18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

106. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Í dagblaðinu Vísi í fyrradag var stór fyrirsögn, þar sem stóð: „3% almenn kauphækkun.“ Með smærra letri og lítið áberandi fyrir neðan stóð: „Hækkun söluskatts um 2 1/2% vegna niðurgreiðslu.“ Hækkun söluskatts vegna niðurgreiðslu var ætlunin að láta fólkið skilja það, þó að það væri ekki það, sem skipti mestu máli. Fagnaðarboðskapurinn er: 3% almenn kauphækkun.

Hverju var nú verið að lýsa með þeirri grein, sem svona fyrirsögn var sett við? Það var verið að lýsa því frv., sem hér er til umr., þar sem gert er ráð fyrir að leggja 300 millj. kr. nýja skatta á þjóðina til þess að borga niður vöruverð og nægir samt ekki betur en það, að 5 stiga hækkun verður á almennri framfærsluvísitölu.

Það eru enn eftir nær 300 millj. í nýjum álögum þrátt fyrir þá breytingu, sem hæstv. forsrh. lýsti í upphafi þessa fundar, sem lagðar eru á þrautpíndan almenning, sem hefur orðið að bæta á sig hundruðum milljóna króna á hverju ári á stjórnarárum hæstv. ríkisstj. Þó er þannig, að þessar álögur nægja engan veginn til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Hún á að hækka, og niðurgreiðslurnar verða hér eftir, eftir að þessar álögur eru á lagðar, óbreyttar frá því, sem þær hafa verið. Skatturinn á þess vegna ekki að ganga til niðurgreiðslnanna í sjálfu sér, heldur á hann að fara til annarra hluta. Hann á að fara í óráðsíuhítina, sem allt virðist geta gleypt.

Þjóðin er þrautpínd af skattabyrðinni, svo sem ljóst hefur orðið nú seinustu mánuðina öðrum tímum frekar, og allur almenningur leggur á sig óhæfilega vinnu til að standa undir þessari byrði, og hann getur ekki dregið af sér, hann getur ekki hætt þessari óhæfilegu vinnu vegna þess greiðslufyrirkomulags, sem á sköttunum er. Skattamálin hafa verið mjög á dagskrá undanfarna mánuði, ekki bara í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., heldur af öðrum ástæðum, sem öllum hv. þdm. eru vel kunnar. En einmitt í sambandi við söluskattinn er nauðsynlegt að ræða lítið eitt um aðrar tegundir skatta, ekki sízt vegna þess, að þegar þessi söluskattur var lagður á snemma á árinu 1960, þá var það látið í veðri vaka, að hann væri einmitt lagður á til þess að koma í staðinn fyrir þær tekjur, sem glötuðust við það, að nú skyldi afnema beina skatta á almennar launatekjur.

Við þessa yfirlýsingu var svo staðið á þann hátt, að um það leyti, sem lögin um söluskatt voru lögleidd, voru einnig leidd í lög ný skattalög, þar sem persónufrádrættir voru hækkaðir töluvert, og nýr skattstigi lögleiddur, sem í sjálfu sér var ekki óhóflegur á þeim tíma, en jafnframt því sem þetta var gert, þá voru afnumdar þær umreikningsreglur, sem áður höfðu verið á skattstiganum og á persónufrádrættinum, þannig að frádráttarliðirnir breyttust í hlutfalli við verðlagið og einnig tekjutölur skattstigans sjálfs breyttust í hlutfalli við verðlagið.

Þegar þessar reglur höfðu verið afnumdar, þá var fyrir því séð, að nú mundi dýrtíðin gerast skattstjóri í landinu, enda fór það á þann veg, að með rýrnandi krónugildi og hækkandi kaupgjaldi þar af leiðandi komust menn sífellt í hærri og hærri skattstiga og verðmæti persónufrádráttarins fóru síminnkandi.

Á árinu 1963 óx dýrtíðin miklu meira en nokkru sinni fyrr, eins og menn muna, og sá vöxtur varð til þess, að talsvert miklar launahækkanir áttu sér stað, þ.e.a.s. í krónutölu, og það var því þegar ljóst á árinu sem leið, að að óbreyttum skattlagningarreglum hlaut tekjuskattur og útsvar að hækka gífurlega langt fram yfir það, sem kleift væri að innheimta vandræðalaust.

Stjórnarandstæðingar bentu á það við meðferð skattalaganna hér á hv. Alþingi á s.l. vori, að svo mundi fara, að skattabyrðin yrði óhæfileg með þessum hætti. En ríkisstj. og stuðningsmenn hennar létu þær aðvaranir sem vind um eyrun þjóta með þeim afleiðingum, sem nú eru kunnar. Þegar skattskráin kom út í sumar sem leið og skattlagningin, tekjuskattur og útsvör, varð kunn, þá gerðu menn sér ljósar afleiðingar þess. Ég þarf ekki að rifja það upp hér í löngu máli, hverjar viðtökurnar urðu, við munum sjálfsagt allir eftir því. Framsfl. reið á vaðið í mótmælum gegn þessari skattlagningu, og 9. ágúst sendi hann ríkisstj. mótmæli sín ásamt kröfu um það, að skattlagning ársins yrði endurskoðuð.

Ég held, að það hafi verið Sósfl., en kannske var það Alþb. eða Kommúnistaflokkurinn, — ég veit ekki almennilega, man ekki lengur, hvaða deild það var, sem einnig fylgdi eftir. (Gripið fram í: Kannske Þjóðvarnarflokkurinn.) Kannske líka, já, ég þori ekki að fara með það með neinni vissu. Líklega var það Sósfl., sem fylgdi í kjölfar Framsfl. og mótmælti einnig með svipuðum hætti, og rétt eftir miðjan ágúst komu fulltrúar stjórnmálaflokkanna í útvarpið og virtust þar algerlega sammála um það, að of langt væri gengið í þessari skattlagningu og nauðsyn væri á því að endurskoða skattalöggjöfina sérstaklega með ýmis tiltekin atriði fyrir augum, sem ég má segja að þeir hafi verið sammála um. a.m.k. þykist ég muna, að hæstv. fjmrh., sem tók þátt í þessum umr., lýsti sig samþykkan því, að hækka þyrfti persónufrádráttinn, fjölga þrepum skattstigans og auka eftirlit með framtölum.

Um þessar mundir sneri einnig Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sér til ríkisstj. með tilmælum um það, að gengið yrði til samninga við þessi samtök launþega um eftirgjöf eða endurskoðun á sköttum ársins 1964. Í fyrstu virtist eins og ríkisstj. tæki líklega á þessum tilmælum. Settar voru undirnefndir og samningum haldið gangandi um allmargra vikna skeið. Það er þó orðið alllangt síðan það upplýstist, að undirnefndir hefðu skilað álíti, án þess að slíkt álit hafi þó mér vitanlega verið birt, nema þá útdrættir úr því, sem birzt hafa í einhverjum blöðum. En svo mikið er víst, að þessir samningar virðast ekki hafa leitt til neinnar niðurstöðu, og ég minnist þess, að við umr. í hv. Nd. fyrir nokkrum vikum lýsti hv. 3. landsk. þm., Eðvarð Sigurðsson, sem er formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, því yfir, að hann teldi, að á þessu máli væri orðin alger brigð frá stjórnarinnar hálfu. Þá varð ljóst, að sá verkalýðsleiðtogi hafði misst trúna á það, að ríkisstj. mundi standa við það, sem hún hafði gefið í skyn, að hún mundi vilja gera í þessu máli. Það birtist svo í fyrradag í dagblöðum samþykkt frá Verkamannafélaginu Dagsbrún, þar sem þetta er undirstrikað. Ég skal ekki rekja þá samþykkt hérna, þar sem hún hefur verið rakin við 1. umr. þessa máls.

Þrátt fyrir það, þó að Verkamannafélagið Dagsbrún og formaður þess hafi misst trúna á ríkisstj. í þessu máli, er ekki útilokað, að einhverjir hafi haldið áfram að trúa og vona, og það eru þá þeir, sem hafa fengið umbun sína í þeirri fyrirsögn, sem Vísir birti í fyrradag: 3% almenn kauphækkun. Þar hefur málgagn hæstv. fjmrh, enn einu sinni orðið húsbónda sínum til sóma.

En það eru fleiri en skattpíndur almenningur í landinu, sem telur nauðsyn umbóta í skattamálum. Í 1. hefti Fjármálatíðinda fyrir þetta ár, sem er að líða, sem kom ekki út, þó að það heiti 1. hefti, fyrr en líklega í október eða jafnvel nóvemberbyrjun, — í ritstjórnargrein í þessu blaði eru settar fram slíkar skoðanir, að ekki er um að villast, að höfundur þessarar ritstjórnargreinar telur skattamál okkar Íslendinga komin í algert óefni. Greinin er rituð af tilefni þess, að höfundur hennar virðist telja nauðsyn á því að lækka verulegu beina skatta og er að velta fyrir sér möguleikum til annarrar tekjuöflunar. Ég skal taka það fram, að þótt ég muni nú vitna nokkuð í þessa grein, þá er ég ekki með því að lýsa yfir stuðningi mínum við niðurstöðu greinarinnar. Ég læt þá aðalniðurstöðu liggja á milli hluta, sem komizt er að í lok greinarinnar, en í meginmáli hennar koma fram ýmsar skoðanir, sem ég tel fulla ástæðu til að veita athygli í þessu sambandi.

Í þessari grein segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Hvar þau mörk liggja, þar sem viðbótarskattlagning fer að hafa í för með sér óviðunandi ranglæti og tekjutap vegna undanbragða og skattsvika, er að sjálfsögðu mjög breytilegt. Fer það m.a. eftir almennu viðskiptasiðferði og almenningsáliti, svo og styrkleika embættismannakerfisins. Því miður virðist hvoru tveggja vera nokkuð ábótavant hér á landi í samanburði við nágrannalöndin, og á hið langa haftatímabil þar vafalaust mikla sök. En hvernig sem því er varið, skiptir sú staðreynd mestu máli, að ekkert þjóðfélagskerfi er svo sterkt, að ekki sé nauðsynlegt að gæta hófs í skattlagningu, ef forðast á alvarlegar afleiðingar ofsköttunar í formi efnahagslegs tjóns og spillingar.“

Á öðrum stað segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þær miklu umr., sem orðið hafa að undanförnu um álagningu tekjuskatts og útsvars, gætu orðið gagnlegt tilefni til þess að taka allt ásigkomulag þessara mála hér á landi til gagngerrar endurskoðunar. Það virðist nú almennt álítið, að þær skattareglur, sem í gildi eru, hafi bæði leitt til hærri skattabyrðar á launþegum en þeir vilja sætta sig við og jafnframt því hafi stórfellt ranglæti átt sér stað vegna útbreiddra skattsvika, beinir skattar á tekjur hér á landi séu m.ö.o. orðnir hærri en svo, að hægt sé að tryggja sæmilega réttláta skiptingu skattabyrðarinnar, jafnframt því að sú hætta sé yfirvofandi, að skattarnir dragi verulega úr áhuga manna á starfi og heilbrigðri tekjuöflun. Augljóst virðist, að úr þessu verði ekki bætt nema með verulegri lækkun beinna skatta.“

Þetta er sú skoðun, sem sett er fram í ritstjórnargrein Fjármálatíðinda, tímarits Seðlabanka Íslands, um þetta efni. Og enn fremur segir á öðrum stað, með leyfi hæstv. forseta: „Um óbeinu skattana er það að segja, að þeir hafa hækkað mjög undanfarna tvo áratugi, framan af fyrst sem tollar og aðflutningsgjöld, en síðari árin einkum söluskattar. Skattheimtan á þessum sviðum er áreiðanlega þegar komin nærri og sums staðar yfir þau takmörk, sem heilbrigðri skattheimtu eru sett.“

Og að síðustu langar mig til þess að lesa hér örfáar setningar úr þessari merku grein, þar sem segir: „Á hinn bóginn er það viðurkennt í öllum löndum, sem reynslu hafa í þessu efni, að mikil hætta sé á undanbrögðum frá söluskattsgreiðslu, ef skatturinn hækkar nokkuð verulega. Mikið af söluskattskyldri starfsemi er þess eðlis, að nákvæmt opinbert eftirlit er vandkvæðum bundið, svo að freistingin til skattsvika er þar af leiðandi veruleg. Eftir að söluskatturinn hér á landi hefur verið hækkaður í 5.5%, er full ástæða til þess að fara varlega, svo að ekki skapist einnig á þessu sviði sama vandamálið, sem nú er við að glíma varðandi innheimtu hinna beinu tekjuskatta.“

Þetta var, þegar hann var kominn upp í 5.5%. Nú á að færa hann upp í 7.5%. Og áfram segir í framhaldi af þessu: „Niðurstaða þessara hugleiðinga er því sú, að hækkun tolla og söluskatts sé ekki heppileg leið til þess að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegar eru til þess að gera lækkun beinna skatta framkvæmanlega.“

Skoðun sú, sem sett er fram í þessari ritstjórnargrein Fjármálatíðinda er m.ö.o. sú, að hækkun söluskatts sé ekki heppileg leið, jafnvel ekki til þess að afla tekna til þess að lækka beinu skattana, hvað þá þegar þeir eiga ekki að lækka heldur.

Hér virðist mér, að hæstv. ríkisstj. hafi fengið alvarlega aðvörun frá þeim aðila, sem oft hefur verið tekið mikið mark á í efnahagsmálum þjóðarinnar af minna tilefni en hér er um að ræða.

Ég nefndi það áðan, að árið 1960, þegar söluskattur var tekinn upp í því formi, sem hann er núna, þá var látið í veðri vaka, að það væri gert til þess, að tekjuöflun á þann hátt kæmi í stað tekjuöflunar með beinum sköttum. Niðurstaðan að liðnum þessum árum, sem síðan eru liðin, er samt sú, að byrði hinna beinu skatta er þyngri en áður, og það kemur raunar ákaflega glöggt í ljós, hvað langt við erum komnir frá þessu markmiði, sem þarna var yfir lýst, þegar við gerum okkur það ljóst, að sú hækkun ein, sem varð á söluskattinum í janúarmánuði s.l., nemur svipuðum upphæðum og allur tekju- og eignarskattur á reikningi ársins 1964 kemur til með að gera samkvæmt upplýsingum hæstv. fjmrh. Og sú hækkun, sem farið var fram á í frv., eins og það lá fyrir, áður en hæstv. forsrh. birti brtt. sínar hér áðan, nemur svipuðum upphæðum og allur tekju- og eignarskattur er áætlaður í frv. til fjárl. fyrir árið 1963.

Að síðustu má nefna það í þessu sambandi, að þegar þessi breyting hefur verið lögleidd, sem hér liggur fyrir, þá fer söluskatturinn að slaga hátt upp í alla beina skatta, sem innheimtir eru til ríkis og bæjarfélaga og sveitarfélaga í landinu.

Og þrátt fyrir það, þó að söluskatturinn eigi að hækka svona nú um áramótin, hafi hækkað eins og hann gerði í janúarmánuði s.l., og þrátt fyrir allar aðrar ferlegar álögur, sem á þjóðina hafa verið lagðar á undanförnum árum, og þrátt fyrir beinu skattana, sem á lagðir voru á seinasta sumri, þá er samt gert ráð fyrir því í fjárl. fyrir árið 1965, að tekju- og eignarskattur hækki um meira en 100 millj. frá því, sem hann var á árinu 1964, á þessu ári, sem nú er að líða, og verður á næsta ári 315 millj. kr.

Það er ekki að furða, þó að ritstjórnargreinarhöfundur Fjármálatíðinda velti því fyrir sér, hvort við séum ekki komnir yfir þau mörk, sem hann kallar ofsköttun. Og hvað fara svo þessir peningar í? Það er talað um niðurgreiðslur. Það er talað um, að það sé verið að afla fjár til niðurgreiðslna. Hvað var talað um, þegar var verið að afla fjárins í janúarmánuði s.l.? Þá átti hluti af tekjuöfluninni að fara til þess að greiða 6% uppbætur á fiskverðið í landinu. Þeim uppbótum var svo fljótlega hætt þegjandi og hljóðalaust, en það var haldið áfram að innheimta skattinn. Og á þessu ári hefur ríkissjóður með þessum hætti tekið til sinna almennu þarfa tugmilljónir, sem samþ. voru í janúar s.l. til ákveðinna hluta.

Og enn er gert ráð fyrir að halda áfram þeirri tekjuöflun, sem samþykkt var í janúarmánuði s.l., til viðbótar þeirri tekjuöflun, sem núna á að samþ. Það er gert ráð fyrir að halda því áfram þrátt fyrir það, þó að nú sjáist hvergi, að verja eigi 43 millj. til framleiðniaukningar í frystihúsunum af þessu fé, og það sést heldur hvergi, að það eigi að borga 6% uppbætur á fiskverðið á næsta ári, en það á að halda áfram að innheimta þessar tekjur. 43 millj. til framleiðnistyrkjanna, 62 millj. til fiskuppbóta, samtals 105 millj., sem samþykkt var að afla í janúarmánuði s.l. í ákveðnum tilgangi, á að halda áfram að innheimta, þó að sá tilgangur sé nú ekki lengur fyrir hendi. Það á að taka þessa peninga og láta þá í stóra gapið.

Þegar á þetta er litið, er ástæða til þess að spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar, hvort ríkissjóð vanti í raun og veru það fé, sem hér er lagt til að leggja á þjóðina. Og ég verð að segja það alveg eins og er, að mér virðist ekki, að hv. alþm. hafi sérstaka ástæðu til þess að leggja trúnað á fullyrðingar, sem hniga í þá átt. Því hefur jafnan verið haldið fram af hálfu hæstv. ríkisstj., að ríkissjóð skorti fé. Það liggja þó fyrir ríkisreikningar fjögurra ára af fimm ára stjórnartíð þessarar hæstv. ríkisstj. Á þeim árum hafa tekjur farið samtals 690 millj. fram úr áætlunum fjárl. Á árinu 1960 stóðust fjárl. og reikningur nokkurn veginn á, það vantaði að vísu um 13 millj. kr., en á næsta ári fara tekjur reikningsins 79 millj. fram úr áætlun, á árinu 1962 fara þær 302 millj. fram úr áætlun, á árinu 1963 fara tekjur reikningsins 322 millj. fram úr áætlun fjárl. Samtals hefur hæstv. fjmrh. þess vegna á þessu tímabili haft 690 millj. kr. meiri tekjur en hann kærði sig um að reikna fyrir fram með. Og á þessum árum hefur öll árin verið greiðsluafgangur í ríkissjóði, sem nemur samtals eftir öll fjögur árin 365 millj. kr., og hefur hann verið mestur tvö seinustu árin, sem reikningar liggja fyrir um, árin 1962 og 1963, töluvert á annað hundrað millj. kr. hvort árið.

Þarna eru fjögurra ára greiðsluafgangar upp á 365 millj. kr., sem hefur að einhverju mjög takmörkuðu leyti verið ráðstafað, en að mestu leyti eru óráðstafaðar í höndum hæstv. fjmrh. Rekstrarhagnaður á rekstrarreikningum ríkissjóðs hefur numið hundruðum milljóna og meira að segja hundruðum milljóna umfram það, sem fjárlfrv. höfðu gert ráð fyrir.

Þegar á allt þetta, sem ég nú hef verið að rekja, er litið, þá get ég ekki séð, að hæstv. ríkisstj. hafi nokkra ástæðu til þess að ætlast til þess, að Alþingi leggi trúnað á, að hana skorti nú fé. Og jafnvel þegar litið er á þær mjög óhagstæðu upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fyrir fjhn., er samt ástæða til þess að ætla, að verulegur afgangur verði á rekstrarreikningi ríkissjóðs á þessu ári, jafnvel þó að veruleikinn reyndist eins óhagstæður og þær upplýsingar, sem lagðar hafa verið fram. (Fjmrh.: Á hverju byggir hv. þm. þetta?) Ég byggi það á því, að á árinu 1963 var rekstrarafgangur ríkissjóðs 340 millj. kr., og ef þetta ár yrði 300 millj. lakara, sem er það versta, sem mér skilst að menn gætu búizt við, þá eru 40 millj. eftir, og ef ég hef í þessum útreikningi gert einhverja skekkju, þá skal ég taka leiðréttingar hæstv. fjmrh. til greina. (Fjmrh.: Ruglar hv. þm. ekki saman rekstrarhallanum og greiðsluafganginum? ) Ég hef ekki haldið því fram, að með upplýsingum hæstv. fjmrh. mundi verða greiðsluafgangur á þessu ári, því hef ég ekki haldið fram, heldur rekstrarafgangur. En hins vegar hef ég haldið því fram, að greiðsluafgangur undanfarinna ára sé aðgengilegur til þess að jafna metin, ef þörf reyndist á.

Ég held, að ég megi til með í þessu sambandi að fara örfáum orðum um nokkur atriði í ræðu hv. 10. þm. Reykv., hv. frsm. meiri hl. fjhn., hér áðan. Mér virtist þar koma fram skoðanir, sem ég að vísu var ekki sammála í fjölmörgum atriðum, en eigi að síður eru mjög athyglisverðar og ástæða er til þess að drepa á. Hv. þm. kom þar að sínu uppáhaldsumræðuefni, sem hann hefur komið að, í hvert sinn sem málefni af þessu tagi hafa verið hér til umr. og hann gefur flutt stórar ræður sem frsm. hv. fjhn. Hann spurði: Vilja menn taka haftakerfið upp að nýju? Hann kann sínar grýlusögur. Vilja menn taka haftakerfið upp að nýju? Það er svar hans jafnan við öllum aths. við þær ráðstafanir, sem lagt er til að gera á hverjum tíma. Auðvitað hefur hvorki fyrir hv. 10. þm. Reykv. né nokkrum öðrum haftakerfið nokkru sinni verið markmið eða það, sem mér skilst, að hann eigi við með orðinu haftakerfi. Annars er það furðulegt af prófessor í hagfræði að nota slíkt orðalag án þess að gera nokkra grein fyrir því, hvað hann meinar með því. Auðvitað eru höft á efnahagslífi af ýmsu tagi á öllum tímum, en ég skal ekki fara frekar út í þetta. En ef haftakerfið á við eitthvað svipað og ég held að hann eigi við, þá liggur það í augum uppi, að það hefur hvorki verið honum né neinum öðrum markmið í sjálfu sér. En hins vegar gaf hann í ræðu sinni áðan mjög athyglisverða skýringu á því, hvernig við komumst í þá aðstöðu að þurfa að búa við slíkt um allt of langt skeið. Hann sagði frá því, að það hefði stafað af greiðsluhalla, og þetta var hann að segja sem rökstuðning fyrir því, að nú mætti til að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Hv. þm. sagði, að fram til 1950 hefðu fjárlög mjög oft verið afgreidd með greiðsluhalla og það hefði leitt til gjaldeyrishalla, sem aftur hafi leitt til skömmtunar og vöruskorts. Á þessu tímabili, sem hv. þm. ræðir þarna um, fram til 1950 fór Sjálfstfl. með fjármálastjórn í landinu 11 síðustu árin. Ég tel því, að hv. 10. þm. Reykv. geti beint skeytum sínum um þetta efni í aðrar áttir en hann virðist ætla að gera að þessu sinni. Ég vil enn fremur í tilefni af þeim orðum, sem hv. 10. þm. Reykv. fór um till. hv. 1. minni hl. fjvn. í vetur, — í sambandi við þau orð vil ég segja þetta:

Þær till., sem fulltrúar Framsfl. í fjvn. fluttu, voru að vísu nokkuð háar. En þær fjölluðu allar um framkvæmdir. Þær voru fluttar til þess að bjarga því, sem bjargað varð, úr óráðsíuhítinni og í framkvæmdir. Þær verða ekki aftur af okkur teknar.

Hv. 10. þm. Reykv. eyddi svo löngum tíma af ræðu sinni í að velta því fyrir sér, af hverju þm. stjórnarandstöðunnar gerðu ekki verulegar sparnaðartili. á fjárl. En svo lagði hann fyrir sjálfan sig mjög athyglisverða spurningu að því loknu, því að þá sagði hann: Af hverju gerir ríkisstj. þá ekki sjálf sparnaðartill.? Og síðan kom hugleiðing, sem mér virtist mjög athyglisverð. Hún fjallaði um það, hve erfitt væri að fá fólkið til þess að skilja, að það þyrfti sjálft að borga fyrir það, sem það krefðist af þjóðfélaginu. Og í þessum erfiðleikum skildist mér, að ætti að felast skýringin á því, hvers vegna ríkisstj. legði ekki sjálf fram till. um sparnað. Ég ætla ekki að gera neinar aths. við þetta. Það lýsir sér sjálft, hvaða hugsun þarna liggur á bak við.

Það var mjög greinilegt í sumar, að það, sem reiði fólksins beindist mjög að í sambandi við álagningu hinna beinu skatta, sem þá voru svo mjög á dagskrá, var, að menn voru mjög þeirrar skoðunar, að skattsvik væru orðin algerlega óhæfilega mikil. Og ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. hafi látið í ljós þá skoðun í útvarpsþætti í ágústmánuði. Þá munu þeir allir, sem þátt tóku í því tali, hafa verið sammála um nauðsyn aukins skattaeftirlits. Og nú er það augljóst, að enginn skattur getur verið eðlilegur og naumast brúklegur, sem innheimtist ranglátlega. Árið 1960 var söluskatturinn m.a. réttlættur með því, að það væri nauðsynlegt að minnka beinu skattana vegna skattsvikanna. En það er nú orðið alveg ljóst, að það er líka hugsanlegt að svíkja undan skatti, þegar um söluskatt er að ræða. Það er því miður alveg augljóst, og þau skattsvik eru að vissu leyti verri en hin, vegna þess að þar er verið að draga sér fé, sem mönnum er trúað fyrir af öðrum. Nú eru allir sammála um það, virðist mér, að það sé enn þá nauðsynlegra og enn þá erfiðara að hafa eftirlit með söluskattsframtölum heldur en þó nokkurn tíma tekjuskattsframtölum. Þessi skoðun kemur greinilega fram í grein þeirri í Fjármálatíðindum, sem ég vitnaði til áðan, og hún kemur einnig mjög greinilega fram í grg. með frv. um söluskatt, sem lagt var fyrir Alþingi veturinn 1960.

Nú liggur ljóst fyrir, að það er almennt álítið, að eftirlit með söluskattinum sé ófullnægjandi, og mér virðist ljóst, að menn hafa ástæðu til þess að halda það. Mér mundi vera það mikið ánægjuefni, ef við mættum við þessa umr. fá lýsingu hæstv. fjmrh. á því, hvernig eftirliti með söluskattsframtölum og söluskattsinnheimtu er raunverulega háttað. Í grg. frv. til söluskattsl., sem ég skírskotaði til áðan, er gerð grein fyrir því, hvernig höfundar þeirra 1. og þá væntanlega um leið hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér, að þetta eftirlit fari fram, og það, sem þar er talað um, hefur að verulegu leyti, þó ekki öllu leyti, virðist mér, verið tekið upp í þá reglugerð, sem í gildi er um innheimtu söluskattsins. En hitt er víst, að þær dreifikannanir, sem þar er gert ráð fyrir, það eftirlit með nótubókum og öðru slíku, verða menn miklu minna varir við en menn höfðu haft ástæðu til að halda. Og mér virðist, að það væri æskilegt, ef hæstv. fjmrh. gæti við þessa umr. skýrt okkur frá því, hvernig þessum eftirlitsstörfum er háttað, ef það mætti verða til þess að auka traust manna á því, að þetta eftirlit komi að einhverju haldi.

Það fer t.d. ekki milli mála, af því að nú er það opinbert mál, hvernig söluskattur er greiddur, og eru lagðar fram hjá sýslumönnum og fógetaembættum landsins skrár yfir álagðan söluskatt og þessar skrár hafa í einhverjum tilfellum verið birtar, og það er ekki því að leyna, að þar virðist mörgum, sem þekkja til, hlutföllin vera allmikið önnur en menn höfðu búizt við. Hefur það tilefni eða önnur hliðstæð verið tekin af hálfu hæstv. fjmrh. eða embættismanna hans til þess að kanna þessi mál eitthvað, og þá með hvaða árangri? Ég skal í þessu sambandi geta þess, að jafnvel þó að það eftirlit, sem gert er ráð fyrir í grg. með frv., væri framkvæmt að öllu leyti, mundi ég samt álíta, að það væri ófullnægjandi. Ég álít, að hér þurfi að koma til mjög verulegar endurbætur, ef halda á áfram að innheimta söluskatt í landinu. Ég skal t.d. segja frá því hér, að í nokkuð fjarlægu landi, sem ég bjó einu sinni í um skeið, var söluskattur, og þar var óheimilt, að fram færu nokkur viðskipti í nokkurri verzlun, nema kaupandi tæki við nótu, og á þeirri nótu átti að vera merki fyrir andvirði söluskattsins, svipuð merki og frímerki, sem verzlunareigandi hafði orðið að gera svo vel og kaupa sér hjá yfirvöldum. Í löndum, þar sem ég hef komið og hef að vísu ekki mjög mikinn, en nokkurn kunnugleika sem ferðamaður, hef ég tekið eftir því, að þar sem söluskattur er verulegur, er jafnan meira um nótuskriftir og frumbækur jafnan vandaðri, og það hefur gefið mér tilefni til þess að álykta, að þessar frumbækur mundu verða notaðar til eftirlits síðar meir. Einhverjar ráðstafanir af þessu tagi, sem ég hér hef drepið á, verður að gera, ef söluskattur á að verða veigamikil tekjuöflunarleið í framtíðinni. Enn fremur er ég þeirrar skoðunar, að viðurlög við undandrætti söluskatts eigi að herða mjög verulega. Mér virðist, eins og kom víst aðeins fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. áðan, að viðurlög um söluskatt séu eiginlega minni, a.m.k. í vissum tilfellum, heldur en þau eru í sambandi við tekjuskatt. Þetta á við, ef framtöl hafa verið ófullnægjandi, en ef undandráttur sannast, er víst gert ráð fyrir sömu sekt í báðum tilfellum, sem er allt að því tíföld hin undandregna upphæð. En mér virðist, að viðurlög við brotum á söluskatti eigi að vera meiri en af öðrum brotum af ástæðum, sem ég drap á áðan og skal ekki endurtaka að öðru leyti en því að segja, að mér virðist þar um meira trúnaðarbrot að ræða heldur en ef menn draga aðeins undan sinn eigin skatt:

Söluskatturinn er, eins og ég sagði áðan, algerlega óhæft skattform, a.m.k. nema tryggt sé öruggt og traust eftirlit. Hann er óréttlátur skattur og gallaður skattur samt, en hann er algerlega óhæfur, ef eftirlitið er ekki öruggt og tryggt.

Ég er þeirrar skoðunar, að ef það á fyrir þessu frv. að liggja að verða samþ., þurfi að gera á því ýmsar breytingar í samræmi við það, sem ég nú hef verið að gera að umræðuefni. Ég mun að vísu ekki leggja þær brtt. fram við þessa umr., þar sem ég legg áherzlu á það, að frv. verði fellt, en það mun þá tekið fyrir síðar, ef það á fyrir þessu frv. að liggja að fara gegnum fleiri umr. í þessari deild.

Það var gert ráð fyrir því, að 20% af hinum upprunalega söluskatti færu til sveitarfélaganna. Ef það hlutfall hefði átt að haldast, ættu þau nú að fá um 20% af 920 millj., sem eru 184 millj. Af tolltekjunum fá sveitarfélögin 5% eða 76 millj., og þá skortir á 108 millj., að þau fái þann hlut, sem þarna hefur verið gert ráð fyrir, eða tæplega 12% af skattinum, eins og hann yrði eftir samþykkt þessa frv., eins og það liggur núna fyrir eftir breytingu hæstv. forsrh. Nú er að sjálfsögðu alveg ljóst, að tilkostnaður sveitarfélaganna hefur farið hækkandi að undanförnu, ekki síður en ríkisins, þó kannske ekki eins mikið. Í mörgum sveitarfélögum er góð og styrk fjármálastjórn. En eigi að síður hefur tilkostnaður sveitarfélaganna farið mjög hækkandi, og það verður ekki séð, af hverju þeirra hlutfall á allt í einu að fara að lækka mjög verulega. Það mundi aðeins leiða til þess, að útsvarsbyrðin hækkaði, og þá kæmi enn ný skattaukning á herðar almennings í landinu af þeirri ástæðu. Hér þarf einnig að gera leiðréttingu á þessu frv., ef svo skyldi fara, að það kæmi til fleiri umr.

Við 1. umr. þessa máls í þessari hv. d. kom það fram, að þeir, sem gerst ættu að vita, voru ekki fyllilega sammála um það, hvað í einstökum atriðum hefði falizt í því samkomulagi, sem gert var milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins í júnímánuði s.l. Þau mál hafa nú, ef ekki skýrzt, þá að vissu, takmörkuðu leyti fengið lausn sína af undanhaldi hæstv. ríkisstj. En þó er það ljóst, að þó að samtök launþeganna, alþýðusamtökin, hafi í sambandi við þetta 1/2% ekki talið, að væri um hrein brigðmæli að ræða, þá telja þau þó, að hér hafi verið gengið þvert ú þann anda, sem í samkomulaginu fólst. Ég skal ekki blanda mér í þetta í einstökum atriðum. En hitt er ljóst, að þetta frv. fer algerlega í bága við þann skilning, sem þorri þjóðarinnar að mínu viti hafði á þessu samkomulagi. Þjóðin taldi, að samkomulagið væri í aðalatriðum fólgið í því, að launþegar færu hægar í kjarakröfum sínum, á sama tíma og ríkisstj. hætti að skrúfa upp dýrtíð með nýjum álögum og verðbólguflóði. Þess vegna er það tvímælalaust skilningur flestra, að ríkisstj. hafi hér stigið skref, sem sé ekki í samræmi við þær vonir, sem þjóðin tengdi við þetta samkomulag. Það bregðast vonir margra, þegar hæstv. ríkisstj. slær með þessum hætti á útrétta hönd launþega, og það fer varla hjá því, að það hafi einhverjar afleiðingar fyrir áframhaldandi trúnað milli ríkisvalds og alþýðusamtaka.

Fyrir nokkrum dögum eða vikum, þegar til umr. var frv. um verðtryggingu launa, sagði hæstv, forsrh., að þróun mála í þessum efnum á undanförnum árum hefði verið hreinn ófarnaður, og um það er ég hæstv. forsrh. sammála. En ég vildi mega láta í ljós þá ósk, að þegar hæstv. forsrh. flytur frv. eins og þetta, sé hann ekki að stíga skref, sem leiði beint út í ófarnaðinn aftur.

Skilningur Alþýðusambands Íslands á þessu samkomulagi frá því í júní og frv. ríkisstj., sem hér er til umr., kemur glögglega í ljós í ályktun, sem stjórn Alþýðusambandsins gerði á fundi sínum í gær og birt hefur verið í blöðum í dag og ég vil leyfa mér að lesa og hljóðar svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega frv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi um hækkun söluskatts og mun hafa í för með sér nýjar álögur, sem nema 300—400 millj. kr. á ári. Miðstjórnin telur, að með frv, þessu sé ýtt af stað nýrri verðbólguöldu, sem stofni hagsmunum launþega og eðlilegri þróun efnahagsmála þjóðarinnar í mikinn háska og torveldi stórlega alla möguleika á friðsamlegum samningum um eðlilegar kjara og launabætur til handa vinnustéttunum. Miðstjórnin telur, að með slíkum aðgerðum til stórfelldra nýrra verðhækkana sé riftað þeim grundvelli, sem lagður var með samkomulagi ríkisstj., verkalýðssamtaka og atvinnurekenda hinn 5. júní s.l. Alveg sérstaklega lýsir miðstjórnin mótmælum sínum við þá beinu brigð á yfirlýsingum, sem gefnar voru í sambandi við júnísamkomulagið um það, að engar nýjar álögur yrðu lagðar á vegna niðurgreiðslna á árinu 1963, en í frv. eru 68 millj. kr. áætlaðar í því skyni.“

Þetta er að vísu það, sem hæstv. forsrh. hefur leiðrétt nú í dag, en svo heldur áfram þannig:

„Miðstjórnin telur, að skattahækkun sú, ofan á skattarán sumarsins, verki sem eitur í ógróin sár og brjóti niður trú manna á, að ríkisstj. vilji heils hugar vinna að stöðvun verðbólgu og vaxandi dýrtíðar. Þess vegna varar miðstjórnin alvarlega við því, að söluskattsfrv. verði samþ., og heitir á ríkisstj. að hverfa frá því óráði að gera það að lögum, en freista heldur að draga úr óhófseyðslu í rekstri ríkisins og leita sérhverra ráða til þess að hamla gegn verðbólgu og dýrtíð.“

Þannig lítur Alþýðusamband Íslands á þetta mál. Og einnig var birt fréttatilkynning frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, örstutt:

„Á fundi stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í dag var einróma samþykkt svofelld ályktun:

Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur rætt við ríkisstj. um hækkun á söluskatti. Bandalagsstjórnin telur það mjög miður farið, að frv. þetta skyldi lagt fram, án þess að fyrst væri haft samráð um þessi mál við launþegasamtökin. Opinberum starfsmönnum hefur verið synjað um leiðréttingu á launum sínum, og hafa þeir því orðið að taka á sig bótalaust allar verðhækkanir frá 1. júlí 1963, en síðan hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 23 1/2%. Eru þeir því illa við því búnir að taka á sínar herðar nýjar álögur. Stjórn BSRB skorar þess vegna á Alþingi að samþykkja ekki frv. um hækkun á söluskatti, heldur leita í þess stað úrræða til stöðvunar verðbólgu og hafa um það fullt samráð við launþegasamtökin.“

Þetta eru viðbrögð launþegasamtakanna, og ég skal ekki fara um þau fleiri orðum, það lýsir sér sjálft, en skal nú snúa mér að því að ljúka máli mínu, herra forseti.

Við í 1. minni hl. hv. fjhn., hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, teljum, að hæstv. ríkisstj. vanti ekki fé. Við teljum, að söluskattur sé óréttlát og óskynsamleg skattheimta. Við teljum enn fremur, að hæstv. ríkisstj. sé ekki trúandi fyrir fé. Við leggjum þess vegna til, að frv. verði fellt.