17.11.1964
Neðri deild: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

56. mál, menntaskólar

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 63 hef ég leyft mér ásamt hv. 4. þm. Sunnl., Óskari Jónssyni, að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 58 frá 7. maí 1946, um menntaskóla. Frv. samhljóða þessu fluttum við á síðasta þingi, en það var þá afgreitt á þann hátt að vísa því til ríkisstj. samkv. till. meiri hl. hv. menntmn. þessarar d. með þeim rökstuðningi, að hæstv. ríkisstj. hefði ýmsar áætlanir á prjónunum um málefni menntaskólanna í landinu og m.a. sæti á rökstólum nefnd, sem hefði það hlutverk að endurskoða námsefni þeirra skóla. Þess vegna þótti ekki fært að samþykkja þetta frv., sem hér um ræðir og var því vísað til ríkisstj. að tillögu meiri hl. hv. menntmn.

Þegar þetta frv. var hér til umr. í fyrra, flutti ég um það allýtarlega framsöguræðu og ég get því nú að mestu leyti leyft mér að vísa til þess, sem ég þá sagði, enda eru ástæður í þessum málum lítt eða ekki breyttar frá því, sem þær voru þá. En ég vil þó leyfa mér við þessa 1. umr. að gera í örstuttu máli grein fyrir því, um hvað þetta frv. fjallar.

Frv. gerir ráð fyrir því, að 1. gr. laga um menntaskóla orðist þannig: „Menntaskólar eru 4, 2 í Reykjavik, 1 á Akureyri og 1 á Laugarvatni. Stofna skal auk þessa 1 menntaskóla á Austurlandi og 1 á Vestfjörðum, þegar fé er veitt til þeirra á fjárl. Kostnaður við stofnun og rekstur menntaskóla greiðist úr ríkissjóði.“ Og er engin breyting fólgin í því.

Samkv. gildandi menntaskólalögum er nú aðeins einn menntaskóli í landinu, Menntaskólinn í Reykjavík. Sá skóli er til húsa í gömlu menntaskólabyggingunni við Lækjargötu, sem nú er orðin yfir 100 ára gömul og var byggð fyrir latínuskólann þáverandi, sem hafði 60 nemendur. Nú eru nemendur í þessum skóla á 10. hundrað, og er því augljóst, að þetta gamla skólahús er þegar orðið allt of lítið fyrir þann skóla, sem þar er til húsa. Þess er auðvitað skylt að geta hér, eins og gert hefur verið áður, að nú hefur verið ráðizt í talsverðar viðbyggingar á menntaskólalóðinni. Þær eru að vísu ekki tilbúnar til notkunar, en senn líður þó að því. En enda þótt þær verði teknar í notkun, leysa þær ekki húsnæðisvandamál menntaskólans nema að mjög litlu leyti, þar sem þær eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir kennslustofur í sérgreinum, sem mjög mikill skortur hefur verið á við menntaskólann, eins og kunnugt er og ýmislega verklega kennslu, sem þar á fyrst og fremst að fara fram.

Til viðbótar þeim augljósu rökum, sem af því leiðir, að menntaskólahúsið er orðið of lítið, er það rökstuðningur okkar, sem flytjum þetta frv., að menntaskólinn sjálfur sé orðinn of stór, þ.e.a.s. þar séu orðnir of margir nemendur, það séu of margir nemendur í menntaskólanum, til þess að þeir, sem honum stjórna og þeir, sem þar kenna, geti haft eins náið samband við nemendurna og þarf að vera, til þess að beztu not fáist af kennslunni. Mér hefur verið tjáð af skólamönnum, að æskilegasta stærð slíkra skóla væru skólar, sem hefðu 300–400 nemendur. E.t.v. er hér of lág tala nefnd, en fæstir held ég ráðleggi stærri skóla en 500–600 upp á beztu nýtingu á kennslu, sem völ er á. Eftir þeim tölum og með hlíðsjón af því, að nemendur í menntaskólanum í Reykjavík eru nú þegar á 10. hundrað, eins og ég sagði áðan, þá er augljóst, að nú þegar eru not fyrir tvo menntaskóla hér.

Ég tel skylt að geta þess til þess að blekkja nú engan í sambandi við þetta mál, að hér eru tveir skólar í Reykjavík, sem hafa leyfi, annar samkv. lögum og hinn heimild frá ráðh., til þess að útskrifa stúdenta, þ.e.a.s. Verzlunarskóli Íslands og Kennaraskólinn. Verzlunarskólinn hefur á undanförnum árum útskrifað nokkra stúdenta á ári, 25 í fyrra. Kennaraskólinn hefur til þessa enga stúdenta útskrifað og þaðan er þess ekki að vænta, að nýir stúdentar komi fyrr en árið 1967 eða 1968, ég man ekki alveg, hvort heldur er. En báðir þessir skólar hafa fyrst og fremst öðru hlutverki að gegna. Þeir eiga að búa fólk undir verzlunarstörf og undir að taka að sér kennslu, og þeir stúdentar, sem þaðan útskrifast, eru nemendur, sem fyrst og fremst hafa lagt sig eftir verzlunar- og kennaramenntun, en hafa svo fengið heimild til þess að bæta við einu eða tveim árum til þess að öðlast stúdentspróf.

Þrátt fyrir þetta, sem vitanlega munar mjög litið um í þeim stúdentafjölda, sem héðan útskrifast árlega, teljum við, sem að þessu frv. stöndum, augljóst, að menntaskólunum hér þurfi að fjölga hið bráðasta í tvo. Enda eru þau gleðilegu tíðindi nú fyrir hendi, að hæstv. menntmrh. upplýsti hér fyrir nokkrum dögum, að þegar væri ákveðið að byggja annan menntaskóla í Reykjavík.

Undanfarin allmörg ár hafa verið starfræktir menntaskólar á Akureyri og Laugarvatni, eins og kunnugt er. Þeir eru starfræktir samkv. heimild í menntaskólalögunum, en sú heimild hefur fyrir lifandi löngu verið notuð og finnst mér a.m.k. full ástæða til þess að breyta lögunum með hliðsjón af þeim staðreyndum, sem fyrir hendi eru og að kveða fullum fetum á um það, að þarna séu menntaskólar. Hér er aðeins um formsbreytingu að ræða, en ekki efnis og ætti ekki að þurfa að vera neinn ágreiningur um það.

Undanfarin allmörg ár hafa borizt utan úr dreifbýlinu mjög háværar raddir um það, að nauðsynlegt væri að koma upp menntaskólum víðar, en þeir eru nú og sérstaklega hefur verið talað um Vestfirði og Austurland í þessu sambandi. Hér hafa áður í þessari hv. þd. farið fram nokkrar umr. um þörf þess að stofna menntaskóla á Vestfjörðum, og nú í dag var útbýtt á hv. Alþingi frv. um menntaskóla á Austurlandi. Þegar frv. um menntaskóla á Vestfjörðum var

hér til umr., voru dregin fram mörg mjög sterk rök því til stuðnings og ég vil lýsa því yfir í tilefni af þessum frv.-flutningi, sem hér um ræðir, að við flm. þessa frv. erum þeim fyllilega sammála, sem berjast fyrir því, að menntaskólum sé komið upp á þessum stöðum. Við teljum, að það sé undirstaða framtíðarþróunar á Íslandi, að sem allra flestir eigi kost á því að njóta langskólamenntunar og það sé ekki einungis gott, heldur beinlínis nauðsynlegt, að það geti orðið sem allra víðast og að skilyrði til menntunar séu sem allra jöfnust fyrir öll ungmenni, hvar á landinu sem þau eru búsett. Breyttir þjóðfélagshættir auka þörf okkar fyrir sérmenntað fólk til starfa í margvíslegum greinum. Vonir okkar um batnandi þjóðarhag byggjast í vaxandi mæli á því, að vísindi og tækni verði tekin í notkun í þágu atvinnuveganna og þess vegna teljum við flm. nauðsynlegt, að sem allra flestir eigi þess kost að afla sér þeirrar menntunar, sem til þess þarf.

Nú mætti kannske segja, að þar sem frv. hefði verið flutt um menntaskóla á Vestfjörðum og Austurlandi og þar sem yfirlýsing hæstv. menntmrh. lægi fyrir um það, að hafin skyldi bygging á nýjum menntaskóla í Reykjavík, væri þetta frv. óþarft. Ég tel þó, að svo sé ekki, a.m.k. ekki að því er snertir skólana á Vestfjörðum og Austurlandi, fyrr en lög um þá hafa verið samþykkt og ekki heldur menntaskólann í Reykjavik, enda þótt yfirlýsing frá hæstv. ráðh. liggi fyrir. Við flm. þessa frv. teljum, að það eigi að vera Alþingis að marka brautina í þessum efnum og satt að segja skil ég ekki þá tregðu, sem mér finnst koma fram hjá hæstv. menntmrh. í því efni að vilja ekki afla sér lagaheimildar til þeirra framkvæmda í menntaskólamálum, sem hann lýsir yfir að þegar séu ákveðnar. Ég held, að það ætti að vera svo í málefnum menntaskólanna eins og í öðrum fræðslu- og kennslumálum hér á landi, að það sé Alþingi sem markar stefnuna og þess vegna sé það ekki óþarft, heldur nauðsynlegt, að lagaheimildar frá Alþingi til þessara framkvæmda, sem hér um ræðir, sé aflað.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta hér við 1. umr., sérstaklega með skírskotun til framsöguræðu, sem ég hélt um sama málefni í fyrra, en leyfi mér að lokinni umr. að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.