03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

84. mál, skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda

Frsm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Frv. þetta fylgir því máli, sem rætt var síðast og þarf að ganga fram, ef það frv. verður samþykkt, en er að sjálfsögðu þýðingarlaust, ef það frv. verður fellt.

Hér er gert ráð fyrir tveimur megin breytingum. Lagt er til, að sóknarprestar og safnaðarfulltrúar sitji fundi sóknarnefnda, en hafi ekki atkvæðisrétt og gert er ráð fyrir fjölgun sóknarnefndarmanna í fjölmennum prestaköllum í allt að 11 menn auk safnaðarfulltrúa og sóknarprests.

Menntmn. flytur þetta frv. samkv. ósk hæstv. kirkjumrh. og með venjulegum fyrirvara, þannig að nm. áskilja sér allan rétt um afstöðu til málsins. Það er sjálfsagt ætlunin samkv. þeim óskum, sem fram hafa komið, að bæði þessi frv. verði tekin til efnislegrar umr. í n., áður en málið kemur til 2. umr.