29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2519)

130. mál, loðdýrarækt

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Það eru nokkrir dagar síðan ég kvaddi mér fyrst hljóðs til að lýsa skoðun minni á þessu frv., sem hér er tekið til meðferðar og hefur raunar oft verið á dagskrá hér í hv. deild, en umræðunni ávallt frestað.

Ég verð að játa, að ég er nokkuð undrandi yfir þeim umr., sem hér hafa spunnizt um þetta mál, því að það er engu líkara. en hér sé verið að gera ráðstafanir til að flytja minka inn til landsins, sem eigi að sleppa lausum og gera tjón á fuglalífi og öðru hér í okkar landi. Ég tel, að við höfum í huga, eða þeir menn, sem eru fylgjandi þessu frv., að hér eigi að taka upp sama hátt og með öðrum þjóðum, að gera minkaeldi að atvinnuvegi hjá þjóðinni og eins og hefur komið hér fram hjá ýmsum ræðumönnum, sem hafa mælt með samþykkt frv., þá segja þeir réttilega, að við Íslendingar höfum betri skilyrði, en flestar aðrar þjóðir til þess að hafa hér starfandi, minkabú með góðum árangri.

Ég vil þakka flm. þessa frv. fyrir að hafa flutt það hér á hinu háa Alþ. og ég hef ekki trú á öðru en frv. verði samþ., því að ég tel af þeirri reynslu, sem ég hef af minkaeldi og loðdýrarækt, að fáar þjóðir hafi betri skilyrði til þess að gera þetta að jákvæðri atvinnugrein, en í okkar landi og það væri mjög illa farið, ef frv. yrði ekki samþ. á þessu þingi, sem nú stendur yfir og er senn lokið. En með miklum málalengingum hefur tafizt afgreiðsla á málinu, sem ég vona nú að nái fram að ganga og verði samþ. a. m. k hér í þessari hv. deild.