12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það virðist svo, að það séu allir sammála um, hversu mikla þýðingu menntun hefur, ekki bara fyrir einstaklingana, heldur fyrir þjóðfélagið í heild. Menn eru víst sammála um það, að sú þörf fer sívaxandi, að sem flestir njóti menntunar og allir eru sammála um, að þjóðinni sé það fyrir beztu. Ég er meira að segja svo bjartsýnn að trúa því, að það verði ekki margir áratugir þangað til það þykir sjálfsagt mál, að öll ungmenni landsins stundi menntaskólanám. En ef menn eru nú svona sammála um þýðingu menntunar, geta menn þá ekki líka orðið sammála um, að það verði að skapa mönnum sem jafnasta aðstöðu í landinu til þessarar menntunar? Á að halda áfram að segja við ungmenni á Vestfjörðum og Austurlandi: Farið þið til Reykjavíkur, farið þið til Akureyrar, farið þið til Laugarvatns? Er þetta jafnrétti? Er réttmætt að segja þetta við íbúa þeirra landshluta, sem enn hafa ekki fengið menntaskóla? Ef þetta væri réttlæti, mætti alveg eins segja við Reykvíkinga; Akureyringa, Sunnlendinga: Farið þið í menntaskóla austur á Eiðar eða vestur á Ísafjörð. En auðvitað segir það enginn og það á ekki að segja það heldur. Þéttbýlið á að fá að hafa sína menntaskóla, tvímælalaust. En heilum landshlutum, sem enga menntaskóla hafa, verður ekki með neinu réttlæti neitað um þá lengur.

Allir vilja, að ungmennin menntist. Menn segja við þau: Farið í skóla. — En skólarnir eru yfirfullir og að segja þeim að fara í yfirfulla skóla er ekki til neins. Það er hægt að segja við ungmennin: Stundið þið menntaskólanám, — en að segja jafnframt: Þið fáið engan menntaskóla í ykkar landshluta, — það er ekki réttmætt.

Þeir, sem vilja í raun og veru jafnrétti, þeir, sem vilja réttlæti í þessum málum, hljóta að samþykkja þetta frv. um menntaskóla á Ísafirði, og ég hef ekki heyrt í þeim umr., sem fram hafa farið á undanförnum þingum, nokkur rök fyrir því, að það eigi ekki að reisa þennan skóla. Það er þegjandi þumbazt við og málin svæfð í nefnd þing eftir þing. En eins og hér var réttilega sagt áðan, biðlund Vestfirðinga er á þrotum og ég held, að hv. alþm. ættu að gera sér grein fyrir því nú, að hún er á þrotum. Það reynir á það enn einu sinni, hvaða vilji er fyrir því hér á hv. Alþingi að sýna í verki jafnréttishugsjónina í menningarmálum. Það er nefnilega ekki nóg að hafa um þetta falleg orð, það verður að koma fram í verki og eftir því bíðum við.

Það eru liðin 18 ár, síðan hreyft var þessu máli á Alþingi. Á ég að trúa því, að 19. árið eigi að bætast við, að Vestfirðingum sé neitað um þetta réttlætismál? Ætlar Alþingi í 9. sinn að svæfa málið? Væri það ekki rétt til minningar um Jón Sigurðsson að nota 20 ára afmæli lýðveldisins á Íslandi, endurreisnar lýðveldisins, til að stofna menntaskóla á Vestfjörðum? Ég held, að það væri í anda hans og mætti ekki seinna vera.

Ég vil strax við þessa 1. umr. leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh., hver er afstaða hans til þessa máls. Vill hann gera svo vel að láta í ljós við þessa umr., hvort hann vill styðja að því, að málið nái fram að ganga á Alþingi? Hann hefur sýnt áhuga til umbóta í menntamálum, það skal ég ekki af honum draga. En ég vil spyrja hann: Sér hann sér ekki fært að veita málinu nú stuðning, svo að það sé tryggt, að málið nái nú fram að ganga? Telur hann það jafnrétti eða réttlæti að neita Vestfirðingum einu sinni enn um þennan skóla? Og þar sem ég veit, að hann vill yfirleitt vel í þessum málum, þá vil ég spyrja hann, hvort hann finni nú ekkert til með fjölskyldunum á Vestfjörðum, sem ár eftir ár og áratug eftír áratug hafa orðið að gera annað af tvennu, að flytjast burt með börnunum til þess að geta komið þeim í menntaskóla eða neita þeim um þetta nám.

Ég skal ekkí hafa þessi orð fleiri, en ég trúi á það meir nú en áður, að þetta mál nái fram að ganga.