11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

129. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, á vafalaust að vera tákn þess frá hálfu flm., að þeir hafi komizt að niðurstöðu um, að áburðarverksmiðjan skuli vera í senn ríkiseign og ríkisrekin. En það, sem hv. 1. flm., hv. 2. þm. Sunnl., og hæstv. ráðh., sem hér hafa talað um þetta mál, fóru í kringum eins og kettir í kringum heitan graut, var höfuðspursmálið í sambandi við áburðarverksmiðjuna, sem deilan er búin að standa um í meira, en áratug og útkljá verður hér á Alþ., áður en nokkuð verður gert í þessum málum og það er þetta: Hver á áburðarverksmiðjuna? Og sú spurning, sem ég vil leyfa mér að leggja fyrir hv. flm. þessa frv., er: Hvert er þeirra álít á því, hver eigi áburðarverksmiðjuna?

Þegar hér er lagt til, að gerðar séu jafnvel ýmsar ráðstafanir, t.d. til eignarnáms á hlutabréfum í núverandi rekstrarhlutafélagi, er alveg óhjákvæmilegt, að menn séu sjálfir ákveðnir í því, hvað menn eru að taka eignarnámi og hjá hverjum, ef menn álíta, að eitthvað þurfi að taka eignarnámi. Ég er búinn hér að margskýra mína afstöðu og búinn í meira, en áratug að gera tilraun til þess að láta Alþ. útkljá þetta, þannig að ekki verði lengur um það deilt, að ég hafi þar á réttu að standa. Ég hef flutt frv. um þetta, sem nú liggur fyrir fjhn., sem þetta frv. á að fara til. Mín skoðun er sú, að ríkið eigi þessa verksmiðju, eins og nú er og það standi alveg ótvírætt í núgildandi l. um áburðarverksmiðjuna. Í 3. gr. stendur: „Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun og lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþ.“ Í frv., sem hv. framsóknarþm. leggja fyrir, er orðalagið, að verksmiðjan skuli vera — ég held, að það sé orðað: sjálfstæð stofnun, sem er eign ríkisins og lýtur sérstakri stjórn samkv. l. þessum, verksmiðjuna megi hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess í l. Verksmiðjan er núna samkv. 3. gr. l. sjálfseignarstofnun, sem Alþ. hefur allt vald yfir. Sjálfseignarstofnun er aðeins annað orð yfir að vera eign ríkisins, þó að ríkið hins vegar kæri sig ekki um að taka ábyrgð á öllum skuldbindingum viðkomandi stofnunar, meira en það gengur í ábyrgð fyrir samkv. sérstökum l. og sérstökum ákvæðum. Sjálfseignarstofnun er raunveruleg eign þjóðarinnar, sem lýtur sérstakri stjórn frá hálfu Alþ. Áburðarverksmiðjan er og hefur verið ríkiseign. Og ég vil skora á hv. flm. að flytja þó ekki frv. hér á Alþ. um að taka upp eignarnám án þess að hafa hugmynd um, hvað það er, sem þeir ætla að taka eignarnámi. Þarna er aðeins um tvennt að gera, geta aðeins tvær skoðanir komizt að. Annaðhvort er sú skoðun rétt, sem ég held fram og styðst við 3. gr. núgildandi l., að ríkið eigi þessa verksmiðju, hún sé sjálfseignarstofnun, sem lýtur stjórn ríkisins eða þá hitt sé rétt, sem sumir hafa haldið fram og þar liggur þó aðeins fyrir nokkur yfirlýsing frá hálfu hæstv. landbrh., sem hér var fyrir 10 árum, minnir mig, núv. hv. 1. þm. Vestf., um, að rekstrarhlutafélagið, sem minnzt er á í 13. gr., ætti þessa verksmiðju. Þeim skilningi mótmælti ég strax þegar þessi yfirlýsing kom fram og síðan hefur Alþ. ekki tekið ákvörðun í þessum efnum. Og áður. en nokkurt frv. er afgreitt frá Alþ., álít ég, að það verði að liggja fyrir, hver er skoðun Alþ. á því, hver á verksmiðjuna. Stendur Alþ. fast á sínum eigin l., þar sem stendur í 3. gr., að þetta sé sjálfseignarstofnun, eða ætlar það að láta þessar gömlu yfirlýsingar ráðh. hafa þarna áhrif á sig? Nú gæti verið, að hv. flm. vildu svara þessu á þá leið að segja: Ég veit það ekki, hver á þessa verksmiðju. Þetta litla 300 millj. kr. fyrirtæki liggur þarna inni í Gufunesi og ég veit ekkert, hver á það. Og ég vil ekkert segja um það, hvort það er þjóðin, sem á þetta eða hvort það er eitthvert pínulítið rekstrarhlutafélag með 10 millj. kr. hlutafé, sem á þetta.

Ég tók eftir því, að hv. flm. talaði ákaflega varlega í þessu efni og passaði í allri sinni framsöguræðu að koma aldrei inn á raunverulega að lýsa neinni skoðun um, hver ætti þetta. Og þá er bezt fyrir okkur að athuga það: Er hægt fyrir okkur alþm. að afgreiða þetta mál út úr Alþ., hvaða skipun sem við nú viljum hafa á þessu í framtíðinni, án þess að taka ákvörðun um þennan hlut? Það erum við, sem höfum sett þessi lög, það er Alþ., sem hefur sett þessi lög og það er auðvitað Alþingi, sem á að kveða á um það, hvernig það sjálft skilur þessi lög sín, ef 13. gr. að einhverra áliti stangast á við 3. gr. Þess vegna álít ég, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að það sé Alþ., sem sker úr um þetta. Og ég hef í því frv., sem ég er oft búinn að flytja hér og þarf ekki að kynna, lagt til, að Alþ. geri það með því móti að fella 13. gr. niður, fella hana einfaldlega niður. Hv. þm. þekkja hana. Þar er sagt, að ef vissum ákvæðum sé fullnægt, skuli verksmiðjan rekin sem hlutafélag. Nú eru þess mörg dæmi í okkar þjóðfélagi, að einn aðili eigi ákveðna fasteign eða ákveðna verksmiðju og annað slíkt og annar aðili taki hins vegar að sér að reka það. Það eru meira að segja til hlutafélög í Reykjavík, þar sem ákveðin eign er eign ákveðins hlutafélags og annað hlutafélag tekur að sér rekstur viðkomandi eignar, þannig að þess eru mýmörg dæmi, að þessi greinarmunur sé þarna gerður. Og eftir mínum skilningi og skilningi fleiri aðila, eins og ég hef oft vitnað hér til áður og skal ekki ítreka, er rekstrarhlutafélagið Áburðarverksmiðjan h/f eingöngu aðili, sem á að reka þessa verksmiðju, sem á að sjá um rekstur hennar og ekki neitt annað, en eign á henni sé alveg ótvíræð samkv. 3. gr. l., enda veit ég það ósköp vel, að þegar 13. gr. var smyglað inn í Ed., eftir að við höfðum afgreitt frv. úr Nd. 1949, vildi sá maður, sem brtt. flutti, einmitt breyta 3. gr., vegna þess að hann fann náttúrlega, að þetta stangaðist á, en fékk það ekki fram.

Nú vil ég alveg eindregið skora á hv. þm. Framsfl., hv. 1. flm. eða hvern þeirra sem væri, að svara þessu skýrt og skorinort, hver á að þeirra áliti verksmiðjuna nú. Það, að ég legg svona mikla áherzlu á þetta, er af því, að ég hef orðið var við og séð mjög greinilega af því, hvernig þetta frv. er samið, að það er verið að reyna að koma sér hjá því að segja nokkuð um þetta. Í ýmsu, sem fallið hefur frá Framsfl. áður, hefur Framsfl., sérstaklega hans ráðh. hér fyrrum, áður en þetta varð að eins miklu deilumáli og það hefur orðið, verið óvarkárir í þessum efnum og lýst yfir því, að hlutafélagið ætti þetta. En ég tók eftir, að hv. 1. flm., hv. 2. þm. Sunnl., varaðist mjög vel í sinni ræðu að gefa nokkra slíka yfirlýsingu. En það verður ekki komizt hjá því hins vegar, þegar málið er rætt, að það verður að koma fram álít manna á því, einmitt alþm., hver það er, sem á hana.

Nú skulum við segja, að þetta frv. hv. þm. Framsóknar yrði samþ. svona, án þess að þeir hefðu gefið nokkrar yfirlýsingar eða án þess að. nokkrar yfirlýsingar yrðu gerðar hér á Alþ. um þetta mál. Hvað mundi þá gerast? Þá mundi það gerast, að t.d. lögfræðingar eða sú n., sem t.d. hæstiréttur fengi þarna til þess að sjá um matið á hlutabréfunum, það mundi verða lagt í þeirra hendur með því, hvernig þeir mætu hlutabréfin í rekstrarfélaginu Áburðarverksmiðjunni h/f., það mundi verða lagt í þeirra hendur að meta hlutabréfin eftir því, hvort þeir álitu, að þetta hlutafélag væri aðeins rekstrarfélag, þar sem einkahluthafar ættu að fá sæmilega veil borgað fyrir það fé, sem þeir hefðu lagt fram og geymt þarna alllengi, án þess að fá af því vexti og nokkurn gróða sem héti, — það mundi reyna á, hvort þessir lögfræðingar eða þessi n. liti svo á, að þeir ættu bara að fá góða uppbót á það og það ætti að borga þeim vel fyrir þetta hlutafé, eða hvort þeir hins vegar litu þannig á, að þessir hluthafar, t.d. einkahluthafarnir, væru að 4/10 hlutum eigendur verksmiðjunnar. Ef það væri lagt í hendur þessara manna, mundu þeir kannske annars vegar segja, ef þeir álitu, að rekstrarfélagið væri aðeins rekstrarfélag og einkahluthafarnir, sem hefðu lagt fram 4 millj., ættu þess vegna að fá þær vel uppbættar, að það væru kannske 10–20 millj., sem þeir ættu að fá fyrir þær, kannske ofur lítið meira. Hins vegar, ef þessir menn litu svo á, að þessir menn ættu áburðarverksmiðjuna, líta hlutirnir allt öðruvísi út, þá er þarna eign upp á 350 millj. kr. að öllum líkindum nú, sem er búin að borga sig þó nokkuð niður,og þá mundi verða litið svo á af hálfu þessara manna, sem hæstiréttur tilgreindi,, að þeir ættu að fá það, sem samsvaraði, að þeirra hlutafé væri metið á móts við 4/10 hluta af skuldlausri eign áburðarverksmiðjunnar. Þetta réði þess vegna alveg úrslitum, hvernig þarna yrði litið á.

Ég hef oft bent á það áður og skal ekki endurtaka það, að ef það væri beðið með að útkljá slíkt, af því að menn væru alltaf í standandi vandræðum á Alþingi um að gera þetta upp við sjálfa sig, hvor ætti verksmiðjuna, ríkið eða þetta hlutafélag og það væri beðið með þetta í 20 ár, — það er búið að bíða meira en 10 ár núna, — þá mundi svo komið, að áburðarverksmiðjan ætti þá að vera búin að borga sig niður og þetta ætti að vera hrein eign, 350 millj. kr., og ef þá kæmu einhverjir aðilar, sem á endanum gerðu út um það, að það væri þetta rekstrarfélag, sem ætti áburðarverksmiðjuna, væru 1/10 af þeirri eign bókstaflega 140 millj., sem menn hefðu þá upp úr sínum 4 millj.

Það er sem sé alveg gefið mál, að það er óþolandi fyrir Alþ. að láta þetta mál vera óútkljáð. Við skulum bara segja, að málið hefði verið sent svona út og einhverjir dómkvaddir menn af hæstarétti ættu að gera þar út um og svo færu þeir að kanna allt þetta mál og svo rækjust þeir allt í einu á, að einn hæstv. landbrh. lýsti því yfir, hvenær sem það nú var, 1953–1954, að þessi áburðarverksmiðja væri eign hlutafélagsins, og hluthafarnir hljóti þess vegna síðan að hafa staðið í þeirri meiningu, að þetta væri þeirra eign og þetta er búið að ganga svona til í 10–12–13–14–15 ár og þeir hljóta þess vegna að hafa öðlazt sína hefð á þetta, þeir hljóta að vera eigendur. Ef svona gengi sem sé til, væri búið, svo að ég segi ekkert ljótt orð, að taka verksmiðjuna úr eign ríkisins, sem hún raunverulega er, í eign þessa hlutafélags með þessari ráðherrayfirlýsingu framsóknarráðh. fyrir 10–12 árum, ef hún þætti næg af hálfu dómkvaddra manna til þess að líta svo á, að með því hefði verið skorið úr af hálfu Alþ. um það, að þessi verksmiðja væri eign rekstrarfélagsins. Þess vegna vil ég, þegar þetta frv. nú liggur fyrir, undirstrika nauðsynina á því í fyrsta lagi, að allir þm. geri sér ljóst, hvað þarna er um að ræða. Það er ekki um það að ræða að gera áburðarverksmiðjuna að eign ríkisins, það er hún. Það er hún alveg ótvírætt,og það er það, sem ég hef lagt til nú í mörg ár að verði skorið úr með ótvíræðri lagabreytingu, með því að fella niður 13. gr. og láta hina standa. Það, sem er raunverulega lagt til, ef þetta frv. gengi fram eins og það er, er að það sé látið vera undir þeirri tilviljun komið, hvernig þrír menn kannske eða tveir menn líta á, sem hæstiréttur seinna meir tilnefnir, hvort þetta sé eign ríkisins eða hvort þetta sé gefið hlutafélaginu og síðan tekið af hlutafélaginu eignarnámi og borgað fullt fyrir.

Það, sem ég hef barizt á móti allan tímann, er, að þessi stóra eign væri tekin úr eigu ríkisins með einfaldri ráðherrayfirlýsingu. Svo framarlega sem þetta frv. færi í gegn, eins og það er núna, þetta frv. hv. framsóknarþm. og síðan yrði af hálfu dómkvaddra manna frá hæstarétti litið svo á sem þetta væri eign hlutafélagsins, er búið að takast að ná þessu úr eign ríkisins og gefa Áhurðarverksmiðjunni h/f þetta og þá væri með þessu frv. bara verið að slá því föstu, að nú svo að segja kaupum við þetta, við tökum þetta eignarnámi af þessu hlutafélagi og borgum því svona og svona mikið verð fyrir. Og það er þetta, sem ég álít, að væri svo að segja alveg óþolandi. Þá hefði þessi ljóti leikur, sem ég hef margsinnis átalið, að vissir ráðh. skuli hafa lýst yfir, að þetta væri eign rekstrarfélagsins, þá hefði hann tekizt og þá væru þeir búnir að valda ríkissjóði tjóni upp á marga tugi millj. kr. með slíkum yfirlýsingum, ef þær væru teknar gildar. Og það er það, sem ég hef stundum kallað framsóknaraðferðina í þessum efnum, að gefa fyrst með ráðherrayfirlýsingu einkahluthöfunum í Áburðarverksmiðjunni h/f sinn hluta í áburðarverksmiðjunni og ætla svo með þessum l. að taka þessa gjöf eignarnámi og þá náttúrlega samkv. stjórnarskránni borga hana fullu verði og gera þar með hlut einkahluthafanna svona stóran, að hann mundi nema, ef það væri gert núna, nokkrum tugum millj. og ef það væri beðið, þangað til þetta væri orðið meira, en 20 ára, mundi það nema yfir 100 millj. kr.

Þess vegna er alveg nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst og hv. d. skeri alveg úr um þetta mál, hver á áburðarverksmiðjuna. Ég álít það vera alveg ótvírætt með 3. gr., að hún sé sjálfseignarstofnun, hún sé sjálfstæð stofnun, sem ríkið á og ræður yfir.

Ég skal ekki fara út í að rekja aftur sögu málsins, hv. 1. flm. gerði það að nokkru, aðeins minna á, að það var þessi litla brtt. í Ed., eftir að við hér í Nd. höfðum afgreitt málið sem ótvíræða ríkiseign og ríkisrekna og undir alþingiskjörinni stjórn við 3 umr. hér, var við seinni umr. í Ed. flutt þessi brtt. um að bæta við þessari 13. gr. Og allan tímann var staðið á móti því, bæði af hálfu Sósfl., sem þá hafði með þessi mál að gera hér á þingi af okkar hálfu, Sósfl. og Alþfl. stóðu báðir á móti því, að þessari 13. gr. væri bætt við. Þáv. hæstv. forsrh., Stefán Jóh. Stefánsson, og núv. herra forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, stóðu báðir á móti þessari breytingu, sem þarna var gerð, þegar kom til kasta okkar í Nd. og við lögðum til að fella 13. gr. burt. Þess vegna álít ég, að þetta mál megi ekki fara fram hjá okkur þannig hér í þinginu, að við útkljáum þetta ekki sjálfir. Það er enginn annar aðili, sem á að skera úr um þetta, en Alþ. sjálft. Það hefur sett þessi lög og það á að taka ákvarðanir um þetta. Hitt, hvernig á því stendur, að þetta kom inn, sem hv. 1. flm. minntist líka á, get ég alveg upplýst, hvað þar gerðist á bak við tjöldin. Það, sem gerðist þar á bak við tjöldin, var, að Alþjóðabankinn, sem átti að lána til þessa, gerði þá kröfu, að það skyldi vera þarna einkarekstur og þessi brtt. í Ed. var flutt til þess að þóknast honum. Það var ekkert nýtt tiltæki hjá Alþjóðabankanum þá eða Marshallstofnuninni eða hver það nú var, sem lánaði þá til þessa. Það var það sama gert viðvíkjandi sementsverksmiðjunni, og hún tafðist meira að segja nokkuð, vegna þess að ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. stóð á móti þeirri kröfu, að sementsverksmiðjan yrði gerð að einkafyrirtæki, neitaði þeim kröfum og sementsverksmiðjan var sett í gegn sem hrein ríkiseign, það var ekki látið undan með það. Þess vegna var þetta komið inn þarna, án þess að menn hefðu nokkurn tíma rætt um annað en áburðarverksmiðjan væri ríkiseign, það var bara af því að útlent vald var að skipta sér af þessu og það var verið ofur lítið að reyna þannig að þóknast því. Við urðum aftur fyrir því sama af hálfu sama útlenda valds, Alþjóðabankans, þegar gerður var samningurinn um rafmagnið frá Sogsvirkjuninni til áburðarverksmiðjunnar. Þá var líka hnefinn settur í borðið frá hálfu Alþjóðabankans og það var neitað að lána til Írafossvirkjunarinnar, nema því aðeins að það væri gerður samningur til 15 ára við áburðarverksmiðjuna um ákaflega lágt rafmagnsverð. Og það var gengið að þeim kröfum. Ég var þá í stjórn Sogsvirkjunarinnar og greiddi einn atkv. á móti því, það var samþ. með 4:1 atkv. að beygja sig fyrir þessum kröfum. Hins vegar er nú búið að segja upp þeim samningi með tilskildum 3 ára fyrirvara og hann rennur út 1968. Ég skal ekki segja um, hvort þetta kann að einhverju leyti að valda því, að nú vilja meira að segja hv. þm. Framsfl. fara að gera það alveg ótvírætt, kannske með miklum kostnaði fyrir ríkið, að áburðarverksmiðjan sé ríkiseign. Þeir reikni það svo út, að það muni vera bezt, að ríkið sjálft eigist við um rafmagnsverðið í framtíðinni. En hvernig sem það kann að vera, dugir ekki að gera út um það mál á þann hátt, að það sé farið að gefa stórfé til einkahluthafanna um leið. Spurningin er: Undir hvaða kringumstæðum viljum við semja við þessa hluthafa í rekstrarhlutafélaginu? Það, sem gerir, að ég legg til, að 13. gr. sé fyrst felld niður og síðan samið við þá, það þýðir, að Alþingi og ríkisstj, hefur þá mjög góða samningsaðstöðu. Ég hef hins vegar engan veginn lagt til, að það væri farið að níðast á nokkurn hátt á þessum mönnum. Eftir að 13. gr. er fallin burt, er grundvöllurinn fyrir rekstrarhlutafélaginu fallinn burt, en hins vegar ber náttúrlega ríkinu sem slíku að gera vel við þá menn, sem í góðri trú hafa lagt fram sitt fé og hafa ekkert upp úr því haft þennan tíma og það má gjarnan að öllu leyti reikna með því, að þeir hefðu getað varið þessu fé vel og borga þeim út frá því þennan tíma, en hins vegar ekki fara að gefa þeim 4/10 hluta af áburðarverksmiðjunni. Ég vonast þess vegna til, að hv. flm. geri nú alveg ljósa grein fyrir sinni skoðun í þessu efni og svari þessari spurningu minni: Hver á áburðarverksmiðjuna að þeirra áliti?