29.04.1965
Neðri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

130. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson) :

Herra forseti. Ástæðan til þess, að umr. var ekki lokið hér síðast, var sú, að þess var vænzt að fá umsagnir frá náttúruverndarráði og líklega forstöðumanni náttúrugripasafnsins, áður en þetta mál færi hér út úr deildinni. Þessar umsagnir eru ekki komnar enn þá, en ég vildi nú leggja það til, að það verði ekki beðið með að ljúka 2. umr. af þeim sökum. Ég tel víst, að þessar umsagnir séu væntanlegar nú alveg á næstunni og tel, að það sé nægilegt, að þær lægju fyrir við 3. umr.

Það er búið að ræða þetta mál allmikið hér á nokkuð löngum tíma. Ég ætla ekki að fara mikið út í það, sem hér hefur komið fram.

Ég benti á það í framsöguræðu minni fyrir nál., að þetta mál bæri sérstök merki þess að vera mikið tilfinningamál. Allar umr., sem hér hafa farið fram, hafa staðfest þetta svo sem verða má. Sumir hafa komið inn á það, að það vantaði rök eða sannfæringu fyrir því, að hér væri um mikinn fjárhagslegan ávinning að ræða, hér væri um atvinnurekstur að ræða, sem yrði mikill fjárhagslegur ávinningur að. Mér finnst það nú vera nokkuð langt gengið, að við getum ekki hafið nokkrar tilraunir í þessu, nema við teldum, að það væri sannað fyrir fram, að af þessu yrði mikill ávinningur. Sannleikurinn er sá, að í mínum huga verður það aldrei sannað á annan hátt en þann, að við hefjum minkaræktina sjálfir í landinu. Og eins og ég gat um í framsöguerindi mínu, þá höfum við viljað fara hægt af stað, eins og frv. ber með sér. Og það hefur meira að segja valdið nokkrum deilum, hvort það væri ekki of hægt farið af stað með því að leyfa aðeins 5 minkabú fyrstu 2 árin. Auðvitað má um þetta deila. En þetta er aðeins vottur þess, að við, sem að þessu máli höfum staðið, erum með það í huga, að það verði svarið, sem við fáum sjálfir, sem skeri úr um framtíð þessarar atvinnu hér á landi.

Út af brtt. þeirra hv. þm. Björns Pálssonar og Jóns Skaftasonar verð ég að segja það, að ég fæ ekki séð, að það sé nokkur bót að samþykkt hennar. Það má vera merkilegur maður, sem veldist til þessa starfs, ef hans dómur eins ætti að vera slík véfrétt sem eiginlega virðist nú verða að vera skv. þessari till. Við vitum, að það er fjöldi manna hér á landi, sem hafa leitazt við að kynna sér þetta mál og fylgjast með minkaeldi erlendis og það er yfirleitt samhljóða eða a.m.k. dómur mjög margra, að það séu öll rök, sem mæli með því, að þessi atvinnugrein geti orðið arðbær hér og jafnvel arðbærari, en í flestum öðrum löndum, einmitt vegna þess, að við höfum það fóður, sem mest er notað til minkaeldis. Þess vegna tel ég ekki bót að þessari brtt. þeirra Björns Pálssonar og Jóns Skaftasonar.

En ég sagði áðan, að þetta mál væri mikið tilfinningamál og ég verð að segja það, að einmitt vegna þess, að við vitum, að það er allmikið tilfinningamál, þá er í þessari tilfinningasemi fjölda Íslendinga fólgin ákaflega mikil trygging og mikið aðhald við framkvæmd málsins. Það verður án efa, miklu fremur en við flest önnur mál, fylgzt með því af fjölda Íslendinga, hvernig tekst til um framkvæmdina. Og er það í mínum huga einmitt mjög mikil trygging fyrir því, þegar kemur til með að setja reglugerð um framkvæmd málsins, að þá verði gætt hinnar ýtrustu varúðar, annars vegar við útbúnað búanna og hins vegar af þeim, sem stofna til þessa atvinnurekstrar, með það að afla sér allrar þeirrar sérþekkingar, sem hægt er, til þess að þetta megi fara vel úr hendi. Og mér þótti dálítið merkilegt að heyra það af munni hv. þm. Björns Pálssonar, að þessi lög væru allt of stutt, af því að það hefur verið meginuppistaða í krítik hans oft á löggjöf hér á Alþingi, að lögin væru allt of löng og út af fyrir sig er mjög mikið til einmitt í þessum röksemdum hv. þm.

Nei, það má vissulega deila um það, hvort þessi lög séu æskilega ýtarleg. Það má deila um það. En hins vegar fela þau í sér, að það sé hægt að framkvæma allar þær varúðarráðstafanir, sem nauðsynlegar og skynsamlegar teljast, þegar til framkvæmda kemur með lögin.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég sagði hér í framsögu minni fyrir nál. að ég hefði ekki staðið að flutningi slíks frv., ef villiminkurinn hefði ekki verið kominn til landsins. Og mér finnst í raun og veru verið að slá ákaflega mikið vindhögg í rökræðum um þetta mál, þegar verið er að tala um skaðsemi villiminksins, vegna þess að það breytir ekki því, að við höfum villimink hér í landinu og þurfum að halda uppi sömu baráttunni gegn honum, hvort sem við samþykkjum þetta mál eða ekki.

En ég vil samt beina því til hæstv. forseta, að hann ljúki nú þessari umr. og atkvgr. fari fram eftir 2. umr. og við fáum umsagnir þær, sem beðið er eftir, áður en 3. umr. fer fram.