19.12.1964
Efri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

103. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og þykir því rétt að fara örfáum orðum um þann fyrirvara, sem ég hef að gera í þessu sambandi.

Ég er sammála efnisatriðum þessa frv. í flestum greinum og þykir því rétt, að það nái fram að ganga. Efnisatriði frv. eru upprunalega tvö, eru nú orðin þrjú eftir meðferð þess í hv. Nd.

Í fyrsta lagi er það, að tekið skuli tillit til kostnaðar við framleiðsluna ekki síður en markaðsverðsins á erlendum mörkuðum við verðlagninguna. Þessu er ég samþykkur. Og í öðru lagi, að það skuli vera fastur maður, sem skipar stöðu oddamannsins í verðlagsráði yfirnefndar. Þessu atriði er ég einnig samþykkur. En ég tel óheppilegt, að sá oddamaður sé forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar. Í þessu felst ekki neinn dómur um þann mann eða þá menn, sem á hverjum tíma kunna að gegna því embætti. Ég vil heldur segja, að þrátt fyrir það, þó að ég hafi miklar mætur á þeim manni, sem nú gegnir því embætti, þá er það vegna stofnunarinnar, sem ég hef þessa skoðun. Sannleikurinn er nefnilega sá, að Efnahagsstofnunin er ekki stofnun í þeim skilningi, sem t.d. Hagstofa Íslands er. Um Efnahagsstofnunina er engin löggjöf. Hún er eins og hver önnur skrifstofa, sem ríkisstj. hefur sett á laggirnar, og sjálfstæði hennar gagnvatt ríkisstj. er ekki á neinn hátt tryggt. Með þessari breytingu eða með því að skipa forstjóra Efnahagsstofnunarinnar í fasta oddamannsstöðu í þessu sambandi er verið að taka það vald og þau áhrif, sem þarna eru, í hendur ríkisstj. sjálfrar. Það tel ég óheppilegt, og við það vildi ég gera athugasemd, og að því miðar sá fyrirvari, sem ég hef í þessu máli. Ég mun því ekki geta fellt mig við að samþ. 2. gr., mun sitja hjá við afgreiðslu hennar, en er málinu að öðru leyti samþykkur.