22.10.1964
Efri deild: 5. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

2. mál, innheimta gjalda með viðauka

Arnór Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég er mjög þakklátur formanni n., fyrst fyrir það, að hann leyfði mér að vera laus við það að skrifa undir nál. um þetta, en svo sá ég á eftir, að í raun og veru hafði hann bundið mig við annað, og það er að gera grein fyrir þessari sérstöðu minni, og það skal ég gera í fáum orðum.

Það, sem veldur því, að ég vildi ekki skrifa undir þetta nál. og ekki greiða atkv. í n., var einfaldlega það, að ég hef litið á þennan gjaldaviðauka, sem venjulega er kallaður bandormurinn, sem eins konar minnismerki um sleifarlag og ómyndarskap í okkar fjármálum, bæði ríkisins og öllum saman, og ég vildi alls ekki sýna honum neina virðingu með því að samþ. hann hér. Reyndar hugsaði ég mér að gera mér þetta sem allra suðveldast, þannig að skipta mér ekkert af málinu, en þegar ég sé það í þessu nál., að ég hafi óbundnar hendur um afstöðu til málsins, þá er það eiginlega hálfgerð brýning um það, að ég geri grein fyrir því. Það er í raun og veru ekkert annað en þetta, sem veldur því, að ég vildi ekki skrifa undir nál., ekki það, að ég hygðist gera þarna nokkra breyt. á eða hafa nokkur afskipti af þessu máli. Það er hvort tveggja, að ég treysti mér ekki til lækningar og ég kæri mig heldur ekkert um það að rugla þá afstöðu, sem þingið tekur í fjármálum í þetta skipti. Ég vildi bara fá að láta vera að greiða atkv. um þetta.

Um lækninguna er það að segja, að bandormur verður varla læknaður nema á einn hátt, þ.e. með hreinsunum, og ég hef að vísu ekkert góða reynslu af mínum lækningatilraunum í þeim efnum. Ég bauð mig einu sinni fram til þess og vann að því að vera hundahreinsunarmaður minnar sveitar, en þegar til átti að taka í næsta skipti, þá hafði sýslumaðurinn sett mig af embættinu. Júlíus Havsteen var frumlegur maður í sér, og þetta hafði hann gert, ekki held ég mér til ósæmdar, en þetta varð þess vegna dálítið minnisstætt, og ég bjóst við að hér mundi fara eins.

En það er með þennan bandorm, að mér finnst hann vera tákn þeirrar óreiðu, sem er í okkar fjármálum öllum, og þetta hefur valdið því, að ég lít þannig á, að þau séu verri en þjóðin á skilið og verri en hún er, og þess vegna vil ég ekki taka jákvæða afstöðu til þessa, sem mér finnst vera slæmt. Þetta hefur valdið því m.a., að ég hef verið á móti öllum ríkisstj. hér á Íslandi í nærri 30 ár og enga þeirra stutt til lengdar. Ég hafði að vísu samúð með stjórn Hermanns Jónassonar síðast, en ég var honum eiginlega aldrei þakklátur nema fyrir eitt, og það var, þegar hann sagði af sér. Það var ekki vegna þess, að mér hefði reynzt hann svo sérstaklega illa, heldur vegna þess, að hann braut eina reglu, sem allar stjórnir hafa haft hér, reglu Fróðárhirðarinnar, að lafa meðan menn gátu lafað, svo lengi sem biti fannst ætur. Hann sagði af sér, þegar honum fannst tími til kominn. Og ég segi alveg eins og er, að ég hef aldrei ámælt honum fyrir það. Það eina, sem ástæða var til að ámæla honum fyrir, var, að hann hafi borið einhverja óbeina sök á því, að næsta stjórn tók við og sú næstnæsta, en því getur engin fráfarandi stjórn raunverulega borið ábyrgð á.

Ég held, að þetta geti nú orðið nokkurn veginn skýrt, hvers vegna ég greiði ekki atkv. með frv., og einnig, að ég mun ekki greiða atkv. á móti því. Ég veit þetta kemst í gegn án mín, og þá verður þetta til þess að gera saklaus afstaða. Þetta eru í raun og veru bara mótmæli gegn bandorminum. Þótt hann sé styttri núna en hann hefur verið stundum úður, þá er þetta blátt áfram eðli bandormsins, að bæta við sig, og svo dettur af honum liður og liður alltaf öðru hverju. Þess vegna er það hvorki til að mæla með honum né móti, sem frsm. sagði, að hann væri styttri núna en hann var seinast.