16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

106. mál, söluskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur nú látið frá sér fara jólagjöf sína til landslýðsins, og sú jólagjöf er ekki skorin við nögl fremur en fyrri daginn, þegar um þess háttar gjafir ríkisstj. er að tefla. Þó að menn séu ýmsu vanir frá hendi hæstv. ríkisstj. og menn kippi sér ekki upp við sitt hvað, sem frá henni kemur, þá hygg ég, að þessi jólagjöf komi flestum nokkuð á óvart. Ég hygg, að þessi jólagjöf og þessi nýi söluskattsauki og þessar nýju álögur, söluskattsálögur upp á 307 1/2 millj. kr., valdi mörgum mönnum sárum vonbrigðum og þá ekki hvað sízt þeim, sem hafa treyst hæstv. ríkisstj. hvað bezt. Þess er skemmst að minnast, að í byrjun þessa árs var almenni söluskatturinn hækkaður úr 3% upp í 5%. Margir hafa eflaust ætlað, að við þessa hækkun yrði látið sitja í bráð, en svo er nú ekki. Nú er fitjað upp á nýjan leik, og enn er aftur höggvið í sama knérunn. Nú á að hækka almenna söluskattinn úr 5 1/2% í 8%. Og þó nægir það nú ekki til í álögunum, heldur á að taka til viðbótar 28 millj. kr., sem er hækkun á leyfisgjöldum af bifreiðum og bifhjólum. Er nú að undra, þótt menn standi sem steini lostnir. Þeir eru áreiðanlega margir hér á landi, sem höfðu í skattamálunum búizt við allt annarri og annars konar jólagjöf en þessari. Það eru áreiðanlega margir, sem hafa veri að vona það í lengstu. lög, að ríkisstj. mundi láta frá sér fara í þeim efnum vissan jólaglaðning, allt annars eðlis en þann, sem felst í því frv., sem hér liggur fyrir, og þeir höfðu líka vissulega ástæðu til þess að búast við því og vonast til þess, að ríkisstj. beitti sér fyrir vissum ívilnunum mönnum til handa á þeim gífurlegu skattaálögum, sem á menn voru lagðar s.l. sumar. Menn höfðu a.m.k. ástæðu til að vana, að hún veitti þar á tilslökun í einhverri mynd og með einhverjum hætti. En í stað þess kemur hún með þetta frv. um söluskattsviðauka eða hækkun söluskattsins, svo mikla sem áður er á drepið. Þegar litið er til þess, sem á, undan er gengið í þessum efnum, og hinna gífurlegu álagna frá s.l. sumri og þeirra vilyrða, sem ríkisstj. hefur látið frá sér fara um þá lagfæringu, sem þyrfti að gera á skattakerfinu, þá koma þessar álögur nú blátt áfram sem hnefahögg í andlit almennings.

Það er atriði, sem ekki verður gengið fram hjá í sambandi við þessi mál, og þegar fjallað er um þessar nýju eg fyrirhuguðu álögur ríkisstj., er eðlilegt, að menn hafi í huga fyrirheit hæstv. ríkisstj. varðandi beinu skattana, tekjuskattinn og útsvarið, og athugi efndir þeirra fyrirheita og hvernig framkvæmdinni þar hefur verið háttað. Það er ekki nema sanngjarnt, að það sé kannað, hvort sívaxandi söluskattur hafi e.t.v. haft þá verkun og réttlætist e.t.v. með því, að beinu skattarnir hafi lækkað að sama skapi. En eftir fyrri fyrirheitum hæstv. ríkisstj. mætti ætla, að svo væri nú komið. Að því atriði mun ég nú nokkuð víkja, áður en ég kem beint að efni þess frv., sem hér liggur fyrir, en mun þó reyna að fara fljótt yfir sögu, eftir því sem kostur er. Hæstv. ríkisstjórn má sjálfri sér um kenna, ef ég verð þar ekki jafngagnorður og get ekki flutt um það eins hnitmiðað mál og æskilegt væri, af því að það er hennar sök, að ónógur tími hefur gefizt til athugunar á þessu máli, þar sem þessu frumvarpi var útbýtt hér seint í gærkvöld og það kom fram öllum að óvörum, og það er þessi starfsmáti hæstv. ríkisstjórnar, sem er sérstaklega ámælisverður og ég mun ef til vill koma að betur síðar í öðru sambandi. En eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. áðan, var í raun og veru alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ríkisstj. að vera að draga framlagningu þessa frv. svo sem hún hefur gert, vegna þess að þær ástæður, sem hún taldi fram sem rök fyrir þessu frv., lágu ljóst fyrir um það bil, að Alþingi kom saman og fjárlagafrv. var lagt fram. En þetta er ekki nv bóla, að það séu lögð fram jafnþýðingarmikil frv. og þetta, sem hafa jafngagnger áhrif á afkomu alls almennings, á síðustu stundu, ef svo má segja, og þannig frá gengið, að þingmönnum gefist naumur tími til þess að fjalla um þessi mál.

Í hinni viðkunnu viðreisnarbók, sem gefin var út á landssjóðs kostnað á sinni tíð, eins og alþjóð er kunnugt; stendur með stóru letri á bls. 30 sem yfirskrift yfir þeim kafla, sem fer á eftir: „Tekjuskattur afnuminn á almennum launatekjum.“ Og síðan er því lýst í framhaldi af þeirri fallegu yfirskrift, að þegar núverandi

ríkisstj. hafi verið mynduð, hafi hún lýst því yfir, að hún mundi beita sér fyrir afnámi tekjuskatts af almennum launatekjum, og síðan er gerð grein fyrir þeim tillögum, sem hún muni á næstunni koma á framfæri til þess að standa við þessi fyrirheit. Og það er rétt, að í framhaldi af þessu fyrirheiti voru gerðar talsverðar lagfæringar á tekjuskatti, sem ég vil ekki út af fyrir sig gera neitt lítið úr. Persónufrádráttur var hækkaður verulega. En sá böggull fylgdi þar því skammrifi, að um leið og það var gert, var felld niður úr lögunum sú umreikningsregla, sem gilt hafði þá á undanförnum árum, um nokkurt skeið a.m.k., umreikningsregla á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans, sem komið hafði í veg fyrir, að skattar yrðu hlutfallslega þyngri vegna vaxandi verðbólgu. Jafnframt voru þá útsvarsstigar festir, án þess að væri gert ráð fyrir breytingu þar á vegna breytts verðgildis peninga. Afleiðingin af þessu varð svo skjótlega sú vegna hinnar miklu dýrtíðar, að beinu skattarnir hafa sífellt orðið þyngri og þungbærari vegna dýrtíðar og krónufjölgunar þau ár, sem liðin eru, frá því að skattalagabreytingin 1960 var gerð, og var svo komið s.l. ár, að ríkisstj. sá, að svo búið mátti ekki lengur standa, einkanlega eftir að dýrtíð hafði vaxið mjög gífurlega og haft í för með sér verulegar kauphækkanir eða launabreytingar, þannig að auðsætt var, að til mjög mikillar og óbærilegrar hækkunar á belnum sköttum mundi koma að óbreyttum álagningarreglum. Þess vegna lagði hæstv. ríkisstj. á síðasta Alþingi fram frv. til breyt. á skattalögum og útsvarslögum, og þar var að vísu persónufrádráttur hækkaður nokkuð, og var það náttúrlega til bóta út af fyrir sig, svo langt sem það náði, en jafnframt var gerð um leið nokkur breyting á skattstigum, sem miðaði til hækkunar.

Þegar þessar skattalagabreytingar voru til umræðu hér á Alþingi á sínum tíma, bentu stjórnarandstæðingar á að þær væru ófullnægjandi, og þeir fluttu brtt., sem m.a. miðuðu í þá átt að taka aftur upp hina fyrri umreikningsreglu og lækka skattstigana til þess horfs, sem áður hafði verið. En þessum brtt. og ábendingum stjórnarandstæðinga, jafnt framsóknarmanna sem Alþb.-manna, var vísað á bug með miklu yfirlæti og svigurmælum. Og er þar skemmst af að segja og skemmst að minnast, að þegar þessi skattalagabreyting hafði verið afgreidd hér á Alþingi, var ákaflega mikið af henni látið og upp slegið um hana miklu skrumi í sumum stjórnarblöðum, og mun málgagn hæstv. fjmrh., dagblaðið Vísir, hafa gengið einna lengst í því efni, þar sem það m.a. var með ýmsar skemmtilegar bollaleggingar um það, hversu bezt og haganlegast mætti verja þeim skattalækkunum, sem menn öðluðust í sambandi við þessa skattalagabreytingu, og reiknaði það m.a. út, að menn mundu geta siglt sér til skemmtunar og hressingar til útlanda fyrir þá lækkun á skattinum, sem fælist í þeim lögum, sem afgr. voru á síðasta Alþingi. Og margt var skrafað og skeggrætt í þessum dúr, og það er ekki nokkur vafi á því, að fjöldi manna hér í borg og um land allt lagði trúnað á þessar glæsilegu gyllingar.

En þær gyllingar stóðu ekki nema takmarkaðan tíma, því að menn vöknuðu svo til veruleikans, þegar skattskrárnar og útsvarsskrárnar tóku að birtast og menn fengu sína seðla um skatta og útsvör, sem sýndu þeim svart á hvítu, hvort um lækkun skattanna hefði verið að tefla eða ekki og þessi gögn höfðu vissulega allt aðra sögu að segja en stjórnarmálgögn höfðu viljað vera láta. Er skemmst af því að segja, að þegar almenningi varð kunnugt um skattaálögurnar síðasta sumar, höfðu menn aldrei áður kynnzt neinu slíku, og þá vaknaði reiðialda meðal alls almennings, hvar í flokki sem menn stóðu, ekkert síður hjá stjórnarsinnum en stjórnarandstæðingum, yfir þessum þungu skattaálögum og þá kannske ekki hvað sízt yfir þeim herfilegu blekkingum, sem beitt hafði verið í sambandi við þær. Það má segja, að þar hafi að ýmsu leyti farið í broddi fylkingar og mjög myndarlega eitt aðalmálgagn hæstv. ríkisstj., Alþýðublaðið, sem skrifaði um þessi mál af mikilli einurð og skelegglega, og get ég ekki farið að tefja tímann á því að rifja upp öll þau réttmætu ummæli og greinar, sem um þetta efni birtust í Alþýðublaðinu á sínum tíma, en vissulega voru þau þess virði, að þeim sé á loft haldið og ekki gleymt. Það má segja, eins og ég sagði áðan, að almenn reiðialda hafi gripið um sig yfir þessum gífurlegu álögum og þegar mönnum varð ljóst, að af mörgum hverjum launamanni var hirtur að segja mátti langmestur hluti launanna, þannig að mönnum voru ekki ætlaðar nema kannske mjög fáar krónur til þess að lifa af á mánuði hverjum. En það má þó segja, að frá þessari almennu óánægjuöldu, sem reis þarna strax í öndverðu, væri ein undantekning til að byrja með, því að enn var það málgagn hæstv. fjmrh., Vísir, sem lýsti því yfir eftir útkomu skattskrárinnar, að flestir væru ánægðir með skatta sína. En það sýndi sig furðu fljótt samt, að blaðamenn Vísis höfðu í þessu tilfelli verið heldur óheppnir með viðmælendur, enda kom það á daginn, að Vísir eins og önnur blöð varð fljótt að taka í sama streng og lýsa yfir óánægju með þessar skattaálögur. Og það fór svo fljótt, að þetta almenningsálít varð svo sterkt, að jafnvel stjórnarmálgögnin og ríkisstj. bognaði fyrir þessu sterka almenningsáliti og fór að láta undan siga og tala um þessi mál í allt öðrum tón en áður hafði verið gert, fór að viðurkenna það fyrst og fremst, að skattabyrðin væri þung, fór að láta í það skína, að hér þyrfti nauðsynlega lagfæringar á að gera, og fór óbeinlínis að viðurkenna, að það hefði verið rétt, sem framsóknarmenn og aðrir stjórnarandstæðingar héldu fram við umræður um þessi mál á síðasta Alþingi, og fóru að viðurkenna það, að skattabyrðin væri orðin gífurleg og ranglætið í skattamálunum væri með öllu óþolandi, þar sem ástandið var þannig, eins og ég drap á áðan, að mjög mörgum launamönnum var lítið eftir skilið í sínum umslögum, en á sama tíma var mönnum kunnugt um ýmsa stóreignamenn, sem lifðu hátt í augum alþjóðar, en greiddu ekkert til opinberra þarfa í formi skatta eða útsvars eða þá svo lítið, að því mátti helzt jafna við vinnukonuútsvar. Strax og skattskráin hafði birzt hér í Reykjavík, hélt stjórn Framsfl. fund um það mál og gerði af því tilefni samþykkt, sem send var hæstv. ríkisstj. og ég vildi mega leyfa mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir svo:

„Vegna þess alvarlega vanda, sem nú hefur skapazt eftir síðustu álagningu skatta og útsvara, leggur stjórn Framsfl. til eftirfarandi: 1) Að ríkisstj. gangist án tafar fyrir skipun nefndar með þátttöku allra þingflokka til þess að gera nú þegar tillögur um endurskoðun þeirra opinberu gjalda, sem nú hafa verið á lögð, og réttmæta skipan skatta- og útsvarsmála til frambúðar. — 2) Ríkisstj. geri þær ráðstafanir til bráðabirgða að fresta innheimtu á verulegum hluta af álögum, meðan þessi endurskoðun fer fram.“

Hæstv. ríkisstj. sá sér ekki fært að taka þessa tillögu framsóknarmanna til greina, en skömmu síðar sneru launasamtök landsins, bæði BSRB og Alþýðusamband Íslands, sér til ríkisstj. út af þessum málum og fóru fram á það, að ríkisstj. tæki þátt í athugun á þessum málum og veitti eftirgjöf eða ívilnun á þessum sköttum. Og undir þetta var a.m.k. tekið af ríkisstj. með þeim hætti, að það var skipuð sameiginleg nefnd þessara aðila til þess að kanna þessi mál. Nokkru síðar gerðist það, að efnt var til útvarpsumræðna um þessi málefni, það var 17. ágúst s.l. sumar. Þar mættu 4 forustumenn flokkanna, þar af fyrir Sjálfstfl. hæstv. fjmrh. og fyrir Alþfl. hæstv. viðskmrh. Og það er skemmst af að segja, að í þessum umræðum kom það fram, að allir þessir forustumenn stjórnmálaflokkanna voru býsna sammála um það málefni, sem rætt var um í þessum umræðuþætti, — já, ég vil segja jafnvel óvenjulega sammála. Og víst er um það, að þar lýstu þeir því báðir, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh., að það væri sýnilegt eftir það, sem fram hefði komið í sambandi við þessa síðustu skattaálagningu, að það væri óhjákvæmilegt að gera ýmsar lagfæringar á skattamálunum, og þá benti, ef ég man rétt, hæstv. fjmrh. einkum á þau atriði til lagfæringar, sem framsóknarmenn höfðu bent á á síðasta Alþingi, svo sem það, að hækka þyrfti persónufrádráttinn meira, að taka þyrfti upp umreikning og herða þyrfti á skatteftirliti. En síðan er nú langur tími liðinn, og langt er nú síðan nefnd sú, sem ég drap á áðan, skilaði sínu álíti, en það hefur ekki til þessa neitt gerzt í þessum málum af hendi hæstv. ríkisstj. Hún hefur ekki fallizt á að verða við þeim tilmælum, sem samtök launastéttanna hafa til hennar gert í þessu efni, hvorki um eftirgjafir eða ívilnanir né um gjaldfrest, –mér er ekki kunnugt um það, — enda er nú náttúrlega svo komið, að það er búið að plokka þessa skatta af það mörgum aðilum þegar, hvernig svo sem menn hafa komizt af jafnhliða því að þurfa að greiða þá. Og það bólar ekki heldur á því, að ríkisstj. hafi lagt fram á þessu Alþ. enn þá neinar till. um breyt. á skattamálakerfinu. Það hefði þó vissulega verið viðeigandi, að hún hefði ekki verið a.m.k. seinni á sér með þær breyt. en þessa hækkun söluskattsins, sem hér er um að tefla. Og víst er um það, að þetta mál er ekki úr sögunni. Menn eru enn minnugir þess, hvað um þessi mál var sagt á sinum tíma, og menn finna enn fyrir því og hafa fundið fyrir því að undanförnu, hverjar skattabyrðirnar hafa verið. Það er ekki lengra síðan en eitthvað 2 dagar, að stærsta verkamannafélag þessa lands kom saman til fundar og gerði á fundi sínum alveg sérstaka ályktun varðandi þessi skattamál, sem ég vildi mega lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, en sú ályktun er svo hljóðandi:

„Fundur í verkamannafélaginu Dagsbrún, haldinn 14. des. 1964, mótmælir mjög harðlega þeim drápsklyfjum skatta, sem lagðar hafa verið á launþega á þessu ári. Hinar miklu skattahækkanir hafa algerlega ofboðið greiðsluþoli fjölda launþega, þar sem stór hluti eðlilegra launa fer í skattgreiðslur og aðeins lítið er eftir til lífsframfæris. Slík skattheimta jafngildir launalækkun fyrir verkafólk, og því telur fundurinn, að með henni hafi algerlega verið raskað þeim grundvelli, sem samkomulagið s.l. vor milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. og atvinnurekenda byggðist á. Fundurinn vítir harðlega, að stjórnarvöld skuli á engan hátt hafa orðið við hinum réttlátu kröfum launþegasamtakanna, Alþýðusambandsins og BSRB um lækkun á hinum óhóflegu skattabyrðum, og því frekar hlýtur verkalýðshreyfingin að mótmæla slíkum vinnubrögðum, þegar augljóst er og viðurkennt, að skattsvik vaða uppi og gróðafyrirtækjum og auðmönnum er hlíft við réttmætum skattabyrðum. Fundurinn varar stjórnarvöldin mjög alvarlega við framhaldi þeirrar skattpíningar, sem launþegar nú þegar hafa verið beittir, og gerir kröfu til, að þar verði á róttæk stefnubreyting. Fundurinn telur óhjákvæmilegt, að verkalýðssamtökin láti skattamálin meira til sín taka hér á eftir og fylgist vel með framvindu þeirra, svo mjög sem þessi mál varða hag og afkomu allra launþega. Að lokum gerir fundurinn þá eindregnu kröfu, að ekki verði um að ræða frekari skattheimtu af kaupi verkamanna í desembermánuði.“

Þetta var ályktun Dagsbrúnar. Það er að vísu þungur dómur, sem þar er upp kveðinn, en að mínu viti alveg réttmætur. Og það er í þessari ályktun Dagsbrúnar vikið að samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisstj. í sambandi við skattamálin og að því vék líka hæstv. fjmrh. nokkuð í sinni frumræðu, og á ég eftir að koma að því betur síðar, hvert samband muni þar vera á milli. En þeir segja, Dagsbrúnarmennirnir, í þessari ályktun, að beinu skattaálögurnar hafi verið í ósamræmi eða algerlega raskað þeim grundvelli, sem samkomulagið frá s.l. sumri var á byggt.

Hér hef ég í örfáum orðum rifjað upp og rakið nokkuð, hvernig framkvæmdir ríkisstj. hafa verið á sviði hinna beinu skatta og hverjar efndir eru fram komnar á þeim fyrirheitum, sem hún hefur gefið í sambandi við skattamálin. En það virðist svo sem þetta séu þær einar efndir, sem þar eru sýnilegar, eða réttara sagt, það eru engar efndir sýnilegar á því enn, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eina sýnilega svarið í þeim efnum, þar sem söluskattur er hækkaður upp í 8% eða um 307 1/2 millj. kr. Ég játa það fyllilega, að mig vantar órð til þess að lýsa þessum vinnubrögðum sem vert væri. En við framsóknarmenn erum andvígir þessari hækkun söluskattsins og munum þess vegna að sjálfsögðu greiða atkv. gegn þessu frv., og ástæðurnar fyrir þeirri afstöðu okkar eru í sem skemmstu máli þessar:

Í fyrsta lagi, að við teljum ósannað með öllu, að þörf sé á nokkrum nýjum álögum til þess að mæta útgjaldahækkunum fjárlaga. Í öðru lagi teljum við ekki almenna söluskattshækkun leiðina, sem fara ætti til tekjuöflunar, jafnvel þó að þörf væri á nýrri tekjuöflunarleið. Við teljum hinn almenna söluskatt í þeirri mynd, sem hann er hér, og að fenginni þeirri reynslu, sem af honum og innheimtu hans er fengin, vera mjög óheppilegan skatt, mjög óskynsamlegan skatt og mjög ranglátan skatt. Og þriðja ástæðan er svo sú, að við teljum, að fjárstjórn og fjármeðferð ríkisstj. á undanförnum árum sýni það, að hún kunni ekkert með fé að fara, og kemur því ekki til mála að mínum dómi að samþykkja henni til handa neinar nýjar álögur. Það væri í raun og veru gagnslaust, því að þær mundu jafnóðum hverfa í eyðsluhít ríkisins. Þó að ríkisstj. fengi nú samþykktar nýjar álögur, mundi hún samkv. reynslunni koma aftur eftir nokkra mánuði og fara fram á meira, segja það þá, að hún þurfi að fá meira. Það sýnir reynslan og það sýnir öll saga hæstv. ríkisstj. Að samþykkja nýjar álögur henni til handa væri óráð. Það væri alveg eins og að fá ráðlausum spilamanni peninga í hendur. Þeir eru búnir á morgun, þá þarf hann að fá meira. Þess vegna er það, að jafnvel þó að maður sæi þörf á einhverjum nýjum tekjum, sem hér er þó ekki viðurkennt, þá væri það, eins og nú er komið, fullkomið ábyrgðarleysi að mínum dómi að samþykkja nýjar álögur, ef allt ætti að öðru leyti að sitja við það sama um fjárstjórn ríkisins. Að þessum ástæðum, sem ég hef hér stuttlega minnzt á, skal nú nokkru nánar vikið.

Kem ég þá fyrst að fyrsta atriðinu, nefnilega því, hvort þörf sé á nýjum álögum til þess að standa undir fyrirsjáanlegum fjárveitingum fjárl. á næsta ári. Það er rétt, að ætla má, að útgjöld fjárl. fyrir árið 1965 muni hækka verulega frá útgjaldatölum framlagðs fjárlagafrv. eða alltaf sjálfsagt um 330—340 millj. eða eitthvað því um líkt. Í aths. við söluskattsfrv. segir að vísu, að hækkunin, sem gera megi ráð fyrir, sé 372 millj. kr., en þar af eru 42 millj. kr. vegna fyrirsjáanlegra kauphækkana af völdum verðlagshækkana og þá fyrst og fremst verðlagshækkana, sem leiðir af sjálfri söluskattshækkuninni, og gefur það út af fyrir sig ofurlitla sjónhending af því, hversu heppilegt úrræði þessi söluskattur mun vera í þessu sambandi. Það er náttúrlega út af fyrir sig villandi, finnst mér, eins og segir í aths. við söluskattsfrv., að það megi gera ráð fyrir, að gjaldahlíð fjárlagafrv. muni hækka sem næst um 372 millj. kr. í meðförum Alþingis, því að í raun og veru eru af þessum 372 millj., sem þar er talað um, 275 millj. kr. a.m.k. vegna niðurgreiðslna, sem ráðnar voru og fyrirsjáanlegar voru og framkvæmdar sumpart a.m.k. þegar þing kom saman og fjárlagafrv. var samið, og þess vegna full ástæða til þess að taka þær tölur upp í fjárlagafrv. Þó má taka til greina að sjálfsögðu það, sem hæstv. fjmrh. sagði um það hér áðan og las í því sambandi upp úr aths. við fjárlagafrv., sem sýndu, að það væri í raun og veru gert ráð fyrir þessu, en talið eðlilegt, að Alþingi fjallaði um málið, áður en það væri tekið alveg upp í fjárlagafrv. En mér finnst, að þessar aths. gefi a.m.k. fljótt á litið þá hugmynd, að þessar 372 millj. komi sérstaklega til vegna aðgerða Alþingis. Það má kannske að vissu leyti til sanns vegar færa, en það er þó að frumkvæði og fyrir atbeina hæstv. ríkisstj. En þó að það sé nú gert ráð fyrir þessu, að útgjaldatölur fjárl. hækki þannig frá því, sem sett var á blað í fjárlagafrv., um 372 millj. kr., þá álít ég, að enn sé með öllu ósannað, að þörf sé á nýjum álögum til að mæta þessum útgjöldum, eg á meðan svo er, tel ég ekki réttmætt að grípa til þvílíkra örþrifaráða, eins gífurlegrar hækkunar á söluskatti og þeirrar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég álít, að út frá því megi ganga samkv. reynslunni, að tekjuáætlun fjárl. sé allt of lág. Sú hefur reynslan orðið á undanförnum árum. Árið 1962 urðu umframtekjur ríkissjóðs 302 millj. eða 303 millj. kr. og árið 1963 urðu þær 322.5 millj. kr. Það er að sjálfsögðu rétt, eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir hér áðan, að það liggur ekki enn fyrir með öruggri vissu, hver útkoman muni verða á þessu ári, sem nú er senn á enda, en engin rök virðast til þess liggja, að útkoman ætti að verða lakari þetta ár en hin fyrri. Það hefur verið góðæri þetta ár ekki siður en áður. Það hafa verið metaflabrögð þetta ár ekki siður en hin árin. Verðlag á útflutningsafurðum er yfirleitt hagstætt og hækkandi. Ríkisstj. hefur og hælt sér af því, að engin séu innflutningshöftin nú á þessum síðustu og verstu tímum að hennar dómi og innflutningur allur gangi nú greiðlega og ólíkt því, sem áður var. Tolltekjur ættu því vissulega ekkert síður að fara fram úr áætlun á þessu ári en á undangengnum árum, og víst er um það, að beinu skattarnir fóru stórlega fram úr áætlun. Ég hef að sjálfsögðu ekki í höndum hér nein gögn til að fullyrða um þetta, og hæstv. fjmrh. vildi í ræðu sinni hér áðan gera sem minnst, að mér virtist, úr vænlegum horfum um afkomu ríkissjóðs á þessu yfirstandandi ári. Þó var allt það, sem hann sagði um það, heldur óákveðið, og a.m.k. virtist hann gera ráð fyrir, að innflutningstekjurnar eða tolltekjurnar eða tekjur af aðflutningsgjöldum stæðust þó alltaf ríflega áætlun. Og ég verð nú að álíta, að þegar hæstv. fjmrh. kveður ekki sterkara að orði en raun bar vitni hér áðan um þessi efni, megi gera ráð fyrir svipaðri tekjuaukningu á innflutningsgjöldum þetta ár og hin fyrri árin. Að sjálfsögðu skal ég ekkert um þetta fullyrða, eins og ég sagði áðan, en á meðan annað er ekki upplýst örugglega, verður að ganga út frá því, að umframtekjur verði með svipuðum hætti þetta ár og hin fyrri. Og ég tel allar líkur benda til þess, að tekjur fjárlagafrv. nú séu, hvað sem afkomu ársins í ár liður, áætlaðar með það fyrir augum, að umframtekjur verði ekki hlutfallslega minni árið 1965 heldur en árin 1962 og 1963. En ef svo reynist, mundu þær nægja til þess að mæta þeim útgjaldahækkunum, sem hér er talað um.

Ríkisstj. keppir að því að hafa ríflegan greiðsluafgang til þess að draga með þeim hætti úr kaupgetu almennings. Það sýnir reynslan, það sýnir boðskapur ráðh. nú, sbr. t.d. skrif hæstv. viðskmrh. nú nýlega í Alþýðublaðinu. Það sýnir enn fremur nýbirt skýrsla Efnahagsstofnunarinnar í París, þar sem lögð er á það áherzla, að greiðsluafgangur ríkissjóðs megi ekki vera undir 1 1/2% af þjóðartekjum, eða frá 250—300 millj. kr. árlega. Nú getur það auðvitað verið rétt fjármálapólitík undir vissum kringumstæðum að gera ráð fyrir ríflegum greiðsluafgangi, en vitaskuld á þó alitaf að reyna að áætla tekjur svo rétt sem kostur er. En ég held, að eins og á stendur hér nú, sé það ekki réttlætanleg pólitík að leggja á stórfellda neyzluskatta í því augnamiði að tryggja stórfelldan greiðsluafgang. Ég held, að það sé ekki réttlætanlegt að gera það á kostnað almennings. Skattabyrðin, bæði sú beina og óbeina, er vissulega orðin nægilega þung og meira en það. Það er vissulega ekki þörf á neinum nýjum ráðstöfunum til þess að draga úr kaupgetu almennings nú.

Í annan stað er svo fjárlagaafgreiðslan nú byggð á eyðslustefnu núv. ríkisstj. Það er auðvitað hægt, ef vilji væri fyrir hendi, að draga stórlega úr ýmsum útgjöldum ríkisins. Það væri hægt að koma við margháttuðum sparnaði í ríkisrekstri. Þá leið á að fara, áður en gripið er til þvílíkra álaga á neyzlu almennings eins og hér er gert ráð fyrir, og þá leið verður auðvitað að fara fyrr en seinna, ef hér á ekki að sigla öllu í strand. Það er ekki hægt að halda áfram endalaust á braut síhækkandi útgjalda í því trausti, að alltaf sé hægt að sækja það, sem á vantar, í vasa almennings. Það er ekki hægt.

Þegar hæstv. ríkisstj. hóf göngu sína, gaf hún mörg sparnaðarloforð, og ég vil ekki draga í efa, að þar hafi hugur fylgt máli á þeirri tíð. Og því skal ekki neitað, að nokkra viðleitni sýndi hún í þá átt á fyrstu starfsárum sínum, enda þótt mörgum sýndist árangurinn lítill. En það er áreiðanlega ekki ofmælt, að nú hafi hæstv. ríkisstj. gefið þessa litlu sparnaðarviðleitni sína algerlega upp á bátinn og hafi gefizt upp við að framkvæma þá stefnu, eins og reyndar fleira í sinni upphaflegu stefnuskrá. Það er önnur saga, sem ég fer ekki nánar út í í þessu sambandi. En í stuttu máli sagt held ég, að því fari mjög fjarri, að það liggi fyrir nægileg rök fyrir óhjákvæmilegri nauðsyn á svo stórfelldum álögum sem hér eru ráðgerðar, og þegar svo stendur á, er ekki, eins og ég áðan sagði, réttlætanlegt að grípa til þvílíkra örþrifaráða eins og jafnstórfelld söluskattshækkun sem þessi er í raun og veru.

Þá ætla ég þessu næst að víkja ofurlítið að þeim tekjuöflunarhætti, sem hér á að nota, almennum söluskatti. Ég ætla þó ekki að fara langt út í þá sálma. Ég ætla ekki að fara langt út í það að rifja hér upp sögu hins almenna söluskatts. Hann var á sínum tíma boðaður af hæstv. ríkisstj., bæði í viðreisnarbókinni frægu og í grg. með fjárlagafrv. fyrir 1960, og hann var svo í samræmi þar við lögfestur með l. nr. 10 frá 1960, en áður hafði að vísu verið innflutningssöluskattur, sem framlengdur var með þeim l. og aukinn, eins og kunnugt er og ég fer ekki að rekja hér neitt frekar, og áður hafði einnig verið sérstakur söluskattur á ýmissi þjónustustarfsemi og innlendum iðnaðarvarningi, en með söluskattslögunum frá 1960 var samt sem áður farið inn á nýja braut í þessum efnum, þannig að með þeim l. var lagður á almennur söluskattur, 3% söluskattur, sem lagður er á allar vörur og öll viðskipti yfirleitt, með þeim örfáu undantekningum, sem í þeim l. greinir. Þessi söluskattur var svo hækkaður í 5 1/2% með l. nr. 1 frá 1964, og nú á að hækka hann í 8%.

Það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum og þörfum á hverjum tíma, hverjar tekjuöflunarleiðir séu heppilegastar. Ég held, að í því efni sé ekki til nein algild formúla eða algild kennisetning. Það getur sjálfsagt stundum orðið að grípa til einhvers konar söluskatta eins og annarra tekjuöflunarleiða. Ég tel ekki rétt að vera þar með neina einstrengingslega fordóma. En auðvitað skiptir í því sambandi og þegar um söluskatt er að ræða meginmáli, hvernig á stendur hverju sinni og hvernig söluskattinum nánar er hagað, hvort hann er hafður misjafnlega hár á vörutegundir, þannig að þær vörur, sem munaðarvörur má telja, leggi þar meira af mörkum, þannig að hann sé raunverulega skattur á raunverulega eyðslu, eða hvort hann er lagður á allar vörur almennt, almennur neyzluskattur. Enn fremur er auðvitað mjög gerandi greinarmunur á söluskatti, hvort hann er notaður af innflutningi eða hvort hann er lagður á viðskipti manna á milli innanlands, eins og á sér stað um þann almenna söluskatt, sem hér gildir. En ég held, að af ýmsum söluskattsaðferðum, sem tíðkanlegar eru og hugsanlegar eru, sé hinn almenni söluskattur í þeirri mynd, sem hann hér hefur verið lögleiddur, einna óheppilegastur. Ég tel þess vegna, að í lengstu lög ætti að forðast að grípa til hans. Og ég tel hann alveg sérstaklega varhugaverðan vegna þess, að hann kemur þyngst niður á öllum almenningi, hækkar vöruverð og stóreykur dýrtíð og kyndir þar með undir verðbólguþróuninni, auk þess svo, að innheimta á slíkum almennum söluskatti er ákaflega erfið, innheimtumenn eru margir eða réttara sagt, þeir verða margir, sem eiga að standa skil á söluskattinum. Það er hætt við, að þau skil verði misjöfn. Það er hætt við, að hann komist ekki allur til skila. Það er mikil freisting lögð fyrir þá, sem á móti skattinum taka, og ég held, að þessi skattheimtuaðferð ýti beinlínis undir óheiðarleika í þjóðfélaginu. Mennirnir eru að vísu misjafnir, sumir eru heiðarlegir, aðrir kannske misjafnlega heiðarlegir. Ég efast ekkert um það, að margir þeir, sem við þessum skatti taka, skili honum vel og heiðarlega af sinni hendi. En líklegast má telja, að á því séu samt veruleg missmíði, og a.m.k. gengur almannarómur í þá átt, að mjög mikið skorti á, að skil á söluskatti séu í því lagi, sem vera ætti. En sannleikurinn er sá, að ef þessi skattheimta á að vera í nokkru lagi, þá þarf mikið og skilvirkt eftirlit. Það kostar mjög mikla skriffinnsku, gífurlegan kostnað og mikla fyrirhöfn fyrir allan almenning, ef skattheimta af þessu tagi á að vera í nokkru lagi.

Það eftirlit, sem til þarf, hefur, að ég held, ekki á nokkurn hátt verið fullnægjandi, og eins og ég sagði áðan, er það víst, að það er uppi almannarómur um, að það sé miklu skotið undan af söluskatti. En það liggur í augum uppi, að allir þessir agnúar, sem, ég hef hér minnzt á í örfáum orðum, verða miklu alvarlegri og stórkostlegri, eftir því sem söluskatturinn verður hærri. Ég er ekki einn um þessa skoðun. Við framsóknarmenn erum ekki einir um þessa skoðun. Við höfum átt skoðanabræður í herbúðum stjórnarflokkanna og þá fyrst og fremst í röðum Alþfl., — skoðanabræður, sem ekki hafa síður en við komið auga á þá annmarka, sem almennum söluskatti fylgja og ég hef hér lítillega leitazt við að rekja, og ég leyfi mér því til sönnunar að tilfæra nokkur dæmi.

Ég sé nú að vísu, að ég hef ekki við höndina þau dæmi, sem ég ætlaði að rekja úr umr., sem fram fóru hér eitt sinn á hv. Alþingi um söluskatt, en þá tóku þátt í þeim umr. fyrir hönd Alþfl. þáv. formaður Alþfl., Haraldur Guðmundsson, og núv. hæstv. viðskmrh. og lýstu þá mjög skilmerkilega og mjög á sömu lund og ég hef gert hér, en þó með miklu sterkari og litríkari orðum, eins og þeirra var von og vísa, þeim annmörkum, sem á almennum söluskatti eru, og lýsti hæstv. viðskmrh. því alveg sérstaklega, að af öllum sköttum væri þessi skattur einna ranglátastur og þó að það væri viðurkennt, að skattsvik ættu sér nú víða stað, mundu þau þó hvergi vera meiri en einmitt í sambandi við söluskattinn. En það er nokkuð langt síðan þessi ummæli voru um hönd höfð, eða árið 1953, og mér er það ljóst, að ýmsir af fyrirsvarsmönnum Alþfl. hafa ekki þurft alltaf svo langan umþóttunartíma til þess að skipta um skoðun. Þess vegna þykir mér nú hlýða, þótt ég hafi ekki þessi ummæli þeirra hér við höndina og geti ekki lesið þau nákvæmlega upp, að vitna til nýrri ummæla frá fyrirsvarsmönnum Alþfl. og geta þess, sem Álþýðublaðið ritaði um það efni einmitt um þær mundir, sem verið var að lögleiða söluskattinn hér á Alþ. með l. nr. 10/1960, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í leiðara Alþýðublaðsins 11. marz 1960:

„Þegar lífskjör alþýðunnar eru svo knöpp, að hún getur ekkert leyft sér nema nauðþurftir, er að sjálfsögðu mjög óréttlátt að leggja á þær vörur söluskatt. Við þær aðstæður kemur skatturinn þyngst niður á þeim, sem sízt skyldi.“ Og enn fremur segir: „Þegar lífskjör batna og verða svo góð sem nú er orðið, má undanskilja ýmsar lífsnauðsynjar, en leggja söluskatt á aðrar. Þá greiða menn því meira af skattinum, því meira sem þeir hafa og nota af fé. — Það er af þessum ástæðum, sem menn hagnast við núverandi aðstæður af söluskatti. Hér á landi hafa ýmsar gerðir söluskatts verið reyndar síðustu ár. Hér þarf einfalt kerfi, sem er auðskilið, og sem minnst af undanþágum. Hér þarf umfram allt nákvæmt eftirlit með innheimtu skattsins og að honum verði ekki hreinlega stolið á leið frá neytanda til ríkiskassans. Það mun fara að verulegu leyti eftir þessu framkvæmdaatriði, hvort almenningur sættir sig við skattinn eða ekki.“

Svo mörg voru þau orð Alþýðublaðsins á sínum tíma. Hver hefur nú framkvæmdin orðið á innheimtu söluskattsins, en eftir því telur Alþýðublaðið eða taldi á sínum tíma, að það mundi einkum fara, hvort söluskatturinn væri réttlætanlegur eða ekki? Eins og ég hef margtekið fram, er það a.m.k. almannarómur, sem telur, að skattheimtunni sé einmitt á sviði söluskattsins alveg sérstaklega ábótavant. Og hvað segir Alþýðublaðið um það? Finnst því og finnst Alþýðuflokksmönnum, að innheimtan á söluskattinum hafi verið í lagi, í svo góðu lagi, að það réttlæti ekki aðeins áframhaldandi tilvist söluskattsins, heldur þá hækkun hans, sem hér er ráðgerð? Að minni skoðun verður það nánast að teljast furðuleg bíræfni að fara fram á þessa hækkun, sem hér er um að tefla, án þess að sjáanlegt sé, að gerðar hafi verið eða gerðar séu jafnframt nokkrar sérstakar ráðstafanir til þess að bæta innheimtuna. Hér ber því allt að sama brunni. Skattauki sá, sem í þessu frv. felst, er óþarfur, hann er óskynsamlegur, hann er ranglátur, og hann er lítt innheimtanlegur, svo að í lagi sé.

Ég man það að vísu, að þegar þessi söluskattur var lögleiddur hér á sínum tíma 1960, lét hæstv. fjmrh, þau orð falla, að þessi söluskattur væri sérstaklega heppilegur vegna þess, að hann væri svo auðskilin og einfaldur í framkvæmd. En mér þykir mikið, ef hæstv.

fjmrh. getur með góðri samvizku tekið undir þau orð nú að fenginni reynslu.

Það er alls ekki, eins og nú er komið, á álögur bætandi. Söluskattur mundi með þeirri hækkun, sem hér er ráðgerð, fara allt upp í um það bil 1000 millj. kr. á ári, og það er engin smáræðisupphæð, — minna má nú gagn gera. Í sambandi við þessa miklu söluskattshækkun, sem hér á að gera, er vekjandi á því athygli, eins og staðfest var af hæstv. fjmrh. í framsöguræðu hér áðan, að það er ekki gert ráð fyrir, að hluti jöfnunarsjóðs af söluskattinum hækki neitt. M.ö.o.: jöfnunarsjóðurinn á ekki að fá neitt af þeirri hækkun, sem þetta frv. lögfestir. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir nær 74 millj. kr. til jöfnunarsjóðsins af söluskattinum. Nú er gert ráð fyrir því, að jöfnunarsjóðurinn fái 7 1/2% af söluskattinum í heild, sem eftir hækkunina ætti að nema, eins og ég sagði áðan, nær 1000 millj. kr. á ári, og er þá auðsætt, að hluti jöfnunarsjóðsins verður eftir sem áður kringum 74 millj. kr. Það er þó sannast sagna, að það væri ekki vanþörf á að sjá sveitarfélögunum fyrir auknum tekjum, því að ástandið hjá þeim er þannig, að þau eru mörg hver í mikilli þörf fyrir auknar tekjur og eiga mörg hver við mikla erfiðleika að etja. En eins og öllum er kunnugt, er einn aðaltekjustofn þeirra útsvörin, en útsvörin hafa einmitt lagzt sérstaklega þungt á gjaldendur, og er viðurkennt af flestum, sem til þekkja, að þörf væri á því að létta útsvarsbyrðina nokkuð. En jafnframt er ljóst, að það er ekki hægt um vik í því efni, nema jafnframt sé sveitarfélögunum séð fyrir nokkrum tekjum í staðinn.

Í sambandi við þá söluskattshækkun, sem í þessu frv, felst, finnst mér ástæða til að vekja athygli á frásögn þeirri, sem birt er í dag á fyrstu síðu Morgunblaðsins um framlagningu þessa frv., en á fyrstu síðu Morgunblaðsins í dag stendur með stóru letri: „Söluskattur hækkar í 8% vegna niðurgreiðslna.“ Og síðan með stóru letri einnig, en nokkru smærra þó: „Í samræmi við júnísamkomulagið við verkalýðsfélögin.“ Og hæstv. fjmrh. talaði líka hér áðan í sinni frumræðu um þetta júnísamkomulag, og eiginlega skildist mér á hans máli, að í þessu blessaða júnísamkomulagi væri upp talið allt í þessu máli. En ég vil bara að gefnu þessu tilefni spyrja um það, hvort efni þessa frv. sé í samræmi við júnísamkomulagið. Á að halda því fram, að þá hafi verið samið um það, sem í þessu frv. felst? Það er ekki vafi á því, að með fyrirsögn Morgunblaðsins, þeirri sem ég áðan lýsti, er verið að reyna að læða því inn í hugi kjósenda, borgaranna, að þetta frv., með því efni, sem það hefur, sé í samræmi við hið svokallaða júnísamkomulag. Ef svo væri, fer ég fyrst að skilja yfirlýsingu hæstv. forsrh. um, að hann hafi mætt alveg sérstakri sanngirni í samningum við ákveðna hópa, þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér í gærkvöld. Og þá fer mér ekki að þykja það undarlegt, þó að hugur hans eftir á hafi verið opnari fyrir vinahótum í garð þeirra. En ég verð að segja það, að mér dettur ekki í hug að halda, að það hafi verið samið í júnísamkomulaginu um neitt þvílíkt eins og það, sem er í þessu frv. Þvert á móti spái ég því, að verkalýðssamtökin og launastéttirnar láti fljótlega í sér heyra andsvar við þessu frv. og því efni, sem það hefur að geyma. Og það væri ekki nema í samræmi við þá samþykkt, sem gerð var fyrir tveimur dögum í verkamannafélaginu Dagsbrún og ég gat um fyrr í minni ræðu, að þeir mótmæltu þessu frv. myndarlega. En það verður að gefnu þessu tilefni að krefjast alveg skýrra svara um það, hvort það hafi verið gert eitthvert samkomulag um þetta atriði og um þetta efni. Það er bezt, að það komi alveg fram, að það sé ekki verið að læða því að mönnum, að um þetta hafi verið eitthvert samkomulag, að þetta sé afleiðing, rökrétt afleiðing af því, sem þá var gert. Það er bezt, að það komi skýrt fram frá báðum aðilum, sem að því samkomulagi , stóðu, hvort það er svo í raun og veru eða ekki. Það dugir ekki að hafa neina tæpitungu á þar um eða tala í neinum gátum um það. Þetta verður að liggja alveg ljóst fyrir. Þetta er auðvitað þvílíkt meginatriði. En eins og ég sagði áðan, þá dettur mér ekki í hug að halda það, og ég var alveg sannfærður um, að um slíkt og þvílíkt hefur aldrei nokkurn tíma verið samið eða nokkurt samkomulag verið gert.

Ég drap á það sem þriðju ástæðuna, þriðju meginástæðuna fyrir því, að þetta frv. væri ekki samþykkjandi, að fjárstjórn ríkisstj. hefði yfirleitt verið með þeim hætti, að henni væri ekki fyrir fé trúandi. Það eru nú svo nýlega um garð gengnar almennar fjárlagaumræður, þar sem fram kom af hálfu framsóknarmanna rökstudd gagnrýni í því efni, að ég sé ekki hér ástæðu til að fara ýtarlega út í það og get nú stytt mál mitt um það, enda búinn að tala nokkuð lengi. En það er þó síður en svo, að ég biðjist nokkurrar afsökunar á því að tala lengi um þetta mál, því að það er það, sem þeir mega búast við, hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn, ef þeir ætla að temja sér þá starfshætti að koma með mál sem þetta inn að óvörum á síðustu dögum þings. Þegar allt er þannig í pottinn búið, að það er ekki tími til að afgreiða málin, svo að í lagi sé, þá mega þeir búast við því, að það sé að því fundið og menn sýni ekki ríkisstj. að því leyti neina sérstaka tilhliðrunarsemi. En um fjárstjórnina almennt er það náttúrlega skemmst að segja, sem öllum hv. alþm. er ljóst, að fjárlagaútgjöldin og álögurnar þar með hafa farið hækkandi ár frá ári um mörg hundruð millj. ár hvert, þannig að nú er svo komið, að að þessu frv. samþykktu mundi tekjuáætlun fjárlagafrv. komast upp í um það bil þrjá milljarða og sex hundruð millj. kr. Og eins og kom fram í fjárlagaumræðunum og á var þá rækilega bent, er eyðslan í ýmsum efnum orðin óhæfileg. Og til þess að standa undir þessari eyðslu þarf alltaf að seilast dýpra og dýpra niður í vasa skattborgarans, bæta á nýjum og nýjum álögum, þannig að þessi hæstv. ríkisstj., sem nú situr, er alveg óefað orðin mesta skattpíningarríkisstjórn, sem hér á landi hefur nokkru sinni setið, og á þar auðvitað algert met, og verður sjálfsagt langt þangað til það met verður yfirstigið. Og yfirleitt er þessi hæstv. ríkisstjórn ákaflega aðgangshörð í sínum nýju álögum.

Ég skal nú ekki fara út í það í sambandi við þetta mál að ræða dýrtíðarpólitík ríkisstj. almennt, enda þótt sú pólitík eigi að sjálfsögðu einn þátt í því, hvernig komið er, einnig á þessu sviði, og í þeirri eyðslu hjá ríkissjóði, sem raun ber vitni. Ég fer ekki út í að ræða það, hvernig það eitt hefur fætt af sér annað, gengisfellingarnar 1960, 1961, vaxtapólitíkin, söluskatturinn o.s.frv. En allt þetta hefur kynt undir verðbólgunni og valdið því, að fjárlögin hafa farið sífellt hækkandi og álögurnar sífellt orðið þungbærari, og er nú svo komið, að almenningur kvartar almennt undan þeim skattaálögum og hefur gert frá því s.l. sumar. Og daglega heyrum við í útvarpinu glymja áminninguna frá Gjaldheimtunni til skattþegnanna að borga sína skatta.

Ég held þó, að ég geti ekki stillt mig um að nefna það í þessu sambandi, að það séu vissir aðilar samt, sem hafi ekki ástæðu til að kvarta í þessu sambandi. Það er gengið hart að hinum almenna skattborgara, en núlljónamæringarnir, þeir sem stóreignaskatturinn var lagður á á sinum tíma, hafa ekki ástæðu til að kvarta. Þeir eru ekki minntir daglega á að borga sinn skatt. Hæstv. fjmrh. upplýsti það nýlega, að á þessu ári hefði aðeins verið greitt af þeim skatti um 400 þús. kr., ef ég man rétt, og að útistandandi af þeim skatti væru æðimargar millj., 25 millj., ef ég man rétt. Þessi skattur átti þó að fullnægja góðum þörfum. 2/3 hans áttu að renna í byggingarsjóð ríkisins, 1/3 í veðdeild Búnaðarbankans. Báðar eru þessar stofnanir og hafa lengi verið fjárvana og höfðu fyllstu þörf fyrir þessar tekjur. En hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, a.m.k. tvívegis, svo að ég hef heyrt, að þessi stóreignaskattslöggjöf frá 1957 hafi ekki einasta verið meingölluð, heldur sé hún einsdæmi í íslenzkri löggjöf. Ég held, að þetta sé mjög ofsagt hjá hæstv. fjmrh. og að hann hljóti að sjá það, ef hann hugsar betur um. Stóreignaskattslöggjöfin frá 1957 var nefnilega ekkert einsdæmi. Hún átti sér algera hliðstæðu í löggjöf, sem sett var 1950, með l. nr. 22/1950. Að vísu má segja, að það skilji nokkuð þar á milli. Það skilur á milli, að stóreignaskattinn frá 1950 áttu menn að greiða þegar af 300 þús. kr. eign, en stóreignaskattinn skv. l. nr. 44/1957 áttu aðeins milljónamæringar að greiða, þeir sem áttu 1 millj. eða meira. En að öðru leyti var þarna um hliðstæðu að ræða. Og það verður ekki fært fram til réttlætingar stóreignaskattslöggjöfinni frá 1950 fram yfir stóreignaskattslöggjöfina frá 1957, að stóreignaskatturinn 1950 hafi verið lagður á í sambandi við gengisbreytingu, en hinn ekki, vegna þess að raunverulega var stóreignaskattslöggjöfin frá 1957 liður í ráðstöfunum, sem gerðar voru 1956, og þá alveg sérstaklega í sambandi við 1. nr. 86/1956, þar sem lögleitt var 16% yfirfærslugjald á gjaldeyri, sem hefur verið haldið fram og ég vil ekki andmæla, haldið fram af stjórnarsinnum, a.m.k. sjálfstæðismönnum, að hafi jafngilt gengisbreytingu. Einmitt í sambandi við setningu þeirrar löggjafar, l. nr. 86/1956, var boðuð þessi stóreignaskattslöggjöf frá 1957, þannig að í raun og veru, þegar aðstæðurnar eru skoðaðar, voru þær mjög á eina lund 1950 og 1957. Það stenzt þess vegna ekki, að stóreignaskattslöggjöfin 1957 sé einsdæmi í íslenzkri löggjöf, enda er ég ekki þar einn til vitnis um, því að í þeim dómi, sem hæstiréttur kvað upp á sínum tíma um þetta árið 1958, þá kemur það einmitt fram í þeim dómi, að ein af ástæðunum að vísu, sem meiri hl. hæstaréttar finnur lagasetningunni 1957 til foráttu, er, að það hafi verið lagður á hliðstæður skattur 1950. Það var visst atriði að vísu, sem skildi á milli stóreignaskattslaganna 1950 og 1957 eftir þeim skilningi, sem meiri hl. hæstaréttar lagði í stóreignaskattslöggjöfina frá 1950 á þeirri tíð, af því að meiri hl. hæstaréttar skildi þá löggjöf á þá lund, að félög ættu að greiða stóreignaskatt, sem stóreignamönnum í þeim var gert að greiða. Ég verð að segja það, að þegar sá skilningur var lagður til grundvallar, hefði manni ekkert komið það á óvart, þó að sú hefði verið niðurstaðan, að stóreignaskattslöggjöfin frá 1950 hefði verið talin brjóta í bága við stjórnarskrá. En það var ekki litið svo á af meiri hl. hæstaréttar, en minni hl, aftur á móti var alveg sömu skoðunar um þau l. og aftur hæstiréttur 1957, þannig að því fer náttúrlega fjarri, að stóreignaskattslöggjöfin frá 1957 sé nokkurt einsdæmi í íslenzkri löggjöf. Það má áreiðanlega sitthvað að henni finna, og ég er ekki neinn sérstakur talsmaður fyrir því, að það sé gripið til þvílíkrar löggjafar. En það er hins vegar rétt í sambandi við þetta mál, sem hér er rætt, að minna á þessa löggjöf og hversu linlega hefur verið gengið fram í innheimtu þess skatts, samtímis því sem fyllstu hörku hefur verið beitt gagnvart hinum almenna skattborgara og samtímis því sem verið er að leggja á jafngífurlega neysluskatta og þennan almenna söluskatt, sem hér er um að tefla. Sannleikurinn er sá, að það skilur kannske ekki nema eitt á milli stóreignaskattslöggjafarinnar 1950 og 1957, og það er, að Sjálfstfl. stóð að setningu stóreignaskattslöggjafarinnar 1950, en ekki að setningu stóreignaskattslöggjafarinnar 1957. En það er rétt, eins og ég sagði áðan, að minna á það í sambandi við þessi skattamál öll, hversu hefur verið gengið linlega fram í innheimtu stóreignaskattsins.

Hæstv. fjmrh. hefur fært það fram sér til réttlætingar í því efni, að það hafi risið mörg málaferli út af stóreignaskattinum 1957. Það er rétt. Það risu líka mörg málaferli út af stóreignaskattinum 1950, ég veit ekki, hvort þau voru fleiri eða færri þá, ég hef ekki talið það

saman. En hæstv. fjmrh. segir, að það væru óheppileg vinnubrögð að vera að innheimta skattinn og láta hann í hendur veðdeild Búnaðarbankans og byggingarsjóðs ríkisins og svo væri kannske niðurstaðan hjá dómstólunum sú, að það ætti að endurgreiða eitthvað af þessum skatti. Það má segja. En mér er þá spurn: Er þessari reglu fylgt alls staðar annars staðar? Ég veit ekki betur en það hafi verið ákveðinn með lögum svokallaður bændaskattur, gjald, sem á að renna í Stofnlánadeild landbúnaðarins, og ég veit ekki betur en það hafi risið málaferli út af þeim skatti. Ég veit ekki betur en því sé haldið fram, að hann sé andstæður stjórnarskránni. Það mál er enn óútkljáð hjá hæstarétti. Það sé fjarri mér að fullyrða nokkuð um, hver málalok verða í því, ég skal ekkert segja um það, um gildi þeirra raka, sem færð eru fram fyrir því, að þessi skattur sé andstæður stjórnarskránni. En mér er ekki annað kunnugt en hann hafi verið innheimtur og innheimtur til fulls, þrátt fyrir það að það hljóti að vera svipað óvissuástand um hann og stóreignaskattinn að þessu leyti. Það liggur í augum uppi, að ef svo færi, að hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu, að þetta gjald væri andstætt stjórnarskránni, yrði það dálítið óþægilegt fyrir stofnlánadeild Búnaðarbankans að standa skil á því fé, sem lagt hefur verið í hana. En samt sem áður hefur ekki verið hætt við innheimtu gjaldsins.

Ég nefni þetta aðeins til þess að sýna, að það er gerður hér munur á. Og stjórn, sem er í einelti við almenna skattborgara hér á landi, en sýnir milljónamæringum hlífð og linkind, hún hentar ekki á Íslandi, og það mun sýna sig.

Ég skal svo láta máli mínu lokið um þetta frv. Ég held, að það sé aðeins einn votturinn af mörgum um það, að hæstv. ríkisstj. hefur beðið algert skipbrot, ekki aðeins í þessu máli, heldur og miklu víðar. Og ég skal aðeins ljúka máli mínu með því að minna á, að það dettur vitaskuld engum í hug að segja það nú, að verðbólgan hér á landi sé stöðvuð, að segja, að núverandi hæstv. ríkisstj. hafi ráðið við verðbólguna eða ráði við hana. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að halda því fram í fullri alvöru. Enda er sýnilegt t.d., að þetta frv., sem hér liggur fyrir, mun á sinn hátt ýta undir verðbólguna. Það, sem það hefur í för með sér, verða verðlagshækkanir, sem verða svo aftur orsök til kaupgjaldshækkana. En því nefni ég þetta, að í einni af sinni seinustu ræðum til þjóðarinnar sagði fyrrv. forsrh., fremsti maður Sjálfstfl., hv. þm. Ólafur Thors, að ef ekki tækist að vinna bug á verðbólgunni, þá væri allt annað unnið fyrir gíg. Og það held ég, að sé mjög rækilega á sannað.