26.11.1964
Neðri deild: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

60. mál, endurálagning útsvars og tekjuskatts

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Um það er ekki að villast, að hv. 11. þm. Reykv. og ég erum í öllum aðalatriðum sammála varðandi þörfina á því að breyta skattaálögunum á þessu ári — Það skiptir því miklu minna máli, að okkur greinir á um það, hvaða leið er tiltækilegust til að framkvæma þessa nauðsynlegu leiðréttingu og það er því í rauninni ekki nein þörf fyrir mig að gera hér margar aths. við það, sem hann sagði. Ég er honum líka sammála um, að það er fyrst og fremst þörf á því að koma fram þessum leiðréttingum fljótlega. Það skiptir í rauninni höfuðmáli. En það held ég, að væri hægt að gera, hvort heldur till. framsóknarmanna eða till. okkar Alþb.-manna væru lagðar til grundvallar.

Ég álít, að samkv. þeirri leið, sem bent er á með því frv., sem hér er nú til umr., frv. okkar Alþb.-manna, væri hægt að leiðrétta álögð gjöld á tiltölulega mjög skömmum tíma. Það er eins og ég sagði hér, þegar ég hélt mína framsöguræðu fyrir þessu máli, þegar því er slegið föstu, hvaða gjaldstigar eiga að leggjast til grundvallar, þá er tiltölulega fljótgert að reikna út gjöldin samkv. þeim framtölum, sem þegar liggja fyrir afgreidd. Þessi útreikningsvinna þarf ekki að taka langan tíma. Hitt vita svo allir, að ef á að taka hvert einstakt framtal og rannsaka það, gera á því breytingar og vinna að öðrum athugunum, þá getur það tekið mjög langan tíma.

Það, sem fyrst og fremst hefur skilið á milli í þessum till., till. framsóknarmanna og till. okkar Alþb.-manna er, að till. framsóknarmanna viðvíkjandi breytingum á álögðum útsvörum teljum við vera mjög ónákvæmar og að öðru leyti óeðlilegar. Þó að sá samanburður, sem hv. 11. þm. Reykv. gerði hér varðandi þá útreikninga, sem birtir eru í grg. með okkar frv., sýndi ekki mjög verulegan mun á till. þeirra framsóknarmanna og till. okkar, þá byggist það á því, sem hann vék líka að, að þar eru gjöldin hér í Reykjavík eingöngu lögð til grundvallar. En það er sem sagt staðreynd, að útsvörin hafa verið lögð á með þeim hætti, að það er mjög verulegur munur á, hvernig þau hafa verið lögð á á hinum einstöku stöðum í landinu. Í sumum kaupstöðum landsins var útsvarsstiginn samkv. lögunum lagður til grundvallar, en hann síðan hækkaður um nokkur prósent. Í öðrum kaupstöðum landsins var útsvarsstiginn samkv. l. lagður til grundvallar, en síðan veittur afsláttur, sem nam á milli 20 og 30%. Hér vitanlega skakkar því mjög miklu, og það sýnist því, að á sumum stöðum á landinu sé ekki ástæða til þess, þó að eigi að gera hér leiðréttingu á, að veita afslátt frá álögðum útsvörum, hreinlega ekki, því að það hefur verið áframhaldandi lækkun á stiganum á undanförnum árum, á sama tíma sem það hefur ekki verið á öllum stöðum. Ég veit líka, að hv. 11. þm. Reykv. er auðvitað ekki á móti þeirri leið, sem bent er á í frv. okkar Alþb.-manna, því að hann hefur áður lýst afstöðu sinni til þeirrar till. með því að standa að slíkri till., að hann játar, að þar er um tiltölulega réttlátan grundvöll að ræða. Það er aðeins þetta, að hann virðist hafa óttazt, að ef þessi leið yrði farin, tæki hún of langan tíma í framkvæmd, en það held ég, að sé misskilningur. Ég held, að það sé auðvelt að fá það sannað, að ef þessum gjaldstiga er slegið föstum, sé hægt að fá fyrirliggjandi og afgreidd framtöl reiknuð út samkv. hinum nýja skattstiga á mjög stuttum tíma. Spurningin er því einfaldlega sú, hvort sú leið, sem mörkuð er í þessu frv., er ekki réttlátari og nákvæmari en sú, sem lögð er til í frv. þeirra framsóknarmanna.

Ég verð svo að taka undir með honum og lýsa undrun minni á því, að þegar mál eins og þetta liggur hér fyrir til umr. eftir allt það, sem á undan er gengið í þessum málum, þá skuli maður ekki heyra eitt einasta orð frá ríkisstj. í málinu. Það er engu líkara, en hún telji, að allur þessi vandi sé þegar leystur, um hann þurfi ekkert frekar að tala og þessi mál megi ganga til n. og þar muni þeim verða borgið. Ég held, að hæstv. ríkisstj. verði að gera sér grein fyrir því, að svona auðveldlega sleppur hún ekki út úr þessu máli. Það er enginn vafi á því, að almenningsálítið í landinu krefst þess af ríkisstj., að gjöldin, sem á voru lögð, útsvör og skattar til ríkisins á s.l. vori, verði leiðrétt. Það eru öll rök, sem mæla með því, og það er ekki frambærilegt af ríkisstj. að ætla að skjóta sér undan í þessum efnum með þeirri afsökun, að það sé ekki hægt að koma leiðréttingunni við. Annað eins hefur verið gert og það er enginn vafi á því, að það er hægt að framkvæma þessa leiðréttingu. Spurningin er einfaldlega sú: Hvað á að leiðrétta hér mikið og er vilji fyrir hendi til þess að standa að þeirri leiðréttingu, sem menn hafa þó játað áður í umr. að væri sanngjarnt að framkvæmd yrði?

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða hér frekar um málið, en vænti þess, að málið fái eðlilega afgreiðslu í nefnd þeirri, sem fær málið til meðferðar.