25.03.1965
Sameinað þing: 34. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2685)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það getur ekki talizt óeðlilegt í jafnstrjálbýlu og víðáttumiklu landi og okkar, sem jafnframt er mjög sundurskorið af fjöllum og fljótum, þótt samgöngumálin á landi reynist okkur erfið og kostnaðarsöm. Öll vegaframkvæmd okkar frá upphafi og fram undir lok síðasta áratugs var fyrst og fremst miðuð við hestinn og kerruna og síðar lengi við litla og létta bíla. En á síðari áratugum þessa tímabíls var mest kapp lagt á að teygja vegakerfið sem víðast milli héraða og bæja innan byggða. Um 1960 mátti segja, að þeim merka áfanga væri náð, að gerðir hefðu verið skriðfærir sumarvegir til nálega allra byggðra býla í landinu, þannig að ekki voru taldir þá nema rúmlega 40 bæir, sem höfðu ekki nokkurt vegasamband. Þetta vegasamband var víða mjög ófullkomið, mikið um rudda bílvegi eða lágar og veikbyggðar brautir, vegi, sem margir hverjir notuðust ekki lengur en meðan jörð var að mestu auð. Undir lok þessa vegagerðartímabils reis undantekningarlaus, mikil og almenn krafa um bætta vegagerð. Kom þar til fyrst og fremst stóraukin bílanotkun, sem enn á eftir að aukast um allar sveitir landsins, enn fremur vegna óhjákvæmilegrar nauðsynjar í sambandi við mjólkurframleiðsluna og nauðsyn þess, að mjólkin væri svo að segja daglega flutt til mjólkurbúanna. Og jafnframt þessu komu til sögunnar þungavöruflutningar með stórum bílum, t.d. frá Reykjavík til allra landshluta. Slíka þungaumferð þoldu fæstir þjóðvegir. Niðurstaðan varð því sú, að víða um land risu samtímis háværar kröfur um stórbætt vegakerfi, breiðari, traustari, betur uppbyggða og betur lagða vegi með tilliti til snjóalaga. Gamla vegakerfið hafði í stórum dráttum verið dæmt úr leik og fyrir lá að byggja það sem fyrst upp og bráðaðkallandi að endurbæta stóra kafla þess á næstu árum. Kemur þar til í viðbót við þær ástæður, sem nefndar eru, hversu stórkostlegt vegaviðhaldið er nú á þessu veikbyggða vegakerfi. Má segja, að vegaviðhaldið þurfi árlega að vera minnst 100 millj. kr., en þarf að auka við þá upphæð svo að segja árlega í framtíðinni, Þegar svo saman fóru vaxandi kröfur um allt land um endurbætt vegakerfi og yfir steyptist holskefla verðbólgunnar, varð fjárframlag ríkisins gersamlega ófullnægjandi. Og hæstv. ríkisstjórn varð að sinna kröfum um aukið fjárframlag. Því urðu til í árslok 1963 hin nýju vegalög, sem vissulega voru til mikils gagns, þótt sívaxandi verðbólga sé nú búin að gera þau svo gagnslítil miðað við aðkallandi vegaframkvæmdir, að algerlega er óviðunandi.

Ég vil hér í sambandi við það rifja upp kostnaðarvísitölu vega- og brúarframkvæmda. Ef framkvæmdagildi krónunnar er sett 100 1949, var vísitala vegagerðar 1958 um 264. 1960 er vegavísitalan komin upp í 344, vegaviðhaldsvísitalan í 344, vísitala brúargerða 347. 1963 er vegagerðarvísitalan komin í 412, viðhaldsvísitala vega í 417 og byggingarvísitala brúa 532. En 1966 er áætlað, að vegagerðarvísitalan verði 466, í viðhaldi 488 og í brúargerð 544. Segja þessar tölur sína sögu, er framkvæmdavísitala þessara verka hefur t.d. nú á rúmu ári hækkað í vegagerð úr 412 í 466 og í brúargerð úr 432 í 544.

Samkv. hinum nýju vegal. frá 1963 reyndust tekjur vegasjóðs 1964 nálægt 259 millj. kr. Og tekjur vegasjóðs eru áætlaðar á þessu og næstu árum þannig: 1965 tæpar 261 millj., 1966 rúmar 254 millj., 1967 264.4 millj. og 1968 278 millj. Þjóðvegakerfið var talið 1949 6.215 km. en í árslok 1963 komst það í nálægt 9.381 km. og þar af hinir venjulegu þjóðvegir, sem kallast nú þjóð- og landsbrautir, 9.233 km. Af fyrrgreindum 259 millj. kr. tekjum vegasjóðs 1964, fengust ekki til nýbygginga á þessa, meira en 9 þús. km í þjóð- og landsbrautum, nema tæplega 52 millj. eða um 20% af tekjunum. Áætlun um framlag til sömu vega er nú ráðgerð þannig á næstu árum: 1965 51 millj. eða nálægt 19% af tekjum vegasjóðs. 1966 44.5 millj. eða nálægt 17.5% af fé vegasjóðs, 1967 44.4 millj. eða um 17.2% af fé vegasjóðs og 1968 48.2 millj. eða um 17.3% af tekjum vegasjóðs.

Það er athyglisvert og fráleitt til þess að vita, hve hlutur vegauppbyggingarinnar er orðinn lítill af þeirri tiltölulega miklu fjárhæð, sem ákveðin er til vegamála samkv. fjárl. 1965. Á það jafnt við heildarfjárhæð til vegagerða og þá ekki síður, hve gildi þeirra fjárhæða til framkvæmda rýrnar ár frá ári. Hlutur uppbyggingar hinna almennu þjóðvega hefur mest orðið um 20% af fé vegasjóðs og fer samkv. áætlun niður í rúm 17% af vegasjóðsfénu næstu árin, ef reiknað er með að meðaltali 1965–1968 nálægt 47 millj. kr. framlagi árlega. Auk þeirrar verðgildisrýrnunar, sem um er að ræða, kemur svo til og blasir við sá niðurskurður á vegafénu, sem hæstv. ríkisstj. hefur tilkynnt og er ákveðinn 20% af því fé, sem ríkissjóður á að leggja til vegamála. Þessi niðurskurður á framlagi ríkissjóðs til vegasjóðs mun nema nálægt 9.5 millj. á þessu ári og skerðir því stórlega áætluð framlög til nýbyggingar vega og brúa og einnig framlög til vegaviðhalds. Niðurskurðurinn kemur niður á þessum liðum, því að ekki mun vera um að ræða, að laun eða annar kostnaður, sem tilheyrir vegamálunum og vegasjóður á að standa straum af, eða annar slíkur kostnaður geti lækkað. En verkefni vegasjóðs er gífurlega mikið, eins og allir hv. þm. þekkja, bæði á sviði brúargerða og uppbyggingar hinna almennu þjóðvega, sem nú eru að lengd, eins og ég gat um, meira en 9.000 km. Af þeirri vegalengd eru yfir allt landið leiðir, sem eru taldar óvegaðar, meira en 3 þús. km. Ef gert er ráð fyrir, að aðkallandi sé að endurbyggja t.d. ¾ hluta hinna gamalbyggðu þjóðvega, má segja, að aðkallandi sé að byggja upp vegi, sem nemur um 4.500 km. Til þessara þjóðvega eiga svo að ganga samkv. vegáætlun um 47 millj. kr. Eru þá ekki höfð í huga þau 20%, sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað í niðurskurð á öllum verklegum framkvæmdum. Ef reiknað er með, að hver byggður vegakm kosti 400 þús. kr., sem er mjög hóflegt, þá mundi taka allt að því 40 ár að vega þessa umræddu 4.500 km og er þá ekki reiknað með hættunni af vaxandi verðbólgu. Ég tel víst, að öllum geti komið saman um, að nálægt 40 ára framkvæmdaáætlun við uppbyggingu þessa hluta vegakerfisins, sem ég hef hér talað um, nái ekki nokkurri átt og að umræddar vegabætur verði að gerast fremur á 10–15 næstu árum. Er þá augljóst, að stóraukið ríkisframlag verður að koma til eða sem svarar með tilliti til uppbyggingar þjóð- og landsbrauta nálægt 100 millj. kr. árlega. Það má vel vera, að slíkt framlag ríkissjóðs til uppbyggingar þjóðvegakerfisins vaxi hæstv. ríkisstj. og fleirum í augum, þótt það nemi þó ekki nema nálægt 3% af því fé, sem ríkissjóður hefur nú árlega til ráðstöfunar. Og þegar þess er enn fremur gætt, að til ríkissjóðs renna nú mörg hundruð millj. kr. árlega sem beinar og óbeinar tekjur af samgöngutækjum og samgöngum á vegum, þá ætti auðvitað að renna miklu meira af því til vegagerða og auk þess verulega auknar upphæðir til brúargerða, en þann framkvæmdakostnað hef ég ekki tekið með í þetta dæmi. Þar að auki er augljóst, að auka þarf fjárframlög til hinna svokölluðu hraðbrauta, ef framlög til þeirra eiga ekki að verða nafnið tómt, eins og nú er komið í sambandi við þjóð- og landsbrautir. Og ef tekið er inn í dæmið 100 millj. kr. aukið framlag til hinna almennu þjóðvega og aukið framlag til brúa, hraðbrauta og vegaviðhalds, þá mætti segja mér, að framlag ríkissjóðs til vegasjóðs mætti ekki vera minna árlega, en nálægt 200 millj., í stað ráðgerðra 47 millj., sem þó á stórlega að skera niður, eins og ég gat um.

Það er því augljóst mál, að sú till., sem við í minni hl. fjvn. leggjum nú fram um 30 millj. kr. aukið fjárframlag til vegagerða á þessu ári, annaðhvort af því fé, sem ríkissjóður hefur nú til umráða, eða sem lántaka ríkissjóðs til þessara mála, er ekki nema bráðabirgðalausn og víst er, að hæstv. ríkisstj. verður að undirbúa mikinn tekjuauka til vegasjóðs á fjárl. næsta árs. Ég vildi ætla, að hæstv. samgmrh. vildi eiga góðan hlut að því að leysa þetta vandamál, sbr. ummæli hans 1963, þegar vegal. voru til umr. og hann taldi, að meiri tekjur til vegasjóðs yrðu að koma til, ef hann reyndist ekki fær um að fullnægja verkefnum sínum með þeim tekjum, sem honum voru ákveðnar. Stjórnarliðið tekur oft í orði kveðnu a.m.k. undir nauðsyn á aðstoð til dreifbýlisins og jafnvægis í byggð landsins. Það vita allir, að bættar samgöngur innan og milli héraða eru í því efni mikilvægur þáttur. Það færi því vel á því, að hæstv. samgmrh. beitti sér fyrir, að eitthvað af hinum vinsamlegu orðum stjórnar og stjórnarliðs í garð dreifbýlisins, ekki sízt í vegamálum, yrði nú gert að veruleika með stórauknu fjárframlagi til vegamálanna.