02.03.1965
Efri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2615)

132. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Flm. (Helgi Bergs) :

Herra forseti. Á þskj. 270 flyt ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. frv. til l. um afnám laga nr. 47 frá 23. maí 1904, um lausn kjaradeilu verkfræðinga. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Það er hv. þm. mjög vel kunnugt, hvað í þessu felst, því að svo mikið var um þetta mál rætt hér á síðasta Alþingi, að mönnum er það sjálfsagt í fersku minni. Það liggur raunar strax í nafni þeirra laga, sem hér er lagt til að afnumin séu, að þau verða nú að teljast óþörf og eðlilegt, að þau séu ekki lengur í gildi. Þau fjalla um lausn kjaradeilu, sem átti sér stað í ágústmánuði 1963 og verður ekki gjörla séð, að nauðsynlegt sé að hafa lög í gildi í marzmánuði 1965 í þeim tilgangi.

Meginatriði þessara l. eru tvö. Í fyrsta lagi gera þau ráð fyrir, að gerðardómur ákveði laun verkfræðinga, sem starfa sem launþegar hjá atvinnurekendum. Nú hefur það um skeið verið yfirlýst stefna löggjafarvalds og ríkisstj., að kjaramál skuli leysa með frjálsum samningum milli launþega og vinnuveitenda, en þessi lög eru ekki í samræmi við þá stefnu. Opinberir starfsmenn hafa nú fyrir nokkrum árum fengið samningsrétt og nú eru ekki aðrar stéttir, en verkfræðingar einir, sem verða að lúta ákvæðum af því tagi, sem hér er um að ræða. Verkfræðingar einir allra launastétta eru þannig teknir út úr og sýnd með þessum hætti rangsleitni, sem ekki er eðlilegt að una við.

Nú er þetta að sjálfsögðu ekki mál verkfræðinga einna, því að ef hægt er að fara að þeim á þennan hátt, geta aðrir orðið fyrir sömu meðferð á öðrum tímum og þess vegna er þetta mál allra launastétta.

Það er sérstaklega ástæða til þess að nefna það í þessu sambandi, að nú er það talið vandamál víða um lönd, að sérfróðir menn leiti þangað, sem bezt kjör eru í boði. Jafnvel stórar og fjölmennar þjóðir eins og Bretar hafa orðið fyrir því, að þeirra beztu sérfróðu menn leita vestur um haf og þeir telja sér þetta vandamál og margar fleiri þjóðir eiga við vandamál af slíku tagi að etja. Tæknileg vísindi eru alþjóðleg og þess vegna er ekki rétt af okkur Íslendingum að láta verkfræðingastéttina búa að þessu leyti við óhagræði, sem aðrar stéttir þurfa ekki að þola.

Í öðru lagi fjalla þessi lög, sem hér er lagt til að afnema, um það, að gerðardómur skuli búa til gjaldskrá fyrir verkfræðilega þjónustu. Þessi ákvæði eru afar óvenjuleg og raunar algerlega einstæð, eftir því sem ég bezt veit, hér á landi og þótt miklu víðar væri leitað. Það verður í rauninni ekki skilið, hvernig löggjafinn hefur getað hugsað sér það, að gerðardómur, sem skipaður væri af hæstarétti, hefði á því nokkur tök að semja skynsamlega gjaldskrá fyrir verkfræðingastéttina. En látum það þó liggja á milli hluta. Lítum heldur á hitt, að aðrar hliðstæðar stéttir í þjóðfélaginu, svo sem tannlæknar og raunar læknar líka, lögfræðingar, endurskoðendur og aðrir hliðstæðir menntamenn, sem veita þjónustu í þjóðfélaginu og þeirra félög semja sjálf sína gjaldskrá og ekki hefur löggjafinn fram að þessu talið það óhæfilegan hátt. Það er líka mála sannast, að þessi ákvæði geta ekki eðli málsins vegna haldið í framkvæmd. Það er alkunnugt, að hér í Reykjavik starfa erlend verkfræðifirmu, sem eru hér með skrifstofur og búsetu sem útibú, sem hafa allt aðra og miklu hærri gjaldskrá, en verkfræðingum hérlendum er leyfð og það er ekki annað vitað en ríkisstj. og ríkisstofnanir sjái sér fært að skipta við slík firmu, þó að það sé ekki, að því er bezt verður séð, samræmanlegt þeim lögum, sem hér er lagt til að verði afnumin.

Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa haft á því á sínum tíma að leysa kjaradeilu verkfræðinga í ágústmánuði 1963 með þeim hætti, sem gert var, virðist mér ekki aðeins óþarft, heldur líka ósæmilegt að hafa lög af þessu tagi lengur í gildi og ég óttast, að það kunni meira að segja að vera hættulegt að hafa í gildi lög, sem taka eina launastétt og eina atvinnustétt út úr á þennan hátt og láta hana sitja við annað borð, en alla aðra. Við flm. erum þeirrar skoðunar, að það væri mjög æskilegt, að hv. Alþ. sýndi í verki vilja sinn til þess að fylgja fram þeirri stefnu, að hér skuli gilda frjálsir samningar milli vinnuveitenda og launþega, með því að afnema þessi lög í stað þess að láta þau renna sitt skeið á enda og þess vegna höfum við flutt þetta frv., sem við væntum að fái góðar undirtektir hjá hv. Alþingi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn. og til 2. umr.