18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

106. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og eins og engum hv. þdm. mun koma á óvart eftir 1. umr. málsins, hefur n., eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, ekki getað orðið sammála um afstöðu til málsins. Við 4, sem að meirihlutanál. stöndum, leggjum til, að það verði samþ., en aðrir nm. hafa tjáð sig frv. andvíga og skilað sérálitum.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl., höfum við hugsað okkur að flytja smávægilega brtt. við frv., þess efnis að samræma sektarákvæði söluskattsl. og tekjuskattsl., en það er rétt, að það komi nú þegar fram, að við nánari athugun á málinu kom í ljós, að tæknilegir örðugleikar á því að ganga frá þessu reyndust meiri en svo, að sá vandi yrði leystur á þeim skamma tíma, sem hér er til umráða, þannig að þessar brtt. verð ég þá fyrir hönd meiri hl. að afturkalla.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefur verið gerður út af þessu máli mikill úlfaþytur. Stór orð hafa fallið og birtar verið greinar um þetta og fréttir í stjórnarandstöðublöðunum undir stórum fyrirsögnum. Þetta er nú í sjálfu sér ekki neitt nýtt og auðvitað viðkomandi aðila að meta, hvort þeir telji sig hafa pólitískan hagnað af slíku. En eitt er eftirtektarvert í þessu sambandi, og get ég ekki látið hjá líða í upphafi máls míns að vekja athygli á því. Að jafnaði hefur það verið svo, að þegar efnahagsráðstafanir hliðstæðar þessum hafa verið gerðar, eins og gengisbreyting, hækkun á sköttum o.s.frv., þá hafa verið birtir um það einhvers konar útreikningar og tölur, hve miklu sú kjaraskerðing næmi, sem af þessu leiddi. Allir hafa þeir útreikningar að vísu að jafnaði verið meira eða minna villandi. Það er önnur hlið á málinu. En það er athyglisvert, að ekki er gerð nein tilraun til slíkra útreikninga eða að styðja málstaðinn með tölum, heldur gífuryrðin ein látin nægja. Ástæðan til þess liggur e.t.v. í augum uppi, en hún er sú, að ef þetta væri reiknað út á þann hátt, sem venjulega hefur verið, sbr. hina kunnu útreikninga um kaupmátt launanna, væri ákaflega erfitt, held ég, að komast yfir 1%, sem kjaraskerðingin ætti þá að nema. Svo er það önnur hlið á málinu, að auðvitað mundi það vera villandi líka, því að hvort sem söluskatturinn er 6% eða 8% eða hvað, þá hefur það auðvitað engin áhrif á þjóðartekjurnar og kjör heildarinnar. Slíkt getur einhver áhrif haft á tekjuskiptinguna, en á afkomu heildarinnar hefur það engin áhrif.

Ég gat ekki látið hjá líða í upphafi að vekja athygli á þessu. En í þessu liggur þó ekki það, að ég vilji á nokkurn hátt vanmeta þær skuggahliðar, sem óneitanlega eru á þessari löggjöf, því að þótt segja megi að vísu, að 3% almenn verðlagshækkun og samsvarandi kauphækkun sé ekki mikil miðað við ýmislegt, sem áður hefur gerzt, er þó hér um að ræða þróun verðlagsmála í öfuga átt við það, sem æskilegt væri, þannig að almenningur á vissulega kröfu á því, að gerð sé sem gleggst grein fyrir nauðsyn þeirra ráðstafana, sem af þessu frv. leiðir. Er þeirra í fyrsta lagi þörf, og sé svo, koma þá ekki aðrar leiðir til greina, til þess að fjárlög verði afgreidd með skaplegum hætti, annaðhvort aðrar tekjuöflunarleiðir eða sparnaður?

Það virtist ganga sem rauður þráður gegnum ræður þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem töluðu við 1. umr., að þeir svara fyrstu spurningunni neitandi. Þeir halda því fram, að engra aðgerða af þessu tagi sé þörf, þar eð tekjuáætlun fjárlagafrv. sé svo lág, að unnt sé að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs með því einu að hækka hana án nýrrar tekjuöflunar. En gallinn á þessu er bara því miður sá, að þetta stangast algerlega á við staðreyndir, sem ég hygg að hv. stjórnarandstæðingum veitist erfitt að vefengja, og á ég þá fyrst og fremst við upplýsingar þær, sem hæstv. fjmrh, gaf í lok 1. umr. málsins um afkomu ríkissjóðs fram til 1. des. En samkv. þeim upplýsingum var 300 millj. kr. halli hjá ríkissjóði í nóvemberlok, en á sama tíma í fyrra stóðust tekjur og gjöld nokkurn veginn á. Nú mun að vísu reynsla undanfarinna ára hafa sýnt það, að í desembermánuði batni afkoma ríkissjóðs að jafnaði verulega, og mun þetta á síðasta ári hafa numið 150—160 millj. kr. En það breytir engu um það, að mjög mikla bjartsýni þarf til þess að ætla, að ríkisbúskapurinn geti orðið hallalaus á því ári, sem nú er að líða, og raunar virðist mér það útilokað með öllu eftir þá breytingu, sem boðað hefur verið af hæstv. forsrh., að gerð verði á frv., en fyrir ástæðu þeirrar breytingar hefur hann gert grein.

Hvað snertir tekjuáætlunina fyrir næsta ár, er um að ræða svo mikla hækkun allra hinna þýðingarmestu tekjuöflunarliða, að mér finnst það gefa auga leið, að engin skynsemi væri í því að áætla þá hærri. Það ár, sem nú er að líða, hefur, eins og kunnugt er, verið mikið veltiár, bæði hvað innflutning snertir og annað, og nú er þó gert ráð fyrir talsverðri aukningu í fjárlagafrv. Það mundi því að mínu álíti vera algerlega út í bláinn, ef hækka ætti þessa tekjuáætlunarliði sem nokkru næmi frá því, sem nú er. Ég lít svo á, að í raun og veru væri það ekki annað en fölsun, sem sízt væri Alþingi samboðin af öllum þeim hugsanlegu leiðum, sem til greina koma, ef þessi leið væri farin. Nú ætla ég hv. stjórnarandstæðingum ekki það, að þeir haldi málflutningi sínum, eins og hann var við 1. umr. málsins, til streitu í þessum efnum. Fullyrðingar þeirra bæði þar og eins við fjárlagaumr. um það, að hægt væri að hækka tekjuáætlun fjárl., munu hafa byggzt á því, að þeim hefur verið ókunnugt um þær staðreyndir málsins, sem hér voru upplýstar af hæstv. fjmrh., og ég vænti ekki annars en þær upplýsingar nægi til þess að kveða þetta sjónarmið niður, hvað sem öðru líður.

Þessi leið mundi því vera algerlega óraunhæf, og ég lít svo á, að í sjálfu sér mundi það vera miklu málefnalegri afstaða að halda því beinlínis fram, að fjárlög eigi að afgreiða með greiðsluhalla. Og það er tiltölulega auðvelt í sjálfu sér að finna þess dæmi frá öðrum löndum, að sá háttur sé hafður á. Það má t.d. nefna Bandaríki Norður-Ameríku, en s.l. 30 ár mun það að jafnaði hafa verið þannig, að fjárlög þar í landi hafa verið með tekjuhalla, og hefur það þó einmitt verið svo á þessum 30 árum, að gjaldmiðill Bandaríkjanna hefur verið talinn öruggari en gjaldmiðill nokkurs annars lands. Ég teldi það því miklu skárri málefnaafstöðu að halda því beinlínis fram, að það væri hægt að afgreiða fjárl. með tekjuhalla.

Að því er snertir mína persónulegu skoðun á þessu máli, er hún sú, að það er mér vissulega ekki nein trúarjátning, að undir öllum kringumstæðum þurfi afkoma ríkissjóðs að vera hallalaus, og byggist hún m.a. á reynslu Bandaríkjamanna í þessu efni. En eitt er það, hvað getur verið verjandi og jafnvel skynsamlegt í Bandaríkjum Norður-Ameríku, miðað við þær efnahagsaðstæður, sem eru þar í landi, og annað, hvað skynsamlegt er miðað við þær efnahagsaðstæður, sem eru hér á landi. Og það er skoðun mín, að miðað við núverandi aðstæður í efnahagsmálum Íslendinga sé það hættulegt, að lagt sé út á þá braut að afgreiða fjárlög með tekjuhalla. Ef það væri þannig, sem hv. stjórnarandstæðingar virðast halda fram, að hægt væri að bæta kjör almennings með því að lækka t.d. söluskattinn um 2%, hvar ætti þá að draga markalínurnar á milli þeirra lækkana, sem mögulegar eru og leiða til kjarabóta, og lækkana, sem ekki væru framkvæmanlegar? Það er nefnilega alveg rétt, sem fram kom í síðari ræðu hæstv. fjmrh., að það er sjálfsblekking, ef því er haldið fram, að almenningur geti sloppið við byrðar ríkisútgjaldanna með því að afla fjár á þann hátt að yfirdraga reikning ríkissjóðs í Seðlabankanum, og skiptir þar að mínu álíti engu máli, hvort ríkissjóður kann að hafa átt þar innstæður áður eða um beina skuldaaukningu sé að ræða. En ef það væri nú þannig, að það væri hægt að bæta kjörin með því að sleppa söluskattshækkuninni, þá verður mér að spyrja, hvort ekki væri þá enn þá betra að sleppa ekki eingöngu þeirri hækkun, sem nú er um að ræða, heldur fella söluskattinn alveg niður. Mér finnst betra, hvort sem við hugsum á röngum brautum eða ekki, að hugsa stórt heldur en að hugsa smátt. Hvers vegna kemur það ekki til greina að taka það spor að fella. söluskattinn algerlega niður? Og mætti þá ekki ganga enn þá lengra í því efni? Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði hér að umræðuefni tekjuskattinn og þær þungu byrðar, sem hann legði á almenning.

Væri þá ekki hægt að leysa þennan vanda með því að fella tekjuskattinn algerlega niður og tollana þá líka? Ef það er hægt að bæta hag almennings með því að yfirdraga reikning ríkissjóðs í Seðlabankanum, hvers vegna þá að stöðva sig við 100—200 millj.? Má þá ekki sleppa allri skattheimtu og greiða öll útgjöld ríkisins með því að taka lán í Seðlabankanum? Ef nokkur hv. stjórnarandstæðinga treystir sér til þess að gera grein fyrir þessu eða skýra þetta, og má vel vera, að svo sé, þá væri gaman að heyra það, því að ef hér er um snjallræði að ræða, kemur líka upp sú spurning: Hvers vegna hefur þessi speki ekki verið uppgötvuð annars staðar og þessi leið farin í öllum löndum, að hætta við það að vera að pína almenning með skattaálögum, í hvaða formi sem þær nú eru.

Nei, það ætti að vera svo, þegar talað er um málin í alvöru, að allir geri sér ljóst, að hér er ekki um möguleika að ræða á því að leysa efnahagsvandamálin. Og víst er um það, að það er í sjálfu sér talsvert önnur skoðun, sem ég er raunar algerlega sammála, sem fram kemur í nál. hv. 1 minni hl. fjvn. um fjárl. Þar segir svo í lok álítsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt frá fjárlagafrv. sé nú þannig gengið, að það sýni greiðsluhalla, er okkur ljóst, að úr því verður bætt og möguleikar til að brúa bilið eru fyrir hendi og verða að vera það. Að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla kemur ekki til mála í slíku góðæri sem nú er til lands og sjávar vegna metafla og hagstæðrar tíðar til landsins.“

Þetta eru ummæli og stefnuyfirlýsing hv. 1. minni hl. fjvn. Annað mál er svo það, að þær ákveðnu till., sem komið hafa frá þessum hv. minni hl., eru ekki í fullu samræmi við þessar skoðanir. En skýringin á því er vafalaust sú, sem ég áðan nefndi, að hv. nm. hefur ekki verið kunnugt um hina raunverulegu afkomu ríkissjóðs um s.l. mánaðamót, og mér kæmi það á óvart, ef þeir mætu menn, sem aðilar voru að þessu nál., breyta ekki um afstöðu í samræmi við þær staðreyndir, sem þeim nú hljóta að vera orðnar ljósar.

En hvaða afleiðingar mundi það þá hafa, ef út á þá braut væri farið í stórum stíl að afgreiða fjárlög með tekjuhalla? Það er ein smáaths., sem ég að vísu mundi vilja gera við ummæli þau, sem ég áðan las upp, þótt ég sé raunar þeim að öðru leyti sammála, því að það snertir einmitt það, sem ég kem næst að, þegar ég mun lítils háttar ræða afleiðingar halla á fjárl. Það er talað um það í þessum ummælum, að með tilliti til góðærisins komi ekki til mála, eins og hv. nm. orða það, að afgreiða fjárl. með halla. Ég mundi álíta, að það, sem meginmáli skiptir í þessu sambandi, sé e.t.v. ekki út af fyrir sig, hvernig árferðið er, heldur gjaldeyrisafkoma og verðlagsþróun. Sé gjaldeyrisafkoma hagstæð og verðlagið stöðugt, getur það að mínu áliti verið hættulítið, þó að einhver halli sé á fjárl. hin einstöku ár. Ef það er hins vegar ekki, þannig að um verðbólguþróun er að ræða og gjaldeyrisaðstaðan veik, eins og hún venjulega hefur verið hvað okkur Íslendinga snertir, þá gegnir öðru máli, því að hallinn á fjárl. og sú falska kaupgeta, sem hann hefur í för með sér, kemur fyrst um sinn fram sem rýrnun gjaldeyrisinnstæðna, en þegar þær eru gengnar til þurrðar, kemur það fram í vöruskorti og aukinni dýrtíð. Við höfum líka reynslu í þessum efnum, því að á seinni hluta heimsstyrjaldaráranna síðari og fyrstu árin eftir heimsstyrjöldina, allt fram til 1950, var þessi leið raunverulega farin, sem hv. stjórnarandstæðingar virðast telja mikið snjallræði, að verðlaginu var haldið niðri með niðurgreiðslum úr ríkissjóði, en fjárins var a.m.k. að talsverðu leyti aflað með greiðsluhalla á fjárl., því að um meiri eða minni greiðsluhalla var að ræða á þessum tíma allt fram til 1950. Afleiðingarnar urðu svo þær, sem alkunnar eru frá nýsköpunarárunum, að þá leiddi þetta til þess, að gjaldeyrisinnstæðurnar gengu til þurrðar á allmiklu skemmri tíma en ella hefði orðið, en þegar þær voru gengnar til þurrðar, leiddi þetta til mjög strangra innflutningshafta, skömmtunar á öllum sviðum og vöruskorts.

Nú er það auðvitað mál út af fyrir sig, hvort menn æskja eftir því, að hafta- og skömmtunarkerfi verði tekið upp að nýju. Ég skal ekki fara mikið út í það í þessu sambandi, en vil þó vekja athygli á því, að fullkomin ástæða er til slíks, því að vilji menn ekki fylgja almennt viðurkenndum reglum um heilbrigða fjárlagaafgreiðslu, þá hlýtur það auðvitað að þýða það, að taka verður afleiðingunum af því, gjaldeyrisskorti og þeim ráðstöfunum, sem óhjákvæmilegar eru þá gjarnan taldar, til þess að draga úr honum, m.a. með því að taka upp innflutningshöft. Og vissulega er það eins um höftin og um verðbólguna, eins og bar á góma fyrir nokkrum dögum í sameinuðu þingi, þar sem umr. áttu sér stað um efnahagsmál, sem voru miklu málefnalegri en þær, sem voru við 1. umr. þessa máls, að eins og verðbólgan hefur einnig sínar björtu hliðar, þar sem það eru alltaf einstaklingar, sem græða á verðbólguþróuninni, þá má segja það sama um innflutningshöftin. Það eru alltaf einhverjir einstaklingar, sem græða á þeim. Hitt er svo annað mál, hvort sá hagnaður, sem einstaklingar geta borið úr býtum vegna innflutningshaftanna, rennur fyrst og fremst til verkamanna og hinna óbreyttu borgara þjóðfélagsins. Það virðist vera skoðun ýmissa verkalýðsleiðtoga, að það sé verkalýðnum sérstaklega í hag, að rekin sé stefna í efnahagsmálum, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða til mjög viðtækra hafta. Í því efni er ég á alveg gagnstæðri skoðun. Það eru þeir aðilar, sem aðstöðu hafa í þjóðfélaginu, hvernig sem hún svo er, sem sitja við kjötkatlana, þegar varla er hægt að snúa sér við, án þess að fá til þess leyfi einhverrar opinberrar nefndar. Það eru hins vegar hinir óbreyttu borgarar, menn, sem ekki hafa aðstöðu á hærri stöðum, þannig að þeir geti fengið áhrifamenn til þess að tala máli sinu, sem synjanirnar fá.

Ég skal svo ekki ræða þetta nánar. En ég hygg, að mönnum hafi í rauninni verið það ljóst fyrir, að tekjuhallaleiðin er ekkert úrræði í þessum efnum. Enda hefur hvorugur stjórnarandstöðuflokkanna lýst sig því í sjálfu sér fylgjandi, að stofnað væri til halla á fjárl., svo að jafnvel hv. stjórnarandstæðingum mun þetta vera ljóst.

En það þýðir ekki að hafa frammi fullyrðingar um það, að hallarekstur komi ekki til mála, en vilja svo ekki stuðla með neinu móti að því að frá hallarekstri verði forðað. Þá er spurningin sú: Koma aðrar tekjuöflunarleiðir til greina heldur en sú, sem hér er bent á? Auðvitað er það eins með söluskattinn og alla aðra skattstofna, að sitthvað má honum til foráttu finna. Það er nú einu sinni þannig með alla hina þýðingarmeiri skattstofna, að undanteknum fasteignasköttum og nefsköttum, að það verður aldrei haft svo fullkomið eftirlit með innheimtu þeirra, að ekki megi búast við því, að einhverju af þeim verði stolið. En telji menn söluskattinn verri í þessu efni og öðrum en aðra skatta, kemur auðvitað spurningin um það, ef menn eru líka sammála um það, að hallarekstur hjá ríkissjóði komi ekki til greina, hvaða leiðir eigi þá að fara aðrar til að afla nauðsynlegra tekna. Á að hækka tekjuskattinn? Með tilliti til þeirra umr., sem hér hafa farið fram um hann, m.a. við 1. umr., og þess úlfaþyts, sem gerður hefur verið út af þeim málum allt frá því á s.l. sumri, þá virðist það útilokað, að hv. stjórnarandstæðingar hugsi sér þá leið, að hann verði hækkaður. Þvert á móti hafa þeir gagnrýnt það og munu eiga eftir að gagnrýna það enn þá meira, að fyrirhuguð lækkun á skattstigunum sé ekki nógu mikil. Á þá að fara að hækka tollana? Það kann að láta vel í eyrum þeirra, sem ókunnugir eru málum að öðru leyti, að það eigi að hækka tolla á lúxusvörum, eins og það gjarnan er orðað. En í því efni vil ég aðeins leyfa mér að vísa til fenginnar reynslu, ekki sízt á síðustu árum, að óhóflega háir tollar af hinum svokölluðu lúxusvörum leiða til stórfellds smygls, og aldrei hefur þetta betur sannazt en einmitt nú á allra síðustu árum, þegar það skref var tekið fyrir forgöngu hæstv. núv. fjmrh. að lækka verulega þessa háu tolla og það kom í ljós, að tekjur ríkissjóðs af þessum tollum komu ekki til að minnka, heldur þvert á móti aukast.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fjölyrða meira um þessa hlið málsins. Ég vænti þess ekki, að neinn úr hópi hv. stjórnarandstæðinga komi með till. um einhverjar aðrar leiðir en þá, sem hér hefur verið farin til tekjuöflunar. En er þá ekki um neitt annað að ræða í þessu efni? Jú, það er ein leið til, sem borið hefur þegar á góma í þessum umr., og sérstaklega kom það fram í ræðu hv. 5. þm. Reykn. Hann benti á það og vissulega með réttu, að það er hægt að spara. Ég er þessum hv. þm. sammála um það, að hér er um raunhæfa leið að ræða, og ég get jafnvel tekið enn þá dýpra í árinni. Það leiðir einmitt af því, sem ég áður hef sagt, að sé raunverulega vilji fyrir hendi til þess að létta byrði ríkisútgjalda af almenningi, er þetta eina raunhæfa leiðin, sem um er að ræða. Því er þessi leið þá ekki farin? Hér kemur það til, að það er ákaflega auðvelt að tala almennt um það, að eyðslan sé óþarflega mikil og það þurfi að spara. Þetta lætur mjög vel í eyrum allra. En vandinn verður meiri, þegar benda skal á einhverja ákveðna gjaldaliði í fjárl., sem skera eigi niður.

Það hefur áður borið á góma, hvaða till. hv. stjórnarandstæðingar hafa gert í þessu efni við meðferð fjárl. Í nál. hv. 2. minni hl. fjvn., hv. 10. landsk., Geirs Gunnarssonar, eru að vísu bornar fram fáeinar till. um lækkun tiltekinna ríkisútgjalda. Mér hefur talizt til við lauslega athugun, að samanlagt næmi þetta eitthvað 7—8 millj. Má vera, að þar skakki 1 eða 2 millj. til eða frá. En jafnvel þó að á það væri fallizt að spara á þeim liðum, sem hv. þm. leggur til, má þó á það benda, að í framkvæmdinni gæti það ekki orðið þegar í stað, því að t.d. ef segja á upp lögregluþjónum á Keflavíkurflugvelli, þurfa þeir þó sinn löglega uppsagnarfrest samkv. l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En hvað sem öðru líður, er það auðsætt, að því fer fjarri, að um þetta muni nokkuð, sem teljandi sé, þó að vissulega beri að virða hverja viðleitni til að benda á eitthvað ákveðið í þessum efnum. En móti því kemur það, að sami hv. þm. flutti allmiklar till til hækkunar. Sé litið á nál. og till. hv. 1. minni hl. fjvn., þeirra framsóknarmanna, verður eftirtekjan þó stórum megurri en hvað snertir till. og ábendingar hv. Alþb. í þessu sambandi. Ég hef ekki getað fundið, að það væri nema eitt einasta atriði varðandi útgjaldahliðina, sem þeir gagnrýna, en þetta er hið nýstofnaða prestsembætti í Kaupmannahöfn, en útgjöld við það er gert ráð fyrir að nemi 300 þús. á ári. Það getur auðvitað verið álítamál um þetta eins og aðrar slíkar ráðstafanir, hvort þessum peningum eigi að verja í þessu skyni eða einhverju öðru. En hér við bætist það, að þunginn á bak við þessa einu sparnaðartill., sem fram kemur í nál., er þó ekki það mikill, að flutt hafi verið till. um að fella þennan útgjaldalið niður, a.m.k. hef ég ekki getað fundið hana í till. hv. 1. minni hl. og varð ekki heldur var við það í atkvgr.; að hún væri borin upp. Hér við bætist það, að þó að hv. 2. minni hl. flytti að vísu ýmsar hækkunartill., þá voru þær þó stórum meiri hvað snertir hv. 1. minni hl.

Hv. 5. þm. Reykn. talaði um það, og ég hef mikla samúð með því sjónarmiði að auðvitað væri æskilegt, ef visst samstarf gæti tekizt milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu, og satt er það, að í nágrannalöndum okkar mun yfirleitt sá háttur hafður á, að þegar meiri háttar till. eru lagðar fram í efnahagsmálum, þá eru þær tilkynntar stjórnarandstöðunni og leitað við hana samstarfs, ef fáanlegt er.

Annað mál er það, að oft kemur auðvitað fyrir, að upp úr þeim samningum slitnar, þannig að ríkisstj. sú, sem með völdin fer, verður þá að fara sínar eigin leiðir. Ég er í sjálfu sér alveg sammála hv. þm. um það, að þetta væri æskilegt. En það virðist bara hafa verið eins konar leikregla í íslenzkum stjórnmálum, að þess er ekki krafizt af stjórnarandstöðunni, hver sem hún er, að hún hafi ábyrga afstöðu til málefna, sem fram komi í því, að lagðar séu fram af hennar hálfu ákveðnar, raunhæfar till. í þeim efnum, og meðan ekki er sýndur meiri litur á því að leggja til eitthvað, sem er raunhæft, heldur en gert hefur verið hingað til af hálfu hv. stjórnarandstæðinga og nál. þeirra og till. um afgreiðslu fjárl. er ljósasti votturinn um, þá get ég ekki annað en fallizt algerlega á það sjónarmið, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins, að ekki verður séð, meðan ekki verður á þessu breyting, sem vonandi á þó eftir að verða, að það væri annað en tímatöf að fara þessa leið, svo æskileg sem hún er, þó að hún þyki sjálfsögð í öðrum löndum, þar sem andrúmsloftið í þessum efnum er annað en hér.

Það, sem er meginvandamálið í þessu sambandi og gerir það erfitt, ekki eingöngu fyrir hv. stjórnarandstæðinga, heldur líka og kannske ekki síður stjórnarflokkana, — því að auðvitað má spyrja að því, hvers vegna stjórnarflokkarnir leggi þá ekki fram þessar sparnaðartill., — er það, að þeir eru allt of margir, sem ekki átta sig á því, að það er ekki bæði hægt að krefjast stórfelldra framlaga af hálfu hins opinbera, bæði til fjárfestingar og til ýmiss konar þjónustu við almenning, og vilja svo ekki sætta sig við að greiða þá skatta og aðrar álögur, sem nauðsynlegar eru til fjáröflunar í þessu skyni. Þegar haldnir eru almennir kjósendafundir, fundir í pólitískum félögum o.s.frv., þá munu fáir slíkra funda vera haldnir þannig, að á þeim komi ekki fram meiri eða minni kröfur og óskir um þáð, að lagt sé í meiri opinberar framkvæmdir af ýmsu tagi. Fólkið skorar þar á þm. sinna kjördæma, ef um almenna kjósendafundi er að ræða, eða þm. sinna flokka, ef um fundi í stjórnmálafélögum er að ræða, að útvega meira fjármagn í vegi, byggja fleiri skóla, byggja fleiri hafnir, leggja fram meira til almannatrygginga og fram eftir þeim götunum. Ég dreg ekki í efa að alvara fylgir máli út af fyrir sig í flestum þessum dæmum og þm., hvar í flokki sem þeir eru, gera auðvitað sitt bezta til þess að framfylgja þessum kröfum. Þeir fá þeim auðvitað sjaldnast eða aldrei öllum fullnægt í einu, en þeir gera sitt bezta. En svo er það bara þetta, að þegar reikningurinn fyrir þessar framkvæmdir er birtur, eru þeir allt of margir, sem hugsa. þannig, þegar þeir sjá þessa reikninga: Nei, þetta er ekki hægt. Og svo mæta þeir á fundum í stéttarfélögum sínum, og ef það eru launþegar, vilja þeir fá hærra kaup, til þess að þeir geti staðið undir skattgreiðslunum, ef það eru bændur, vilja þeir fá hærra afurðaverð, ef það eru útvegsmenn, vilja þeir fá gengislækkun eða meiri uppbætur, og séu það kaupmenn eða kaupfélagsstjórar, vilja þeir fá hærri álagningu. Ég segi ekki, að það séu allir, sem hugsa, þannig, sem betur fer fer því auðvitað fjarri, enda væri það þannig, að allir hugsuðu svo, þá væri sú tilraun, sem við Íslendingar höfum gert til þess að vera sjálfstætt ríki, þegar farin út um þúfur. En þeir eru hins vegar allt of margir, sem þannig hugsa, og það er að mínu álíti undirrót þess vanda, sem hér er við að etja. Meðan hann verður ekki leystur, geta þau vandamál, sem hér er um að ræða, ekki horfið úr sögunni.

Það hefur mikið verið talað um það, að kaupmáttur launa, eins og það er orðað, hafi aukizt óeðlilega lítið frá því t.d. í lok seinni heimsstyrjaldar, og birtir um það útreikningar, sem að vísu ber að taka með hinni mestu varúð, að kjarabæturnar, sem fólkið hefur fengið á þessum tíma, séu of litlar og miklu minni en efni standa til. Þó að þessir útreikningar gefi að mínu álíti algerlega villandi niðurstöður, er út af fyrir sig sannleikskjarni í því, að það hefði verið hægt að bæta kjörin á þessum tíma meira en raun er á. En það, sem hefur hindrað það, er fyrst og fremst sú mikla fjárfesting, sem hér hefur átt sér stað og er miklu meiri en yfirleitt gerist í löndum, þar sem þjóðartekjur eru svipaðar og hér. Hér hefur verið gert ráð fyrir því, að þriðjungi þjóðarteknanna væri varið til fjárfestingar. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er tilsvarandi tala eitthvað 13—15%. Þó að þjóðartekjur þar í landi séu miklu hærri en hér, telja stjórnarvöldin þar ekki fært að leggja meiri fórnir á almenning en þessu nemur. Rétt er þó að taka það fram, að til þess að gera þessar tölur algerlega sambærilegar, ber auðvitað að taka tillit til þess, sem Ameríkumenn verja til landvarna, en þau útgjöld erum við auðvitað að mestu lausir við. En þó að fullt tillit væri tekið til þeirra, mundi það ekki raska niðurstöðunni í heild.

En hvers vegna er fjárfestingin þá ekki skorin niður? Því get ég ekki á þessu stigi svarað öðruvísi en með annarri spurningu: Vill fólkið takmörkun á fjárfestingunni? Ef marka ber allar þær mörgu fundasamþykktir, sem ávallt eru gerðar og ég minntist áðan á, skyldi maður ekki álíta það. En vandinn er einmitt fólginn í þessu. Allir krefjast sem mestrar fjárfestingar, en þeir eru miklu færri, sem vilja taka á sig þær byrðar, sem hún óhjákvæmilega hefur í för með sér.

Ég ætla svo að síðustu aðeins að víkja nokkrum orðum að væntanlegum áhrifum þessara aðgerða, og þá koma mér fyrst í hug ummæli úr ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., sem mun nú að vísu ekki vera viðstaddur. Hv. þm. vék lítils háttar að mér og að vísu ekki óvinsamlega í þeirri ræðu, sem hann flutti við 1. umr. málsins. Hann var að tala um þá fræðslu, sem ég hefði verið að gefa hv. dm. eins og skólapiltum, svo sem hann orðaði það, þegar frv. um verðtryggingu launa var til umr. á sínum tíma. Og lá nú, fannst mér, dálítið svipaður andi í orðum hans eins og í því, sem haft var eftir hinum mikilhæfa Hólabiskupi, Jóni Arasyni, á sínum tíma, er honum fannst það óþarfi, þegar heimilisprestur hans minnti hann á, að líf væri eftir þetta líf, enda taldi hv. þm., að sér hefði verið kunnugt áður um þær staðreyndir, sem ég nefndi í þessari ræðu minni.

Það var nú ekki tilgangur minn í sjálfu sér að fræða þennan hv. þm. eða aðra, enda er mér vel kunnugt um það, að hann hefur dágóða þekkingu til að bera á efnahagsmálum og ekki sízt þeim þáttum þeirra, sem snerta launa- og kaupgjaldsmálin. Hann er að vísu ekki skólagenginn hagfræðingur, en það er hægt að afla sér menntunar á annan hátt en þann að ganga í skóla. Glöggt dæmi um það er sú fjárveiting, sem hækkuð var verulega og að verðleikum við 2. e. umr. fjárl. til bónda á Snæfellsnesi, sem er mikill stærðfræðingur, eins og kunnugt er, og þó að hann muni aldrei hafa í skóla gengið, svo að mér sé kunnugt, fram yfir barnaskóla, skrifar hann í tímarit, sem yfirleitt skrifa ekki aðrir í en þeir, sem eru prófessorar eða doktorar að nafnbót. Nú er það að vísu ekki svo, að ég vilji líkja hagfræðiþekkingu hv. þm. við stærðfræðikunnáttu þessa bónda, en hann veit meira í þeim málum en Pétur og Páll, það er mér vel kunnugt um, og hann er almennt greindur maður. En það, sem við hv. þm. og málefnaafstöðu hans er oft að athuga, er ekki þekkingarleysið, heldur hitt, að svo virðist og allt of oft sem þekking hans liggi í láginni. Hv. þm. lét í ljós áhyggjur yfir því, að þær 3% kauphækkanir, sem hér er um að ræða, yrðu ekki launþegum sú bót fyrir verðhækkanirnar, sem til væri ætlazt, vegna þess, eins og hv. þm. orðaði það: Ætli atvinnurekendur komi ekki til að velta þessu af sér með hækkuðu vöruverði? Nú skal ég sízt af öllu ámæla hv. þm. fyrir það, að þessi hugsun hefur komið upp í hans huga. Þvert á móti tel ég, hvað þetta atriði snertir, að hann tali sem ábyrgur verkalýðsleiðtogi, og það er allt of sjaldan, sem verkalýðsleiðtogarnir spyrja sig einmitt þessarar spurningar: Verða þær kauphækkanir, sem veittar eru, hvort sem farið er eftir þessari leið eða annarri, raunverulegar kjarabætur, eða bæta þær upp þær verðhækkanir, sem um er að ræða, ef dýrtíðaruppbætur eiga sér stað, eða koma þær til að renna alveg út í sandinn í hærra verðlagi? Og það er alveg sérstök ástæða til þess einmitt fyrir íslenzka verkalýðsleiðtoga að spyrja þessara spurninga, því að því miður hefur reynslan sýnt það hér á landi, að mest af þeim kauphækkunum, sem orðið hafa, a.m.k. síðustu 2—3 áratugina, hefur þannig runnið út í sandinn. Ég hugsa, að það sé ekki neitt ýkt, þó að sú tala byggist ekki á neinu sérstöku, ef nefnt er, að það sé a.m.k. 90% kauphækkananna, sem hafa ekki þannig orðið raunverulegar kjarabætur. Þegar þessar kauphækkanir fást fram, er því slegið upp sem stórum sigri, en svo þegar kemur að því að greiða sigurlaunin, hefur að jafnaði verið þannig, að atvinnurekendur hafa sagt: Við höfum enga möguleika á því að borga þetta hærra kaup, sem við höfum verið neyddir til að semja um, við verðum að velta því yfir á vöruverðið. — Og hvað þýðir það? Jú, launþegarnir eru látnir greiða sér sigurlaunin sjálfir, þau eru sótt í þeirra eigin vasa. Hér er vissulega um alvarlegt vandamál að ræða. En þetta sjónarmið hygg ég meginástæðuna til þess, að hæstv. ríkisstj. hefur valið þessa leið, en ekki aðra, sem hefði vissulega komið til greina, nefnilega þá að fella niðurgreiðslurnar að mestu eða öllu leyti niður og sleppa því að leggja söluskattinn á. Það hefði verið hægt að fara þá leið. En þá hefði kaupgjaldið hækkað meira en um 3% eða að mér skilst um a.m.k. 5%, og þá er það vissulega orðið mikið vafamál og jafnvel útilokað með öllu í mörgum dæmum, að atvinnuvegirnir gætu borðið slíka kauphækkun. Meðan kauphækkunin er hins vegar ekki meiri en 3%, mundi ég ætla, að skynsamlegar líkur væru fyrir því, að atvinnuvegirnir gætu borið þetta að verulegu leyti. Maður veit, að það eru einhverjar atvinnugreinar, sem alltaf berjast í bökkum, þannig að þær geta engar kauphækkanir tekið á sig. En gangi maður út frá eðlilegri tæknilegri þróun, finnst mér, að hægt sé að gera sér vonir um, að kauphækkanir innan þeirra takmarka, sem hér er um að ræða, geti verið bornar af atvinnuvegunum.

En svo að ég víki nú einnig að öðru, sem mér fannst ekki jafngott í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., þá var það nú því miður svo, að hinn ábyrgi verkalýðsleiðtogi, sem hafði orðið, meðan hv. þm. hélt sig að þessu, virtist fljótlega sökkva og hinn gamli Adam, áróðursmaðurinn, skjóta upp kollinum. Í beinu framhaldi af þessu fór hv. þm. að hugleiða það, hvað gerðist í kaupgjaldsmálunum á næsta vori. Komst hann þá þannig að orði, að ekki yrði komizt hjá verulegum kauphækkunum á næsta vori. Ég skal nú ekkert segja um það, í hvaða stærðahlutföllum hv. þm. hefur hugsað, þegar hann talar um verulegar kauphækkanir. Ég geri mér vonir um, að það, sem hv. þm. hefur í huga, og a.m.k. væri það umbjóðendum hans fyrir beztu, að svo væri, sé eitthvað lægra en menn hafa venjulega skilið við það, þegar talað er um verulegar kauphækkanir, og víst er um það, að þótt ekki sé nema 3% kauphækkun, er hún veruleg með tilliti til þeirra möguleika, sem að jafnaði eru á því að greiða almennar kauphækkanir, þannig að þær komi ekki út í verðlagið. En hvað sem þessu liður, þær áhyggjur, sem hv. þm. hafði í sambandi við möguleika atvinnuveganna á því að greiða 3% kauphækkunina og virtust vera miklar, komu alls ekki fram í sambandi við þær verulegu kauphækkanir, sem hv. þm. taldi óhjákvæmilegar á næsta vori. Hann var ekki með neinar bollaleggingar um það.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en vil aðeins að lokum leyfa mér að undirstrika það enn þá einu sinni, að hér er vissulega um mikið vandamál að ræða. En gífuryrði leysa ekki vandann heldur aðeins málefnaleg athugun á því, í hverju vandinn sé raunverulega fólginn og hvaða raunhæfar leiðir komi til greina til þess að leysa hann.