29.03.1965
Sameinað þing: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2692)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Samgöngumál Vestfirðinga á landi hafa oft verið rædd, sem eðlilegt er, ekki síður en samgöngumál annarra landshluta og hv. þm. mun vera kunnugt um, hvernig þar er ástatt í þessum málum. Það er nokkurn veginn föst regla, þegar hv. þm. annarra héraða eru að tala um bágborið ástand í vegamálum í sínum kjördæmum og landshlutum, þá enda þeir jafnan mál sitt á því, að þarna sé það verst á landinu að undanteknum Vestfjörðum. Þannig er það orðið fast viðkvæði manna, að Vestfirðir séu verst staddir allra landshluta, og það fer alls ekkert á milli mála, þetta er viðurkennt, held ég, af öllum, sem um þessi mál ræða. Það ætti því ekki að vera þörf á að rifja upp nein sérstök dæmi um samgöngumál Vestfirðinga, til þess að hv. þm. geri sér grein fyrir því, hvernig þar er ástatt. Ég skal þó aðeins nefna þrjú dæmi úr skýrslu, sem fylgir þessum till., sem nú eru hér til umr., skýrslu vegamálastjóra, sem talar sínu máli og mætti þó nefna mörg fleiri dæmi en þessi. Þar er skrá yfir það, hve margir sveitabæir á Íslandi hafi ekkert vegarsamband eða með öllu ófullnægjandi vegarsamband. Þessir sveitabæir á Íslandi, sem þannig eru staddir, eru alls 41, en af þessum 41 sveitabæ, sem engan veg hefur eða sama sem engan veg, eru þó 18 í Vestfjarðakjördæmi einu eða 44%. Þá má nefna óbrúaðar ár, sem þarf 4–10 m brýr á. Þessar ár á öllu landinu eru alls 174, en af þeim eru 53 á Vestfjörðum eða þriðjungurinn. Í hinum sjö kjördæmunum eru þó ekki nema 2/3. Þá má nefna óbílfærar þjóðbrautir og landsbrautir, þessa vegi, sem hafa það séreinkenni að vera ekki vegir nema á pappírnum. Á öllu landinu eru alls 586 km af þessum vegum svo kölluðu, en Vestfjarðakjördæmi er með 221 km af þessari vegalengd eða 38%. Hin sjö kjördæmin eru þá ekki nema með 62%.

Svona mætti lengi telja dæmin um það, hvernig ástatt er um samgöngur á landi á Vestfjörðum. Það mætti svo sem nefna hliðstæður hvað snertir flugsamgöngur og sjósamgöngur, en ég fer ekki út í þá sálma að þessu sinni og ég tel yfirleitt ekki þörf á að vera að rifja þetta sérstaklega upp, vegna þess að hv. þm. þekkja þetta orðið allrækilega og viðurkenna það alltaf í ræðum sínum, þegar þeir eru að tíunda ástandið hjá sér, að þar sé það verst að undanteknum Vestfjörðum.

Ég minnist þess, að í dag flutti hv. 5. þm. Austf. (LJós) mjög skelegga ræðu um ástandið í vegamálum eystra og ég býst við, að hann hafi ekki lýst því of dökkum litum, hvernig það er þar og taldi það verst á öllu landinu að undanteknum Vestfjörðum.

Það er því ekki að ófyrirsynju, að sumir okkar Vestfjarðaþingmanna höfum barizt alllengi fyrir því að fá úr þessu bætt. Á þingi 1959 fluttum við þrír þm. frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka 6 millj. kr. lán á ári í fimm ár í röð til nýbyggingar þjóðvega á Vestfjörðum og Austurlandi. Þm., sem þetta frv. fluttu, voru Hermann Jónasson, Sigurvin Einarsson og Páll Þorsteinsson, en stjórnarflokkarnir svæfðu þetta frv. í n. Á næsta þingi, 1960, fluttu sömu þm. samhljóða frv. með sömu fjárhæð,og aftur svæfðu stjórnarflokkarnir það frv. í n. Á þriðja þinginu, 1961, flytja þessir sömu þm. enn frv. um lántöku til vegabóta á Vestfjörðum og Austurlandi, en nú er það 10 millj. kr. á ári, sem lagt er til að tekið sé að láni í fimm ár, enda var þá farið að lifna yfir dýrtíðinni, Þessu frv. vísuðu stjórnarflokkarnir til ríkisstj. Það var bara önnur aðferð við aftökuna. Á fjórða þinginu í röð, 1962, flytja sömu þm. enn samhljóða frv. og árið áður um lán til vegabóta á Vestfjörðum og á Austurlandi og enn vísa stjórnarflokkarnir frv. til ríkisstj. En á þessu sama þingi, 1962, flytja nokkrir þm. brtt. við fjárl. Hún er um það, að á næsta ári, 1963, skuli varið lánsfé til vegabóta á Vestfjörðum og Austurlandi, 9½ millj. kr. Flm. þessarar till. við fjárl. það ár voru Hermann Jónasson, Hannibal Valdimarsson, Sigurvin Einarsson, Páli Þorsteinsson, Halldór Ásgrímsson, Lúðvík Jósefsson og Eysteinn Jónsson. Þarna var ekki hægt að nota sömu aðferð og áður. Það var ekki hægt að svæfa. till. í n., því að það er ekki hægt að svæfa fjárl. Það var líka útilokað að fara að vísa henni til ríkisstj., því að það á sér ekki stað undir þeim kringumstæðum. Nei, stjórnarflokkarnir hreinlega felldu till. Á fimmta þinginu í röð, 1963, flytja þrír Vestfjarðaþingmenn brtt. við fjárl. um 10 millj. kr. lánsfé til vega á Vestfjörðum og 10 millj. kr. til að hindra fólksflótta úr því héraði. Flm. að þessari till. voru Hermann Jónasson, Sigurvin Einarsson og Hannibal Valdimarsson. Og enn felldu stjórnarflokkarnir till.

Er þá komið að yfirstandandi þingi, 1964. Skömmu eftir þingsetningu voru Vestfjarðaþingmenn boðaðir til fundar af 1. þm. kjördæmisins og þar var rætt um, að þm. sameinuðust nú um það að leitast við að fá samþykki ríkisstj. fyrir því, að loks fengist lánsfé til vega á Vestfjörðum. Og aldrei þessu vant, samstaða náðist meðal allra þessara þm. sjö um að standa sem einn maður að því að fá nú lánsfé til vega á Vestfjörðum. Þarna virtist ætla að rofa til eftir margra ára árangurslausa baráttu. Við urðum allir sammála um að óska eftir brtt. við fjárl, um það, að ríkisstj. fengi heimild til slíkrar lántöku og tveimur stuðningsmönnum ríkisstj. úr hópi Vestfjarðaþingmanna var falið að beita sér fyrir því við hæstv. ríkisstj., að hún féllist á slíkt lánsfé. Þetta gerðu þessir tveir hv. þm. af hinni mestu samvizkusemi, að afla þessarar lánsheimildar og þeir létu okkur fylgjast með, hvað því liði, hvernig horfur væru á því, að þetta tækist og gáfu okkur mjög góðar vonir, þegar fór að líða að því, að fjárl. kæmu til 2. umr. Og við vorum sammála um það, að ekki kæmi til mála, að við færum að flytja neinar brtt, við fjárl., fyrr en það sæist, hver úrslit þessa máls yrðu. Svo kom að því, að till. fjvn. kæmu fram við fjárl., og nú bjuggumst við við því, að þarna kæmi till. um lánsfé til Vestfjarðavega. En þegar fjárl. koma svo til 3. umr. og till. eru komnar fram frá hv. fjvn., þá er þar ekki að finna nokkurn staf um lánsfé til Vestfjarða, og um það leyti skýra þeir okkur frá því, okkar samstarfsmenn og ötulu baráttumenn fyrir því, að þetta lánsfé fáist, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki getað fallizt á að vera að afgreiða þetta í sambandi við fjárl. Hins vegar muni hún hafa fullan hug á að gera það við afgreiðslu vegáætlunar. Við kváðumst þá óska eftir því að fá þá einhverja yfirlýsingu um það við fjárlagaafgreiðsluna, að svo yrði gert og þeir tjáðu okkur, að það mundi ekki standa á því.

Svo kom til þess að ræða fjárl. við 3. umr. á kvöldfundi í þessum sal og nú biðum við eftir yfirlýsingunni um lánsféð til vega á Vestfjörðum. Þá kvaddi sér hljóðs hv. 2. þm. Vestf. (SB) og sagði m.a. orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Við Vestfjarðaþingmenn, sem styðjum ríkisstj., höfum rætt þessi mál við hæstv. samgmrh. og hæstv. fjmrh. Höfum við fengið fyrirheit þeirra um aukinn stuðning við samgöngubætur á landi á Vestfjörðum með svipuðum hætti og nokkur önnur byggðarlög hafa hlotið nokkur undanfarin ár.“

Þá kvaddi sér hljóðs hæstv. samgmrh. og segir m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Það er auðvitað, að ríkisstj. mun afla sér lánsheimildar, þegar þingið kemur aftur saman, vegna þeirra vegaframkvæmda, sem hugsað verður að byggja fyrir lánsfé. Í till, til vegáætlunar, sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir, að það þurfi lán til þriggja vega, þ.e. til Reykjanesbrautar, Strákavegar og Múlavegar. Ef það verður niðurstaðan við afgreiðslu vegáætlunarinnar að taka fleiri vegi inn, t.d. á Vestfjörðum og jafnvel Austfjörðum eða víðar, þá verður vitanlega að afla lánsheimildar og lánsheimildin miðast þá við það, hvað ákvarðað verður við afgreiðslu vegáætlunarinnar um byggingu vega fyrir lánsfé á næstu árum.“

Þegar svo var komið, þótti okkur, sem börðumst fyrir þessu máli, yfirlýsingin í slappara lagi, svo að ekki sé meira sagt. Það var nefnilega ekkert sagt í henni um lánsfé til Vestfjarða, heldur aðeins, að ef á að fara að taka lán, þá mun ríkisstj. afla sér heimildar. Við sjáum okkur þá ekki annað fært en að fá úr því skorið hér á hæstv. Alþingi, hvort þingið vildi fallast á lánsfé til Vestfjarða og við hv. 5. þm. Vestf. fluttum þá skriflega brtt. við fjárl. um 20 millj. kr. lán til vega á Vestfjörðum. Við vildum láta Alþingi skera úr um það, hvort sjötta þingið í röð ætti að líða svo, að ekkert fengist í þetta hérað af lánsfé, héraðið, sem verst er sett allra héraða í landinu.

Þá kvaddi sér hljóðs hv. 11. landsk. þm. (MB) og fór þess á leit, að ég, sem hafði talað fyrir till, tæki þessa till. aftur, því að nú væri trygging fyrir því fengin, að til Vestfjarða skyldi koma lánsfé og sagði hv. þm. m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Eins og frsm. þessarar till. gat um í ræðu sinni hér í dag, hv. 3. þm. Vestf., höfum við þm. stjórnarflokkanna átt viðræður við samgmrh. og fjmrh. um, að það verði tekið lán til vegabóta á Vestfjörðum og það lá fyrir fyrirheit um það frá þessum tveimur hæstv. ráðh., að slíkt yrði gert. Við óskuðum eftir því, að það yrði tekið í sambandi við afgreiðslu fjárl., en þeir létu í ljós, að þeir vildu heldur láta afgreiða þetta mál og afla til þess heimildar í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar á næsta ári.“

Þegar þessi yfirlýsing kom fram, kvaddi ég mér hljóðs og lagði áherzlu á það, þar sem báðir þessir hæstv. ráðh. væru viðstaddir, að ef þeir ekki mótmæltu þessari yfirlýsingu hv. þm., þá tæki ég það sem ótvírætt fyrirheit um, að lánsfé fengist til Vestfjarðavega við afgreiðslu vegáætlunar á þessu þingi. Þessu mótmæltu þeir ekki og þar með tókum við flm. till. aftur.

Síðan hefur liðið tíminn frá afgreiðslu fjárlaga þangað til nú, að vegáætlun er nú hér til umr. Fyrir nokkru voru tveir fundir hjá þm. Vestfirðinga um vegamál. Hinir ágætu og ötulu þm., sem höfðu unnið að því heils hugar og af dugnaði af fá samþykki hæstv. ríkisstj. fyrir vegalánum til Vestfjarðavega, skýrðu okkur þá frá, hvernig nú væri ástatt, og það voru mjög gleðilegar fregnir. Ríkisstj. hafði fallizt á að útvega lánsfé til vega á Vestfjörðum, sem skyldi nema 32 millj. kr., á næstu fjórum árum. Þeir gátu þess, að þetta fé mundi verða fengið að láni í erlendum sjóði, sem borið hefur á góma áður hér á hæstv. Alþingi og þó að það væri ekki alveg öruggt á stundinni, hvort þessi sjóður ætlaði að lána féð, þá sæi ríkisstj. um, að þetta fé kæmi og yrði Vestfirðingum til þessara hagsbóta.

Við vorum búnir að frétta þetta áður, auk þess sem yfirlýsingarnar frá fjárlagaumr. tóku af öll tvímæli um það, að þetta átti að koma og hafði hæstv. samgmrh. getið þess á fundi í hv. fjvn., að þetta mundi verða gert, svo að okkur kom þetta ekkert á óvart, ekki heldur um sjóðinn, sem ætlaði að lána. Þetta er mjög virðingarverður sjóður. Hann mun heita Flóttamannasjóður Evrópuráðsins, að ég ætla, en hæstv. ríkisstj. hefur fundizt heppilegra að láta hann bera annað nafn hér, — kenna hann við stefnuna hér heima og kalla hann „Viðreisnarsjóð“. Ég hef ekkert út á það að setja, hvaðan gott kemur og skal ekkert að því finna, hvar hæstv. ríkisstj. tekur lán. Það er mál, sem ég læt mig engu varða í þessu sambandi og ég býst ekki við, að þm. yfirleitt geri það. Hvort hæstv. ríkisstj. tekur lán í „Flóttamannasjóði“ eða í „Viðreisnarsjóði“ eða í einhverjum öðrum sjóði erlendis, það skiptir okkur ekki nokkru máli, vegirnir eru alveg jafngóðir, sem við fáum á Vestfjörðum, hvaðan sem peningarnir eru fengnir, ef það eru heiðarlega fengnir peningar. En hitt er það, að maður tekur eftir því, að þegar á að fara að lána Vestfirðingum peninga til vegagerðar, þá duga engir innlendir sjóðir. Þegar verið var að afla fjár í Reykjanesbrautina, þessara 143 millj., sem eru komnar í hana, þá þurfti ekkert að leita til neins „Flóttamannasjóðs“ eða „Viðreisnarsjóðs, og hvað snertir allar þær lántökur, sem nú eru ráðgerðar í þessari till. um vegáætlun, þá heyri ég hvergi nokkurs staðar nefndan neinn flóttamannasjóð í því sambandi. En það er sama, ég endurtek það, að ég hef ekkert út á þetta að setja, þó að hæstv. ríkisstj. útvegi sér lán í einhverjum sjóði, hún um það og til hvers hún notar það lán, það kemur ekkert Vestfirðingum við, enda ekkert víst, hvert þessir peningar fara, þeir geta farið eitthvað annað og við fáum svo íslenzka peninga, það er ómögulegt að rekja það neitt.

Okkar ágætu samstarfsmenn meðal Vestfjarðaþingmanna sögðu okkur meira um þetta. Þeir sögðu okkur, að þessar 32 millj. kr., sem ættu að koma að láni í vegi á Vestfjörðum á næstu fjórum árum, væru dálitlu skilyrði bundnar, sem sé því, að þessir peningar megi ekki fara nema í ákveðna vegi, aðalvegi, sem þeir gerðu okkur nokkru nánar grein fyrir, aðalvegi á kaflanum norðan frá Bolungarvík suður á Barðaströnd, en ekki neina hliðarvegi eða smábyggðavegi, heldur í aðalvegina á þessari leið, og að jafnmikil upphæð yrði að koma af fjárveitingum í sömu vegina. Hæstv. ríkisstj. óskaði eftir þessu.

Nú lágu ekki fyrir á þessum fundum okkar Vestfjarðaþingmanna neinar till. um það, í hvaða einstaka vegi á þessu landssvæði lánsféð mætti fara og við fengum enga vitneskju um það, hverjir ættu að skipta þessu lánsfé, en samt ætti þetta að koma. Og loks segja þeir okkur frá því, að þetta verði ekki afgr. í sambandi við vegáætlun. Það þykir hentugra að afgr. þetta síðar á annan hátt, einhvern sjálfstæðan hátt. Og þeir létu þær óskir í ljós við okkur, að við færum ekki að flytja brtt. við vegáætlunina hvað þetta snerti um lánsfé, því að það gæti komið þeim heldur óþægilega. Það kallaði þá á aðrar lánsfjártill. o.s.frv., enda mundu þeir eða stjórnarsinnar ekki eiga hlut að slíkum tillöguflutningi við vegáætlun. Það kom fram, að þær gætu verið skiljanlegar, þessar óskir. Ef ekki ættu að koma neinar aðrar till. fram, kæmi þeim verr, að fluttar yrðu till. um þetta eina kjördæmi, þó að það samrýmdist ekki alveg vegalögunum.

Við svöruðum þessu efnislega á þessa leið, við hv. 1. þm. Vestf. og 5. þm. Vestf.:

Í fyrsta. lagi, að lánsfé, sem ætlað er til vegagerðar, verði að koma inn í vegáætlunina samkv. ákvæðum vegalaga. Hjá þessu yrði ekki komizt, svo að við gætum ekki fallizt á að vera með þetta fyrir utan lög og rétt, enda væri ekkert að óttast í þessu efni. Það væri margyfirlýst, að þetta lánsfé ætti að koma og margyfirlýst, að það ætti að afgr. í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar, svo að við áttuðum okkur heldur illa á þessu og skildum alls ekki, hvernig því yrði komið við að vera með þetta fyrir utan hana.

Þá töldum við það ekki viðhlítandi að veita jafnháa upphæð af þessari fremur þröngu fjárveitingu á hverju ári í sömu vegina og lánsféð ætti að fara í, því að þá yrðu hinir vegirnir æðimargir, sem fengju ekki neitt og þó að gott sé að fá aðalvegina milli byggðarlaga yfir heiðar og fjöll, þá þurfi fólkið, sem býr á láglendinu, að hafa sína vegi og komast áfram, koma sínum framleiðsluvörum á markað og þess háttar, svo að þetta gæti valdið hinum mestu erfiðleikum, að eiga að gangast undir slíka reglu. Við bentum á að á vegáætluninni væru fjárveitingar til Vestfjarðavega um 33–34 millj. kr. á 4 árum, og ef lánsféð ætti á sama tíma að vera 32 millj. kr. og jafnmikið að koma af hinu fénu í sömu vegina, þá yrði harla lítið eftir. Þetta sjá allir. Það yrði 1 eða 2 millj., ef þessari reglu ætti að fylgja út í æsar, á móti 64, sem kæmu í hina vegina. Þeir sögðu okkur, að þetta yrði ekki tekið strangt svona fyrstra árið og eitthvað færðist á milli ára, en þetta ætti að vera meginreglan. En við töldum, að þetta væri með öllu óviðunandi.

Á síðari fundinum, sem við áttum saman, var svo rætt um einstaka vegi og skiptingu hinnar væntanlegu fjárveitingar í þá. Þeir sýndu okkur sínar till. um það efni og við gerðum nokkrar brtt. við það. Við vildum fá þar inn nokkra vegi, sem þeir voru ekki með.

Svo lauk þeim fundi. Ég leit svo á, að við mundum hittast aftur, áður en fjvn. gengi frá sínum till. En það varð ekki. Enginn slíkur fundur var haldinn og við fengum ekki frekari vitneskju um það, hvers konar till. þeir vildu leggja fyrir fjvn. Það var því aldrei neinn botn í þessum umr. hvað þetta snerti, að um neitt samkomulag væri að ræða um fjárveitingar eða skiptingu fjárins. Það er því ekki rétt, sem stendur í nál. bæði minni og meiri hl. fjvn. Ég hef hér orðrétt frá meiri hl. fjvn.: „Varðandi nýbyggingu brúa og þjóðvega hefur n., svo sem jafnan áður, haft samráð við þm. viðkomandi kjördæma um upphæð hinna einstöku fjárveitinga til framkvæmdanna.“ Samráð hafa ekki verið önnur en þessi, að við töluðum saman og við lögðum fram nokkrar brtt. og síðan ekki söguna meir.

Og nú sjáum við, þegar brtt. fjvn. koma fram, að þar er ekki tekin ein einasta till. af þeim, sem við óskuðum eftir að yrðu teknar inn, að undanteknum einum 62 þús. í einn veg, þær voru færðar til eftir okkar ósk og þar með búið.

Um heildarupphæð fjárveitinganna af nýbyggingarfé til Vestfjarða er það að segja, að það er í sama horfinu og í fyrra. Vestfjarðakjördæmi á að hljóta um 14.3% af nýbyggingarfénu, sem er á vegáætluninni, eða svipað hlutfall og var í fyrra. Nefndin hefur ekki séð ástæðu til að bæta hlut Vestfjarða frá því, sem hann var í fyrra, en í fjöldamörg ár höfðu Vestfirðir fengið 19–20% af nýbyggingarfénu, enda ekki óeðlilegt, þar sem þarna var um það kjördæmi að ræða í landinu, sem verst sett var af þeim öllum að áliti þeirra manna, sem yfirleitt hafa talað um þessi mál hér. Þetta hlutfall var lækkað með aðgerðum fjvn. í fyrra úr 13–20% niður í rúm 14%, og það á enn að sitja í því. Aftur á móti eru önnur kjördæmi jafnvel komin yfir 20%, sem eiga þó að vera mun betur sett hvað þetta snertir.

En þrátt fyrir það, þótt svona sé lítill hlutur Vestfjarða í fjárveitingunni, er ekki að neita hinu, að þetta eru góðar fréttir og mikils virði að hafa nú loksins vissu um lánsfé í Vestfjarðaveginn. Það gleður okkur áreiðanlega marga, að loks rofar þarna til og það svo að um munar. En það eru fleiri, sem eiga að njóta þeirrar fyrirgreiðslu á næstu árum og jafnvel þó að þetta þyki rífleg upphæð til Vestfjarða og er það út af fyrir sig, þá er hún ekki ýkja há, ef maður fer að bera þetta saman við nágrenni Reykjavíkur og þær till., sem eru í þessu þskj. um lántökur til þeirra vega. Á þessum sömu fjórum árum, sem Vestfirðingar eiga að fá þessa upphæð, sem ég nefndi, á að verja 274 millj. til veganna hérna í kringum Reykjavík til viðbótar 143 millj., sem búið var að leggja í Reykjanesbraut. Og þegar maður lítur á ástand veganna, annars vegar hérna í nágrenninu og hins vegar í þessum héruðum, Vestfjörðum og á Austurlandi, þá segi ég alveg eins og er, ég er alveg ófeiminn við að óska eftir því að þessum 32 millj. verði ekki dreift á 4 ár, heldur fái Vestfirðir þær á næstu 2 árum og mun varla þykja ósanngjörn krafa eftir það, sem á undan er gengið.

Þegar till. hv. fjvn. komu hér fram, fór það svo, eins og búið var að gefa okkur í skyn og ég hef nefnt, þar var engin till. um lán til Vestfjarða, ekki stafur. Þetta reyndist þá rétt, enda höfðum við ekki ástæðu til að rengja okkar ágætu félaga, — það reyndist rétt, sem þeir gáfu okkur í skyn, að það þætti heppilegra að hafa lánveitingar til Vestfjarða ekki þarna með. Hins vegar eru till. um lánveitingar til annarra héraða, eins og ég nefndi og mjög ríflegar hér í þéttbýlinu.

Nú verð ég að segja það, að þegar ég les nál. frá hv. meiri hl. fjvn. og ber það saman við yfirlýsingarnar frá þm. stjórnarflokkanna á Vestfjörðum og þar með staðfestingu hæstv. ríkisstj. á, að þeir hafi skýrt þar rétt frá þá bregður mér í brún og ég er alveg hættur að skilja ganginn í þessu öllu saman. Meiri hl. fjvn. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseti:

„Svo sem gert er ráð fyrir í hinum nýju vegal., eru nú gerðar till. um allar þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á fjögurra ára tímabilinu. Gegnir þar sama máli um þær framkvæmdir, sem unnar verða fyrir fjárveitingar úr vegasjóði og þær framkvæmdir, sem vinna skal að með væntanlegu lánsfé.“

Þær eru þarna þá allar. Og undir þetta rita tveir hv. þm. Vestf. Hvernig getur þetta átt sér stað, að slíkt stendur í nál., að þarna séu þær allar, m.ö.o. enginn eyrir til Vestfjarða eftir allar yfirlýsingarnar, sem ég er búinn að lesa upp hér áður? Hverjum á maður að trúa, meiri hl. fjvn. eða þeim þm. úr fjvn., sem gáfu okkur yfirlýsingarnar í vetur? Ég get svarað þessu strax hvað mig snertir. Ég lít svo á að meiri hl. fjvn. fari þarna með rangt mál. Þær eru ekki þarna allar. Það vantar lánsfjárheimildirnar til Vestfjarða. Hvernig sem á því stendur, að þessi villa er komin inn í nál., trúi ég því, að þetta sé villa og ég efast ekki um, að okkar félagar hafa sagt okkur alveg rétt frá, enda aldrei mótmælt af ríkisstj., þegar þessi mál bar á góma við afgreiðslu fjárl. í vetur. Og brtt. okkar á þskj. 377 og 379, sem hér liggja frammi, eru byggðar á því, að það sé rangt, þetta í nál. meiri hl. fjvn., en rétt það, sem þm. stjórnarliðsins á Vestfjörðum hafa skýrt frá hér á Alþ. og einnig á fundum okkar. Við treystum því, að þetta lánsfé komi og þess vegna gerum við till. um skiptingu á þessu lánsfé í einstökum atriðum, alveg eins og skiptingu á fjárveitingunum, enda er ekki hægt að skipta helmingi af fénu, en skipta ekki hinum helmingnum og vita ekkert, hver á að skipta þeim helmingi, sem kemur ekki til afgreiðslu vegáætlunar. Það verður að skipta þessu samtímis og af sömu aðilum. Alþ. á að skipta þessu fé. Lánsheimildin á að koma hér inn, af því að það er skylda samkv. vegal., og það væri með öllu óskiljanlegt, vegna hvers Vestfirðir ættu ekki að búa undir sömu lögum og venjum hér á hv. Alþ. og aðrir landshlutar. Eða hvaða þörf er á að fara þar öðruvísi að en með Austurland, Norðurland og Suðurland, sem nú eiga líka að fá lánsfé?

Í brtt. okkar eru því þær till. m.a að taka út úr till. fjvn. nokkra vegi, sem dýrastir eru í uppbyggingu, en hins vegar gerum við till. um, að þeir vegir allir fái sitt fé af hinu væntanlega lánsfé. Við höldum okkur við þá upphæð, sem okkur hefur verið skýrt frá, 32 millj., en gerum þó eina brtt. við hana, að hún komi á tveimur árum í staðinn fyrir fjórum. Síðan gerum við till. um að skipta henni eftir ákveðnum reglum milli eftirfarandi vega: Vestfjarðavegar sunnan Þingmannaheiðar, Vestfjarðavegar um Breiðadalsdalsheiði, Bolungarvíkurvegar, Djúpvegar milli Ögurs og Ísafjarðar, Bíldudalsvegar um fjallgarðinn Hálfdán og Strandavegar milli Veiðileysufjarðar og Selvíkurhöfða.

Þetta eru langsamlega dýrustu vegagerðirnar og mestu og alvarlegustu þröskuldarnir á aðalvegum á Vestfjörðum. Með því að veita nú ríflegt lánsfé til Vestfjarðavegar sunnan Þingmannaheiðar er ætlunin að leggja niður veginn yfir Þingmannaheiði, eins og mönnum er kunnugt um. Það er mjög bágborinn vegur og var aldrei hugsaður nema sem bráðabirgðavegur, enda ófær, ef eitthvað bjátar á, að maður ekki tali um að vetrinum. Breiðadalsheiði þekkja menn einnig. Hún er með hæstu fjallvegum á landinu, svo snjóþung, að ekki þarf mikið að snjóa, til þess að hún verði óðar ófær og þar hefur ekki verið talið líklegt, að varanlegur vegur verði lagður, nema jarðgöng komi til, en í byrjun verður að gera góðan veg að þeim væntanlegu jarðgöngum báðum megin frá. Um Bolungarvíkurveg er það að segja, að hann er svo að segja höggvinn inn í berg, hér um bil alla leið, mjög lélegur. Honum hefur aldrei verið fulllokið. Þetta er hættulegur vegur og þar hafa orðið slys, eins og menn vita. Við teljum því aðkallandi að bæta þennan veg, en Bolungarvík er allstór kaupstaður, mikið athafnasvæði, þar er mikil framleiðsla og þar þarf daglega á flutningum að halda til Ísafjarðar. Það er því stöðugt farið um þennan veg, ég vil segja nótt og dag, vetur og sumar. Það er því ekki vanþörf á, að þangað komi fé til vegabóta. Djúpvegur liggur inn með Ísafjarðardjúpi að vestan, en þar er veglaust á löngum kafla. Það er mikið verk að byggja veg alla leið úr Álftafirði austur í Ögur. Nokkuð er komið áleiðis, en tiltölulega lítið af öllu því verki, sem þar þyrfti að vinna og mun enginn efast um þörfina þarna. Bíldudalsvegur milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar liggur yfir fjallgarðinn, sem heitir Hálfdán. Þar er svo að segja vegleysa á löngum köflum, aðallega að vestanverðu og þessi vegur er lokaður allan veturinn svo að segja, vegna snjóa. En samgöngur eru allmiklar milli Bíldudals annars vegar og Tálknafjarðar og Patreksfjarðar hins vegar og mjög tíðfarin leið, þegar hægt er að fara hana á annað borð. Er ætlunin að ráða bót á þarna með lánsfé? Loks er það Strandavegur, en þar er veglaus alllangur kafli úr Veiðileysufirði og norður að Selvíkurhöfða í Reykjarfirði. Fólkið í Árneshreppi, sem býr við þetta vegleysi, finnur til þess núna þessa dagana, þegar ísinn lokar öllum leiðum á sjó og veglaust er, svo að ekki verður komizt á landi og enginn flugvöllur nema einn lítill sjúkraflugvöllur. Þetta eru lífskjörin þeirra í Árneshreppi. Ætlunin með till. okkar er því að ljúka þessum vegarkafla, sem á vantar til að tengja Árneshrepp við þjóðvegakerfið, ljúka þessu á næstu tveimur árum.

Í till. okkar getum við ekki, eins og ég hef áður nefnt, fylgt þeirri reglu, að í sömu vegi og lánsfé á að koma, komi jafnháar upphæðir af fjárveitingu, það er útilokað með öllu og væri sama og að loka fjölmörgum vegum annars staðar í héruðunum. Slíkt kemur auðvitað ekki til mála.

Ég sé ekki ástæðu til að tala sérstaklega fyrir hverri einustu till., sem er á þessum tveimur þskj., nema sérstakt tilefni gefist til, enda mun varla verða véfengd nauðsyn á því að láta þessa vegi hafa nokkurt fé, því að margir þeirra hafa ekki fengið einn einasta eyri í fjöldamörg ár, a.m.k. 5–6 ár. Ég skal nefna sem dæmi, að Vestfjarðavegur um Gufudalssveit fékk síðast fjárveitingu á þinginu síðasta fyrir kjördæmabreytinguna, en ég var þá þm. Barðstrendinga, síðan ekki eyri. Svona er um fleiri vegi. Ég vil nefna annað dæmi. Á Ingjaldssandi í Dýrafirði er blómlegur atvinnuvegur og að mörgu leyti mjög merkilegur búskapur. Standa bændur þar framar, en flestir aðrir landsmenn í votheysgerð. Þeir fóðra svo að segja allan sinn búpening á tómu votheyi, hvernig sem viðrar á Íslandi. Þessir bændur, sem munu vera 8–9, svo að segja í einum hóp á Ingjaldssandi, komast ekki til annarra byggðarlaga nema yfir heiði, sem heitir Sandheiði. Það er mjög bágborinn vegur og till. um fjárveitingu í þennan veg eru afar lítilfjörlegar í till. fjvn., og við viljum bæta þar nokkuð úr.

Ég vil enn nefna Flateyrarveg. Það er ekki langur vegur frá Flateyri inn í Breiðadal, en hann er ekki betri en það, að hann er svo að segja ófær oft og einatt. En í till. fjvn. á hann að fá 55 þús. á 4 árum. Það er um 13 þús. á ári að meðaltali, það er þá peningur núna! Við getum varla verið þekktir fyrir það að leggja nafn okkar við slíka fjárveitingu.Ég vil enn nefna Tröllatunguheiði. Þar er nú ruddur bráðabirgðavegur milli Geiradalshrepps og Steingrímsfjarðar. Þetta er eiginlega eina leiðin, sem menn úr Geiradalshrepp og Reykhólasveit verða að fara, ef þeir vilja ná sér í fisk. Þeir sjá ekki fisk tímunum saman, af því að það eru engin fiskimið nálægt þeim. En það er ekki nema klukkutíma leið að fara til Hólmavíkur, ef fært væri yfir þessa heiði. Við teljum því mikla þörf á að bæta þar nokkuð veginn.

Ég skal nú ekki telja upp þessar till. frekar, en ég vil þó segja ykkur frá þeim veginum, sem ég er kunnugastur, það er svo kallaður Rauðasandsvegur. Það, sem við förum þar fram á er nánast til að afstýra slysahættu í svo kölluðum Bjarngötudal. Þetta er snarbrött hlíð, sem vegurinn liggur niður í sneiðingum og er svo viðsjárverður, að þar má lítið út af bera, að þar verði ekki slys, sérstaklega að vetri til, þegar vatn frýs og bólgnar á vegunum og snjóar svo yfir. En þessa leið er mjólk flutt annan hvern dag árið um kring. Og m.a. kom það einu sinni fyrir, að bóndi á Rauðasandi var að flytja mjólkina sína þennan veg um Bjarngötudalinn á dráttarvélinni sinni, en dráttarvélin fór fram af veginum og niður hlíðina með manninn og mjólkina. Það varð minna slys en búast mátti við. En hvað kann að gerast á svona vegum, ef ekki verður reynt að afstýra þarna slysum? Þetta er enginn sportvegur. Þetta er vegur til að flytja mjólk til Patreksfjarðar. Í þennan veg hefur ekki komið einn einasti eyrir í fjárveitingum í mörg, mörg ár.

Aðeins eina till. flytjum við um fjárveitingu í brýr umfram það, sem er í till. fjvn. Það er ein brú, sem við óskum eftir í Strandasýslu, á Steinadalsá og þó ekki nema byrjunarframlag í hana. Það er ekki fullreynt, hvað þetta dugir, við förum ekki fram á nema 300 þús. kr. Þegar komið er vestan úr Gilsfirði yfir Steinadalsheiði norður yfir, verður að fara yfir þessa á. Hún er ekki ýkjastór, og brúin er ekki löng, innan við 10 m, að ég ætla. En hún getur verið algerlega ófær og þarf ekki miklar rigningar til. Auk þess er einn bær næst heiðinni heiðarmegin við ána og kemst enginn til annarra bæja nema fara yfir ána. Þetta virðist því vera hófleg till.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta mál að þessu sinni. Ég vænti þess, að hv. þm. skilji okkar sjónarmið, að við teljum óhjákvæmilegt, að hið margfyrirheitna lánsfé komi inn í þessa vegáætlun, eins og vegalög mæla fyrir um, verði skipt á Alþ. milli einstakra vega eins og vegafé til annarra landshluta og hlíti yfirleitt alveg sömu reglum og lánsfé til annarra byggðarlaga.

Um málið í heild sé ég ekki ástæðu til að ræða neitt að ráði eftir þær ræður, sem fluttar voru hér í dag, sem voru mjög ýtarlegar. En ég vil vekja athygli á því, að allar okkar till. um skiptingu fjárveitinga og skiptingu væntanlegs lánsfjár eru miðaðar við tvö næstu ár. Það er af því, að okkur dettur ekki í hug, að það hafi nokkra þýðingu að vera að skipta sér af till. til eins eða neins fyrir árin 1967 eða 1968. Þetta er dauður bókstafur, sem við látum okkur engu skipta, enda á samkv. vegal. að endurskoða vegáætlunina eftir tvö ár og þá geta menn komið að hvers konar tillöguflutningi til breytinga, svo að það hefur enga raunhæfa þýðingu að vera með neinar tölur, neinar áætlanir eða till. um tvö síðari árin. Þess vegna gerum við það ekki. Ég tek sannarlega undir það, sem hér var sagt í dag, að það er eiginlega lítt skiljanlegt, hvernig menn geta áætlað í vegáætlun nú fjárveitingar úr ríkissjóði 4 ár fram í tímann. Hvaða þýðingu hefur það að láta það standa á pappírnum, að 1968 skuli ríkissjóður leggja fram 47 millj. til vega, ef þeir, sem þá skipa Alþ., vilja kannske hafa það 100 millj.? Þetta er algerlega út í loftið og alveg eins gildir um 1967, jafnvel 1966, en alveg sérstaklega þau árin, sem lengra eru undan. Við vitum ekkert, hvað Alþ. kann að gera á næstu árum. Á þessu sér maður, hvað þetta er þýðingarlaust og þá auðvitað jafnframt að vera að skipta því fé, sem enginn veit, hvað þarf að verða eða hvað kann að verða. Og hitt fer víst áreiðanlega ekki milli mála, að þörfin fyrir vegafé verður orðin það meiri eftir nokkur ár, að fáir munu þá vilja standa við það, sem nú stendur í þessum till. hvað snertir árin 1967–1968, ef ekki þarf einhverju við að bæta þessar tölur.