18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta

frv. er hingað komið frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ., eins og það liggur fyrir á þskj. 189. Breytingar þær, sem í frv. felast, frá núgildandi l. voru upphaflega tvær, en í Nd. bættist sú þriðja við.

Hin fyrsta er varðandi verðákvörðun verðlagsráðsins. Í núgildandi l. er sagt, að við verðlagsákvörðunina skuli miðað við markaðsverð afurðanna eingöngu, en í frv. er lagt til, að við verðákvarðanirnar skuli hafa hliðsjón af markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum svo og framleiðslukostnaði þeirra. Þetta ákvæði er fram komið vegna mjög eindreginna tilmæla frá fiskseljendum, bæði sjómönnum og útgerðarmönnum, sem telja, að of þröngt séu markaðir möguleikar verðlagsráðsins til verðákvörðunarinnar með orðalagi laganna, eins og þau eru í dag. Þetta hefur verið borið undir fiskvinnslustöðvarnar, sem hafa ekki viljað ljá samþykki sitt til þessarar breytingar, en það hefur þótt rétt samt sem áður að fara eftir óskum fiskseljendanna, bæði útgerðarmanna og sjómanna, í þessu efni.

Önnur breytingin, sem lagt er til að gerð verði á lögunum, er sú, að fastur oddamaður verði fyrir yfirdómi, ef til hans kemur, en að hann verði hvorki valinn með samkomulagi né tilnefndur af hæstarétti og þar með opnir möguleikar til þess, að sinn maðurinn í hvert skipti skipi þetta sæti. Það er talið, að meiri festa muni fást við verðákvörðunina, ef sami maðurinn skipar oddasætið frá ári til árs, en ekki komi sinn í hvert skipti sem verðákvörðun fer fram, eins og möguleikar eru opnir til að óbreyttum lögum. Það er lagt til í þessum breytingum, að efnahagsráðunautur ríkisstj. taki þetta sæti eða fulltrúi hans og verði það varanleg skipun á þeim málum.

Þriðja breytingin, sem gerð var í Nd., er um það, að kostnaðurinn við framkvæmd þessara l. verði framvegis frá 1. jan. 1966 greiddur úr

ríkissjóði, en ekki, eins og nú er, úr fiskimálasjóði.

Verðlagsráð er nú að koma saman til verðákvörðunar fyrir næstu vertíð og er þess vegna mjög nauðsynlegt, að þetta frv. nái fram að ganga sem allra fyrst, og áður en þinghléið hefst. Ég vildi því leyfa mér að óska eftir því við hv. n., sem málið fær til athugunar, sem væntanlega verður sjútvn., að hún hraði störfum og skili áliti um frv. sem allra fyrst, helzt á morgun, ef mögulegt væri. Um þetta mál varð nokkurn veginn samkomulag í hv. Nd., og ég vona, að það geti eins orðið hér í þessari hv. deild.

Ég leyfi mér því að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr og hv. sjútvn.