26.11.1964
Neðri deild: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2440)

60. mál, endurálagning útsvars og tekjuskatts

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Frv. um sama efni og það, sem hér er til umr., frá okkur nokkrum þm. Framsfl. hefur legið fyrir hv. Alþingi í nokkrar vikur, án þess að nokkur afgreiðsla hafi á því fengizt. Og það sannast hér í þessu máli sem raunar öðrum, að það er talsvert langt á milli orða og athafna hjá sumum þeim mönnum a.m.k., sem við útkomu skattskrárinnar í sumar áttu tæplega nógu sterk orð til þess að lýsa vanþóknun sinni á því, sem þá hafði skeð og kepptust við að krefjast leiðréttingar á þeim mistökum, sem fram höfðu farið og allir viðurkenndu að fram höfðu farið. En þegar svo borin eru fram á Alþingi frv., sem ganga í þá átt að lagfæra þessi mistök, þá fást þau tæplega rædd og alls ekki tekin fyrir í þeim nefndum, sem þau þó seint og um síðir hafna hjá. Ég veit, að fólk mun yfirleitt vera furðu lostið yfir þessu skeytingarleysi, sem ríkir um skatta- og útsvarsmálin og undrast afstöðu þeirra stjórnarþm., sem skeleggast gengu fram í því í vor að krefjast réttlætis í skattamálum, en hafa nú setið í nærri 6 vikur á hv. Alþingi án þess að hreyfa legg eða lið til þess að knýja fram einhverjar úrbætur. Það má mikið vera, ef biðlund þeirra, sem loforðunum trúðu, þrýtur ekki senn, þegar svona er að farið. Hinum, sem varlegar treysta yfirleitt orðum stjórnarliða, bregður að vísu minna við, en samt held ég, að einnig þeir menn hafi vonað, að í þessu máli mundi ranglætið vera svo augljóst, að lagfæringar hlytu að fást. En á því er nú orðinn allmikill dráttur.

Þegar rætt var um þetta frv., frv. á þskj. 67, frá hv. 5. þm. Austf. og fleirum, fyrir viku, var ég, þegar þeim fundi var frestað eða málið tekið út af dagskrá, búinn að kveðja mér hljóðs til þess að segja hér örfá orð. Og þó að langt sé nú um liðið og sumt af því gleymt, sem ég ætlaði þá að segja, tel ég þó rétt að leggja hér nokkur orð í belg, en ég skal vera stuttorður, þar sem málið fer væntanlega til hv. fjhn., þar sem ég á sæti og gefst þá væntanlega tækifæri til þess að íhuga málið betur þar.

Eins og ég sagði áðan, höfum við nokkrir þm. Framsfl. flutt frv. til l. um lækkun skatta og útsvara einstaklinga á árinu 1964, frv. á þskj. 19. Aðalefni þess er í örstuttu máli í fyrsta lagi, að allur tekjuskattur lagður á einstaklinga á árinu 1964 verði lækkaður um 7 þús. kr. á hvern gjaldanda, en einstaklingstekjuskattur, sem lægri er en 7 þús., falli niður og í öðru lagi, að öll tekjuútsvör lögð á einstaklinga á árinu 1964 skuli lækkuð um 20%. Þegar ég hafði framsögu fyrir þessu frv. u.þ.b. fyrir mánuði og við framhaldsumr., sem fóru fram um það, tók ég, að ég held, mjög skýrt fram, að þetta frv., sem ég og fleiri flytjum, væri alls ekki eina leiðin, sem við teldum koma til greina til að lagfæra ástandið í skatta- og útsvarsmálum. Fyrir okkur var ekki aðalatriðið, að þessi leið yrði endilega farin, heldur hitt, að staðið yrði við loforðin, sem gefin voru í sumar um lagfæringu á opinberum gjöldum. Ég lét þess, að ég held, jafnframt rækilega getið, að við framsóknarmenn hefðum við meðferð skatta- og útsvarsmála í vor gert grein fyrir því, hvað það væri, sem við vildum í þeim mál-. um og við gerðum það með því að flytja brtt., sem ekki náðu þá fram að ganga. Þær brtt., sem við stóðum þá að og voru hér felldar af hv. meiri hl., voru aðallega þrjár, þ.e. að hækka persónufrádráttinn frá því, sem stjfrv. gerði ráð fyrir, fjölga skattþrepunum og taka upp umreikning miðaðan við vísitölu framfærslukostnaðar eða vísitölu verðlags og þjónustu eða einhvern annan þann mælikvarða, sem miðaður væri við lífsviðurværistilkostnað. Og það var þetta þrennt, sem við töldum nauðsynlegt að gert væri, þessar þrjár breytingar, til þess að útkoman úr skattadæminu yrði ekki fjarstæða, eins og sýndi sig verða, þegar brtt. voru ekki teknar til greina, heldur frv. stjórnarinnar knúið fram í óbreyttu formi.

Okkar afstaða til þessa máls er að sjálfsögðu óbreytt. Við teljum enn þá réttast að fara eftir þessum till., sem við sáum í vor, að einar mundu leiða til þess, að afskræming verðbólgunnar kæmi ekki fram við niðurjöfnun opinberra gjalda. En ég sagði í framsöguræðu, sem ég hélt um daginn, að ég teldi hæpið, að svona gagngerð endurskoðun fengist framkvæmd eða hún væri framkvæmanleg á þeim tíma, sem sú leiðrétting, sem hér þarf til að koma, kæmi að notum, því að augljóst er, að til þess að gagn verði að lagfæringunni, þarf hún að koma núna, en ekki einhvern tíma miklu seinna, eftir að fólk er búið að búa við ranglætið mánuðum og jafnvel árum saman með þeim stórkostlegu þrengingum, sem af því leiðir fyrir afkomu fjölmargra heimila. Þess vegna var það, að úrbótatill. okkar þm. Framsfl. voru fyrst og fremst hafðar einfaldar og óbrotnar, þannig að hver einasti sveitarstjórnarmaður gæti framkvæmt þær og reiknað samkv. þeim, eins og hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, tók réttilega fram hér um daginn. Það er vitanlega okkar skoðun, að betra sé heilt en viðgert. Vissulega hefði verið betra að taka till. okkar til greina í vor og leggja á samkv. þeim, eins og líka hefur komið á daginn, að nú vilja allir viðurkenna og þeir hæstv. ráðh. og aðrir þm. stjórnarliðsins, sem mest börðust gegn þessum till. okkar í vor, eru nú farnir að benda á sem einu leiðina til þess að ná réttlæti í þessum málum. En það er bara búið að missa það tækifæri að gera þetta rétt og búið að gera það rangt. Og þess vegna er um það að ræða nú að bæta úr á sem einfaldastan og óbrotnastan hátt því misrétti, sem hefur átt sér stað.

Hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, 1. flm. þess frv., sem hér er til umr., sagði í ræðu sinni um daginn, að frv. okkar framsóknarmanna væri of ónákvæmt, þannig að hann gæti ekki fellt sig við að framkvæma leiðréttingu samkv. því. Vegna þessara ummæla hef ég reiknað það út í þeim dæmum, sem hv. 1. flm. tekur um það, hver afslátturinn af sköttunum yrði og hef reiknað það út miðað við till. okkar framsóknarmanna á þskj. 19 og ég ætla að leyfa mér að greina frá þessum samanburði. Ég byggi þá á útreikningum hv. 5. þm. Austf., tel víst, að þeir séu réttir og hef lagt þá til grundvallar. Og þá verður samanburðurinn þannig:

65 þús. kr. tekjur: Einhleypur maður samkv. frv. Lúðvíks Jósefssonar afsláttur 1.455 kr., samkv. frv. framsóknarmanna 1.456 kr. Hjón með þessar tekjur samkv. frv. Lúðvíks Jósefssonar, hv. 5. þm. Austf., 758 kr., samkv. frv. framsóknarmanna 1.092 kr. Hjón með 1 barn í fyrra tilfellinu 1.351 kr., í síðara tilfellinu 930 kr. Hjón með 2 börn 1.884 kr. á móti 728 kr. Og hjón með 3 börn 2.721 kr. á móti 546 kr.

90 þús. kr. tekjur: Einhleypir 4.854 á móti 5.345. Hjón 1.457 á móti 2.274. Hjón með 1 barn 1.459 á móti 2.002. Hjón með 2 börn 1.637 móti 1.729. Hjón með 3 börn 1.959 á móti 1.456.

120 þús. kr. tekjur: Einhleypingar 9.249 á móti 11.458. Hjón 4.956 á móti 6.842. Hjón með 1 barn 4.361 á móti 5.266. Hjón með 2 börn 3.226 á móti 3.670. Hjón með 3 börn 3.345 á móti 3.094.

180 þús. kr. tekjur: Einhleypingar 18.372 samkv. frv. hv. 5. þm. Austf., 14.735 samkv. frv. framsóknarmanna. Hjón 14.847 á móti 14.189. Hjón með 1 barn 13.226 á móti 13.916. Hjón með 2 börn 11.606 á móti 13.643. Hjón með 3 börn 9.508 á móti 13.370.

Og að lokum 220 þús. kr. tekjur: Samkv. því frv., sem ég hef talið hér fyrr, þ.e. frv. hv. 5. þm. Austf., einhleypingar 20.086 móti 16.919. Hjón 18.551 á móti 16.333. Hjón með 1 barn 18.070 á móti 16.100. Hjón með 2 börn 17.349 á móti 15.827. Og hjón með 3 börn 16.372 á móti 15.554.

Þá hef ég gert grein fyrir þeim mismun, sem er á öllum þeim tilvikum, sem hv. 5. þm. Austf. tilgreinir í sinni grg. Og ég hygg, að þessi samanburður verði talinn sýna, að mjög litlu skeikar, þegar á heildina er litið. Það ber ákaflega lítið á milli þessara tveggja leiða, sem hér eru lagðar til. Þess er auðvitað skylt að geta, að öll þessi dæmi eru miðuð við útsvarsálagningu í Reykjavík, þar sem afsláttur var 9% frá stiga. En þess er þá enn fremur að gæta, að í flestum kaupstöðum landsins, að ég hygg, mun útsvarsstiginn hafa verið notaður yfirleitt mjög svipað og gert var hér, þannig að þegar á heildina er litið, mun að ég hygg, í langflestum tilfellum vera um það að ræða, að útsvarsstiginn sé notaður með mjög óverulegum frádrætti. En ég viðurkenni það fúslega, að í þeim tilfellum, þar sem sveitarfélög hafa notað minna eða miklu minna af útsvarsstiga, verður munurinn samkv. þessum tveimur till. að sjálfsögðu talsvert meiri. Og þá er það, sem að mínum dómi er eftir að meta, hvort sá galli, sem vissulega er á frv. okkar framsóknarmanna, að í þeim að ég hygg miklu færri tilfellum, þar sem lítið er notað af skattstiganum, þar verður mismunurinn nokkru meiri, hvort sá galli sé það stór, að menn vilji þess vegna hafna þeirri einföldu og óbrotnu leið, sem lögð er til í frv. okkar þm. Framsfl., hvort mismunurinn sé svo mikill, að þess vegna sé leggjandi í það að fara fram á heildarendurskoðun allra álaganna, sem vissulega mundi taka langan tíma eða hvort heldur ætti að fara hina einfaldari leiðina og geta þá fengið lagfæringuna fram strax. En eins og ég sagði hér áðan, tel ég, að þessi lagfæring þurfi að koma fljótt og sé raunar að verða um seinan, ef ekki verður undinn bráður bugur að því.

Hv. 5. þm. Austf. talaði um það ákvæði í frv. okkar framsóknarmanna, sem lýtur að því að láta fara fram sérstakar bókhaldsrannsóknir í tilefni af skattframtölum ársins 1963 og ég get verið honum alveg sammála um það, að það er vissulega miklu betra, að þau ákvæði séu fyrir hendi, þegar talið er fram, því að þau hindrandi áhrif, sem tilvist slíkra ákvæða og vitneskja manna um þau hefur, eru vissulega mikils virði. Engu að síður tel ég þó, að rétt sé að láta þessa aukarannsókn fara fram, þannig að enginn geti verið óhultur um það, að hans framtal gefi ekki tilefni til endurskoðunar eða verði ekki endurskoðað. En að sjálfsögðu er það meining mín, að þessi rannsókn komi á eftir rannsókn á þeim framtölum, sem tilefni gefa til grunsemda, því að vitanlega á fyrst og fremst að beina rannsóknaraugunum að þeim.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt hér að þessu sinni. Ég vænti þess, að þetta frv. komi til afgreiðslu í hv. fjhn. og að þar fáist, þegar þetta frv. bætist í hópinn, fljót og góð afgreiðsla beggja þeirra till., sem fyrir hv. Alþingi liggja um lagfæringu á þeim mistökum, sem áttu sér stað í álagningu skatta og útsvara á s.l. sumri.