11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

129. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Ágúst Þorvaldsson) :

Herra forseti. Frv. til l. um Áburðarverksmiðju ríkisins á þskj. 264 er flutt af mér og nokkrum öðrum þm. Framsfl. Sú meginbreyting, sem frv. gerir ráð fyrir í sambandi við áburðarverksmiðjuna í Gufunesi, er, að verksmiðjan verði gerð að óumdeilanlegri eign ríkisins á þann hátt, að ríkissjóður innleysi hlutabréf annarra hluthafa í verksmiðjunni og taki síðan rekstur hennar að öllu leyti í sínar hendur. Áburðarverksmiðjan verði svo sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og sérstök stjórn kosin af Alþ. fari með málefni hennar undir yfirumsjón landbrh., eins og verið hefur. Ég sé ekki þörf á að rekja frv. grein fyrir grein, því að hver grein skýrir sig sjálf. Ég mun hins vegar fara örfáum orðum um málið í heild.

Árið 1935 mun fyrst hafa verið lagt fram á Alþingi frv. um byggingu áburðarverksmiðju á Íslandi, en varð ekki útrætt. Næst var slíkt lagafrv. lagt fram á Alþ. 1944, en kom ekki til afgreiðslu. 4 árum síðar eða á þingi 1948 var það enn lagt fram, seint á því þingi, og náði ekki afgreiðslu. En 23. maí 1949 voru loks samþ. lög um áburðarverksmiðjuna í Gufunesi og hefur hún verið rekin samkv. þeim l. sem hlutafélag. Frá því að fyrsta frv. um áburðarverksmiðjuna var lagt fram 1935 og þar til loks voru samþ. lög um verksmiðjuna 1949, liðu þannig 14 ár. Allan þennan tíma voru gerðar ýmsar athuganir á málinu og miklar umr. fóru fram, bæði utan þings og á Alþ., um stofnun áburðarverksmiðju. Ég hef ekki kynnt mér þessar umr. nema að mjög takmörkuðu leyti, en eitt þykist ég geta fullyrt og það er, að allir virðast hafa gert ráð fyrir, að slíkt fyrirtæki yrði reist og rekið að öllu leyti á vegum ríkisins, þar til allt í einu á síðasta stigi málsins hér á hinu háa Alþ., að fram kom till. um, að ríkisstj. væri heimilt að leita eftir þátttöku félaga og einstaklinga um hlutafjárframlög til stofnunar áburðarverksmiðjunnar og leggja fram til hennar hlutafé úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins, allt að 1 millj. kr. Þá skyldi ríkissjóður leggja fram það, sem á vantaði, til þess að hlutafé yrði 10 millj. kr.

Það er ljóst af þeim umr., sem fram fóru á Alþingi á sínum tíma, að það var ætlun þeirra, sem að þessari till. stóðu, að með þessum hætti yrði létt verulegum fjárhagsbyrðum af ríkissjóði. Það kemur m.a. fram, að á þeim tíma var áætlaður stofnkostnaður áburðarverksmiðjunnar 43 millj. kr., og var gert ráð fyrir, að allt að 10 millj. kr. fengjust sem hlutafé frá öðrum, en ríkinu eða nærri því fjórðungur af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Reyndin varð þó sú, að aðeins 4 millj. kr. voru lagðar fram af öðrum, en ríkinu, en kostnaður við stofnun verksmiðjunnar mun hafa numið um 130 millj. og lagði ríkið fram eða útvegaði að láni allan stofnkostnaðinn að undanskildum þessum 4 millj.

Vonir þeirra, sem gerðu ráð fyrir því, að með hlutafélagsforminu og all víðtækri hlutafjársöfnun yrði létt verulegum fjárhagsbyrðum af ríkinu, brugðust, því að framlag hluthafa varð næsta lítið miðað við stofnkostnaðinn og er varla hægt að segja, að peningaframlag hluthafanna, annarra en ríkisins, hafi réttlætt hlutdeild þeirra í verksmiðjunni, þegar þess er gætt, að þeir lögðu ekki fram sjálfir nema 4 millj. af 130 millj., sem það kostaði að koma verksmiðjunni upp, eins og ég gat um áður. Þetta hlutafélagsfyrirkomulag á rekstri áburðarverksmiðjunnar verður því að teljast bæði óeðlilegt og óæskilegt.

Það er skoðun flm. þessa frv., að það sé tímabært nú orðið, að ríkið taki við rekstri verksmiðjunnar að öllu leyti og miðar þetta frv. að því. Með því að hlutafélagið, sem rekur verksmiðjuna, hefur fyrir nokkrum árum fengið úr hendi ríkisvaldsins einkaleyfi til sölu á öllum áburði hér á landi, með því að áburðareinkasala ríkisins var lögð niður og áburðarsalan afhent áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, telja flm. þessa frv. ástæðuna til að breyta þessu fyrirtæki í hreint ríkisfyrirtæki enn brýnni, því að það er mjög óeðlilegt að láta hlutafélag, enda þótt ríkið eigi meiri hl. hlutafjárins, annast einkasölu á jafnnauðsynlegri og þýðingarmikilli rekstrarvöru, sem einn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar byggist á, landbúnaðurinn. Það er gert ráð fyrir því í frv. að setja á stofn áburðarverksmiðju ríkisins sem sjálfstæða stofnun í eigu ríkisins, sem þó lúti sérstakri stjórn. Áburðarverksmiðja ríkisins taki síðan við öllum skyldum og réttindum, skuldum og ábyrgðum Áburðarverksmiðjunnar h/f og komi að öllu leyti í hennar stað. Hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni h/f, sem eru í annarra eign en ríkisins, skulu tekin eignarnámi samkv. mati þriggja manna nefndar, sem hæstiréttur tilnefnir.

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi framleiðir áburð og nú orðið annast hún einnig sölu áburðar á innlendum markaði, eins og ég áðan drap á. Í hennar höndum er einnig innflutningur á þeim áburði, sem verksmiðjan bæði annar ekki að framleiða og getur ekki framleitt. Hún nýtur þannig algerrar einokunaraðstöðu um framleiðslu, innflutning og sölu áburðar í landinu. Það verður að teljast algerlega óeðlilegt, að verksmiðja, sem slíkra forréttinda og aðstöðu nýtur, sé í eign annarra en þjóðarheildarinnar, nema þá þeirra, sem áburðinn kaupa. Hins vegar er það ekki líklegt, að íslenzkir bændur geti eignazt slíka verksmiðju og verður því að telja réttast, að ríkið eigi hana eitt. Framsóknarmenn telja ríkisrekstur út af fyrir sig ekkert eftirsóknarvert rekstrarform, þar sem öðru verður við komið með eðlilegum hætti. En við framsóknarmenn teljum hins vegar, að fyrirtæki, sem njóta einkaaðstöðu á innlendum markaði, án þess að nokkru aðhaldi af samkeppni verði við komið, verði að vera undir skýlausum umráðum ríkisins og þjóðarinnar í heild. Í samræmi við þessa skoðun ályktaði 13. flokksþing framsóknarmanna, sem haldið var í apríl 1963, að það teldi rétt, að áburðarverksmiðjan í Gufunesi yrði gerð að ríkisfyrirtæki, og er þetta frv. flutt í samræmi við þá ályktun.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta öllu fleiri orð. Þó vil ég geta þess, sem komið hefur í fréttum útvarps og blaða, að búnaðarþing, sem nú er að störfum hér í höfuðborginni, hefur athugað þetta mál og einróma samþykkt að mæla með framgangi þess. Ég lít svo á, að slík jákvæð afstaða búnaðarþings, sem er fulltrúasamkoma bændastéttarinnar um fagleg málefni landbúnaðarins, sé þannig, þess afstaða í þessu máli, að Alþ. komist varla hjá því að taka a.m.k. mikið tillit til hennar. Ég vil vona, að þetta mál fái hér þinglega afgreiðslu og nái fram að ganga. Mér finnst, að eðli málsins samkv. sé eðlilegast, að það fái athugun í fjhn., og vil leyfa mér að leggja til, að því verði vísað þangað, þegar þessari umr. er lokið.