03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þegar vegaskýrslan var til umr. hér í haust, beindi ég því til hæstv. samgmrh., að nauðsynlegt væri að láta þm. í té yfirlit yfir, hvernig viðhaldsfénu hefði verið skipt á s.l. ári milli hinna einstöku vega í landinu. Hæstv. ráðh. tók þessu mjög vel og taldi eðlilegt og ekkert því til fyrirstöðu, að þetta yrði gert. Ég vil nú beina því til hans, hvort hann sjái ekki möguleika á því, að slíkt yfirlit liggi fyrir við síðari umr. þessarar vegáætlunar. Hér á ég bæði við viðhaldsféð og það fé, sem varið er til snjómoksturs á vegum. Það er ekki óeðlilegt, að þm. vilji fylgjast með þessari skiptingu, þar sem hér er um allverulegar fjárhæðir að ræða og miklu meiri fjárhæðir, en til nýbyggingar vega, sem þingmenn hafa þó allmikið fyrir að skipta á hina einstöku vegi í landinu.

Ég sé það alltaf betur og betur, að annmarkar eru á því að afgreiða vegáætlun til 4 ára. Og ég er reyndar kominn á þá skoðun, að í framkvæmd verði hér alls ekki um neina 4 ára vegáætlun að ræða, heldur verði ákvæði vegal. um endurskoðun eftir 2 ár notuð, því að það verður ekki hægt að komast hjá því. Það er ekki hægt að gera áætlun um vegina 4 ár fram í tímann, sem við getum sætt okkur við eða stenzt, það sýnist mér alveg útilokað. Og sú vegáætlun, sem hér liggur fyrir, gefur strax nokkrar bendingar um það. Ég sé, að sumir liðir þessarar áætlunar eiga að hækka verulega á þessum 4 árum frá því, sem á að vera á þessu ári. Stjórn og undirbúningur vegamálanna á að hækka um 9% frá 1965–1968. Viðhald þjóðveganna á að hækka um 16% hér um bil á þessum sömu árum og mun sannarlega ekki af veita. En til nýrra þjóðvega á ekki að koma hækkun. Nei, sú fjárveiting á að lækka, hún á að verða 2% minni á árinu 1968 heldur en 1965 og hún á að vera 9% minni á næsta ári, heldur en í ár. Lagt er til, eða áætlað er, að til nýrra þjóðvega fari 61 millj. 900 þús. á þessu ári, en strax á næsta ári eiga það ekki að vera nema 56½ millj.

Þarna er gert ráð fyrir lækkun strax og það allverulegri, eða um 9%. Engin hækkun á að koma frá því, sem á að vera á þessu ári, og allt til 1968, heldur lækkun. Ég efast um, að nokkur þm. sætti sig við þetta. Og til brúargerða á upphæðin að standa í stað, 31 millj. kr. og 40 þús. á árinu 1968. Það er óheppileg þróun þetta. En í tilefni af þessu vil ég benda á að það er varla fært að mínu áliti að afgreiða vegáætlun löngu eftir afgreiðslu fjárlaga. Það verður að leitast við að framkvæma það ákvæði vegal. að afgreiða hvort tveggja samtímis, því að hér er fáum leiðréttingum hægt að koma við, þegar vegáætlunin kemur nú löngu eftir að búið er að ákveða fjárlög fyrir þetta ár. Hverju á að breyta? Mér sýnist, að hlutverk okkar verði það eitt að skipta þessu, sem þarna er áætlað og ekkert annað. Það er búið að slá fastri fjárveitingunni fyrir þetta ár úr ríkissjóði, sem nú er sama og var s.l. ár, um 47 millj., og í þessari áætlun er gert ráð fyrir, að sú upphæð verði óbreytt í 4 ár, ekki á hún að hækka. Hvað sem líður kostnaði við vegagerð, hvað sem liður vinnulaunum í landinu, hvað sem liður verðbólgunni, þá skal hún standa í stað samkv. þessari vegáætlun. Nei, ég held, að það verði ekki hægt að hafa þennan gang á til frambúðar. Úr því sem komið er, er náttúrlega ekki um annað að ræða en afgreiða þessa vegáætlun nú. En óviðunandi er að hafa þetta í engum tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Þm. geta kannske alveg orðið sammála um að verja meira fé til vegamála í landinu, þegar þeir sjá vegáætlunina, sjá þörfina, betur en áður, en vegáætlunin kemur fram. En þá er ekki hægt að hrófla við neinu, því að þá eru fjárl. afgreidd.

Einn mikilsverðan lið vantar áreiðanlega inn í þessa áætlun og vænti ég, að hann komi frá hv. n., en það eru lán til vega, eins og hér hefur verið rætt um og skal ég ekki fara lengra út í það mál. En ég legg áherzlu á tvennt: Það verður ekki framkvæmanlegt að afgreiða vegáætlun nema til 2 ára. Hvað sem stendur á. pappírnum, verður ekki við það unað. Hún verður að endurskoðast eftir tvö ár a.m.k og kannske alveg gerbyltast. Og í öðru lagi verður að afgreiða vegáætlunina í beinu sambandi við afgreiðslu fjárlaga, svo að hægt sé að jafna metin með fjárveitingu, eftir því sem Alþingi vill veita til vegamála hverju sinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa vegáætlun nú frekar. Það gefst sjálfsagt tækifæri til þess, þegar hún kemur úr nefnd, en ég vænti þess, að hæstv. ráðh. leitist við að verða við þessum óskum um, að skýrsla komi yfir skiptingu viðhaldsfjárins í landinu á árinu sem leið.