12.11.1964
Neðri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2416)

44. mál, menntaskóli Vestfirðinga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér þykir miður, að hæstv. menntmrh. er nú ekki viðstaddur. Ég hafði hugsað mér að taka svari hans hér og ég verð þá að gera það, án þess að hann sé við.

Ég held nefnilega, að það hafi gætt misskilnings hjá hv. 5. þm. Vestf. hér áðan, að það hafi falizt í ummælum hæstv. ráðh., að hann ætli að fara að hindra þetta frv. Ég spurði hæstv. ráðh. beint: Hvaða stuðning vill hann veita þessu frv.? Vill hann styðja það, að það nái fram að ganga? Og svar hæstv. ráðh. er það, að hann telji rétt, að það komi menntaskóli á Vestfjörðum og Austurlandi. Er þetta ekki jákvætt svar? Ég tek þetta sem yfirlýsingu hæstv. ráðh. um það, að hann ætli að styðja þetta frv., og ég vil þakka honum fyrir. Ég held, að þetta sé þess vegna á misskilningi byggt hjá hv. 5. þm. Vestf. Hæstv. ráðh. ætlar að styðja frv. okkar. (Gripið fram í: Ef það kemur til atkvæða.) Það kemur til atkvæða á sínum tíma auðvitað, og ég hef enga ástæðu til þess að rengja það, að hann ætli að styðja það. Það er ekki hægt að svara á þennan hátt, eins og hæstv. ráðh. gerði, ef hann ætlar ekki að styðja það.