19.12.1964
Efri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Jón Arnason):

Herra forseti. Sjútvn. tók mál þetta til athugunar á fundi sínum, og eins og fram kemur í nál., mælir n. með samþykkt frv., en 3 hv. þm., 5. þm. Reykn., 6. þm. Sunnl. og 3. þm. Norðurl. v., áskilja sér rétt til þess að gera athugasemdir við einstaka liði frv.

Þær breyt., sem gerðar eru á gildandi l. um verðlagsráð, ef frv. þetta verður að l., eru í fyrsta lagi það, sem fram kemur í 1. gr. frv., þar sem segir: „Verðlagsráð skal við ákvarðanir sínar um lágmarksverð á sjávarafla m.a. hafa hliðsjón af markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum, svo og framleiðslukostnaði þeirra.“

Um síðustu áramót, þegar verðlagsráð sjávarútvegsins ákvað fiskverðið, varð um það allmikill ágreiningur, annars vegar um þann hátt, sem yfirnefndin hafði um sjálfan úrskurðinn, og hins vegar kom það þá greinilega í ljós, að sjómenn og útgerðarmenn vildu ekki una því, að ekki væri tekið meira tillit til þess, hvað kostnaðinum viðvíkur við að afla fisksins, þ.e. heildarkostnaðinum, útgerðarkostnaðinum. Með þeirri breytingu, sem nú er lagt til í frv. þessu, er ákveðið, að taka skuli tillit til framleiðslukostnaðar sjávaraflans, um leið og einnig sé höfð hliðsjón af erlendu markaðsverði. Með þessari breytingu er þess að vænta, að verðlagsráð sjávarútvegsins muni framvegis miða verðlagningu sjávaraflans með tilliti til hagsmuna beggja, fiskseljenda og fiskkaupenda.

Hin meginbreytingin er um skipan yfirnefndarinnar, þar sem ákveðið er, að formaður eða oddamaður nefndarinnar skuli vera forstöðumaður Efnahagsstofnunar ríkisins eða fulltrúi hans.

Ég tel, að þær breytingar, sem frv. felur í sér, séu til bóta frá því, sem nú er. Og ég tel einnig, að þetta ákvæði um, að ákveðinn maður skipi oddaaðstöðuna í n., sé til bóta frá því, sem áður var, því að með því móti, þegar til lengdar lætur, ef sami maður kynnist þessum málum til lengdar, þá hlýtur hann að geta betur sett sig inn í aðstæðurnar á hverjum tíma, sem fyrir liggja.

Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að mæla með því, að frv. verði samþ. og því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.