10.11.1964
Neðri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2420)

46. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. hefur nú gert nokkra grein fyrir þessu máli og lýst því yfir, sem satt er, að sams konar frv. var flutt á síðasta þingi. Hann gat einnig um þær mikilsverðu breytingar, sem gerðar voru á jarðræktarlögunum á síðasta þingi og lögunum um landnámið,og hefur auðheyrilega fylgzt með því, sem þá var gert. En síðan síðasta þing leið, hefur farið fram hjá hv. þm., hvað hefur gerzt í þessum málum og hélt ég þó, að þeir, sem blöðin lesa og á útvarpið hlusta, vissu það, að ríkisstj. gerði á s.l. vori samkomulag við Búnaðarfélag Íslands um breytingu á jarðræktarl. og svo aftur í haust var gert viðbótarsamkomulag við fulltrúa bænda í 6 manna nefnd og því lofað, að flutt yrði frv. til nýrra jarðræktarlaga á þessu þingi. Búnaðarfélagið og landnámsstjóri hafa unnið að samningu þessa frv. og er því að verða lokið og má vænta, að það verði lagt fram hér í hv. Alþingi næstu daga. En hv. flm. hafa sennilega ekki gert sér grein fyrir því, að á þessu væri von og þess vegna hafa þeir endurflutt frv. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, en ég geri ráð fyrir því, að hv. flm. verði í aðalatriðum ánægðir með það frv., sem ríkisstj. flytur í samráði og samkomulagi við bændasamtökin og væntanlega kemur fyrir Alþingi bráðlega.

Það er vitanlega ekkert nýtt við það, sem hv. 1. flm. sagði hér áðan í sambandi við ræktunarmálin og landbúnaðinn. Það er það, sem við erum sammála um og vitum allir, að það er nauðsynlegt að rækta jörðina. Það er nauðsynlegt að auka ræktunina. Þessir 90 þús. ha., sem við nú höfum ræktað, eru fertugasti hlutinn af því landi, sem er ræktanleg, og það, er hv. þm. var að tala um, að það þyrfti að rækta a.m.k. 3 þús. ha. á ári til þess að hafa við fólksfjölguninni, það er náttúrlega það minnsta. Við höfum ræktað s.l. ár 4500 ha. og sennilega talsvert meira á þessu ári vegna breytinganna á l. á síðasta þingi og þegar nýju jarðræktarlögin eru komin í gagnið, gæti það enn ýtt undir ræktunina. Og það eru vitanlega sannindi, að það er fyrir þjóðfélagið í heild, sem ræktunin er gerð, og búskaparhættirnir eiga vitanlega eftir að breytast og þjóðin að framleiða meira af þeim vörum, sem borgar sig bezt að framleiða til útflutnings, frekar en það, sem síður borgar sig að flytja út. Er enginn vafi á því, að bændur munu hafa fullan skilning á því. Og það hefur verið svo, fyrr en nú, að það beri nauðsyn til að halda þannig á landbúnaðarmálunum, að ávallt sé framleitt nóg fyrir þjóðina. Það hefur verið svo fyrr en nú, segi ég og að gefnu tilefni, vegna þess að það er ekki nema stutt siðan ekki var framleitt nóg fyrir þjóðina. Það var um það leyti, sem hv. framsóknarmenn fóru frá völdum. Þá var ekki meiri glæsibragur yfir landbúnaðarframleiðslunni en það, að það þurfti að flytja inn smjör næsta ár á eftir. Aftur á móti hafa á þessu ári veríð flutt út 500 tonn af smjöri og þyrfti sennilega að flytja út meira, þannig að framleiðslan hefur vaxið nú síðustu árin, eftir að núv. ríkisstj. hefur setið að völdum og gert margs konar ráðstafanir landbúnaðinum til handa, sem hafa ýtt undir aukna framleiðslu, m.a. með því að tryggja fullt verð fyrir alla framleiðsluna, sem ekki var áður gert.

Mér þótti vænt um það, þegar hv. frsm. var að telja hér upp áðan þær vörur, sem hafa verið fluttar út. Það var ágætt, að hann gerði það, því að ég hef einhvers staðar heyrt það eftir honum haft, að útflutningstryggingin, sem landbúnaðurinn nú hefur, væri í rauninni harla lítils virði. En ég skal fyrirgefa hv. þm. þessi ummæli, vegna þess að það hefur verið sagt í athugunarleysi, það hefur verið sagt í fljótfærni. Það segir enginn, eftir að hafa hugsað út í málið og eftir að vita það, að útflutningstryggingin á s.l. ári gaf hverjum bónda til jafnaðar 25 þús. kr., því að það þýðir ekki að segja, að bændur gætu náð þessu verði án útflutningstryggingarinnar. Það var ekki hægt, áður en útflutningstryggingin varð til og það er því síður hægt nú. Enda kom það á daginn á s.l. ári, að það dró jafnvel nokkuð úr smjörsölunni, eftir að það hafði hækkað, þannig að bændur geta ekki náð fullu verði fyrir allar afurðirnar með því að hækka verðið á innlenda markaðinum. Það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að ganga langt í því efni.

Ég stóð ekki upp að þessu sinni til þess að halda hér neina stólparæðu. Ég sá tilefni til þess að vekja athygli á, að á næstu dögum verður flutt frv. til nýrra jarðræktarlaga, sem er byggt á samkomulagsgrundvelli við búnaðarsamtökin. Í aðalatriðum var þetta samkomulag gert á s.l. vori og til viðbótar því samkomulagi, sem gert var á s.l. vori, var gert samkomulag við fulltrúa bænda í 6 manna nefnd í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara s.l. haust. Og ég tel, að þegar við höfum fengið hin nýju jarðræktarlög, eins og ætlað er að þau verði, þá sé þessum málum nokkuð vel komið, a.m.k. í bili. Það er vitanlega alltaf hægt að flytja frv. og bera fram óskir um enn þá meiri leiðréttingar. En það er með þetta eins og annað, að það kemur ekki allt í einu og þó að nú verði sett jarðræktarlög, sem eru allgóð, þá er alls ekki loku fyrir það skotið, að það þyki ástæða til að breyta þeim og endurbæta aftur eftir nokkurn tíma. Og þegar var verið að ræða þessi mál á síðasta Alþingi, en þá voru gerðar hinar mikilsverðustu umbætur á jarðræktarlögunum, þá var því lýst yfir, að frekari heildarendurskoðun jarðræktarlaganna væri á næsta leiti, og það mun nú koma fram.