04.05.1965
Neðri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

130. mál, loðdýrarækt

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég greiddi atkv. með frv. því, sem hér liggur fyrir, ekki vegna neinnar flokkslegrar afstöðu, heldur vegna þess, að ég tel eðlilegt, að minkaeldi verði leyft hér og byggi það á þeim umsögnum, sem fyrir liggja, að þetta er orðin allveruleg atvinnugrein á Norðurlöndum, bæði í Noregi og í Danmörku, og ég tel ekki þungvæg þau rök, sem hér hafa komið fram gegn frv., sem aðallega eru fólgin í þeim mistökum, sem talið var að hér hefðu orðið á sínum tíma í sambandi við loðdýraræktina.

Ég hygg, að það sé svo með flestar nýjar atvinnugreinar, að þar verði mönnum á mistök, þeir læra af reynslunni. Þetta mun einnig hafa verið svo bæði í Noregi og Danmörku í fyrstu, en þeir eru komnir þar yfir þetta, þannig að þetta er orðin nokkuð stór og allveruleg atvinnugrein og virðist geta gengið þar, án þess að það þurfi þar að valda nokkru tjóni. Ég tel, að Íslendingar eins og þeir geti alveg lært af þessu og að ef minkaeldi yrði tekið upp á ný, þá séu þeir þó a.m.k. reynslunni ríkari í þessum efnum og ætti að geta farið slíkt úr hendi hér eins og það hefur farið úr hendi í þessum löndum.

Ég skal ekki fjölyrða neitt um þær till., sem hér hafa komið fram. Ég á mjög erfitt með að átta mig á því, hvað hægt er að kalla örugga fótfestu minka, eins og fram kom í till. hv. 5. þm. Vesturl. Ég veit, að á sínum tíma, meðan minkar voru ræktaðir t.d. í Vestmannaeyjum, þá sluppu þeir þar út eitthvað, hvort þeir eru þar með örugga fótfestu enn, er mér ekki kunnugt um. Það hefur lítið verið athugað, hvort þeir eru þar, en vitað var, að þeir sluppu þar út á sínum tíma. Ef menn þyrftu að sanna, að minkur væri, væri auðvitað hægur vandi fyrir Vestmanneyinga, ef þeir vildu hafa mink, að útvega sér nokkur stykki hér frá meginlandinu og flytja þau inn og sleppa þeim. Það væri mjög handhæg aðferð til að sanna, að þar væri villiminkur með örugga fótfestu, þannig að ég tel, að þessi till. mundi ekki ná tilgangi sínum, þó að hún væri samþykkt.

Ég verð að segja, að mér þykir kveðja Skúla Guðmundssonar, hv. 1. þm. Norðurl. v., til okkar Vestmanneyinga heldur kaldranaleg, þegar á það er litið, að hann telur þetta skaðræði, það er hans skoðun, hann telur skaðræði að leyfa minkaeldi, að hann skuli endilega vilja beina því til okkar í Vestmannaeyjum einna. Það er alveg rétt, sem hann tók fram og kemur fram í bréfi dr. Finns Guðmundssonar, að þar er fuglalíf mikið, og ef þetta er sá skaðvaldur, sem andstæðingar frv. hafa haldið fram, þykir mér heldur köld kveðja, að við skulum einir í Vestmannaeyjum eiga að taka við því.

Ég tel, að samþykkja beri frv. og gera þessa tilraun og það er sannfæring mín, að það megi gera hana þannig, að þetta þróist í eðlilega atvinnugrein og verði landinu til fjáröflunar bæði atvinnulega séð og eins gjaldeyrislega séð, þegar tímar líða.