17.11.1964
Neðri deild: 16. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

71. mál, menntaskóli Austurlands á Eiðum

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Allir 5 þm. Austurlands standa að þessu máli, þótt aðeins séu 4 flm., því að einn á sæti í hv. Ed., og það, sem ég segi hér um þetta mál, segi ég fyrir hönd okkar allra þingmanna af Austurlandi. Við höfum áður flutt sams konar frv., en það hefur ekki hlotið afgreiðslu, en nú viljum við mega vænta þess, að hv. deild fallist á að afgreiða frv.

Ég hygg, að skilningur sé vaxandi á því, að nauðsynlegt er, að öflugar menntamiðstöðvar komi upp í hverjum landsfjórðungi. Þetta mundi hafa stórfellda þýðingu til að styðja byggðina í fjórðungunum og verða eitt mikilvægasta skref til að vinna að auknu jafnvægi í byggð landsins. Það er áreiðanlega engu minna um vert, að menntastöðvar verði í öllum landshlutum, en hitt, að þar sé öflugt atvinnulíf. Þetta verður hvort tveggja að fylgjast að og haldast í hendur. Á þessari skoðun er flutningur okkar á þessu máli byggður.

Við viljum leyfa okkur að benda á, að skólaárið 1963–1964 var samtals við nám í Eiðaskóla 131 nemandi, í gagnfræðaskóla Neskaupstaðar sátu þá 79 nemendur og í unglingaskólum á ýmsum stöðum á Austurlandi stunduðu þá nám 200 nemendur. Í þessum landshluta voru þá sem sé rúmlega 400 nemendur á gagnfræðastiginu, en þó hefðu fleiri þurft að komast að, því að ýmsir af skólunum urðu að vísa nemendum frá vegna þrengsla, eins og t.d. Eiðaskóli og varð því æðimargt af unglingum á Austurlandi að leita sér gagnfræðamenntunar og undirbúningsnáms undir menntaskóla utan fjórðungsins. Við sjáum á þessu, að það er fjölmennur og fallegur hópur, sem stundar nám á gagnfræðastiginu á Austurlandi og sífellt vaxandi.

Þá er þess að geta, að þörfin fyrir menntaskóla í landinu vex hröðum skrefum. Vísindi verða í vaxandi mæli undirstaða alls atvinnulífs og þá þarf á fleiri vísindalega menntuðum mönnum að halda og fleiri þurfa að ganga í menntaskólana og það þarf ekki mikinn spámann til að sjá, að á næstu árum margfaldast tala þeirra ungmenna, sem þurfa að ganga í menntaskóla til undirbúnings vísindanámi. Það er því alls ekki hægt að miða við tölur ungmenna í menntaskólanum núna eða þá, sem sækja í menntaskólana núna, þegar menntaskólaþörf næstu framtíðar er metin. Hún verður miklu stórkostlegri, en flesta grunar nú.

Af þessum ástæðum sýnist okkur því eðlilegt og skynsamlegt að festa það í lög, að menntaskóli verði settur á fót á Austurlandi. Í fyrra og áður raunar — komu fram ýmsar mótbárur í þessu sambandi og það var bent á, að e.t.v. yrði ekki nægilega mikil aðsókn að slíkum skóla strax og voru færðar til nokkrar tölur. Ég hef farið gegnum umr., sem urðu, þegar verið var að setja á stofn menntaskóla á Akureyri og lítillega einnig athugað umr. um menntaskóla á Laugarvatni, þegar hann var að fæðast og þá sé ég, að nákvæmlega sömu rökum hefur verið beitt gegn stofnun þessara skóla og imprað hefur verið á undanfarin ár, þegar um hefur verið að ræða að setja á fót menntaskóla á Austurlandi. Það var óttazt, að aðsókn að menntaskólum á þessum stöðum yrði ekki nægilega mikil, það yrðu vandkvæði á að afla kennaraliðs og hafa kennsluna nægilega fullkomna og þar fram eftir götunum. En reynslan hefur sýnt, að kvíði manna í þessu hefur verið ástæðulaus. Nú er á Akureyri mjög myndarlegur menntaskóli og Menntaskólinn á Laugarvatni í góðum vexti. Við flm. teljum nokkurn veginn öruggt og raunar alveg víst, að sama mundi reynslan verða, ef stofnaður yrði menntaskóli á Austurlandi, þar mundi verða nægilegt verkefni fyrir slíka stofnun án tafar.

Ég hygg ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta mál og vil enda á því að láta í ljós sérstaka ánægju yfir þeirri yfirlýsingu, sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. nú fyrir nokkrum dögum, þar sem hann lýsti því yfir, að hann væri fylgjandi því, að stofnsettur yrði menntaskóli á Austurlandi. Við flm. fögnum sérstaklega þessari yfirlýsingu ráðh. og við vonum, að nú verði samkomulag um að gera þetta frv. að lögum.