12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. taldi, að ég hefði í framsöguræðu minni fyrir menntaskólafrv. Vestfirðinga haft í frammi dylgjur og brigzlyrði í sambandi við það frv., sem hann flytur um menntaskóla í Reykjavík. Ég held, að þetta sé ofsagt hjá honum. Ég talaði að vísu enga tæpitungu, en ég brigzlaði engum. Ég mótmæli því, að ég hafi brigzlað nokkrum og ég mótmæli einnig, að ég hafi haft í frammi nokkrar dylgjur í sambandi við það mál. Ég sagði hins vegar, að ég kynni illa við það, að því væri slegið stórt upp fyrir fólki úti á landsbyggðinni, að það væri verið að fara fram á, að menntaskólar í Reykjavík yrðu tveir, þetta væri ekki sannleikanum samkvæmt, þeir væru þrír og það væri verið að hreyfa því að byggja þann fjórða og þetta er sannleikur.

Er þetta bara frá blaðinu, að segja, að það sé farið fram á, að menntaskólar í Reykjavík verði tveir? Það gæti verið og þá væri hv. flm. alveg saklaus af því að hafa sett málið þannig upp. En svo er ekki. Í grg. hans segir, með leyfi hæstv. forseta: „Vegna þessara ástæðna,“ sem hann hefur áður talið, „þarf að fjölga menntaskólum í Reykjavík í tvo: Hann segir, að það sé bara einn hérna, þurfi að fjölga þeim í tvo, það sé ætlunin með frv. Það er ekki rétt, að það sé bara einn hér í Reykjavík. Þeir eru þrír, sem hafa rétt til að brautskrá stúdenta og það er verið að flytja frv. á þessu þingi um þann fjórða. Hér hef ég ekki farið með dylgjur. Þetta stendur svart á hvítu í grg. frv. og er villandi að mínu álíti fyrir hvern þann, sem les. Hins vegar er í hans grg. ákaflega vel rökstutt, hversu mikil þörf sé fyrir aukinn fjölda ungs fólks með stúdentsmenntun, því að hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Breyttir þjóðfélagshættir auka þörfina á sérmenntuðu fólki til starfa í margvíslegum greinum. Batnandi þjóðarhagur byggist í paxandi mæli á því, að vísindi og tækni verði tekin í þjónustu atvinnuveganna. Þess vegna er nauðsynlegt að greiða fyrir því, að sem allra flestir eigi kost á að afla sér þeirrar menntunar, sem nauðsynleg er til að geta orðið virkur þátttakandi þessarar framtíðaruppbyggingar.“

Um þetta er ég honum algerlega sammála og tel því, að það skjóti rökum undir fjölgun menntaskólanna um landið og affarasælast sé, að þeir séu reistir í öllum landshlutum.

En það, sem ég vildi sérstaklega að fram kæmi í minni framsöguræðu, var engin barátta á móti nauðsynlegum menntaskóla í Reykjavík. Ég vil bara, að það sé sagt satt frá því, að þeir eru þrír fyrir og verið að biðja um þann fjórða, meðan enginn er kominn á Austfjörðum og Vestfjörðum. Og ég taldi, að það væru litlar líkur til þess, en það getur verið, að það sé annað mat hv. þm., — ég taldi, að það væru litlar líkur til þess, að það yrði ráðizt í byggingu menntaskóla í Reykjavík, menntaskóla á Vestfjörðum og menntaskóla á Austfjörðum í einu og sagði: þá kemur til þess að meta, hvað eigi að sitja í fyrirrúmi. Og ég taldi, að réttlætiskrafa Vestfirðinga væri sú og Austfirðinga, að þar væri byrjað, áður, en bætt væri við þeim fjórða í Reykjavík. Þetta er mín málstúlkun og ég held, að hv. þm. hafi eins og aðrir þm. skilið þetta. Ég var ekki að berjast á móti því, að það yrði bætt við þeim fjórða í Reykjavík, en taldi rangt að gera það, áður en Vestfirðingar og Austfirðingar fengju sína litlu menntaskóla. Ég hef sem sé ekki trú á því, að það verði ráðizt í þetta þrennt í einu. Spurningin væri, hvað væri nr. 1, hvað nr. 2, hvað nr. 3. Og þó að hann sé, hv. 11. þm. Reykv., málsvari fyrir Reykvíkinga, sem hafa þessa aðstöðu, sem ég hef hér gert grein fyrir og allir vita, þá hygg ég, að hann finni á sér, verði að játa það, að það er rangt að ætlast til þess af Austfirðingum og Vestfirðingum að bíða, þangað til búið er að bæta fjórða menntaskólanum við hér í Reykjavík, og má þá hver kalla það fjandskap við Reykvíkinga af minni hendi. Þessu sjónarmiði held ég fram og held, að það hafi nokkuð til síns máls.

Svo kom hæstv. menntmrh. og gerði grein fyrir því, hvaða aðgerða væri von í menntaskólamálum. Og það var ekki aldeilis nr. 1 hjá honum menntaskóli fyrir Vestfirðinga og Austfirðinga. Nei, það var bara tilkynning um það, að hæstv. ríkisstj. væri búin að ákveða, að það yrði byggður nýr menntaskóli í Reykjavík, sá fjórði og bygging yrði hafin næsta vor. Ég vil nú vona, að það fari ekki eins og með gatið gegnum Strákafjallið um þetta ráðherraloforð. En sem sé, það er ákveðið, það skal byggjast nýr menntaskóli í Reykjavík, nr. 2 að stækka menntaskólahúsið á Laugarvatni, nr. 3 er að játa nauðsyn þess, að menntaskóli rísi á Vestfjörðum og Austfjörðum, — játa nauðsyn þess, það var engin tilkynning um, að það yrði gert eða ég skildi það ekki þannig, því miður. Þetta er ætlun hæstv. menntmrh., ef hann mætti ráða þróun málsins. En það er Alþingi, sem á að marka hér stefnuna, og ef Alþingi telur fært að ráðast í menntaskólabyggingu í Reykjavik og á Austfjörðum og Vestfjörðum í einu, þá skal ég ekki amast við því, enda tjóar það lítið. Þegar ríkisstj. er búin að taka ákvörðun um það og ætlar sér að byrja að byggja næsta vor, þá verður hitt að gerast, ef okkar mál á ekki að verða sett til hliðar. Og það er það, sem ég sem málsvari fyrir menntaskólamáli Vestfirðinga vil ekkí una við og tel ekki byggt á réttlæti.

Svo kom hér hv. 4. þm. Sunnl. og kvartaði undan því, að það hafi verið óþarfur tónn í minni ræðu. Já, það má vel vera, að menn skilji það ekki. Það eru 18 ár síðan ég í fyrsta sinn flutti frv. um menntaskóla Vestfirðinga, það eru 18 ár og ég játa það, mér er margt skár gefið, en þolinmæði. En það má hver lá mér það sem vill, að þolinmæði mín í þessu máli skuli vera þrotin eftir 18 ár, engin von kannske til, að hv. þm. skilji það. En svo mikið er víst, að ég vék ekkert að því, að það hefði verið illa ráðið, að Sunnlendingar hefðu fengið sinn menntaskóla. Ekki gerði ég neina tilraun til þess að draga skóinn ofan af þeim eða þeirra rétti og ekki skal ég heldur hamla gegn því, að stækkaður verði menntaskólinn á Laugarvatni, bætt aðstaða hans, það hefði mátt gera fyrr.

Ég held, að ef menn vilja líta raunhæft á þessi mál, þá verði hv. alþm. á þessu þingi að skera úr um það, hvað þeir telji sanngjarnt og réttlátt og mest aðkallandi að gera í menntaskólamálum á þessu þingi. Og það er á þeirra valdi að ákveða, hvort sú röð, sem hæstv. menntmrh. hefur tilkynnt hér, verður á þessum framkvæmdum eða hvort henni verður snúið við og það, sem hann impraði á sem þriðju leið, þ.e.a.s. menntaskóli á Vestfjörðum og Austfjörðum, yrði kannske nr. 1. Ég held, að allmörg réttlætisrök hnigi undir, að þingheimurinn geri það.

Ég skal aðeins í tilefni af orðum hæstv. ráðh. segja það, að mér hitnaði í hamsi á síðasta þingi, þegar það var hans till., að í viðbót við 3 menntaskóla í Reykjavik yrðu byggðar hér heimavistir handa æskufólkinu af Vestfjörðum og Austfjörðum. Það fannst honum við hæfi þá. En nú segir hann að vísu, að það sé eðlilegt, að það verði byggðir menntaskólar á Vestfjörðum og Austfjörðum og tel ég það tiI bóta. En mér fullnægði það ekki í fyrra að heyra þessa till. hans um heimavistarbyggingar í Reykjavík fyrir unga fólkið af Vestfjörðum og Austfjörðum. Það fullnægir þeim ekki að fá hér byggðar verbúðir fyrir sig.