12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2414)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi koma hér á framfæri vegna ræðu hv. 5. þm. Vestf. Hann var, að mér fannst, í sinum skelegga og glögga málflutningi fyrir áhugamáli Vestfirðinga um menntaskóla með óþarfan tón, er var á þá leið, að það sæti illa á dreifbýlismönnum að styðja að því eða vera meðflm. að frv. um menntaskóla í Reykjavík. Ég vil ekki í frumflutningi máls hér á hv. Alþingi, að menn byrji á því að hafa slíkan tón í málflutningi, einkanlega þegar vitað er, að við, þeir sömu menn, sem þarna er aðeins ýtt við, þó að það skaði ekki, erum hjartanlega sammála þeim málflutningi og þeim till., sem þessi hv. þm. var að flytja hér, sem sannast bezt á því, að á síðasta þingi, þegar ég átti hér stutta viðdvöl, var ég eindreginn meðmælandi einmitt með menntaskóla á Vestfjörðum og einnig á Austfjörðum, þó að það mál dagaði uppi á því þingi. Ég lít líka þannig á, að hv. 1. flm., 5. þm. Vestf., hafi sannað í sínum málflutningi nauðsyn þess, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það sé brýn nauðsyn, að hér komi upp annar menntaskóli í Reykjavík. Ég lít þannig á, að það sé einmitt ágætt, að þm., hvar sem þeir eru búsettir á landinu, jafnvel þó að þeir séu búsettir í dreifbýlinu, fylgi og styðji þörf mál Reykvíkinga, alveg eins og ég tel eðlilegt, að Reykvíkingar styðji góð og þörf mál dreifbýlisins. Og ég get alveg eins verið meðmæltur nauðsynlegum skóla hér í Reykjavík, eins og ég vænti, að hv. þm. Reykv. fylki sér og verði meðmæltir góðu akvegasambandi um Suðurland. Þetta er gagnkvæmt og á svo að vera, ef við ætlum að vinna saman í þjóðfélaginu og gera það bezta gagn, sem við getum.

Að lokum vil ég aðeins lýsa yfir því, að ég álít ágætt og sjálfsagt, að það verði unnið að því af fremsta megni, að það verði komið upp menntaskólum á Vesturlandi og Austurlandi. Og ég er líka þakklátur fyrir þá yfirlýsingu, sem hæstv. menntmrh. gaf hér áðan um það mál, sem ég er hér meðflm. að og kemur bráðum til umr., að það skuli þegar sjást fyrir endann á því, að úr því verði leyst.