16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

55. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er auðséð, að það er ekki hægt að koma því inn í höfuðið á þessum hv. þm., 3. þm. Vestf., frekar en öðrum þeim, sem þetta frv. flytja, hvað þeir eru sjálfir að gera með því frv., sem þeir fluttu í fyrra. Hann er að tala um sannvirði í sambandi við þessar 4 millj. Allt frv. framsóknarmanna gengur út frá því, að þetta hlutafélag eigi áburðarverksmiðjuna og nú þætti mér vænt um, að einhver framsóknarmaður mótmælti þessu og þessi vitleysa, að þetta hlutafélag eigi áburðarverksmiðjuna, byggist á yfirlýsingu, sem landbrh. Framsfl., Hermann Jónasson, gaf fyrir um það bil 10 árum, að áburðarverksmiðjan væri eign hlutafélagsins, sem var mótmælt þá. Hér er lagt til að taka áburðarverksmiðjuna eignarnámi. Hvað þýðir að taka áburðarverksmiðjuna eignarnámi, ef það yrði viðurkennt, að það væri skoðað sem þetta hlutafélag ætti hana? Það þýðir að leggja fyrir hvort heldur það er hæstarétt eða þá dómkvöddu menn, sem þarna eru að dæma, hvers virði áburðarverksmiðjan sé. Áburðarverksmiðjan er núna talin vera milli 300 og 400 millj. kr. virði. Ef svo er litið á, að hlutafélagið eigi áburðarverksmiðjuna, þá eru 4 millj., 40% af hlutafénu, það er 10 millj. kr. hlutafé, þá eru 4 millj. í hlutafé þess virði, sem 40% af heildarverði áburðarverksmiðjunnar eru, og ef það er metið milli 300 og 400 millj. kr., þá gæti svo farið, að það yrði t.d. 140 millj. kr. virði. Þetta er tiltölulega einfaldur reikningur. Og það getur orðið hærra, en 140 millj. eftir nokkurn tíma, ef svona er haldið áfram.

Nú vil ég skora á hv. 3. þm. Vestf. að koma hér í ræðustólinn og lýsa því yfir, að það sé skoðun hans og mér þætti vænt um, ef hann gæti lýst því yfir, að það væri líka skoðun annarra framsóknarmanna, því að hann var 2. flm. þessa frv. seinast, að þessi áburðarverksmiðja sé ekki eign hlutafélagsins. Ég skora á hann að koma hér nú á eftir mér og lýsa því yfir, að það sé skoðun hans, að þessi áburðarverksmiðja sé ekki eign hlutafélagsins og taka upp þessi orð eftir mér. Ég skora á hann og hvern annan þann mann, sem flutti frv. Framsfl. hér í fyrra, að koma hér upp nú og gefa yfirlýsingu um það, að áburðarverksmiðjan sé ekki eign hlutafélagsins. En svo framarlega sem menn líta svo á, að hún sé eign hlutafélagsins og ef menn samþykkja, að hún kosti t.d. 350 millj. kr., þá eiga þessir eigendur þessara 4 millj. kr. í hlutafé kröfu á 40% af því. Og það geta vel orðið 140 millj.

Ég veit ekki, hvort mér hefur tekizt að koma þessu inn í höfuðið á hv. þm., en nú skora ég á hann að koma hér og lýsa því yfir, að það nái ekki nokkurri átt, að þessi áburðarverksmiðja sé álítin vera eign þessa hlutafélags upp á 10 millj. Ég endurtek áskorun mína til hans og vonast til, að hann komi hér nú upp á eftir mér.