08.12.1964
Neðri deild: 25. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

73. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt 5. þm. Austf. (LJÓs) og hv. 10. landsk. þm. (GeirG) frv. til laga, sem felur í sér tvennt: Í fyrsta lagi að fella l. nr. 33 frá 3. nóv. 1915, um verkfall opinberra starfsmanna, úr gildi. Og í öðru lagi að fyrirskipa sérstakar ráðstafanir í sambandi við nokkrar einstakar starfsgreinar og samninga um verkfallsrétt í þeim, sem ég mun nánar koma inn á á eftir.

Lögin um bann við verkföllum opinberra starfsmanna eru bráðum orðin 50 ára gömul. Þessi lög voru þrælkunarlög, þegar þau voru sett. Þau voru sett á tíma, þegar það var alveg sérstök kúgun gagnvart starfsmönnum ríkisins, sem kom fram í því, að þau voru sett þá. Verkalýðshreyfingin var sjálf að byrja þá að hreyfa sig alvarlega gegn dýrtíðaröldunni, sem þá var að rísa vegna stríðsins og þessi lög voru þá sett til þess að hindra opinbera starfsmenn í því að geta fengið nokkrar endurbætur á sínum hag. Síðan er nú brátt liðin hálf öld og hafa orðið á þeirri hálfu öld meiri þjóðfélagslegar breytingar í okkar þjóðfélagi en á meir en þúsund árum áður, þjóðfélagið svo umskapað, að gersamlega er ólíkt því, sem þá var. En þessi lög hafa verið látin standa. Þau hafa orðið þarna eins og steingervingur, sem heldur enn þá í fjötrum þeim réttindum, sem opinberir starfsmenn eiga eins og aðrir launþegar að hafa.

Það var lítið um baráttu gegn þessum lögum, þegar þau voru sett. Það var Guðmundur Björnsson landlæknir einn svo að segja, sem barðist gegn þeim og greiddi atkv. gegn þeim. Hann sagði þá um þau, að þau væru svo ófrjálsleg, að þau mundu flekka íslenzka löggjöf. Og þessi blettur á íslenzkri löggjöf hefur haldizt síðan. Á þessum tíma, sem liðinn er, hafa sambönd opinberra starfsmanna risið upp og sérstaklega nú á síðustu árunum orðið mjög sterk og voldug og samhuga. Þau hafa á undanförnum áratug hvað eftir annað krafizt þess að fá þennan verkfallsrétt, sem öll launþegasamtök í landinu annars hafa. Og ég álít nú tíma til þess kominn og við, sem flytjum þetta frv., að það verði orðið við þessari kröfu.

Það gerðist allstór breyting í þessum efnum, þegar lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru sett og út í það þarf ég ekki að fara, það er öllum hv. þm. enn þá svo í fersku minni. Það eru ekki nema tæp 3 ár síðan þau lög voru sett. En þegar þau lög voru undirbúin, voru í þeirri nefnd, sem falinn var undirbúningurinn, m.a. 2 menn, sem voru sérstaklega, vil ég leyfa mér að meina, sem fulltrúar opinberra starfsmanna. Það voru þeir Guðjón B. Baldvinsson deildarstjóri og Eyjólfur Jónsson lögfræðingur. Og þeir skiluðu sérstöku nál. eða réttara sagt útbjuggu sérstakt lagafrv. og í frv. til l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eins og það var lagt fyrir Alþingi 1961–62, er þetta lagafrv. þeirra prentað sem eitt af fskj. þríklofnaði og þessir fulltrúar bandalags opinberra starfsmanna voru þar tveir saman um þá kröfu, að opinberir starfsmenn fengju þá þegar verkfallsrétt og í þeirra frv. að kjarasamningunum fólst það, að eftir öll þau stig, sem samningarnir gengju í gegnum í hvers konar nefndum og sáttanefndum og öðru slíku, þá skyldu þeir þó að lokum hafa rétt til verkfalls.

Þeir sóttu sína fyrirmynd alveg sérstaklega í þau lög, sem nýlega höfðu verið sett í Noregi 1958 og um þau lög segir í þeirra grg., sem ég ætla að leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, — þar segja þeir um þessi norsku lög:

„Verður með þeim lögum sú breyting á, að nú ber ríkisvaldinu og samtökum ríkisstarfsmanna gagnkvæm skylda til þess að taka upp samninga um kaup og kjör samkv. kröfu frá öðrum hvorum aðila. Er ríkisstarfsmönnum með l. fenginn svipaður réttur til samninga um kaup og kjör og aðrar stéttir hafa á hinum frjálsa vinnumarkaði. Launalög eru úr sögunni og ríkisstarfsmenn fá verkfallsrétt, þó með undantekningum (öryggisþjónusta og æðri embættismenn). Tiltekin ágreiningsatriði skal úrskurða af gerðardómi og nákvæmar reglur eru settar um sáttaumleitanir. Þá er heimilt að skylda starfsmenn til þess að gegna stöðum sinum um þriggja mánaða skeið, þótt þeir hafi sagt þeim löglega upp, ef brottför þeirra úr starfi stofnar í hættu mikilvægum þjóðfélagshagsmunum.“

Þetta er það, sem þeir segja þarna um þau norsku lög, sem þá höfðu verið sett rétt áður, 1958 og þeir að nokkru leyti byggðu á sínar till.

Það kom alveg greinilega í ljós þá, að bandalag opinberra starfsmanna var mjög inni á þeim till., sem þessir, svo að segja, fulltrúar þeirra í n. voru með. Þegar hins vegar kom til þess að útkljá um þetta hér á Alþingi, þá varð það ofan á, sem hæstv. ríkisstj. þá hafði gert að sinni till., að opinberum starfsmönnum var veittur samningsréttur. Þeim var veittur réttur til að standa nokkurn tíma í samningum til að geta jafnvel greitt í félögunum atkv. um slíka samninga, til þess að geta þannig látið sínar skoðanir koma í ljós og þeir voru viðurkenndir sem samningsaðili gagnvart ríkisstj. Þetta var stórt spor fram á við frá því, sem áður hafði verið. Og eins og þá var komið, þegar ekki var nein von til þess að fá neitt annað í gegn, þá tókum við Alþb.-menn þá afstöðu a.m.k. flestir á því þingi, að við vorum ekki á móti framgangi þessa lagafrv., vegna þess að í því voru þó spor fram á við frá þessum þrælkunarlögum frá 1915, en hins vegar greiddum við flestir ekki heldur atkv. með því, vegna þess að við álítum, að opinberir starfsmenn ættu þarna meiri rétt og þyrftu að fá þennan rétt.

Stjórnarfrv. var síðan samþ. og eins og menn muna, kom síðan rétt á eftir til þeirra úrskurða, sem kjaradómur þá kvað upp. Menn muna kannske eftir því, að það var þó nokkur hækkun, sem fólst í því, þó að hún væri misjöfn og kæmi misjafnt niður og það sköpuðust þá vonir hjá ýmsum opinberum starfsmönnum og jafnvel fleiri um, að með þessari nýju leið þarna, kjaradómi án verkfallsréttar viðkomandi launþega, væri fundin ný leið til að gera launþega mjög ánægða með eins konar gerðardóma. Hins vegar leið ekki á löngu, áður en þær vonir, sem einhverjir hafa gert sér út af þeim úrskurði, urðu að frekar litlu, þegar frekari dómar voru kveðnir upp og ég held, að það sé óhætt að fullyrða það nú, að almennt hafi starfsmenn hins opinbera orðið fyrir miklum vonbrigðum af þessum lögum, sérstaklega vegna þeirra dóma, sem kveðnir hafa verið upp nú, upp á síðkastið í þeim málum, sem þeir hafa skotið til úrskurðar kjaradóms.

Því er nú komið svo, að meðal opinberra starfsmanna eru áreiðanlega sterkari og almennari kröfur um það, en jafnvel nokkru sinni fyrr og hafa þeir þó samþykkt þetta þing eftir þing hjá sér, á þingum BSRB, að fá nú fram fullan verkfallsrétt. Það eina, sem raunverulega bannar þessi verkföll, eru lögin frá 1915. Og það eina, sem gerir þau refsiverð, eru lögin frá 1915. Að vísu er, — ég vil taka það fram, vegna þess að í þessu frv. okkar tvímenninganna felst ekki nein breyt. á l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, — í 1. um kjarasamninga opinberra starfsmanna er aðeins í einni grein eitt orð, sem gæti í raun og veru skoðazt sem eins konar bann. Það er þetta í 21. gr.: „Dómur kjaradóms er fullnaðarúrlausn kjaradeilu.“ Það væri hægt að skilja þetta orð, „fullnaðarúrlausn“, þannig, að verkföll væru bönnuð. En þegar ekki er tekið sérstaklega fram, að þau séu bönnuð, þá er það hins vegar mjög hæpið að líta svo á. Og þegar þar að auki engin sektarákvæði eru í slíkum l., þá lít ég svo á og við, sem flytjum þetta frv., að með því að fella l. frá 1915 úr gildi sé raunveruleg heimild sköpuð fyrir opinbera starfsmenn til þess að geta gert verkföll. Það mundi ganga sinn gang, sem l. um kjarasamninga segja fyrir, en þegar kjaradómur hefur fellt sinn úrskurð, ef opinberir starfsmenn, fleiri eða færri þeirra félaga, vilja ekki sætta sig við það, þá er þeim opin leiðin til verkfalla og ekki hægt að koma við sektum eða refsivist eða neinu slíku gagnvart þeim. Þess vegna höfum við takmarkað þetta frv. aðeins við tvennt: Í fyrsta lagi að fella burt lög um verkfall opinberra starfsmanna frá 1915, lög, sem eru raunverulega um bann við slíkum verkföllum og þar eru sektir og jafnvel þyngri refsingar, sem við liggja. Ég held, að það sé ótvírætt tími til kominn, að slíkt sé gert. Og ég held, að það mundi aðeins verra hljótast af, svo framarlega sem farið væri að reyna að standa á móti þeim sterka vilja, sem kemur fram hjá opinberum starfsmönnum í þessu efni nú.

Ég vil sérstaklega benda yfirstétt og stjórnarvöldum á það, að það hefur venjulega þótt skynsamlegt af hverri yfirstétt að gæta sín í tíma, þegar hreyfingar hafa verið að vaxa hjá alþýðu manna. Og ég vil aðeins benda í því sambandi á eitt atvik, sem nýlega kom fyrir hér í Reykjavík. Það var, að menn í einum ríkisbankanum, allt starfsfólk í Útvegsbanka Íslands, gerði verkfall, gerði eins dags mótmælaverkfall, verkfall, sem ég býst við, ef farið væri eftir þessum lögum frá 1915, að væri ef til vill hægt að skoða ólöglegt, þó skal ég ekkert um það fullyrða. Það var ekki svo nákvæmt um mótmælaverkföll eða önnur slík í þeim, að það væri öruggt, að það væri hægt að koma því þar undir og þau lög hafa sjaldan verið notuð. En það er athyglisvert, að í einni ríkisstofnun, í einu starfsmannafélagi, sem lengst af hefur raunverulega verið sem maður mundi kalla ákaflega rólegt og spakt starfsmannafélag, skuli allt í einu svo að segja með engum fyrirvara vera hægt að gera algert verkfall án sérstakra heimilda í lögum, ef svo má segja og það með slíkri samúð í öllum bönkum landsins, að ég held, að það megi nokkurn veginn fullyrða, að ef ætti að fara að framfylgja einhverjum refsiaðgerðum t.d. gagnvart þessu starfsfólki, þá geti alveg eins orðið opinbert verkfall í öllum bönkum landsins.

Þegar vilji hjá almenningi, sem í hlut á, er orðinn svona sterkur, þá er það vísbending til allra viturra stjórnarvalda, að nú er tími til kominn að breyta um. Sú yfirstétt á jörðinni, sem sýnt hefur venjulega mest klókindi í því að kunna undanhald í tíma, er brezka yfirstéttin. Sú sama stétt, sem hafði fjórða hluta jarðarkringlunnar undir sínum yfirráðum, þegar þessi öld hófst, án þess að hafa hernaðarlegan styrk til þess að geta haldið þeim fjórða hluta niðri, hefur haft vit á því, þegar hún sá, að hún gat ekki lengur stjórnað þarna, að halda undan í tíma. Og það er það, sem ég vildi sérstaklega benda okkar stjórnarvöldum, okkar hæstv. ríkisstj. og okkar yfirstétt í landinu á, það er, að það er áreiðanlega tími til kominn að fara að halda undan á þessu sviði gagnvart opinberum starfsmönnum. Og ég held, að það væri einmitt góð byrjun að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, fella burt hótunina um refsivist, sektir og annað slíkt, sem felst í l. frá 1915, þessum 50 ára gamla steingervingi og láta sér ekki detta í hug að fara að beita því gagnvart opinberum starfsmönnum ríkisins. Og um leið og þau l. væru fallin úr gildi, mundi skapast mjög góður möguleiki til að ræða milli BSRB og hæstv. ríkisstj. um, hvaða háttur yrði hafður í framtíðinni og hvaða breytingar yrðu gerðar á l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

2. gr. okkar frv. kemur nokkuð inn á þá hluti og mælir svo fyrir, með leyfi hæstv. forseta, og hljóðar svo:

Ríkisstj. skal í samráði við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og stjórnir þeirra sérfélaga þess, er málið sérstaklega varðar, undirbúa frv. til l. um réttindi og skyldur starfsmannafélaga, er gegna þess háttar störfum, að framkvæmd þeirra varði líf og heilsu almennings. Skal frv. miða að því að tryggja rétt þessa starfsfólks til hagsmunabaráttu, eins og frekast samræmist öryggi um líf og heilsu almennings. Þegar samkomulag hefur náðst um slíkt frv. milli samtaka þessara og ríkisstj., skal leggja það fyrir Alþingi.“

Þessi gr. miðar þannig að því að tryggja, að teknir séu upp samningar á milli ríkisstj. annars vegar og hins vegar BSRB sem heildar og sérstaklega þeirra starfsgreina innan þess, þar sem í eru aðilar, sem hafa slík störf með höndum, að það mundi þykja eðlilegt, að um það giltu nokkuð sérstakir samningar, við skulum segja læknar, hjúkrunarfólk, slökkvilið og þess háttar. Og ég efast ekki um, að það mundi vera tiltölulega auðvelt verk fyrir hæstv. ríkisstj. og BSRB að ná mjög friðsamlegu samkomulagi um réttindi annars vegar og skyldur hins vegar þessa fólks. Við vitum það ósköp vel, að íslenzk verkalýðssamtök hafa yfirleitt háð sína launabaráttu þannig, að hún hefur verið með margfalt mildara hætti, en verkfallsbarátta yfirleitt tíðkast annars staðar í heiminum. Það hefur verið gengið svo langt í að reyna meira að segja að tryggja ýmis þægindi almennings, að jafnvel verkföll hafa oft og tíðum orðið verkamönnum sjálfum dýrari og lengri þess vegna og þau hafa alltaf færzt meira og meira í þessa áttina: leyfa mjólkurflutninga, leyfa sölu mjólkur og ýmislegt annað, sem almenningi sé nauðsynlegt eða bagi væri að vera án og það án þess að taka upp, eins og sums staðar er gert, stranga skömmtun mjólkur, aðeins handa ungbörnum, og slíkt, þegar verkföll eru, þannig að það er mjög greinilegt, að það hefur meir og meir skapazt sú hefð hjá íslenzkum verkalýðssamtökum að beita verkfallsvopninu ákaflega mildilega. Það hefur verið alveg sérstakur, svo að maður noti ensku orðin „fair play“ í þessum átökum og einmitt kannske þessi sérstaki háttur, sem orðið hefur þannig á stéttabaráttunni hér, hefur leitt til þess, að það hefur verið hægt að gera t.d. aðra eins samninga og þá, sem voru gerðir í júní s.l.

Það er þess vegna alveg gefið mál, að þótt opinberir starfsmenn væru að fá sinn verkfallsrétt nú, þá mundu þeir, eins mikið og þeir eru undir áhrifum þeirrar hefðar, sem skapazt hefur í launabaráttu íslenzkra verkalýðssamtaka, alveg tvímælalaust ekki síður vilja taka öll þau tillit, sem fært væri í sambandi við ekki sízt það, sem um er nú að ræða, líf og heilsu almennings, eins og í þessum greinum, sem ég nefndi, þannig að ég álít, að það væri mjög auðvelt verk að ná góðum og réttlátum samningum á milli ríkisstj. og starfsmannagreinanna um þessi efni, sem síðan yrði þá lögbundið á eftir, þegar samkomulag væri orðið þar um. Ég held, að það sé þess vegna einmitt sá rétti tími núna til að taka upp breytta hætti í afstöðunni milli ríkisvaldsins og hinna opinberu starfsmanna. Milli ríkisvaldsins og launþegasamtakanna ríkir nú, eins og ég gat um, meiri friðar- og sáttatilhneiging, en verið hefur um langan aldur, þótt það geti vissulega allt í einu rofnað aftur næsta vor, ef verkalýðssamtökin mæta skilningsleysi. En þeir samningar, sem gerðir voru í júní, gáfu okkur meira að segja vonir um, að þarna væri að verða veruleg breyting á. Og ég held, að nú einmitt í því vopnahléi, sem er til júní næsta árs, sé rétti tíminn fyrir okkur hér á Alþingi að reyna nú með friðsamlegu samkomulagi innan þingveggjanna að koma ýmsum þeim málum í rétt horf, sem við vitum að launþegasamtökin í landinu leggja mikið upp úr. Það er allt annað að eiga semja við samtök, t.d. eins og samtök opinberra starfsmanna, ef Alþingi sem fulltrúi ríkisvaldsins hefur að fyrra bragði sýnt sig í því að vilja ótilkvatt af þeirra hálfu beinlínis nú leggja sig fram um að taka visst tillit til gamalla krafna, sem þau hafa flutt. Allt slíkt gerir líka auðveldari alla samninga eftir á.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að þetta litla frv. mæti skilningi hjá hv. þm. og hjá hæstv. ríkisstj. og að því verði nú, þegar þessari umr. er lokið, vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn. og það megi í þeirri nefnd takast samkomulag um að reyna að afgreiða þetta frv. Við flm. erum náttúrlega ekki að gera kröfu til þess endilega í þeirri mynd, sem við leggjum það hér fyrir, en að aðalatriðið í því yrði samþykkt frá Alþingi nú. Ég held, að það væri verulegt framlag frá hálfu Alþingis til þess að reyna að skapa sem beztan anda og skapa sem bezta möguleika til farsælla lykta í þeim átökum, sem fram undan eru í okkar þjóðfélagi.