03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

83. mál, veiting prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir, hvað honum leizt vel á mína ræðu. Ég ætla aðeins að upplýsa hann um tvo til þrjá hluti í sambandi við það, sem hann veður í villu og svima.

Hvað snertir ríkisvaldið er það stefna kommúnismans að afnema ríkisval, og ef hv. þm. vill kynna sér þessa hluti dálítið nánar, þá skal ég gefa honum tækifæri til þess, láta hann fá bækur, sem hann getur lesið um þetta, þannig að hann standi ekki í þeirri meiningu, að þetta sé eitthvað nýtilkomið og sérstaklega hvað mig snertir persónulega hefur þetta alla mína ævi verið mín skoðun.

Svo kom hann inn á kristnina og ýmislegt, sem hún á skylt við sósíalisma og kommúnisma. Ég býst við, að hv. þm. muni það enn þá úr sinni kirkjusögu, að þeir frumkristnu söfnuðir innleiddu hjá sér kommúnisma, það var alger sameign hjá þeim og að Jesús frá Nazaret sjálfur boðar slíkt og er drepinn sem uppreisnarmaður. Og hvað sem prestar kunna að hafa gert úr honum á síðari tímum, verðum við að muna það, að í einmitt vissum kenningum, ekki hvað sízt bróðurkærleikskenningum kristindómsins og kenningu sósíalismans, eru atriði, sem alltaf hafa verið náskyld. Hvað svo sem einstakir aðilar kunna að meina um það, þá er þarna um að ræða atriði, sem eru skyld, bara vegna þess að hvort tveggja er upphaflega skapað af fátækum almenningi, sem er að berjast fyrir betra lífi hér á jörðinni og ekki bara hinum megin.

Svo kom hv. þm. seinast inn á spurninguna um skemmtanahald. Ég er honum algerlega ósammála þar. Menn eiga sannarlega að mega skemmta sér á hvíldardögunum og eins þó að einhverjir söfnuðir séu að halda sínar messur á þeim tíma. Það er engin ástæða til að banna mönnum slíkt. Vilji menn fara í leikhús eða eitthvað annað á slíkum tíma, þá er fjarstæða að banna það. Aðrir menn eiga líka að fá að hafa sinn rétt, rétt eins og kristnir menn hafa sinn rétt til að hafa sínar kirkjur og stunda sínar messur. Aðrir menn í þjóðfélaginu eiga líka að fá að hafa sinn rétt. Ef aðrir menn hafa áhuga á því að sjá fögur leikrit eða skoða falleg málverkasöfn eða annað slíkt, þá þyrfti slíkt að vera opið líka á þeim tíma, sem messur standa yfir. Ég álít meira að segja, að á sjálfum aðaldögum kristninnar ætti slíkt að vera mögulegt hér og ekkert að vera, að gera þá að sérstaklega leiðinlegum dögum þannig. Við skulum ekki fara í sömu fótspor og Englendingar með slíkt.

Ég vildi aðeins skjóta þessu rétt inn. Ég býst við, að það sé nú útrætt um þessi mál okkar í milli í svipinn. Ef frv. kemur aftur, ræðumst við kannske við.