04.05.1965
Neðri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

130. mál, loðdýrarækt

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að gæfu Íslands verði nú flest að gagni, þegar nú rétt undir þinglokin kemur mál, sem er svo mikils vert, að menn gera sér vonir um, að það verði mikið bjargræði fyrir hvora tveggja höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg aðþrengdan og landbúnað ekki allt of vel staddan. En þetta mál um að taka upp minkaeldi aftur á Íslandi virðist vera í hugum ýmissa hv. þm. slíkt bjargræði, sem ég hér nefni. Þetta á bæði að vera mál til viðreisnar og eflingar sjávarútvegi og landbúnaði og auk þess mikilsvert fyrir iðngrein í landinu, fiskiðnaðinn.

Ég held, því miður, að atvinnuvegum Íslands, landbúnaði og sjávarútvegi, verði ekki bjargað með þessari búgrein. Ég er ákaflega vantrúaður á það. En málið hefur samt getað sameinað ýmsa útgerðarmenn, sem nú láta málið mjög til sín taka og bændur úr sveitum landsins, sem gerast ákafir stuðningsmenn þess líka, eða þetta virtist a.m.k. koma í ljós við atkvgr., þegar málið var hér til 2. umr.

Það eru tvö sjónarmið, sem hafa stangazt hér á. Það er í fyrsta lagi gullgrafarasjónarmiðið, sem mætti e.t.v. svo nefna, sjónarmiðið, sem byggir á því, að hér geti verið um mikinn gróðaveg að ræða, fljótfenginn gróða, mikla hagnýtingu úrgangsfisks í sambandi við fiskiðnaðinn og hátt verð fyrir hann, og svo dýrlegir loðfeldir, sem verði seldir fyrir gull úr landi og gefi miklar gjaldeyristekjur. Það er þetta sjónarmið, sem virðist hafa heillað hv. þm. og safnað um sig yfirgnæfandi meiri hl. dm. Hins vegar virðist vera léttvægt það sjónarmið, að minkurinn hafi valdið miklu tjóni, sé líklegur til þess að valda meira tjóni, ef innflutningur hans verði leyfður á ný og ekki aðeins fjárhagslegu tjóni, heldur einnig valda spjöllum á fuglalífi og dýralífi í landinu, vera skaðvaldur í veiðivötnum og ám og þá ekki sízt í varplöndum. En þau sjónarmið virðast vera ákaflega léttvæg hjá mörgum hv. þm. móti hinum glæsilegu gróðasjónarmiðum, sem þeir sjá hilla undir.

Samt er það nú svo, að þegar till. kemur fram um það að gefa einum landshluta, — ég á hér við Vestmannaeyjar, — kost á því að sitja einn að gróðanum, þá er það kölluð kaldranaleg till., og meira að segja þm. þess landshluta, sem hér er um að ræða, — ég á hér við hv. 3. þm. Sunnl., sem mælir með því, að minkaeldi sé tekið upp, og telur það gefa miklar gróðavonir, — hann biðst undan því, að það hnoss falli Vestmannaeyjum einum í skaut að sitja að þessari gróðalind. Ég fæ ekki séð, að þessi sjónarmið samrýmist. Ef hann telur það gott og gróðavænlegt fyrir landslýð allan, að þessi búgrein sé tekin upp, því skyldi það þá ekki vera hnoss fyrir Vestmanneyinga að fá að sitja eina að þessum gróðamöguleikum? Það er eins og örli á því, að honum þyki minkurinn, ef hann væri kominn til Vestmannaeyja, ekki aufúsugestur þar fuglalífi eyjanna. En þá er hann einnig farinn að líta á sjónarmið okkar hinna, sem leggjum svo mikið upp úr þessu sjónarmiði, að gróðasjónarmiðin og gróðavonirnar víkja til hliðar hjá okkur. Ég tel, að ef hv. 3. þm. Sunnl. telur sig óhikað geta fylgt frv. fram og stutt að því, að minkaeldi verði tekið upp hvar sem er á landinu, ætti hann að taka því fegins hendi, að slík till. er fram komin sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur flutt um það, að minkaeldi verði eingöngu leyft í Vestmannaeyjum. Og þá má hann ekki kalla þetta kaldranalega till., heldur góða till., sem veiti Vestmanneyingum forréttindi, eftirsóknarverð forréttindi. Þetta hlýtur yfirgnæfandi að vera annaðhvort gott eða illt.

Ég fyrir mitt leyti mundi ekki út frá mínum sjónarmiðum vilja, að minkurinn yrði fluttur til Vestmannaeyja. Ég mundi óttast, að hann gerði þar ærið ískyggilegan usla í fuglalífi eyjanna. Frá mínu sjónarmiði væri það þess vegna böl, sem væri lagt á Vestmanneyinga, ef sú till. væri samþykkt. En út frá sjónarmiði hv. 3. þm. Sunnl. ætti þetta að vera happafengur mikill og þá skil ég ekki í honum að berjast á móti því út frá hans sjónarmiði.

Hv. 8. þm. Reykv., sem talaði hér næst á undan mér, var ákafur stuðningsmaður þess, að minkaeldi væri upp tekið og sagði okkur, að það væri augljóst af bréfi dr. Finns Guðmundssonar náttúrufræðings, að hann hefði ekki mikið vit á minkaeldi og það höfum við nú sennilega fæstir hv. þm. En hann upplýsti þó, að til þess að fá góðan pels, mætti ekki velja minkabúunum stað, þar sem rakastig væri hátt og mikil úrkoma. Þannig væru Vestmannaeyjar ekki tilvalinn staður til þess að fá góðan pels og dregur þetta þá nokkuð úr gróðavon Vestmanneyinga, þótt þeir fengju að verða aðnjótandi þessa hnoss. Þetta þýðir þá, ef þessar upplýsingar má marka og ég skal ekki rengja þær, — þetta þýðir þá, að það er ekki ráðlegt að stofna til minkaeldisins hér á Suðvesturlandinu. Það er þá líklega Norðurland og Vesturland, sem ættu að hafa heppilegast loftslag fyrir þessa búgrein. Og þá er á það að líta, hversu mikill aufúsugestur minkurinn yrði norðanlands og kannske austan. Við skulum t.d. hugsa okkur, að hann verði fluttur til Norðurlandsins og þar yrðu þau slys, sem komið hafa fyrir og menn fullyrða að komi alltaf fyrir; því að það er fullyrt af fræðimönnum, að það sé aldrei hægt að búa svo um, að það sé 100% öruggt, að dýr sleppi ekki úr búrum. Við skyldum þá segja, að minkurinn væri fluttur í einhverja verstöðvanna norðanlands, t.d. sett upp bú á Húsavík og við Eyjafjörðinn, Siglufjörð, og þar yrðu svo þau slys, að minkurinn slyppi. Það er ekki ólíklegt, að þá kæmist hann í Mývatnssveitina og það má gera sér í hugarlund, hvílíkan usla hann gerði þar í fuglalífinu, sem mun vera einstætt í veröldinni. Mér er tjáð, að það séu fleiri tegundir af öndum við Mývatn, en nokkurs staðar annars staðar á einum stað á okkar jarðarkúlu og svo mikið er víst, að Mývetningum mundi ekki þykja það góður gestur í sína byggð og ég hygg, að engum Íslendingi þætti það gott, ef minkaeldi, þó að gróða skilaði, eyðilegði fuglalífið við Mývatn. Fuglarnir þar eru seinfleygir og lágfleygir og ekki eins líklegir til að bjarga sér undan minki og t.d. svartbakurinn og hvítfuglinn í Vestmannaeyjum. Hann er áreiðanlega ekki eins auðfengin bráð fyrir minkinn og endurnar og æðarfuglinn. En það þarf ekki að halda sér eingöngu við Mývatnssveitina, þótt það væri hörmulegur atburður, ef það gerðist, að minkainnflutningur eyddi hinu fjölbreytta fuglalífi við Mývatn. Við eigum fleiri verðmæti, sem við megum ekki glata í fuglalífi landsins. Ég hygg, að það yrðu óhýr eftirmæli, sem þeir þm. fengju, sem leiddu minkapláguna í héruð með auðugum fiskivötnum og ám og í varplönd, þar sem æðarfuglinn á þó enn þá friðland. Þau varplönd eru ekki eingöngu í eyjum. Þau eru nú víða og sum hin myndarlegustu einmitt á ströndinni, á landi, þar sem minkurinn mundi gjöreyða þeim, ef hann kæmist þangað. Eitt myndarlegasta æðarvarp, sem nú er til á Íslandi, er að Mýrum í Dýrafirði og ef minkurinn kæmist í það, væri þar engar varnir hægt að viðhafa. Minkur hefur komizt í Breiðafjarðareyjar og þótti það illur gestur. Hann komst að vetri til á ísum í eyjarnar, en þó ekki meir en svo, að það mun hafa tekizt að mestu að útrýma honum þar, en í slíkum varplöndum eins og Breiðafjarðareyjar eru er minkurinn mikill vágestur og það skyldi enginn gera sér leik að því fyrir einhverja veika gróðavon að standa að innflutningi slíks kvikindis sem minkurinn er. Ég held, að þeir menn, sem yrðu til þess að valda slíkum slysum í náttúrulífi landsins og tjóni, mundu tæpast verða borgunarmenn fyrir því og þeir mundu áreiðanlega engar þakkir fá fyrir það.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að nú væri villiminkurinn hér og að öllum líkindum yrði hann ekki upprættur. Þetta er rétt, minkurinn er hér. En það hefur þó áunnizt, að nú gera menn sér jafnvel vonir um það, að villiminknum verði hér útrýmt. Sá árangur hefur náðst við útrýmingu hans, að menn gera sér einmitt vonir um það, að honum kunni að verða útrýmt, hann kunni að verða upprættur. En þær vonir minnka, við verðum í raun og veru að sleppa þeim vonum, að honum verði útrýmt, ef innflutningur er hafinn á ný með þeirri hættu, sem ávallt er á því, að eitthvað sleppi af þessum dýrum.

Hv. 5. þm. Vesturl. (BGr) gat þess áðan, að það hefði komið í ljós við atkvgr., að einn flokkur þingsins, annar stjórnarflokkurinn, hefði sýnt frábæran áhuga á því að taka upp minkaeldi og stæði nálega sem einn maður að málinu og hann bæri því sök á því, að málið færi í gegn. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. En þess verður þó að geta, því miður, að hinn stjórnarflokkurinn lagði nokkurt lið til þess, að málið yrði samþ. við 2. umr. og sú till. felld að vísa málinu í náðarfaðm stjórnarinnar.

En sannast að segja undrast ég það, að þetta skyldi verða eitt mesta áhugamál hér á Alþ. á seinustu dögum þess í öllu annríkinu, að reyna að þröngva þessu máli einhvern veginn í gegn. Ég hefði haldið, að hér biði í salti í nefndum og víðs vegar á vegum þingsins fjöldi stórra og góðra mála, sem ekki hafa fengizt afgreidd og hefðu átt rétt á því að vera tekin til afgreiðslu núna á seinustu dögum þingsins, en þurfa ekki að rýma fyrir þessu, sem frá mínu sjónarmiði verður aldrei annað, en óþurftarmál. En þetta mál er tekið út úr og það á sýnilega að nota síðustu dýrmætu stundir síðustu daga þingsins til þess að reyna að koma því í höfn. Ég held, að það sé eitt þeirra mála, sem einna helzt hefðu mátt bíða til næsta þings og þá fá betri undirbúning, því að sannast að segja er hvergi nærri vel frá frv. gengið. Á það hefur verið bent og það er hægt að rökstyðja það. Það hefði ekki verið ástæðulaust, að ákvæði væri í frv. um það, að enginn mætti reka minkabú, nema því aðeins að hann hefði mann með vísindalega þekkingu í minkaeldi til að veita því forstöðu. Það hefði þó verið ákvæði, sem hefði heldur stutt að því, að gróðavonin yrði ekki mýrareldur, sem menn væru að elta. Og fá ákvæði, ef nokkur, ég held bara engin, eru í frv. um það, hversu örugglega skuli ganga frá minkabúi, til þess að það sé löglegt. Það á allt að setjast í reglugerð, sem við vitum ekkert, hvernig verður. Það hefði líka fyllilega verið ástæða til þess að hafa allhá viðurlög í frv., svo að þeir menn, sem tjóni yllu fyrir trassaskap t.d., yrðu að sæta viðurlögum fyrir og þeim þungum. En frv. er í raun og veru rúmur ytri rammi og í þann ramma virðist eiga að fylla einhvern veginn með reglugerð og upp á það eigum við að samþykkja þetta frv. Ég tel, að það hefði ekki verið nema sjálfsagður hlutur að láta málið, þó að því væri nú hreyft, bíða til næsta þings og hyggja betur að ýmsum varúðarráðstöfunum í sambandi við málið.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. ræddi um þetta mál og sló úr og í og sat hjá við atkvgr. við 2. umr. En sumt af því, sem hann sagði bæði þá og áður, var þó á þann veg, að hann teldi fulla ástæðu til að gæta meiri varúðar og hefjast ekki handa í málinu, fyrr en valdir menn hefðu verið sendir t.d. til Noregs eða til annarra landa til þess að kynna sér nákvæmlega allt viðvíkjandi þessum atvinnurekstri og flana ekki að neinu, fyrr en menn hefðu aflað sér eins staðgóðrar þekkingar og reist eins miklar skorður til varúðar og unnt væri, áður en farið væri af stað með þennan búrekstur.

Ég skal nú láta lokið máli mínu um þetta. Ég er sem sé eindreginn andstæðingur þess, að minkaeldi sé upp tekið á ný og tel, að þjóðin hafi þegar skaðazt nóg af því að reyna við þennan búskap og tel þess litlar vonir, að kvikindið borgi fyrir sig og bæti það tjón, sem það hefur valdið, þótt á ný yrði byrjað á minkaeldi. Ég tel miklu líklegra, að það bæti við það tjón, sem það hefur þegar valdið og er þó nóg komið. En í frv., eins og það nú er, er ekki heimilað almennt loðdýraeldi, en frv. heitir „frv. til l. um loðdýrarækt“. Það virðist vera alveg sjálfsagt, að það eigi að breyta heitinu og þetta frv. eigi að heita „frv. til l. um minkaeldi“, því að það eru eingöngu minkar, sem heimilað er að taka til eldis samkv. þessu frv. Ég legg því til, að í staðinn fyrir orðið „loðdýrarækt“ í fyrirsögn frv. komi: minkaeldi, svo að það heiti eins og innihald frv. gefur tilefni til. Þessi till. er skrifleg og of seint fram komin og þarf því tvöfaldra afbrigða og vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða.

Viðvíkjandi þeim brtt., sem hér liggja fyrir, vil ég taka það fram, að ég hef ekki samvizku til þess að stuðla að því, að Vestmanneyingum verði sendur minkurinn og vil því ekki unna þeim þess gróða, sem þeir hyggjast fá af dýrinu. Ég vil stuðla að því, að þeir verði þess gróða ekki aðnjótandi, af því að ég tel, að hann muni valda þeim meira tjóni, slíku tjóni sem e.t.v. yrði ekki bætt. En viðvíkjandi till. hv. 5. þm. Vesturl. vil ég segja það, að ég tel þær báðar sjálfsagðar, og þó tel ég till., sem bannar að taka upp minkaeldi í þeim sveitum, sem minkurinn hefur ekki komizt í enn þá, fullþrönga, því að kæmist minkurinn í nágrannasveitir og bú væri sett þar upp og þar gerðist slys, þannig að hann slyppi laus, þá væri hann þá þegar kominn í þær sveitir, sem ekki hafa orðið fyrir plágunni enn þá. En till. er til bóta og þess vegna mun ég greiða henni atkv., og ég tel sjálfsagt, að sú till. verði samþykkt, ef menn hafa nokkurn vilja til þess að hlífa þó þeim héruðum, sem hafa ekki enn þá orðið fyrir barðinu á minkaplágunni og ég efast ekki um, að hv. þm. þrátt fyrir gyllivonir um gróða af þessari búgrein muni samt vilja, að sem mestrar varúðar verði gætt og að minkahættan verði ekki leidd yfir landið allt, þrátt fyrir það að þeir vilji fá að setja upp nokkur bú til þess að prófa, hvort þeir geti ekki haft af því fjárhagslegan ávinning.