08.04.1965
Neðri deild: 65. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

130. mál, loðdýrarækt

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það mál, sem hér um ræðir, er mikið hitamál í landinu, eins og kunnugt er og sennilega verður töluvert tvísýnt um afgreiðslu þess hér í þinginu. Þó er nú ekki þess að vænta í raun og veru, að hér sé um að ræða mál, sem pólitísku flokkarnir muni láta mjög til sín taka og ég geri ráð fyrir því, að allir flokkar muni klofna um þetta mál.

Ég tel það ekki ofmælt, að hv. alþm. séu yfirleitt litlir sérfræðingar í loðdýramálum eða minkarækt og þó er það staðreynd, að þeir eiga að taka úrslitaákvörðun í þessu mikla hitamáli þjóðarinnar. Nú er það síður, en svo nokkuð óeðlilegt, að Alþ. taki um þetta úrslitaákvörðun. Alþ. er einmitt sú stofnun, sem ætlað er að taka ákvörðun í fjöldamörgum málum, sem þó krefjast sérfræðilegrar þekkingar. En til þess að hv. alþm. geti yfirleitt tekið skynsamlega afstöðu í sérfræðilegu máli eins og þessu, er það algert frumskilyrði, að aflað sé umsagnar kunnáttumanna, vísindamanna og annarra sérfræðinga. Álit þessara vísindamanna verður að liggja fyrir, áður en þingið tekur ákvörðun og einstakir þm. Ef svo er ekki, liggur í augum uppi, að það er hrein og bein tilviljun, sem ræður því, hver útkoman verður í máli eins og þessu, sem flestir alþm. hafa í sannleika sagt mjög lítið persónulegt vit á. En hefur þá verið leitað álits kunnáttumanna og vísindamanna í þessu máli? Í nál. meiri hl. hv. landbn. segir:

„Nefndin hefur rætt frv. á nokkrum fundum og varð ekki einhuga um afgreiðsluna. Hún sendi það til umsagnar þriggja aðila: Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, búnaðarþings og veiðistjóra. Umsagnir hafa borizt frá þeim öllum og má segja, að þær séu allar jákvæðar, þótt misjafnlega sé.“

Ég tel vissulega ekki óeðlilegt, að þetta mál sé sent til veiðistjóra, eins og gert hefur verið, því að hann á að hafa eftirlit með frágangi minkabúanna hvað öryggi snertir. Og vissulega er það ágætt, að búnaðarþingi hefur verið sent það til umsagnar, því að það eru bændurnir, sem bera mesta tjónið af minknum, ef hann sleppur út úr búrunum. Og ég ætla ekki heldur að hafa á móti því, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna segi sitt álit, því að það eru einmitt frystihúsin, sem eiga að selja fiskúrganginn ofan í minkinn. En sem sagt, hvar eru sérfræðingarnir og vísindamennirnir? Hvers vegna er ekki leitað til náttúrufræðinganna? Hvers vegna er verið að lauma í gegn lögum um innflutning á lifandi dýrum, án þess að vísindamenn séu spurðir, hvaða áhrif þetta geti hugsanlega haft á íslenzka náttúru?

Ég kvaddi mér nú hljóðs hér, strax og þetta mál var tekið á dagskrá, til þess að benda á þetta sérstaka atriði, vegna þess að í nál. meiri og minni hl. þeirrar n., sem um þetta fjallaði, hv. landbn., kemur ekki fram neitt um þetta atriði. En síðan ég kvaddi mér hljóðs, hefur Benedikt Gröndal, hv. 5. þm. Vesturl., upplýst, að hann hafi á seinustu fundum bent á þetta sjálfsagða atriði. Ég vil nú mega bæta því við, að hér er ekki aðeins um sjálfsagt mál að ræða, sem landbn. hefði átt að gæta, hér er líka um lagaskyldu að ræða, hreina lagaskyldu og það, sem gerzt hefur hjá hv. landbn., er alveg ótvírætt lagabrot.

Í 5. gr. l. um náttúruvernd, sem samþ. voru á Alþ. 1956, segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en leyfi er veitt til innflutnings á lifandi dýrum, skal leita umsagnar náttúruverndarráðs:

Þetta ákvæði er ekki lengra, en ég tel, að það sé alveg ótvírætt, að ef á að fara eftir lögum og þessum l. sérstaklega, ber áður en Alþ. samþykkir innflutning á lifandi dýrum eða áður en ráðh. veitir leyfi samkv. einhverjum sérlögum um innflutning á lifandi dýrum, að leita umsagnar náttúruverndarráðs. Hv. þm. eru skynsamir menn og fjölfróðir og hafa auðvitað gott vit á ýmsum hlutum. En ég mundi tvímælalaust telja það hreina hneisu, ef þd. afgreiddi þetta mál, án þess að hafa hlýtt á röksemdir og ummæli náttúrufræðinga.

Það eru einkum tvær röksemdir, sem bornar eru fram því til stuðnings, að ný heimild til minkaræktar muni ekki leiða af sér nýja minkaplágu. Í fyrsta lagi er sagt, að það sé alveg útilokað, að minkurinn sleppi úr búrunum í þetta sinn. Nú á að vera fyrir það girt, að þetta geti endurtekið sig. Þetta hlýtur að vera ein helzta forsendan fyrir flutningi þessa frv. Í öðru lagi er sagt, að jafnvel þó að minkurinn sleppi að þessu sinni, geri það ekkert til, það sé svo mikið af þessum dýrum fyrir í landinu og það breyti ekki neinu, þó að fáein dýr bætist í hópinn. Ég þarf varla að taka það fram, að ég er ekki sérfræðingur um málefni minksins og er það ekki frekar, en aðrir hv. þm. En ég nefni nú þessar röksemdir vegna þess, að þegar ég á að taka afstöðu til málsins, viðurkenni ég fúslega og hef viðurkennt, að þessar röksemdir eru að ýmsu leyti skynsamlegar og þær verka sannfærandi, sérstaklega sú seinni. En það er einmitt vegna þess, að eftir að ég af hreinni tilviljun heyrði röksemdir vísindamanna og náttúrufræðinga í þessu máli, sem hv. landbn. reynir nú að sniðganga, — það var eftir að ég heyrði röksemdir þessara manna, að ég fór að efast um réttmæti þessa máls þrátt fyrir þessar ágætu röksemdir, sem ég nefndi hér áðan. Eins og ég sagði, tel ég, að næsta skrefið í þessu máli sé tvímælalaust að leita til vísindamannanna, eins og skylda er samkv. lögum.

En úr því að ég er nú kominn hér á annað borð, langar mig til að drepa í örfáum orðum á þessar röksemdir, sem ég nefndi áðan og viðbrögð náttúrufræðinga, sem ég hef orðið var við gagnvart þeim.

Fyrst vil ég nú aðeins minnast á hina fyrri röksemd, þ.e.a.s. spurninguna um það, hvort minkarnir sleppi úr búrunum eða ekki. Það er nú auðvitað ekki sérstakt viðfangsefni náttúrufræðinga að skera úr um það. Ég er sjálfur ákaflega ófróður um þessi efni og hef ekki fengið neinar sérstakar upplýsingar eða haft aðgang að upplýsingum, sem sýndu mér fram á, að það væru minni líkur til þess, að minkar slyppu úr búrum, nú en var fyrir fáeinum árum. Mér er hins vegar kunnugt um, að áður fyrr voru mjög ströng viðurlög, ef það óhapp skyldi henda, að minkur slyppi úr búri. En hvernig fór? Við vitum það. Þeir sluppu umvörpum þrátt fyrir þessi lagaákvæði og ströngu viðurlög, og af þeim ástæðum var bannað minkaeldi í landinu og það aðeins fyrir fáeinum árum. Áður en ég get fallizt á, að það verði leyft að nýju, verð ég að fá einhverjar upplýsingar um það, hvað hafi breytzt í sambandi við útbúnað minkabúa frá því, að ákveðið var að banna minkaeldi í landinu. Reynslan er ólygin í þessu efni: minkurinn slapp og við verðum að ganga út frá þeirri staðreynd, að svo muni einnig verða áfram, þar til við höfum eitthvað annað í höndum.

En svo er það aftur hin röksemdin, sem er að sjálfsögðu miklu merkilegri, þ.e.a.s. sú, að það geti vel verið rétt, að einhverjir sleppi úr búrunum, en það skipti bara engu máli, því að svo mikið sé fyrir af mink í landinu, að það muni ekkert um það, þótt fáeinir bætist í hópinn. Það er einmitt í sambandi við þetta atriði, sem vísindamenn hafa bent á athyglisverðar staðreyndir. Þeirra orð eru í stuttu máli þessi, þeirra röksemdir: Þeir halda því fram, að minkurinn hafi dálítið ólíka náttúru, dálítið ólíkt eðli eftir því, við hvaða lífsskilyrði hann býr. Þeir halda því fram, að aliminkur, sem er nýsloppinn úr búri og svo aftur villiminkur, sem er búinn að vera lengi í landinu, hegði sér alls ekki á sama hátt, hafi töluvert annað eðli. Aliminkur, sem er nýsloppinn úr búri og hefur ekki fengið að laga sig að þessum nýju aðstæðum, er talinn miklu, miklu grimmari en villiminkurinn, sem hefur aðlagað sig landinu og tekið upp nýja lifnaðarhætti. Það voru margar sögur sagðar af því hér áður fyrr, að minkar sluppu úr búrum, réðust inn í hænsnahús og bitu hænurnar á barkann og röðuðu þeim upp í láréttri röð, hverri af annarri án þess að éta eina einustu. Það var bara grimmdin, sem réð þessu, ekkert annað. Mér er sagt, að þetta sé liðin saga, liðin tíð, það sé langt síðan slíkir atburðir hafi gerzt og það sé fyrst og fremst vegna þess, að villiminkurinn, sem hefur aðlagað sig hinum nýju aðstæðum, sé búinn að venja sig af þessu óeðli og veiði sér til matar. Þetta er sem sagt mjög mikilvægt atriði, að aliminkur, sem sleppur úr búrunum, er miklu grimmari og háskalegri fyrir önnur dýr en sá, sem er búinn að vera lengi í landinu og búinn að laga sig að nýjum aðstæðum. Í öðru lagi er því haldið fram, hvort sem það er nú rétt, ég veit ekkert um það, en því er haldið fram, að aliminkur tímgist oftar og fjölgi miklu hraðar fyrst í stað, eftir að hann sleppur úr búrunum, heldur en villiminkurinn. Það er talið, að minkum hafi farið heldur fækkandi á seinni árum. Auðvitað þarf ekki að því að spyrja, að minkabanarnir þakka sér þetta afrek fyrst og fremst og má vel vera, að þeirra hlutur sé allmikill í þessu sambandi. En ýmsir vísindamenn halda því fram, að meginástæðan sé breytt eðli minksins, eftir að hann er búinn að dveljast í íslenzkri náttúru í langan tíma og kynslóð eftir kynslóð. Þetta atriði skiptir auðvitað mjög miklu máli, ef satt reynist.

Sem sagt, þótt aðeins fáir minkar slyppu út árlega, mundu þeir geta orðið til þess að endurvekja þessa miklu plágu, sem hér var áður og koma henni á það stig, sem hún var verst á sínum tíma. Það má auðvitað nefna ýmis atriði í sambandi við þetta mál. Rétt er að benda á í sambandi við það, sem menn ræða um áhuga manna á minkarækt, að minkaskinnin eru tízkufyrirbrigði í dag og í allháu verði. En eins og við vitum, vill það nú oft verða svo, að tízkufyrirbrigðin ganga yfir og það er einnig þannig, að Íslendingar eru oft dálítið seinir að átta sig á þessum tízkufyrirbrigðum. Þeir koma seint inn í þessa þróun og þá er fyrirbrigðið e.t.v. að ganga yfir. Ég vil engu spá um það, hvort þetta tízkufyrirbrigði á eftir að minnka, draga úr því á næstu árum,og hvort skinnin eiga eftir að falla í verði. En ekki er það nú alls kostar ólíklegt miðað við þróunina í svipuðum málum. Ef svo fer, að þetta reynist aðeins tízkufyrirbrigði og minkaskinnin falla í verði, þarf varla að taka það fram, að þeir, sem eiga minkabúin, munu hafa heldur minni hag af þessari framleiðslu en áður og þá mun áhugi þeirra fyrir því að gæta þess, að minkarnir sleppi ekki úr búrunum, sá áhugi mun réna allmikið og hættara er við því, að ef tap yrði á þessum atvinnurekstri, yrði þess ekki ýkjamikið gætt, að dýrin slyppu ekki úr búrunum.

Sem sagt, ég vildi aðeins segja, að það er margs að gæta í þessu máli. Það er fjöldamargt, sem vísindamenn og náttúrufræðingar geta sagt okkur um þessi mál og nauðsynlegt er að hafa í huga. Ég hirði ekki um að rekja fleira, sem heyrzt hefur frá vísindamönnum um þessi mál, en ég vil aðeins ítreka, að þetta þarf að athugast miklu, miklu betur, en gert hefur verið og málið má alls ekki afgreiða fyrr, en haft hefur verið samráð við íslenzka náttúrufræðinga, eins og lög bjóða.