05.11.1964
Efri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

42. mál, gróðurvernd og landgræðsla

Flm. (Arnór Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég held, að ég verði fyrst að byrja á því að biðjast afsökunar á því, að ég skrifaði upp þetta frv. og að nokkru leyti samdi í vondu skapi og einkum þó greinargerðina. Ég ætlaði ekki að flytja þetta mál upphaflega hér, en þegar ég hafði séð, það sem hafði verið gert á síðari árum, þá fannst mér ég mega til, gerði það þó nauðugur. En þó að ég væri í vondu skapi, þegar ég ritaði grg., reyni ég að vera ákaflega hógvær og sanngjarn, hvernig sem það svo tekst. En ég geri ráð fyrir því, að það veiti ekki af því, ef þið eigið að hlusta á mig, því að ég ætla mér að verða dálítið langorður. Og það er einmitt vegna þess, hvernig máli þessu hefur verið tekið hér, að mér finnst þurfa að gera meiri grein fyrir því en flestum málum öðrum. Ég hafði álitið, að þetta væri sjálfsagt mál, en það er einhverra hluta vegna, sem þingmenn skilja þetta öðruvísi.

Ég ætla að hefja mál mitt með því að gera grein fyrir því, að það er rangt, a.m.k. frá mínu sjónarmiði skoðað, að við séum þjóð í stóru landi. Okkar land er lítið og það er lítið jafnvel fyrir þessa litlu þjóð. Ég veit að menn hafa dæmt okkar land og stærð þess töluvert eftir því, hve lengi er gengið í kringum það, hve langa vegi þarf að leggja um það og ýmislegt annað þessu líkt. Áður var það jafnvel svo, að menn mældu heiðarnar í því, hve marga roðskó þurfti til þess að fara yfir þær. Þannig var Þorskafjarðarheiði einu sinni 7 roðskóa heiði, það þurfti að eyða 7 steinbítsroðum til þess að ganga yfir hana. En stærð lands á að marka eftir allt öðru. Það er eftir því, hve það er mikið nytjaland. Og á okkar landi eru ekki nema rétt um 1.000 km2, sem hægt er að skoða sem nytjaland sambærilegt við það land, sem aðrar þjóðir hafa, jafnvel í nágrenni okkar á Norðurlöndum. Við höfum tæplega 800 km2 tún og ef við leggjum þar við okkar beztu flæðiengi, okkar garða, okkar skrúðgarða í kaupstöðum, þá komumst við aðeins upp í rétt 1000 km2. Það er m.ö.o. aðeins 1% af því landi, sem við teljum okkur eiga samkv. landafræðinni.

Þetta litla land þurfum við umfram allt að stækka og stækka það mikið og við megum ekki sjá í kostnað við að stækka það. Hingað til höfum við aðallega stækkað ofur lítið ræktað land á kostnað beitilanda okkar, sem eru að minnka. Beitilöndin eru samkvæmt mælingum, sem gerðar hafa verið eftir korti, um 24 þús. km2. En þessi beitilönd eru, eins og þið vitið, þannig að það er ekki hægt að meta þau sem nytjaland nema í mesta lagi 10% virði af því, sem virkilegt nytjaland er. Þetta land er okkur ekki nóg, enda eru beitilöndin þegar fullnytjuð, þrátt fyrir það að við eigum fátt búfé og beitilöndin eru einu sinni ekki nothæf, svo að teljandi sé, nema aðeins til sauðfjárbeitar. Við erum farin að beita kúm hér um bil eingöngu í tún, af því að það eitt borgar sig.

Ég skal gera ofur lítið nánari grein fyrir landi okkar, nánari grein fyrir því, hvað það er í raun og veru. Við skulum skipta því í hæðarbelti eftir því, hvað það er hátt yfir sjó. Neðan við 200 m hæð er það, sem við teljum okkar eiginlega nytjaland og það eru helztu beitilöndin. Það eru rétt um 24 þús. km2. Af því eru um 3/4 að nafninu til grónir, ¼ algerar eyðimerkur. Svo höfum við 18 þús. km2 á hæðinni 200–1.100 m. Af því er 1/3 að telja má gróið land. Svo höfum við það, sem er þar fyrir ofan, í 400–600 m hæð, þar er aðeins 1/7 hluti landsins gróinn og þar fyrir ofan aðeins 1/40. Við þurfum ekki um það að ræða, að það land, sem er neðan við 200 m, er okkar bezta land. En landið þar næst fyrir ofan er líka virkilegt nytjaland eða gæti verið það. Ég nefni sem dæmi þess, að önnur af tveimur beztu sveitunum hér á Íslandi er fyrir ofan þessa hæð, það er Mývatnssveit í Þingeyjarsýslu. Það getur ekki verið nein tilviljun, að síðan farið var að meta og mæla nyt í kúm hér á landi, hefur aðeins tvisvar sinnum eitthvert nautgriparæktarfélagið haft eins háa meðalnyt kúa sinna og félag Mývetninga og það hefur aldrei komið fyrir, a.m.k. ekki árum saman, að menn hafi haft eins miklar nytjar af hverri á og þar hefur verið. Ég veit það, að Mývetningar eru að mörgu leyti fræknir menn. Ég ólst upp við það, að þeir litu niður á okkur Dalamenn þarna í Þingeyjarsýslu. Það var orðtak þeirra, ef einhver Dalamaður gerði eitthvað sæmilega vel: „Þetta var vel gert af Dalamanni.“ Og ef Mývetningur gerði eitthvað vel, þá var sagt: „Þetta hefði enginn Dalamaður gert.“ En við vitum það líka og höfum lært að meta það, Þingeyingar a.m.k., að svo að segja öll okkar uppreisn fyrir og eftir aldamótin síðustu, var úr Mývatnssveit komin. Þar uppi í Mývatnssveit á heiðarbýli nokkuð frá vatninu var bæði skrifstofa og stjórn Kaupfélags Þingeyinga um áratugi og þaðan voru okkar forustumenn. Ég trúi því ekki, að þetta sé vegna fólksins eins, enda eru hér um bil allir Dalamenn ættaðir úr Mývatnssveit, því að hvað eftir annað hefur fólkið fallið þar úr hungri og harðrétti og ný þjóðflutningaalda skollið á sveitunum þar ofan frá, úr Mývatnssveit. Þess vegna segi ég það, að það er á okkar valdi að gera hæðarbeltið 200–400 m yfir hafflöt að góðum sveitum, að góðu landi.

Ég veit það líka, að þetta land okkar, jafnvel langt upp til heiða, getur verið virkilega gott land. Ég nefni því til vitnis, að í öllum okkar landnámssögum er ekki ein einasta saga um hungurdauða eða annað harðrétti. Við skulum bera þær sögur saman við landnám Íslendinga á Nýja–Íslandi t.d., þar sem fyrstu og mestu fregnirnar frá fyrra landnámi eru um bóluna, um sultinn og það, hvernig vatnið, Winnipegvatn, gekk á land þeirra. Við höfum ekki eina einustu sögu um virkileg harðindi, fyrr en um 100 árum eftir að byrjað var að byggja landið: óöld í heiðni. Og aftur liðu 100 ár, þangað til við fengum ný harðindi, sem kölluð voru: óöld í kristni. Þess vegna er landið okkar — við megum vita það — gott land, ef við kunnum með það að fara. En því er ekki að neita, að það er einn ókostur, sem fylgir því. Allur gróður á þessu landi er viðkvæmur gróður, m.a. vegna legu landsins. Við verðum fyrst og fremst að gæta gróðurs landsins um allar sveitir, ef við eigum að halda þessu landi sem virkilega góðu landi.

Þetta er það, sem ég vil fyrst minna á, þegar við tölum um þetta mál. Svo skal ég næst segja ykkur ofur lítið frá persónulegri reynslu, sem ég trúi ekki öðru, en þið eigið líka að einhverju leyti. Ég hef verið mikill göngumaður um ævina. Það er vegna þess, að ég er ekki hestamaður, ég hef aldrei lært á bíl. En þegar ég geng um ógróið land, hvort sem það eru melar eða sandar, þá er það eins og óvart, að það kemur alltaf upp í hugann sama vísan, sem ég er alltaf að raula. Ég raulaði hana fyrst eins og endileysu drykkjumanns, en ég fann síðar, að það var bæði harmi sáð í léttúðina og léttúð í harminn. Það er þessi vísa eftir Káinn:

„Ljós eru slokknuð og landið er svart,

í loftinu er ekkert að hanga á.

Mér finnst það í sannleika helvíti hart

að hafa ekki jörð til að ganga á.“

Ég skildi þessa vísu fyrst, þegar ég fékk að vita það, að Vestur-Íslendingar hafa orðið „jörð“ í annarri merkingu, en við höfum hér heima á Íslandi. Í þeirra máli er jörð aðeins gróið land, graslendi, það land, sem þeir gengu aðallega á á Íslandi. Þetta sýnist vera eins konar drykkjuhjal, en það er fyrst og fremst harmur Íslendingsins, þegar hann gengur um akur í tröð eða um plógstrengi, en ekki það land, sem hann lærði að ganga á ungur. Hann sáir léttúð í harm sinn til þess að þola hann. Samferða þessu kemur annað í hugann líka. Það er úr Messunni á Mosfelli eftir Einar Benediktsson. Það eru þessar ljóðlínur:

„Víst er, að iðrun á einhverja náð,

til einhvers er harmi í léttúð sáð.“

Og það er einmitt þetta, sem hefur vaknað hjá mér, „til einhvers er harmi í léttúð sáð“, þegar ég er að raula þessa vísu á söndunum og melunum, þar sem ég geng. „Til einhvers er harmi í léttúð sáð“. Við hörmum það, hvernig með okkar land hefur farið, en til einhvers er þeim harmi sáð í þá léttúð okkar. Við höfum látið þetta land eyðast kynslóð eftir kynslóð, meðan við höfum búið í því og það að þarflausu. Þetta vil ég minna ykkur á, sem ráðið yfir málum þjóðarinnar, ráðið yfir því fé, sem við höfum til þess að bæta landið okkar. Ég minni ykkur á þetta aftur: „Til einhvers er harmi í léttúð sáð.“

Og svo vil ég minna ykkur á fleira, sem er full ástæða til, að þetta land er þannig, að við höfum virkilegar skyldur við það. Það er sagt, að land okkar sé fagurt og það er svo að vissu leyti og það er sagt líka, að fegursta leið, sem við getum sýnt nokkrum útlendingi, sé vegurinn um Mosfellsheiði, Þingvöll, Lyngdalsheiði, Laugardal, Biskupstungur, að Geysi, að Gullfossi. En hafið þið, eins og ég, verið annan eða þriðja hvern sunnudag í þurrki austur í Biskupstungum? Þegar vindurinn andar af landinu ofan og hvessir sig svolítið, það þarf ekki að vera meira, þá er það svo, ef maður stendur á hlaði á Miðhúsum í Biskupstungum og horfir yfir að Austurhlíð, það eru 2 km loftleiðis, þá hverfur bærinn öðru hverju í eina saman moldina. Þetta er landið, sem við sýnum útlendingum fegurst, leiðin, sem við viljum umfram allt fara með þá. Þetta er kannske mesta foksvæðið á Íslandi, eins og nú standa sakir, ofan af Haukadalsheiði, ofan úr Úthlíðarhrauni. Það þarf ekki að hvessa mikið af norðaustri, til þess að Bjarnarfell hverfi frá næstu bæjum og menn sjái ekki öllu meira, en á milli bæjanna. Svona hefur þetta áður verið austur á Landi, svona hefur þetta áður verið austur á Rangárvöllum. Nú eru Biskupstungur tvímælalaust bezta sveitin á Suðurlandi og er í hættu að eyðast, ef ekkert er verulega gert fyrir hana. Áður var Landið betri sveit og Rangárvellir sömuleiðis. Nú er sá tími liðinn og við eigum á hættu, að þriðja bezta sveitin á Suðurlandi geti farið sömu leið, nema við hættum því að tíma ekki að gera dálítið fyrir það, að landið okkar fái áfram að gróa og jafnvel að gera eitthvað fyrir það, að það stækki ofur lítið frá því, sem það er núna. Þetta vil ég reyna að brenna inn í ykkur, sem ráðið yfir fé hér á landi, eins og ég hef krafta til.

Ég vil líka benda á annað. Þið kvartið undan ryki hér í Reykjavík, og það er mikið, vegna þess að það er grásteinn, sem við höfum mulið undir sólum og mulið undir bílbörðum, sem rýkur framan í okkur. Þetta er að hverfa með nýju strætunum okkar og er gott um það að segja. En það er ekki allt rykið, allt moldrykið, sem kemur upp úr götunum. Það kemur líka austan yfir heiði, það kemur ofan af Mosfellsheiði, ofan af Hellisheiði, sunnan af Reykjanesskaga, þegar ekki rignir, það kemur líka austan af söndunum fyrir ofan Þingvöll, það kemur úr Úthlíðarhrauni, úr Haukadalshrauni, jafnvel austan af Landi sumt. Það getur orðið allt að því dimmt jafnvel í sjálfri Reykjavík fyrir þetta ryk. Og þetta er þarflaust vegna þess, að við getum haft allt Reykjanes gróið. Þið vitið það kannske ekki, að Almenningurinn, sem nú er ógróinn hér á Reykjanesi, var gróið land, skóglendi og kjarrskógur, jafnvel á hörmungaröldunum, þegar Jarðabók Árna Magnússonar var skrifuð. Þá var mönnum vísað til eldiviðar upp í Almenninginn, sem nú er auðnin ein.

Ég nefni þetta vegna þess, að það er sagt um suma Reykvíkinga, ég hef t. d. heyrt einhvern framsóknarmann segja það af okkar fjmrh., að hann segði, að Reykjavík og umhverfið væri Ísland allt. Ég býst við, að það hafi verið af ólund sagt og ég marka það ekki nema eins og hvern annan kjafthátt, en þetta er sagt um bæði hann og fleiri Reykvíkinga. Ég er ekki að segja þetta til þess að stríða þeim, heldur kannske ofur lítið til þess að brýna þá, en fyrst og fremst til þess, að menn viti, hvað menn segja hverjir um aðra.

Ég ætla svo ekki að tala meira um málið almennt og bið ykkur bara að taka þessu máli, sem allra, allra bezt.

Svo ætla ég aðeins að gera grein fyrir tvennu, sem hér er og ég býst við að ágreiningi valdi einkum.

Annað er það, að ég hef hér breytt nafni á gömlum lögum og vil kalla það Landgræðslu Íslands, sem áður var kallað Sandgræðsla Íslands. Þetta var till., sem kom fram, þegar ég var í sandgræðslunefnd, eins og hún var kölluð hér á árunum, nefnd, sem að vísu skilaði einu sinni frv., sem hefur legið síðan lítið hreyft og þó ekki alveg óhreyft. Ég vildi kalla þetta landgræðslu einmitt vegna þess, að það væri miklu fleira, en sandurinn, sem þyrfti að græða. Það var tvennt, sem var haft á móti því, annað hefðin, sandgræðslustjóri, sem í n. var, vildi ekki láta taka upp annað nafn fyrir hugþekkt nafn, sem honum var og svo var sagt, að þetta væri ágengni við skógræktina, en það hef ég síðar frétt, að muni ekki vera skoðað svo. En þetta er nú litið mál og skiptir ekki mjög miklu. En ég vil mjög gjarnan, að efni laganna komi allt eða svo mikið sem hægt er í fyrirsögn einni saman.

En hitt, sem ég vil sérstaklega tala um, er fjársöfnun til þess að græða landið, græða melana, græða ógróið land. Það er sérstök ástæða til þess, að ég tali um það, vegna þess hver till. er. Þið vitið það, mörg a.m.k., líklega hafið þið tekið eftir því öll, að erlendur fóðurbætir, kjarnfóður, eins og það hefur verið kallað, hefur verið eins konar heilög kýr hér í íslenzkri pólitík i mörg ár. Allar okkar erlendu, aðkeyptu fóðurvörur hafa verið tollfrjálsar um langan tíma og það hefur verið skoðað sem eins konar árás á bændastétt landsins að leggja þarna nokkurn toll á. Þetta er frá mínu sjónarmiði skoðað alger misskilningur. Ég lít á þetta erlenda kjarnfóður fyrst og fremst sem samkeppnisvöru við íslenzka fóðurframleiðslu og fóðurframleiðslan er þó alltaf fyrsta stigið í þeim landbúnaði, sem við rekum. Það er vegna þess innflutta fóðurbætis, sem hefur verið seldur tolllaust hér með svo lágu verði sem frekast mætti vera, að kornræktartilraunir okkar hafa yfirleitt að engu orðið. Það hefur ekki heldur verið lagt það kapp á grasræktina, ekki það kapp á grasmjölsframleiðslu eða annað, sem við getum nefnt, sem vel hefði mátt vera, ef þessu hefði ekki verið gert svo erfitt fyrir sem unnt er. Aðrar nágrannaþjóðir okkar, Svíar, Norðmenn, hafa þarna mjög annan hátt á. Þeir kaupa nokkurn hluta af sínum fóðurvörum erlendis frá, eins og við gerum. Það er vegna þess, að þeir eiga í erfiðleikum með kornrækt alveg eins og við. En þeir leggja ekki aðeins tolla á erlenda fóðurvöru, heldur líka mikla álagningu og þetta nota þeir til þess að geta verðtryggt það korn, sem þeir framleiða sjálfir. Korneinkasala þeirra hefur meira að segja haft efni á því, eftir að hún hefur tryggt sæmilegt verð fyrir innlent korn, að leggja milljónatugi, jafnvel yfir hundrað millj. kr., í það að styðja landbúnaðinn almennt. Það gerði hún árið 1961, hafði gert það 1960, gerði það 1962, lengra veit ég ekki.

Ég legg því áherzlu á það, að þetta verði tekið til vandlegrar athugunar. Ég lít ekki á þetta, a.m.k. eingöngu og ekki fyrst og fremst sem skatt á bændastéttina, þann toll, sem ég ætlast til að sé lagður á fóðurvöru. Ég geri ráð fyrir því, að hann verði reiknaður inn í landbúnaðarverðið og komi á alla. En ég vil jafnframt taka það fram, að ég geri ráð fyrir því, að það hafi þau áhrif jafnframt, að mjólkurframleiðslan verði nokkru minni, a.m.k. fyrst í stað, og við getum sparað það að greiða mjög mikla uppbót með smjöri og ostum, sem við flytjum úr landi. Jafnframt gæti þetta bæði verið og ætti að vera takmörkun á því, að mjólkurframleiðslan fari fram úr skynsamlegu viti.

Það er margt, sem ég vildi ræða hér, en ég veit, að þið eruð orðin þreytt, sem eruð líka sum farin.