29.10.1964
Efri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

38. mál, samvinnubúskapur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Af því að ég á ekki sæti í þeirri n., sem þetta frv. fer til, langaði mig til að segja um það örfá orð á þessu stigi málsins og skal ég þó reyna að lengja ekki umr. mikið, en flutningur þessa máls gefur tilefni til ýmiss konar íhugana, sem gæti tekið langan tíma að fara út í, ef ætti að vera í einstökum atriðum. Ég ætla þess vegna aðeins að drepa á nokkur höfuðatriði, sem mér finnst meginmáli skipta.

Í fyrsta lagi er það, að mér finnst það eftirtektarvert, að þetta frv. skuli koma fram. Það er út af fyrir sig ekki eftirtektarvert, úr því að það á annað borð kemur fram, að það sé flutt af þeim hv. þm. Framsfl., sem telja samvinnufyrirkomulag á sem flestum sviðum æskilegt og það er á engan hátt hægt að fetta fingur út í þá skoðun, hvað þetta snertir. Engu að síður er þetta frv. eftirtektarvert. Það sýnir okkur það, sem er, að því er mér þykir, lofsvert og bendir í rétta átt, að menn eru farnir að gera sér grein fyrir því, að það þarf að taka skipulag íslenzkra landbúnaðarmála með æðimikið öðrum hætti, en gert hefur verið og það verður að reyna að finna ný úrræði til þess að reka búskap á Íslandi á þann hátt, að hann geti skilað því fólki, sem við hann starfar, eðlilegum afrakstri, ekki á þann hátt einan, sem því miður hefur viljað brenna við, að það væri látið nægja að reikna út, hvað bóndi þyrfti á að halda miðað við þá tækni, sem þá hverju sinni hefur verið til staðar og síðan gera kröfu um, að þjóðfélagið sæi fyrir þeim arði af framleiðslunni, að það skilaði viðunandi afkomu bóndans. Það gefur auga leið, að svona er ekki hægt að starfa að þessum málum til langframa.

Við stöndum nú andspænis byltingum í þjóðfélaginu tæknilega séð og á margan annan hátt, ekki siður félagslega séð, sem valda því, að allar atvinnugreinar og þá ekkert síður landbúnaður, en aðrar atvinnugreinar verða að beygja sig fyrir því, að það getur þurft að gera þar mikilvægar breytingar og hafna þeim kenningum, sem á sínum tíma hafa þótt góðar og gildar. Og það, sem mér sérstaklega hefur þótt miður farið og því miður of mikið á því bera hjá mönnum, sem hafa talið sig sérstaklega mikla unnendur landbúnaðarins er, að það hafi verið talið fjandskaparmál, ef einhver hefur imprað á því, að ekki væri allt með felldu og það gæti þurft að gera víðtækar breytingar á búskaparháttum og hvernig búrekstri yrði fyrir komið. Það getur auðvitað verið gott og blessað og verið vinsælt í bili að segja sem svo, hvort sem það er í landbúnaði eða annars staðar, að þar séu menn það dugandi og reki sína atvinnu með þeim ágætum og með þeirri atorku, að það sé óvirðing að vera að finna að, hvernig það sé gert. En til langframa þjónar það engum málstað að taka þannig á málum og ég held, að við verðum að venja okkur af því, sem því miður hefur of mikið verið haldið á lofti í pólitískum umr. um landbúnaðarmál, að ef menn hafa komið með skoðanir, sem hafa mjög brotið í bága við þær kenningar, sem áður hafa þótt góðar og gildar, þá væri það árás á bændastéttina og sýndi aðeins það, að menn væru fjandsamlegir bændum og ekki hvað sízt að þessu leyti þykir mér það mjög ánægjulegt, að þeir, sem að þessu frv. standa, skuli flytja það, ekki vegna þess, að ég sé að öllu leyti sammála því, sem í frv. kemur fram, heldur af því, að þessir mætu menn skilja sýnilega, a.m.k. nú orðið, þá staðreynd málsins, að það verður að taka búskap hér á Íslandi upp með öðrum hætti og finna annan grundvöll undir honum, heldur en er í dag til þess að geta skapað bændum aðstöðu til að búa í sinni atvinnugrein með jafnmiklum líkum til þess að lifa þar sómasamlegu lífi eins og aðrar atvinnustéttir gera. Með þessum orðum mínum er ég ekki heldur að finna á neinn hátt að því né gera lítið úr því mikla starfi og afrekum, sem unnin hafa verið í íslenzkum sveitum, en þetta er aðeins lögmál, sem ég vona, að við getum öll verið sammála um, að við lifum á þeim tækniumbyltingartímum, að við verðum að hafa augun opin engu síður í landbúnaði, en í öðrum greinum fyrir því, hvernig við bezt getum komið málum fyrir til þess að ná sem beztum árangri.

Það er alveg hárrétt, sem frsm. þessa frv. sagði, að eitthvert mesta vandamál í sveitum í dag og það, sem skapar fólki þar mesta erfiðleika, kannske ekki hvað sízt félagslega séð, miðað við þær lífskröfur, sem fólkið gerir í dag, er sú staðreynd, að allt of stór hluti bænda eru einyrkjabændur og skapar það mikla erfiðleika. Í rauninni mega ekki bóndinn og kona hans vera veik, hvað þá að þau megi fara út af heimilinu og taka sér frí, eins og aðrar stéttir telja nú orðið sjálfgert og sjálfsagt, að þær hafi svo og svo langt orlof ár hvert. Það er fyrst og fremst þetta, en ekki í rauninni það, að það sé meira strit í sveitum, en við margar aðrar atvinnugreinar, sem ég held að sé langmesta hættan fyrir þróun landbúnaðarins í dag og þess vegna verði að finna úrræði til þess, að það sé hægt með einhverjum hætti að færa búskapinn saman, skulum við segja, hvort sem við köllum það samvinnubúskap eða einhverju öðru nafni, þ.e.a.s. að fá bændur til að vinna saman í stærri stíl en þeir hafa gert til þess að geta hlaupið undir bagga hver með öðrum og þannig skapað skilyrði til þess, að ekki þurfi allt að vera í óefni, þó að bóndinn eða húsfreyjan þurfi að bregða sér frá, eða þau jafnvel geti ekki einu sinni notið eðlilegrar hvíldar, ef þau verða fyrir sjúkdómum, vegna þess að verkin kalli á og þau verði að vinnast. Þetta er, að því er ég hygg, mesta vandamálið við uppbyggingu búskaparins í dag, en ekki það, að stritið sé of mikið.

Svo komum við aftur að hinni hlið málsins, sem er ekki síður mikið vandamál og það er véltækni landbúnaðarins, hin mikla og vaxandi véltækni landbúnaðarins, sem hefur valdið því, að þrátt fyrir fækkun í sveitum hafa menn framleitt meira og meira. Hún krefst þess, að bústærð sé meiri, en hún er yfirleitt í dag. Vissar tegundir véla verða í rauninni að vera til á hverju búi, hvort sem það er stórt eða lítið, ef á að vera hægt að starfrækja búskapinn. Og ef búið er mjög lítið, gefur það auga leið, að það er lítið, sem verður í aðra hönd til að standa undir kostnaðinum við kaup slíkra véla. En það má auðvitað hugsa sér það, að bændur geti skipt á milli sín vélum og fleiri, en einn bóndi keypt vél og notað til skiptis. Vafalaust vita allir þeir, sem þekkja nú aðstæður í sveitum, að þetta út af fyrir sig er mjög miklum annmörkum háð. Búnaðarsamböndin leysa þetta með því að kaupa saman ræktunarvélar og það eru dæmi þess einnig, að bændur hafi keypt saman nokkrir stærri vélar og skipzt á um þær, en varðandi aðrar vélar, sem almennt þarf að nota við búskapinn, t.d. heyvinnuvélar, er þetta miklum erfiðleikum bundið vegna þess, hvernig við vitum að tíðarfar hér á Íslandi er, að það eru oft ekki langar stundir, sem er færi á að þurrka sitt hey og þá gæti ærið mikið komið til árekstra, hver ætti þá að hafa búvélina í það og það skiptið, þannig að þetta út af fyrir sig leysir ekki málið. Lausn málsins verður að byggjast á nánari sambúskap milli bænda, þannig að menn vinni betur saman, með einhverjum hætti. Við getum kallað það samvinnubúskap, við getum kallað það öðru heiti, það skiptir ekki meginmáli. En það verður að finna úrræði til þess að leggja grundvöll að slíkri samvinnu bænda. Og þetta eru bændur að skilja í sífellt ríkari mæli. M. a. verðum við varir við það og ég tel það mjög gleðilegt í sambandi við framkvæmdir bænda, að bændur, þó að þeir búi hver á sinni jörð og reki sjálfstæðan búskap, þá jafnvel leggja þeir í það, að þeir byggja sameiginlega stórt fjós fyrir kýr beggja bænda. Þetta er auðvitað háð því, að jarðirnar hafi þannig legu, að þær liggi saman og sé hægt að koma þessu fyrir með skaplegum hætti. En hér hafa bændur sjálfir fundið, að reyna þarf að koma á einhvers konar samvinnu og vafalaust á þetta fyrir sér að þróast í stærri stíl. Og einmitt með hliðsjón af þessu var það, að vakið var máls á því og samþ. hér ályktun um það á Alþingi, að það væri nauðsynlegt að koma upp sérstakri hagfræðistofnun eða hagfræðilegum leiðbeiningum fyrir bændur, til þess blátt áfram að kenna þeim, miðað við nútímatækni, miðað við þann mikla kostnað, sem er við allar framkvæmdir nú á dögum, að finna út, hvernig þeir á hagkvæmastan hátt gætu rekið sinn búskap. Og það er eitt, sem við verðum að hverfa frá, sem því miður var allt of ráðandi hér á Íslandi og skal ég engan um það saka eða reyna að blanda stjórnmálalegum viðhorfum inn í það, en það var sú skoðun, að það væri eðlilegt og sjálfsagt að búta jarðir í sundur sem allra mest og búa til alls konar smábýli. Þessi stefna er ljóslega röng, algerlega röng, og nýbýlastefnan, sem að sínu leyti var góðra gjalda verð, hefur einnig sýnt sig að vera röng að því leyti til, — ég er ekki að saka þá menn, sem að því stóðu, þeir byggðu á því ástandi, sem var þá í þjóðfélaginu, en þá var gert ráð fyrir að stofna nýbýli með landsstærð, sem er í dag talið algert kotbýli og raunar gersamlega útilokað að lifa á. Mín skoðun er sú, að það sýni ekki neinn fjandskap við bændur, að það eigi að stefna að stækkun býla og mín skoðun er sú, að það beri á engan hátt að harma það, að hinar og aðrar jarðir fari í eyði, ef það er til þess, að þær geti orðið betur hagnýttar með öðrum hætti, með því að skapa þá nálægum jörðum betri skilyrði til búskapar. Þetta verður auðvitað allt að vera í hófi, en að láta sér detta það í hug, að við eigum að beina okkar þróun í búskap að því að halda við alls konar afdalajörðum, það er fásinna. Og það, sem hv. 1. flm. hér minntist á áðan um stefnuna í Noregi í þessum efnum, hún er nákvæmlega í þá átt og á öllum Norðurlöndum, að afdalajarðirnar eigi að fara í eyði. Hitt er allt annað mál, að það getur verið nauðsynlegt, að þjóðfélagið hjálpi þeim mönnum, til þess að þeir glati ekki algerlega sínum eigum, með einhverjum bótum að koma sér fyrir á annan hátt, en ekkert þjóðfélag, hvorki okkar þjóðfélag né neitt annað þjóðfélag, hefur efni á því í dag að vera að láta menn hokra við litla og ómerkilega framleiðslu. Við þurfum á því að halda að nýta okkar vinnuafl þannig, að það skili þjóðarbúinu sem allra mestum afköstum og sem allra mestum afrakstri, hvort sem það er í sveit eða við sjó. Og við þurfum að byggja sveitirnar þannig upp, að fólk finni, að það sé ekki síður þar, en annars staðar í landinu, hægt að lifa góðu lífi og fá góðan afrakstur af sinni atvinnu og sinni atorku. Þetta er sú grundvallarstefna, sem ég álít að hljóti að vera fram undan að gera sér grein fyrir og ég held, að ég fari með rétt mál, að það sé einmitt mjög ofarlega á baugi nú hjá bændasamtökunum og ég tel, að það beri mjög að fagna því, að þau hafi í hyggju eða séu kannske þegar byrjuð á víðtækum athugunum á því, hvernig framtíðar skipulagi landbúnaðarins og landbúnaðarframleiðslu verði haganlegast fyrir komið hér á Íslandi, bæði með hliðsjón af því að sjálfsögðu að skapa fólkinu í sveitunum sem bezt lífsskilyrði og jafnframt til þess að geta boðið þjóðinni sem beztar og fullkomnastar landbúnaðarvörur við sem hagstæðustu verði og gert landbúnaðinn á þann hátt samkeppnisfæran.

Ég bið afsökunar, herra forseti, á því, að ég hef eytt svo mörgum orðum um þetta. Þetta er ekki mælt, eins og menn hafa heyrt, til þess að deila á einn né neinn í þessu sambandi, heldur aðeins til að vekja athygli á því og í rauninni taka undir það, sem hv. 1. flm. þessa máls sagði hér áðan, að það er nauðsynlegt að skoða þetta mál í nýju ljósi, það er nauðsynlegt að beygja sig fyrir þeim staðreyndum, sem við blasa og reyna ekki að blekkja bændur með neinum ímyndunum um það, að lífið sé öðruvísi, en það í raun og veru er, að það verði þess vegna að reyna að sameina krafta hinna beztu manna og velviljuðustu bændastéttinni til þess að reyna að finna úrræði í þessum efnum. Það er ekki von til þess, að neinn einstakur bóndi geti fundið það. Búskapurinn er ekkert einfaldur atvinnuvegur. Hann er kannske einhver sá flóknasti atvinnuvegur, sem við stundum, á margan hátt og það veltur á miklu, hvernig á þeim möguleikum er haldið, sem hver og einn hefur.

Hvort það verður niðurstaðan, að það verði komið upp einhvers konar samvinnubúskap, — ég álít, að það sé rétt að vissu marki að gera það, en ég hins vegar vara mjög við því og er því algerlega andvígur, að það verði miðað að því af þjóðfélagsins hálfu að þvinga menn til samvinnubúskapar. Það er sjálfsagt að greiða fyrir því, bæði með lánveitingum og á annan hátt, en ég álít, að samvinnubúskapurinn eigi að sýna kosti sína á þann hátt, að menn finni, að þeir hafi betra upp úr því og það sé þeim hagkvæmara að vera í samvinnubúskap. En mér finnst það fráleitt, sem hefur því miður of mikið borið á hér í viðhorfum í sambandi við samvinnumál á Íslandi, að það væri verið að þvinga menn til samvinnubúskapar með alls konar sérstökum fríðindum, ef þeir vildu vera svo góðir að taka upp þann hátt. Það álít ég að sé rangt. Og ég álít, að sé mjög hæpið, að það eigi að veita sérstaka styrki mönnum til þess að koma upp samvinnubúskap. Ég er þá kannske meiri samvinnumaður, en ýmsir aðrir, en ég álít, að samvinnubúskapurinn, ef hann á annað borð á framtíð fyrir sér, þá eigi hann að grundvallast á því, að menn finni, að það sé hagkvæmara að búa þannig saman, heldur en hver út af fyrir sig og þurfi enga sérstaka styrki til þess. Og ég álít einnig, að það þurfi mikillar athugunar við, hvort t.d. Landnám ríkisins á að fara að beita sér fyrir því að setja upp sérstök samvinnubýlahverfi og jafnvel reisa þar íbúðir og nauðsynleg útihús fyrir samvinnubú. Hvað vita menn um það, hvort nokkur maður vill nokkurn tíma búa þarna? Ég álít, að það eigi fyrst og fremst að greiða fyrir því, ef einhverjir vilja fá gott land til búskapar og slá sér þar saman um samvinnubúskap, þá eigi að greiða fyrir því, að menn geri það, en ekki að fyrir fram eigi menn að útbúa einhvers konar samvinnuhverfi, bíðandi eftir því eða vonandi, að einhver maður kunni svo einhvern tíma að vilja setjast þar að. Ég held, að við höfum ekki efni á slíkum ævintýrum hér á Íslandi og það sé ekki heppilegt. En með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr mörgum þeim hugmyndum, sem eru fram settar í þessu frv. og legg áherzlu á, að það verði íhugað. En ég er hv. 1. flm. algerlega ósammála um það, að þetta frv. eigi að afgreiðast á þessu þingi, — það álít ég, að eigi ekki að gera. Og ég álít, að eigi að taka þetta mál upp á miklu víðtækari grundvelli. Að vísu verður það vafalaust sent til umsagnar bændasamtakanna, Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda og þá koma fram viðhorf þeirra til þessa máls. En ég álít, að til þess að heildarskipulag landbúnaðarins og úrræði til þess að greiða fyrir því, að búrekstur verði rekinn með hagkvæmari hætti, verði gerður fýsilegri fyrir fólkið, ekki aðeins efnahagslega séð, heldur einnig félagslega séð, að til þess að svo megi verða, þurfi að taka þetta mál upp á enn viðtækari grundvelli, en hér er gert. Þetta getur verið gott og blessað út af fyrir sig, sem einn þáttur í þeirri athugun, en ég er ekki reiðubúinn fyrir mitt leyti að ljá því fylgi, að þetta eitt út af fyrir sig verði á þessu stigi lögfest sem úrlausnarefni á þeim vanda, sem hér er við að glíma.