrir hendi.

Ég vil ekki ljúka máli mínu án þess að hafa enn þá uppi einu sinni ummæli Sigurðar heitins Guðmundssonar skólameistara á Akureyri, sem hann lét falla við skólaslit 1928, þegar hann var að útskrifa sína fyrstu nemendur sem stúdenta. Hann sagði:

„Menntaskólarnir mega ekki allir vera á einum stað. Menningarblóðið þarf að streyma um allar æðar þjóðlíkama vors.“

Það var hans skoðun. Og það er skoðun flestra nú, að það hafi verið óréttmætt að berjast eins og barizt var gegn menntaskóla Norðlendinga. Eða hver er sá, sem telur, að það hafi verið óheillaspor, er nokkur nú, sem vill halda því fram, að það hafi verið meira gæfuspor fyrir þjóðina að kasa öllum menntaskólum saman í Reykjavík? Ég hygg ekki. Ég held, að menn séu sammála um, að það var gæfuspor, að Norðlendingar fengu sigur í sínu skólamáli. Er nokkur, sem telji það ógæfuspor að hafa stofnað til menntaskóla í sveit og vilji enn halda því fram, að þeir hefðu allir átt að vera í Reykjavík? Nei, ég held ekki. Ég held, að það sé alveg auðsætt mál, að það er affarasælast fyrir þjóðina, að menntunaraðstaðan fyrir ungt fólk sé gerð sem jöfnust og það sé rétt stefna, að það eigi að vera menntaskóli til í öllum landsfjórðungum.

Nú hefur þetta mál verið flutt alveg í upphafi þings og ég vil treysta því, að hv. n., sem fær málið til meðferðar, afgreiði þetta mál á eðlilegum tíma, grandskoði það að vísu, en leggist ekki á það til þingloka, heldur láti málið koma hér til umr. á Alþingi, svo að hv. alþm. gefist kostur á að sýna afstöðu sína til þess, fella það þá einu sinni enn, ef það er þeirra sannfæring, að þeir geri rétt með því, heldur en láta það nú enn þá einu sinni veslast upp í n., en það er meðferðin, sem þetta mál hefur sætt í átta skipti og er nóg. Ég treysti því, að hv. menntmn. láti málið ekki liggja hjá sér óafgreitt til þingloka og það fái þinglega meðferð, sem það hefur ekki fengið til þessa.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr., þegar þessari umr. lýkur, og til hv. menntmn.