03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

83. mál, veiting prestakalla

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að tala langt mál að þessu sinni, þar sem ræða hv. 2. þm. Norðurl. v. gaf ekki sérstakt tilefni til þess. Það var ekkert í henni, annað en það, sem stóð í greinargerð frv. efnislega. Hann færir þar sem rök fyrir því, að afnema ætti prestskosningar, að þær séu út af fyrir sig ekkert sérstakt lýðræði, því að menn, sem kæmust á kosningaaldur, eftir að prestur hefði verið kosinn og svo er presturinn í embættinu áratugum saman, þeir fengju aldrei tækifæri til að segja skoðun sína, hvaða prest þeir vildu hafa. Þetta er út af fyrir sig rétt. Hvað skeður, ef biskup og ráðh. skipa hann? Er nokkur trygging fyrir því, að sá prestur yrði skammlífari í embættinu en hinn, sem söfnuðurinn kýs? Ég skil það ekki.

Hv. þm. segir, að héraðsfundirnir sýni, að það muni vera á einhverjum rökum reist, að vaxandi óánægja sé hjá almenningi með prestskosningar. Héraðsfundir, hvað sýna þeir? Fyrst og fremst eru héraðsfundir fundir presta og ef einhverjir safnaðarfulltrúar hafa sótt þessa fundi, sem í hæsta lagi getur verið einn maður úr hverjum söfnuði. Hvað sýnir þetta um skoðanir almennings á prestskosningum? Og svo þegar farið er að telja saman, hvað kemur út úr þessum héraðsfundum, þá eru svörin sitt í hverja áttina, bókstaflega sitt í hverja áttina. Ég held ég muni það rétt, að það séu svör frá 4 aðilum með því að afnema kosningar algerlega, eins og hv. þm. er að mæla með, svo eru svör frá 2, sem vilja vísa málinu til safnaðanna í landinu, þvert á móti skoðunum hv. þm. Síðan koma enn þá 2 prófastdæmi, Kjalarnesprófastsdæmi og Reykjavík, þar sem fjölmennastur var héraðsfundurinn, sem mótmæla algerlega frv. eða því að afnema prestskosningar. Ja, hvað sýna héraðsfundirnir?

Hv. þm. nefnir það, að hann hafi ekki séð þessu frv. andmælt í blöðunum eða andmæli hafi verið lögð hér fram á lestrarsal gegn þessu frv. Það getur vel verið, að það hafi ekki verið gert, ég hef ekki rannsakað það mál. En hafa meðmæli komið? Eru þau einhvers staðar í blöðum, meðmæli með því, að prestskosningar skuli afnumdar, einhver skjöl á lestrarsal, sem mæli með því, að þær skuli afnumdar? Ég veit ekki til þess. Ætli þetta jafnist ekki hvort á móti öðru?

Hann drap á úlfúð, sem prestskosningar gætu stundum myndað í söfnuðum. Ég þekki það ekki. Það hefur engin úlfúð myndazt nokkurn tíma í söfnuðum, þar sem ég hef verið og prestskosningar hafa farið fram. En hafi þetta átt sér stað, þá er það út af fyrir sig slæmt. En ég held, að það þurfi minna, en prestskosningar til þess að mynda einhvern ágreining á milli manna, — ágreining, sem oftast nær gufar fljótt upp aftur, og þess vegna eigi ekki að afnema kosningarnar. Ég held, að það þættu harla lítil rök fyrir því. En hvað ef biskup og ráðherra eiga að skipa alla presta í landinu? Getur engin úlfúð skapazt út af því? Ætli engin óánægja gæti risið út af því, ef prestur yrði skipaður í eitthvert prestakall, þar sem söfnuðurinn hefur kannske viljað og látið í ljós skoðun sína um að fá annan ákveðinn prest og fær hann ekki? Eða er það sérstaklega í þágu kirkjunnar að fara þannig að?

Hv. þm. kom að kjarna frv. Hann lét í ljós þá skoðun sína, að yngri prestar, yngri menn, næðu kosningu, þegar þessar kosningar eru hafðar um hönd. Er það ekki voðalegt ! Það getur vel verið, að þetta sé rétt hjá honum. Ég efast um, að það sé svona alltaf, það getur oft orðið svona. Og ég minnist þess, að í kosningum hér í Reykjavík nú fyrir skömmu, þegar kosnir voru 6 prestar, þá voru sumir þeirra ungir menn, glæsilegir menn, frjálslyndir menn, sem náðu kosningu. Er þetta eitthvað að harma? Eigum við að afnema kosningarrétt manna til þess að svona menn komist ekki í embætti?

Hv. þm. segir, að menn eigi erfitt með að dæma milli umsækjenda. Ég held, að þeir eigi ekki svo erfitt með það, því að sá siður er fyrir þó nokkru upp tekinn meðal presta og prestsefna að halda guðsþjónustur í kirkjum safnaðanna, öllum kirkjum safnaðanna, áður en kosningar fara fram, einmitt til að kynna söfnuðum kenningar sínar og boðskap. Nei, það er sannarlega ekkert erfiðara í þessum efnum, en ýmsum öðrum að kynna fyrir kjósendum umsækjendur. Þeir færu líklega ekki að hafa fyrir því á eftir, þegar búið væri að afnema kosningarréttinn.

Hv. þm. vék að 6. gr. þessa frv., telur það merkilegt nýmæli og æskilegt, að tekinn sé upp sá siður að kalla prest, sem svo er nefnt í þessu frv. Og hann sagði, að það væri mjög æskilegt, ef söfnuðir kæmu sér saman um að kalla prest. Söfnuðir kæmu sér saman, það er aldeilis ekki meiningin í þessu frv. Ég er sammála hv. þm. um þetta, ef söfnuður kemur sér saman um að kalla prest, þá væri það mjög æskilegt. Það er bara ekki meiningin, að söfnuðurinn eigi að gera það, heldur örfáir kjörmenn, 6, 8 eða 10, það eru þeir, sem eiga að kalla án þess að spyrja söfnuðinn að því. Þar held ég, að pólitíkin gæti komizt að. Það er svo fyrirhafnarlítið að koma henni þar að. Nei, það er einmitt sá gallinn á 6. gr. frv., að það á að sniðganga söfnuðinn, það á ekki að láta hann ráða.

Hv. þm. nefndi það, að sú hefði verið tíðin, að prestar hefðu ekki verið kosnir, en kosningarrétturinn tekinn upp 1886, minnir mig að hann segði. En hvaða breytingar hafa orðið á íslenzkri kirkju einmitt á þessu tímabili, þessum 7–8 áratugum? Ég held, að íslenzk kirkja hafi svo að segja gerbreytzt. Við höfum nægar heimildir fyrir því, hvernig hún var áður og við vitum, hvernig hún er nú. Íslenzk kirkja er frjálslynd, hún er víðsýn, en hún hefur orðið það á síðari tímum. Hún hefur vaxið í þessum efnum, hún hefur vaxið í samræmi við vilja safnaðanna og þjóðarinnar, ekki fyrir boð ofan frá. Söfnuðirnir eiga að mínum dómi mikinn þátt í því, hvað íslenzk kirkja er frjálslynd. Það er ekki langt að leita eftir því, að þröngsýni og ofstæki brá fyrir hjá kirkjulegum yfirvöldum Íslendinga. Það gerðist meira að segja í mína tíð og líka í tíð hv. þm. Við þekktum sjálfsagt náðir kennimanninn sr. Harald Níelsson, sem að mínum dómi var langsamlega mesti kennimaður íslenzku þjóðarinnar allt frá því er Jón Vídalin leið. Hvernig var honum tekið af kirkjulegum yfirvöldum Íslands? Hann var einu sinni beðinn að tala yfir líki í dómkirkjunni hérna, en dómkirkjupresturinn lagði bann við. Ég skal taka fram, að það var ekki séra Bjarni Jónsson. Honum var það óleyfilegt, það var vanhelgun á kirkjunni. Það var einmitt sr. Bjarni Jónsson, eftir því sem mér er tjáð, sem bjargaði frá þessu hneyksli. Í annað sinn átti hann að halda erindi á synodus í dómkirkjunni líka, en þáverandi biskup Íslands neitaði honum um það og hann fékk það ekki. Við höfum ekki alltaf getað fagnað yfir frjálslyndi og víðsýni kirkjulegra yfirvalda, þó að við höfum átt marga góða og ágæta embættismenn þar.

Og ég skal segja þessum hv. þm., af hverju ég er á móti þessu frv. Það er af því, að ég geri mun á prestum, ég geri mun á boðberum, trúarskoðun þeirra, persónuleika þeirra, einkalífi þeirra. Íslenzka kirkjan hefur átt marga ágætis kennimenn, menn, sem hafa verið svo að segja brennandi vitar í þjóðfélaginu. En hún hefur átt afturhaldsseggi, sem hafa lifað í forneskju og þrumað yfir fólki kenningar liðins tíma, sem voru allt annað, en nokkur frjálslyndur maður gat sætt sig við.

Hér hefur verið borið saman, að fólk þurfi ekki frekar að kjósa prest en t.d. lækni. Nú vitum við, að árangur í starfi læknisins byggist fyrst og fremst á vísindum. Þekking hans og tæknikunnátta kemur öllum sjúklingum að svipuðum notum að öðru jöfnu, hver sem viðhorf sjúklingsins til læknisins eru. Ef ég er sjúklingur og leita læknis, þá skiptir mig engu máli, hvort ég þekki lækninn eða þekki hann ekki, hvort ég hef nokkurn tíma séð hann fyrr. Það skiptir mig litlu máli eða ég get réttara sagt látið mig það litlu skipta, hvaða lækningaaðferðir hann hefur, þó að ég þekki ekki þau lyf, sem hann notar, þó að ég viti ekkert um það, hvort það er réttmætt eða ekki réttmætt, að hann ætlar jafnvel að skera mig upp. Ég leita aðstoðar hans sem læknis í fullu trausti þrátt fyrir þetta allt. En leiti ég á fund sóknarprestsins í kirkju eða utan kirkju mér til andlegrar heilsubótar, þá fer árangurinn eftir því m.a., hvaða trúarskoðanir presturinn hefur, hver persónuleiki hans er, hvernig einkalíf hans er og annað af þessu tagi, hvort þetta er í samræmi við mig sjálfan eða í ósamræmi. Það er af þessum ástæðum, sem ég vil fá að kjósa prestinn. Ef presturinn ætti ekkert að gera nema skíra, ferma, gifta og jarða, þá léti ég mig þetta litlu skipta.

En af því að hann er annað og meira, þá læt ég mig það miklu skipta. Af því vil ég hafa frelsi til þess að velja og hafna. Ef um væri nú að ræða prest, sem væri þeirrar skoðunar, sem ég hef sannarlega haft kynni af um dagana, gegnsýrður af helvítiskenningu og hindurvitnum miðaldakirkjunnar, á ég þá að sækja hann mér til sáluhjálpar?

Þetta er grundvallarástæðan fyrir því, að ég vil fá að kjósa prest. Ég hef ekki gagn af þeim presti, sem er andstæður mér að öllu þessu leyti og hann er til einskis gagns fyrir mig og alla þá, sem mér eru líkir í söfnuðinum. Og þó að það kunni að vera miskunnarverk að veita einhverjum gömlum prestum kost á að fá betra embætti ,en þeir sitja í, þá er hitt meira virði, að vera í samræmi við söfnuðina, halda uppi víðsýnni, frjálslyndri kirkju, eins og hin íslenzka kirkja hefur í raun og veru verið í seinni tíð. Þetta er ástæðan fyrir því, að ég mun verða á móti þessu frv.