18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

106. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil, áður en ég vík að meginefni máls míns, lýsa sérstakri ánægju minni yfir yfirlýsingu hæstv. forsrh. í byrjun þessarar umr. um það, að hæstv. ríkisstj. mundi leggja fram brtt. við þetta frv., þess efnis, að hinn fyrirhugaði söluskattur yrði lækkaður um 1/2% og þar með fallið frá þeirri innheimtu, sem fyrirhuguð var vegna niðurgreiðslunnar á því ári, sem nú er að líða.

Ég tel ekki ástæðu til að taka aftur neitt af því, sem ég hef sagt áður hér í hv. deild um þetta mál, né heldur tel ég ástæðu til þess að hafa uppi um þetta frekari deilur. Ég fagna því, að þessi breyting hefur verið gerð og þar með fallizt á það sjónarmið, sem ég hef hér lýst, og ég vil fyrir mitt leyti þakka hæstv, forsrh. persónulega fyrir drengskap hans í þessum sérstaka þætti málsins og lýsa virðingu minni fyrir hyggindum hans að koma þannig til móts við okkur í þessum sérstaka þætti málsins.

Á hinn bóginn hlýt ég svo að lýsa því yfir, sem, raunar þarf ekki fram að taka, að þetta breytir auðvitað ekki á neinn hátt skoðun minni á því máli, sem hér ræðir um, því að það er auðvitað út af fyrir sig stigsmunur og ekki annað, hvort söluskatturinn er hækkaður um 1/2% meira eða minna, þannig að þetta breytir ekki á nokkurn hátt afstöðu minni eða skoðunum á því máli, sem hér er til umr. Þeim skoðunum lýsti ég í meginatriðum við 1. umr. þessa máls, og skoðanir mínar á því, hversu þetta frv. er á margvíslegan hátt skaðlegt, hafa ekki breytzt neitt við þá nánari athugun, sem við hefur verið komið á þeim stutta tíma, sem síðan er liðinn, né heldur hafa þær umr., sem hér hafa orðið, sannfært mig á nokkurn hátt um annað álít en ég lét þá í ljós. Miklu fremur mætti segja, að skoðanir mínar hafi styrkzt á því, að með þessu frv. sé stefnt í átt til þeirrar ófæru, sem erfitt geti orðið, bæði fyrir hæstv. ríkisstj. og aðra, sem málið varðar, að komast aftur upp úr. Ég held líka, að þess hafi nokkuð greinilega orðið vart, síðan málið var hér til 1. umr. í fyrradag, að það eru fleiri en ég og aðrir andstæðingar núverandi hæstv. ríkisstj., sem bera í brjósti nokkurn geig varðandi afleiðingar af samþykkt þessa frv. Ég mundi segja, að andrúmsloftið hér á hv. Alþ. þessa dagana hefði borið vott um það, að stjórnarliðið er ekki svo öruggt í sinni sök eins og oft áður, og er trúlegt, að þar komi ekki aðeins til eða valdi um gagnrýni og andstaða okkar stjórnarandstæðinga, heldur líka hitt, að stjórnarliðið finni anda heldur köldu til þessara fyrirhuguðu aðgerða úr sínum eigin herbúðum, jafnvel hér í þingsölunum. Og það bera vissulega ekki allir harm sinn í hljóði. Þannig hefur t.d. hv. 5. þm. Vesturl., ritstjóri Alþýðublaðsins, ekki getað orða bundizt í blaði sínu, en hann segir þar m.a. í gær, með leyfi hæstv. forseta:

„Allar þessar ráðstafanir ásamt afgreiðslu fjárlaga með miklum hækkunum eru því markinu brenndar, að þær auka frekar en minnka hættu á nýrri verðbólgu. Verður óhjákvæmilegt fyrir ríkisstj. að taka fljótlega upp víðtækar viðræður við launþegasamtökin, og leita að nýju samkomulagi, sem forði þjóðinni frá nýrri verðbólguöldu. Benti Alþfl. í samþykktum flokksins í nóvember á, að leitað yrði samkomulags við verkalýðssamtökin til að leysa þessi mál.“

Þegar þessi ummæli eins helzta foringja Alþfl. eru athuguð nánar og skoðað, hvað í þeim felst, verður manni vissulega ljósara en áður, hve tæpt hæstv. ríkisstj. stendur í þessu máli, og eru þessi ummæli þó aðeins einn vottur um það. Og hvað er það þá, sem þessi hv. þm. Alþfl. er raunverulega að segja? Hann segir í fyrsta lagi, að þetta frv. ásamt afgreiðslu fjárl., eins og hún er fyrirhuguð, stórauki hættuna á nýrri verðbólguöldu. Hann segir í öðru lagi, að ríkisstj. sjálf sé vanmegnug og óhæf til þess að hindra, að ný verðbólgualda rísi. Og í þriðja lagi segir hann svo, að viðræður og nýtt viðtækt samkomulag við launþegasamtökin séu eina færa leiðin til þess að firra stórvandræðum í þjóðfélaginu. Þetta er raunverulega það, sem þessi hv. þm. er að segja í blaði sínu. Þetta er vissulega allt rétt og í fullu samræmi við það, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram. En hvað halda menn svo um afstöðu almennings í landinu, afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, fyrst þessi meginatriði eru hugsun helztu stuðningsmanna hæstv. ríkisstj.?

Ég held þó, að það sé hægt að leiða fram sterkar líkur fyrir því, að þeir, sem standa henni jafnvel enn nær en 5. þm. Vesturl., eru algerlega andstæðir þeirri stefnu, sem nú er upp tekin, og er þar ekki aðeins um að ræða, að slíkt hafi runnið upp fyrir mönnum nú síðustu dagana, runnið upp eitthvert ljós fyrir þeim, heldur liggur það nú fyrir og hefur legið fyrir, að þeir hafa aðvarað hæstv. ríkisstj. með góðum fyrirvara við þeim aðgerðum, sem nú eru fyrirhugaðar. Þau vitni, sem ég vísa hér sérstaklega til varðandi þetta, eru tveir helztu efnahagsráðunautar ríkisstj., Jóhannes Nordal og Jónas Haralz. Í Fjármálatíðindum, sem komu út á s.l. sumri, ritar Jóhannes Nordal, annar helzti ráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálunum, grein um skattamál og kemur þar allvíða við, og hefur sumt af því, sem hann þar sagði um þessi mál, verið tilgreint hér áður í ræðu hv. frsm. 1. minni hl. fjhn. En Jóhannes Nordal segir í þessari grein, á bls. 5 í þessu hefti Fjármálatíðinda, sem ég gat um, m.a. um söluskattinn:

„Sérstaklega er ástæða til að freista þess að lækka útgjöldin, ef sterk rök hníga að því, að lækkun skatta sé forsenda þess, að hægt sé að framkvæma skattheimtuna með betri árangri og tryggja réttlátari dreifingu skattabyrðanna.“

Hann ræðir einnig um þau áhrif, sem hækkun söluskattsins mundi hafa á skattsvik, og segir um það m.a. á bls. 1 í sömu grein, að fari skattheimta fram úr ákveðnu marki, sem hann er búinn að ræða áður um, fari öll þessi undanbrögð að borga sig því betur, sem skattarnir eru hærri. Og síðar í greinámi kemur fram, að hann á þar alveg sérstaklega við söluskattinn og óbeinu skattana yfirleitt.

Skattheimtan á þessum sviðum er áreiðanlega þegar komin nærri og sums staðar yfir þau takmörk, sem heilbrigðri skattheimtu eru sett.

Og enn segir hann: „Á hinn bóginn er það viðurkennt í þessu efni, að mikil hætta sé á undanbrögðum frá söluskattsgreiðslu, ef skatturinn hækkar nokkuð verulega. Mikið af söluskattskyldri starfsemi er þess eðlis, að nákvæmt opinbert eftirlit er vandkvæðum bundið, svo að freistingin til skattsvika er þar af leiðandi veruleg. Og hún vex mjög,“ segir hann, „ef skatturinn er hækkaður frá því, sem nú er.“

Það, sem m.a. má lesa út úr þessu, er það, að Jóhannes Nordal telur, að langsamlega æskilegasta leiðin út úr þeim vanda, sem við erum nú staddir í í sambandi við skattamálin og efnahagsmálin, er sú að draga úr útgjöldum. En hann segir um þetta:

„Það er því óhjákvæmilegt, að á móti lækkun beinna skatta komi annaðhvort nýir tekjustofnar eða lækkun útgjalda. Af þessu tvennu er lækkun útgjalda tvímælalaust áhrifameiri, og er tími til kominn að meta, hvort sú mikla aukning framkvæmda og þjónustu á vegum sveitarfélaga og ríkisins, sem átt hefur sér stað síðustu árin, er raunverulega í samræmi við það, sem almenningur sættir sig við að greiða.“

Það er þess vegna alveg greinilegt, að Jóhannes Nordal hefur a.m.k. verið þeirrar skoðunar á miðju þessu ári, að sparnaðarleiðin væri fullkomlega fær, og það hlýtur þess vegna að stoða harla lítið í umræðum um þetta mál að saka okkur stjórnarandstæðinga um það, að við séum algerlega óábyrgir, þegar við minnumst á þessa leið, þegar það liggur fyrir, að þessi ágæti maður, þessi ráðunautur ríkisstj. um efnahagsmál, telur þetta æskilegustu og áhrifamestu leiðina, sem um er að ræða. Mér var sagt það núna rétt áðan, og það getur ekki verið neitt launungarmál, að á fundi fjvn., sem haldinn var í dag, hafi Jónas Haralz forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar lýst því sem sinni skoðun, að það æskilegasta, sem nú yrði gert í fjármálum þjóðarinnar og í skattamálunum, hefði verið það að lækka öll útgjöld, lækka útgjöld ríkissjóðs. Ég held að þegar þetta liggur fyrir, ættu hæstv. ráðh. og aðrir hv. talsmenn ríkisstj. að hafa hægt um sig í fullyrðingum sínum um það, að við stjórnarandstæðingar séum algerlega óábyrgir, þegar við viljum ræða það, hvort ekki séu möguleikar til þess að ná einhverju af því fé, sem hér skortir á til þess að jafna metin í fjárl., með sparnaði. Sannleikurinn er nefnilega sá, eins og þessir menn vita sjálfsagt allra manna bezt, að sparnaðarleiðin viðvíkjandi útgjöldum ríkissjóðs var sjálfsagðasta leiðin, sem reynt væri að fara eftir júnísamkomulagið, og e. t. v. eina leiðin, sem hugsanleg var til þess að halda áfram almennri verðstöðvun í landinu. En það er ekki aldeilis því að heilsa, að hæstv. ríkisstj. hafi borið gæfu til að fara að ráðum þessara manna. Og má segja, að ógæfa þessarar ríkisstj. er mikil, að hún skuli ekki nota sér ráð þessara manna, það sjaldan að það eru góð ráð, sem líkleg eru til að gefast vel, því að hún hefur jafnan verið ákaflega fús í blindni að hlíta ráðum þessara manna, þegar henni hefur verið ráðið af minnstum heilindum. En svo mikil er ógæfa þessarar hæstv. ríkisstj., að hún kann ekki gott að meta, þegar það kemur frá þessum aðilum, sem hún annars trúir og treystir. En það er nú ekki aldeilis því að heilsa, að um sparnað á ríkisútgjöldum hafi verið að ræða, því að eins og ég rakti í ræðu minni við 1. umr. málsins, er það fast í milljarðinn, sem ætlað er að rekstrarútgjöld ríkissjóðs aukist á þessu ári, þ.e.a.s. aðeins tæpur hálfur milljarður samkvæmt fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, og nú á að auka þetta um tæpar 400 millj., 342 millj. Meginhlutans til að mæta öllum þessum auknu rekstrarútgjöldum á svo að afla með söluskatti, ekki aðeins þeirri hækkun, sem nú á að fara fram, heldur hækkuninni, sem varð fyrr á árinu og rann þá til annarra hluta, en er hrifsuð til almennrar eyðslu ríkissjóðs.

Það er enginn vafi á því, og þarf ekki frekar vitna við um það, að sparnaðarleiðin var fær og er enn þá fær, og það er, hygg ég, augljóst hverjum manni, sem eitthvað reynir að hugsa um þessi mál, að sú þensla, sem verið hefur í ríkisútgjöldunum, er ekki með neinum eðlilegum hætti og ekki í neinu samræmi við þróun efnahagsmálanna að öðru leyti. Það er að vísu rétt, að á undanförnum árum hafa þjóðartekjurnar vaxið mikið. Þær hafa vaxið, að ég held að megi fullyrða, um 6—8% á ári, og kaupgjald hefur líka hækkað verulega í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. eða um rösk 50% að meðaltali. Verðlag hefur þó hækkað enn þá meira. En ekkert af þessum hækkunum, ekki einu sinni verðlagshækkunin, gerir neitt nálægt því að vera jafnmikil hlutfallslega og hækkunin á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs. Þar eru öll met svo gersamlega slegin, að þar er ekkert samræmi orðið lengur á milli þess vaxtar, sem hefur verið í þjóðartekjum, í kaupgjaldi eða í verðlagi, og slíkt hlýtur að hefna sín, og er raunar ekki hugsanlegt annað, þegar ríkisútgjöld margfaldast, á sama tíma og kaupgjald hækkar þó ekki nema um 50% og verðlag hækkar að vísu nokkru meira, en þegar ríkisútgjöldin hækka alltaf mest hlutfallslega, getur það ekki endað með öðru en þeirri skattpíningarstefnu, sem nú er upp tekin að nýju og hefur reyndar sett einkenni sitt á stjórnarfarið á undanförnum árum.

Það er ábyggilegt, að í margvíslegum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs væri með góðum vilja unnt að spara, ég tala nú ekki um, ef menn færu að hafa um það samkomulag, víðtækara en ríkisstj. er ein fær um að hafa milli þeirra flokka, sem að henni standa, — ég tala nú ekki um, ef um eitthvert samkomulag gæti verið að ræða við stjórnarandstöðuna, sem vel má vera, þó að hæstv. ríkisstj. hefði ekki talið neitt nauðsynlegt að athuga það, hvort þeir möguleikar væru fyrir hendi, þá hefði verið unnt að spara stórkostlega í ýmsum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs. Ég vil segja það, að ef það hefði verið gert og byrjað í sjálfum toppnum, hefði jafnvel getað komið til greina, að almenningur hefði sætt sig við það, að ýmis framkvæmdaútgjöld hefðu einnig verið lækkuð, þegar svo stóð á, að um það var að velja að halda áfram verðstöðvunarstefnu eða á hinn bóginn að ýta nýrri verðbólguöldu af stað, eins og nú er verið að gera. Það er auðvitað líka rétt, að vandinn í efnahags- og skattamálum verður ekki leystur án þess, að einhverjir verði fyrir óþægindum af því. Það vita menn ósköp vel. Ríkisstj. hefur sýnt það á undanförnum árum, að hún vill ekki, að auðfyrirtækin í landinu, atvinnureksturinn, verði fyrir óþægindum af þessu, því að mitt í öllum þeim skattahækkunum, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir, eru þó fyrirtæki í landinu, sem ekki aðeins hefur verið hlíft við auknum sköttum, heldur hafa þeir verið lækkaðir stórkostlega í tíð núv. ríkisstj. Það eru gróðafyrirtækin í landinu, sem eru þau einu, sem hafa mátt fá lækkun, allir aðrir hafa fengið margföldun á sínum skattabyrðum. Tekjuskattur hefur verið lækkaður á fyrirtækjum, varasjóðstillög aukin og ég man ekki hvað og hvað. Það er sjálfsagt margt fleira, þó að ég muni það ekki í svipinn. En það er alveg öruggt, að fyrirtæki á Íslandi, sem græða, hafa aldrei búið við mildari skattalöggjöf en nú.

Nei, hæstv. ríkisstj. vill forða sér frá öllum óþægindum í sambandi við lausn þessara m,ála, öðrum en þeim, sem bitna á almenningi. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. gerði þetta nokkuð að umræðuefni og taldi mikið djúp staðfest milli þess að tala nú um sparnað í sambandi við afgreiðslu á þessu frv. og hins vegar hækkunartill. stjórnarandstöðunnar. Ég veit reyndar, að hv. þm. skilur mætavel, hvaða munur er á því, hvaða till. eru fluttar, þegar stefnan er greinilega mörkuð af ríkisstj. um stórkostlega aukna eyðslu, þegar það liggur fyrir, að ríkisstj. ætlar að hækka rekstrarútgjöldin um einn milljarð á árinu, og þá er auðvitað ekkert eðlilegra en að togazt sé á um það fé, sem á að eyða. Eins og stefnan er mörkuð af hæstv. ríkisstj. og meiri hl. fjhn., þurfa þeir ekki að undra sig á því, þó að einstökum þm. sýnist, að ef á að eyða þessum líka litlu upphæðum, þá mætti alveg eins verja einhverju af þeim til einhverra annarra hluta en hæstv. ríkisstj. þykir hagkvæmast.

Ég held, að með þeim ummælum, sem ráðunautar ríkisstj. í efnahagsmálum hafa viðhaft um möguleikana á að fara sparnaðarleiðina, sé hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar svo algerlega mátuð í því máli, að það þurfi ekki að ræða það miklu frekar, að þessi leið var fær og hún er fær. En jafnvel þó að við sleppum því alveg, að sparnaðarleiðin sé fær, og veljum þann kostinn að jafna metin, eins og fjárlfrv. gerir nú ráð fyrir, koma einnig til greina aðrar leiðir en sú, sem hér er farin. Það hefur verið minnzt hér á hækkun tekjuáætlunar. Ég ætla ekki að hafa uppi miklar fullyrðingar í þeim efnum né heldur um hugsanlega afkomu ríkissjóðs á árinu 1964, vegna þess að ég tei allar upplýsingar, sem um þetta liggja fyrir, vera það ófullnægjandi, að á þeim verði tæpast mikið byggt. Það er að vísu rétt, að af yfirliti, sem hæstv. fjmrh. lét okkur í té í fjhn., er sýnt, að útgreiðslur hafi orðið um 300 millj. kr. meiri en áætlað var, það sem af er þessu ári, eða til nóvemberloka s.l., tæpar 300 millj. kr. En ég held a.m.k., að það væri ákaflega fróðlegt, áður en miklar ályktanir eru dregnar af þessu, að athuga það, hvort tekjustofnar ríkisins á þessu ári hafa brugðizt og þá hverjir og vegna hvers. En ég hef það fyrir satt, þó að fjhn. hafi ekki verið látnar í té upplýsingar um það, að tekjuskattur hafi farið fram úr áætlun, að tollar fari fram úr áætlun, að gjöld af innlendum tollvörutegundum fari fram úr áætlun, að lestagjöld fari fram úr áætlun, að aukatekjur fari fram úr áætlun, að stimpilgjöld fari fram úr áætlun, að vitagjald fari fram úr áætlun, að leyfisgjöld fari fram úr áætlun, að hluti af umboðsþóknun bankanna fari fram úr áætlun, — og leiðrétti nú hæstv. fjmrh. mig, ef þetta er rangt.

Hvað er þá eftir af tekjustofnum ríkissjóðs?

Það mundi fyrst og fremst vera söluskatturinn, sem hefur brugðizt, og það væri vissulega ákaflega fróðlegt og nauðsynlegt að fá meira að vita um það, af hverju það stafar. Það skyldi þó ekki geta verið svo, að það sé komið af því, sem Jóhannes Nordal sagði í sinni grein, að skatturinn væri þegar orðinn það hár, að það færi að bjóða heim meiri svikum og svindli í sambandi við skattinn en áður hafi þekkzt, eða þá hitt, að slælegar hefur verið gengið eftir innheimtu skattsins en áður? Um annað en þetta tvennt getur naumast verið að ræða, því að allir vita það, sem hafa opin augu, að viðskiptin í landinu hafa aldrei verið meiri en á þessu ári, sem nú er að líða. Velta í verzlun og öllum viðskiptum hefur aldrei verið meiri, svo að ekki hefur skatturinn brugðizt af því. Þarna getur þess vegna ekki verið nema um tvennt að ræða: Annaðhvort hafa innheimtumennirnir gengið slælegar eftir skattgreiðslunni heldur en áður eða það liggur fyrir, að þessi tekjustofn er þegar, áður en þessi hækkun er framkvæmd, sem nú á að gera, kominn yfir það mark, sem hann þarf að standa í, til þess að nokkur von sé til þess, að hann geti innheimzt forsvaranlega.

Nú er það svo, að þarna er að vísu ekki um stórkostlega miklu minna að ræða en gert var ráð fyrir, eða einar 20 millj., þannig að þessar upplýsingar um það, að allir tekjustofnar eða svo til allir aðrir en söluskatturinn hafa farið fram úr áætlun, gætu frekar bent til þess, að ríkisstj. hefði greitt úr ríkissjóði miklu meira en hún hefði heimildir til samkv. fjárl. Hverjar eru þessar greiðslur, og hversu óhjákvæmilegar voru þær? Þetta er líka atriði, sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir, áður en nokkuð er fullyrt um það, hvort hækkun tekjuáætlunar kemur til greina eða ekki. A.m.k. treysti ég mér ekki til þess að draga neinar ályktanir af þessu, meðan miklu nákvæmari útlistanir og skýrslur um undirliðina, sem þetta byggist á, eru ekki gefnar.

Hitt vitum við ósköp vel, að hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega hæstv. fjmrh. hefur haft ríkar tilhneigingar á undanförnum árum til þess að fara með blekkingar um þessi mál í því skyni að reyna að fá inn í ríkissjóðinn miklu meira fé en þörf var á. Hann viðurkenndi sjálfur í fyrri umræðum málsins, að fyrir árið 1962 hefði innflutningsáætluninni skeikað um 28%. Innflutningurinn varð 28% meiri en hann og hans sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir. Og þannig hefur þetta verið öll árin, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur farið með völd, og það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að við úr hópi þm., sem fáum ekki aðstöðu til að kynna okkur alla málavöxtu og fáum ekki fullnægjandi upplýsingar, séum svolitið vantrúaðir á það, að þetta þurfi endilega að vera miklu réttara en það hefur verið á undanförnum árum.

Ég vil þess vegna alls ekki afskrifa það, að hægt sé að mæta að einhverju leyti þeirri fjárþörf, sem hér er um að ræða, ef á að afgreiða fjárl. eins og þau koma nú fyrir og eru fyrirhuguð, með einhverri hækkun á tekjuáætlun. Hvað það er mikið eða lítið, það skal ég ekki fullyrða um, ég hef ekki aðstöðu til þess.

En það eru líka fleiri liðir, sem koma til greina, jafnvel þótt við sleppum sparnaðarleiðinni og sleppum þeirri leið að hækka tekjuáætlun fjárlaga. Og það er, sem lætur kannske voðalega í eyrum hæstv. ríkisstj. og hennar talsmanna, að nota eitthvað af því fé, sem hún hefur heimt umfram þarfir af almenningi á undanförnum árum. Eftir upplýsingum hæstv. fjmrh. liggur það fyrir, að það er óráðstafað af þessu fé, af greiðsluafgangi frá árunum 1962 og 1963, 220 millj. kr., sem ættu þess vegna að vera handbærar til þess að skila almenningi, þegar nauðsyn krefur:

Ég ætla mér ekki að fara út í fræðilegar deilur við hv. frsm. meiri hl. fjhn., allra sízt eftir þá stólræðu, sem hann hélt hér um mig, sem ég fór allur hjá mér við að heyra, sérstaklega af því að mér fannst skjóta þarna svo mjög skökku við, þar sem hæstv. fjmrh. hefur stundum sagt um mig, — það er nú ekki ýkjalangt síðan hann taldi, að það væri nær útilokað, að ég hefði þá greindarvísitölu, að ég gæti staðizt fullnaðarpróf í barnaskóla. (Gripið fram í.) Nei, það var nú ekki alveg óblandað. Hann sagði, að það, sem bagaði mig, væri ekki þekkingarleysi, heldur að ég léti þekkinguna liggja í láginni. (Gripið fram í.) Stundum, en ég ætla nú ekki að viðhafa þau orð, sem voru viðhöfð um prest einn fornan, að það, sem bagaði hann sérstaklega, væri lærdómurinn. „Lærdómurinn gerir séra Pál æran,“ var sagt um mjög lærðan mann. Ég ætla nú ekki að viðhafa þessi orð um hv. frsm. meiri hl. fjhn. En hitt vil ég segja, að það, sem mér finnst baga hann allt of oft í hans málflutningi, sem er þó yfirleitt málefnalegur og greindarlegur, er það, að hann heldur sig of fast við kenningarnar og hirðir minna um það, hvernig þær fái staðizt í raunveruleikanum. Og þegar kenningarnar eru dregnar svona til yztu afleiðinga, er stundum skammt í vitleysurnar og öfgarnar. En ég fann ekki betur en þessi hv. þm. kæmist að þeirri niðurstöðu, að ríkissjóður mætti aldrei skila því, sem hann einu sinni hefði klófest af almenningi, því að þessu væri þannig varið, að almenningur yrði ávallt að borga allt, sem ríkið eyddi, og hann þyrfti að gera það e.t.v. í enn þá ríkara mæli, ef einhverju af því væri skilað aftur. Ég held, að þarna sé teorían komin nokkuð langt frá raunveruleikanum. Ég held, að það sé ekki nauðsynlegt, að almenningur sé látinn borga sömu upphæðina tvisvar eða jafnvel þrisvar. Ég held, að það sé nægilegt, að hann borgi hana einu sinni, og sá peningur sé alveg eins gjaldgengur til útgjalda á næsta ári, sem hefur verið greiddur fyrir tveimur árum, eins og sá, sem er greiddur nú í dag.

Ég skal ekki fara út í fræðilegar bollaleggingar um það, hvort slík aðgerð að skila almenningi nokkru af því fé, sem hefur verið ranglega af honum tekið og undir fölsku yfirskini og með blekkingum af hæstv. fjmrh. hér á Alþingi, kunni að hafa einhver verðbólgumyndandi áhrif. Ég ætla ekki að fara út í neinar fræðilegar bollaleggingar um það. En hitt veit ég a.m.k. alveg með vissu, og ég held, að það þurfi ekki annað en venjulega skynsemi og engar fræðikenningar til að segja sér það, að það muni a.m.k. ekki hafa meiri verðhækkandi áhrif en skattur, sem beint er lagður á verðlagið í landinu og fer ekkert á milli mála að leggst allur á verðlagið.

Það eru svo vissulega til enn þá fleiri leiðir til að mæta tekjuþörf, ef hún er raunverulega fyrir hendi, sem ég dreg mjög í efa. Það væri t.d. hugsanlegt að hækka nú aftur skatta á fyrirtækjum og auðfélögum í landinu, sem hæstv, ríkisstj. hefur lækkað, og taka meira af þeim en áður. Slíkt mundi ekki samkvæmt kenningunni hafa nein verðbólgumyndandi áhrif. Það væri hugsanlegt að leggja á eignarskatta. Og það verður ekki séð, að þeir mundu rakleitt a.m.k. þurfa að fara út í verðlagið í landinu. En út í þessa sálma ætla ég þó ekki frekar að fara.

Ég hef rakið þarna a.m.k. fjórar leiðir, sem hefðu komið til greina, aðrar en sú leið, sem hér er farin, til þess að sýna fram á það, að hæstv. ríkisstj. virðist vera staðráðin í því að velja ekki aðeins lakari kost af tveimur, eins og ég sagði hér við 1. umr., heldur lakasta kostinn af mörgum, því að það er enginn kostur verri en sá, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið í þessum málum.

Ég held, að það sé líka ekki úr vegi að athuga það ofurlítið og benda hæstv. ríkisstj. á það, hvað raunverulega ynnist, ef frá þessum verðhækkunarskatti, sem nú er fyrirhugaður, yrði forðað, ef hætt væri við hann, að hvaða leyti við stæðum raunverulega betur að vígi eftir en áður. Það er í fyrsta lagi alveg auðsætt, að allt verðlag í landinu yrði a.m.k. 2 1/2—3% lægra í fyrstu lotu heldur en það annars verður. Það ætti að vera fyrir því séð a.m.k. um nokkurn tíma, að dýrtíðarhjólið færi ekki að snúast að nýju. Tilhneiging til þess að krefjast hærri launa yrði vafalaust minni en annars. Atvinnuvegirnir stæðu betur að vígi til að standa undir raunverulegum kauphækkunum, því að auðvitað eru það ekki raunhæfar kauphækkanir, þó að kaup hækki að einhverju leyti á móti hækkuðu verðlagi. Og þetta mundi auðvitað létta mjög þá samninga, sem standa fyrir dyrum um launakjörin á n.k. vori. Og af þessu mundi svo leiða, að sterkari líkur yrðu fyrir því en annars, að friður gæti haldizt á vinnumarkaðinum og betri sambúð ríkti á milli ríkisvaldsins og almannasamtakanna.

Ég spyr nú: Er ekki til nokkurs að vinna? Má ekki nokkuð á sig leggja, til þess að forðað verði þeim ófriði og vandræðum, sem blasa við, ef þessar aðgerðir verða þvingaðar fram hér á hv. Alþingi í óþökk alþjóðar, í óþökk alþýðusamtakanna og jafnvel í óþökk þeirra, sem ætlað er að standa að því að samþ. þessa till. hér á hv. Alþingi?

Ég get ekki skilið svo við þetta mál, að ég minnist ekki sérstaklega á það, hvernig þetta mál allt, þ.e.a.s. bæði frv. og breytingar, sem það varða og eru gerðar á fjárl., hvernig sú atvinnugrein í landinu, hvers afkoma er öðrum fremur mótandi fyrir launakjörin í landinu, fer út úr þessu, þ.e.a.s. fiskiðnaðurinn. Og nú hefði mér þótt vænt um það, að sá eini maður hér í hv. d., sem starfar í þessari atvinnugrein, hv. 4. þm. Vesturl., væri hér viðstaddur, því að mig fýsir að vita, hvað sá maðurinn, sem helzt ætti að vera forsvarsmaður sjávarútvegsins hér í þessari hv. d., hefur um þetta mál að segja. Ég ætlaði ekki að ráðast að þessum hv. þm. neitt persónulega, það er síður en svo, en ég hlýt að lýsa undrun minni yfir því, miðað við það, hvernig fiskiðnaðurinn og sjávarútvegurinn er leikinn í sambandi við þessi mál öll, að ekki skuli hafa heyrzt nein rödd úr hópi stjórnarlíðsins eða neinar tilraunir verið hafðar uppi til þess að forða þeirri meðferð, sem þessi atvinnugrein sætir í sambandi við þessi mál. Og ég geri þetta sérstaklega að umræðuefni vegna þess, að staða þessarar atvinnugreinar hefur sérstaka þýðingu í sambandi við launakjör verkafólks í landinu. Hér er auðvitað um það að ræða, að fiskiðnaðurinn og sjávarútvegurinn yfirleitt verður að taka á sig 3% kauphækkun í sambandi við þetta frv., eins og allar aðrar atvinnugreinar í landinu, en sérstaða þessarar atvinnugreinar er fólgin í því, að hún getur ekki velt neinu af þessum byrðum af sér og verður þess vegna algerlega að standa undir því sjálf, getur ekki veit því yfir á almenning. Það er sérstaða þessarar atvinnugreinar. En það er ekki bara um það að ræða, að fiskiðnaðurinn verði einn atvinnugreina örugglega að standa undir þessari kauphækkun í krónutölu, heldur er um miklu viðtækari aðgerðir að ræða til þess að rýra afkomu fiskiðnaðarins og sjávarútvegsins, þ.e.a.s. það eru teknir af honum styrkir, sem hann áður naut af söluskatti upp á í kringum 100 millj. kr., en það mundi svara til þess, að þessi atvinnugrein væri látin bera 20—25% og þó sennilega nær 25% í hreinni kauphækkun. Hef ég þá fyrir mér útreikninga, sem efnahagsráðunautar ríkisstj. gerðu í sambandi við frv. um aðstoð við sjávarútveginn í fyrra, en það var fullyrt í grg. með því frv., að 15% kauphækkun, sem varð í desember, svaraði til 62 eða 63 millj. kr. aukningar á útgjöldum fiskiðnaðarins, og er þess vegna ekki sú fullyrðing neitt gáleysisleg hjá mér, að með því að svipta sjávarútveginn þessari aðstoð sé verið að gera raunverulega sams konar aðgerð og honum hefði verið gert að hækka kaupið um 25% og að auki þau 3%, sem aðrar atvinnugreinar eiga við að búa.

Nú vil ég skjóta hér inn í ofurlitlum vitnisburði um það, hvernig hag þessarar atvinnugreinar er háttað. Í leiðara Vísis í dag segir, að ef niðurgreiðslum væri ekki haldið áfram, mundi kaupgjald í landinu nú hækka um a.m.k. 5%. Hver yrði afleiðing þess? Það er auðsætt. Verðbólgan mundi taka stökk fram á við. Erfiðleikar meginframleiðslugreinar þjóðarinnar, sjávarútvegsins, hinn hækkandi framleiðslukostnaður, sem af slíkri kauphækkun leiddi, mundi bjóða heim stöðvun útflutningsframleiðslunnar eftir skamman tíma. Væri slík stefna í samræmi við hag launþega í landinu? — Ja, ljótt er nú að heyra. Þessi atvinnugrein, sem hæstv. ríkisstj. er með sínum ráðstöfunum að leggja á sem svarar 25—28% kauphækkun, þolir ekki 5% kauphækkun, þá stöðvast hún. Hvernig fer fyrir þessari atvinnugrein? Og nú spyr ég hv. 4. þm. Vesturl., hvað hann álíti um þetta, vegna þess að ég veit, að það er að fara í geitarhús að leita ullar að spyrja hæstv. ráðh. um það, því að þeir hafa ekki hugmynd um það. Er það virkilega skoðun ríkisstj., að sjávarútvegurinn sé svo vel haldinn og hans hagur hafi batnað svo á því ári, sem nú er að líða, og þó ekki fullu ári, að hann geti nú tekið á sig þessa hækkun? Auðvitað fer svo ekki hjá því, að hann verður að taka á sig hækkanir í sambandi við samninga á næsta vori. Það vita allir og hafa allir lengi vitað, að kaup verður að hækka í vor og verður hækkað. Er það virkilega svo, að það sé hugmynd hæstv. ríkisstj., er hún svo fjarri raunveruleikanum að halda það, að þessi atvinnugrein í landinu, þessi þýðingarmesta atvinnugrein okkar, geti staðið undir þessum álögum? Og ef svarið skyldi nú vera neitandi, hvað á þá að gera? Á kannske að leggja á nýja skatta eftir nýárið eins og í fyrra? Er þessi hækkun á söluskattinum núna bara byrjunin á stórkostlegum aðgerðum til nýrrar skattheimtu? Og hvernig á að bjarga málum sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins við, ef það er rétt, sem einkamálgagn hæstv. fjmrh. segir, að þessi atvinnugrein þoli ekki 5% kauphækkun, en ríkisstj. er staðráðin í að leggja á hana sem svarar 28%? Hvernig verður því máli bjargað öðruvísi við en með nýrri aðstoð og nýjum sköttum? Þess vegna spyr ég: Er fyrirhugað að leggja á nýja skatta vegna sjávarútvegsins, þegar hv. Alþingi kemur saman aftur? Er þetta kannske bara aðeins byrjunin, sem hér er á ferðinni?

Ef það á að leika hér slíkan loddaraleik að hrifsa fyrst yfir 100 millj. af útveginum í eyðsluhítina og koma svo enn á ný og leggja á nýjar álögur, þá fer myndin að skýrast af því, sem er að gerast, og því, sem hlýtur að koma.

Ég vil svo aðeins bæta því við í sambandi við fiskiðnaðinn, að ein meginástæðan til þess, að ég a.m.k. álít niðurgreiðslur vera nauðsynlegar og það til þess ýtrasta nú um sinn a.m.k., er einmitt sú, að þær koma þessari atvinnugrein til beinna hagsbóta og gera hana færa um að standa undir þeim lífskjörum, sem nauðsynleg eru og almenningur í landinu getur sætt sig við.

Fyrstu viðbrögð launþegasamtakanna við þessu frv. eru nú orðin ljós af samþykktum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem báðar voru lesnar af hv. ræðumönnum, sem töluðu hér næstir á undan mér, og ég þarf þess vegna ekki að rekja nánar. En ég ætla þó, að þær samþykktir og þá ekki sízt samþykkt stjórnar BSRB séu nokkur vottur um það, að í þessu máli eru allir á einu máli í launþegasamtökunum, hvaða flokki sem þeir annars kunna að fylgja eða hafa fylgt, og það virðist vera næstum auðsætt af þessum ályktunum, sem eru afdráttarlausar og skýrar, að þær hafa óhjákvæmilega sín áhrif á stefnu þeirra og viðbrögð í kjaramálunum. Og ég held, að þessar samþykktir og sjálfsagt fleiri, sem á eftir munu koma, sanni það greinilega, sem við höfum haldið fram, Alþb.-menn, að það átti að hafa samráð við verkalýðssamtökin, áður en þetta frv. var lagt fram, og það er trú mín, að ef það hefði verið gert, hefðum við aldrei séð það hér á borðunum hjá okkur, heldur hefði þá verið þrátt fyrir allt reynt að leita annarra leiða, einhverra þeirra leiða, sem ég hef hér bent á.

Nú segja menn aftur á móti á eftir, þegar þetta frv. er kornið á góðan rekspöl gegnum þingið, — þá segja menn: Við viljum auðvitað hafa samstarf við launþegasamtökin. Við viljum fljótlega hefja viðræður við launþegasamtökin, segir t.d. Alþýðublaðið, og ræðumenn hv. stjórnartlokka hafa viðhaft svipuð ummæli, og eins og ég sagði áðan, bætir Alþýðublaðið því við, að slíkt samstarf og viðræður eru ekki aðeins nauðsynlegar, heldur eru þær það eina, sem getur bjargað frá bráðum voða. Ég verð að segja, að þar sem hér er um að ræða aðgerðir af hálfu ríkisstj. í landinu, minnir það mann of mikið á pörupilta, sem eru varaðir við því að fremja óknytti, en vilja ekki láta sér segjast og treysta því, að þeir geti beðizt vægðar á eftir, vægðar og vorkunnar fyrir óknytti sína. Slíkt getur auðvitað lukkazt fyrir illa innrættum strákum, en það er ekki víst, að það heppnist jafnvel fyrir þeim, sem eiga að ráða fyrir landi og þjóð og eiga að bera hina þyngstu ábyrgð og mestu ábyrgð í þjóðfélaginu.

Nei, bezta tækifærið og raunverulega það eina sjálfsagða til samráðs og samvinnu við alþýðusamtökin var, áður en þetta frv. kom fram, og það tækifæri er illu heilli liðið hjá.

Það er þó ástæða til að ætla, að það væri enn þá, þótt það sé orðið á elleftu stundu, mögulegt að hefja viðræður og leita samstarfs milli ríkisstj. og almannasamtakanna um lausn vandamálanna, en þá auðvitað ekki með öðru skilyrði en því, að þetta frv. væri dregið til baka á svipaðan hátt og þvingunarlagafrv. var sæliar minningar dregið til baka hér á elleftu stundu í nóvembermánuði s.l.

Ef þetta frv. verður þvingað í gegn nú, er engum blöðum um það að fletta, að það er efnt til nýrrar verðbólguöldu í landinu og því miður, að því er bezt verður séð, með ráðnum hug. Trú manna á það, að ríkisstj. vilji yfirleitt hafa forustu um aðra þróun í efnahagsmálunum en þá, sem tryggir afætunum í þjóðfélaginu sem stærstan hlut með sístarfandi verðbólgu, bíður óbætanlegan hnekki, ef þetta frv. verður samþ., jafnvel þó að hæstv. ríkisstj. sjái að sér síðar. Það er alveg víst, að verðbólguhjólið tekur nú á ný að snúast og það ástand skapast í öllum hagsmunahópum þjóðfélagsins, að enginn telur sig eiga annars kost en að leitast við að ná eins miklu til sín og hann mögulega getur, eins og frekast er auðið. Í slíku ástandi geta engir hagspekingar reiknað það út fyrir fram, hverjar afleiðingarnar verða eða hvenær möguleikar yfirleitt skapast á því að spyrna við fótum. Stríðið er þá hafið með öllum þeim afleiðingum, sem af því hljótast og enginn fær nú að fullu séð fyrir um. Í slíku ástandi væri það auðvitað fásinna af launþegasamtökunum að sitja með hendur í skauti, enda gæti slíkt þá ekki leitt til annars en síhrakandi lífskjara, þrátt fyrir þau miklu góðæri, sem yfir hafa gengið og stórfelldan vöxt þjóðarframleiðslu og þjóðartekna, enda mun slíkt vissulega ekki verða. Rökin fyrir stórbættum launakjörum vinnustéttanna, styttingu vinnudags og öðrum kjarabótum hafa aldrei verið augljósari en einmitt núna, þegar svo harkalega og tilefnislaust er vegið að afkomu vinnustéttanna með því kauplækkunarfrv., sem hér er á ferðinni.

Opinberir starfsmenn benda á það í sinni ályktun um þetta frv., að þeir hafi aðeins frá því 1. júlí 1963 orðið að bera 23.5% hækkun framleiðslukostnaðar bótalaust. Verkamannafjölskyldu skortir nú yfir 90 þús. kr. á ári á það, að tekjur hennar af 8 stunda vinnudegi nægi til framfærslu meðalfjölskyldu skv. útreikningum hagstofunnar um framfærslukostnað. Og samt sem áður á nú enn þá að leggja á slíka fjölskyldu auknar byrðar og lækka raunveruleg laun. Vinnutíminn er orðinn slíkur, að heilar starfsgreinar vinna nú allt að því 1000 yfirvinnustundir á ári, miðað við nýjustu skýrslur, sem til eru um vinnutímann á Íslandi. Það svarar til 5 mánaða vinnu á ári til viðbótar við fulla vinnu hina mánuðina 12, og slikir hlutir eiga sér stað, þrátt fyrir það að vöxtur þjóðarframleiðslunnar nemur 7—8% á ári og e.t.v. meira.

Þó að þetta sé svo, á enn þá að ráðast gegn þessum stéttum með aðgerðum til kjaraskerðingar. Það á að hleypa verðbólguófreskjunni óbeizlaðri út úr því búri, sem hún hefur verið lokuð inni í nú um stuttan tíma að vísu, og láta hana læsa tönnunum í kjör þessara stétta, þau sem þær þó enn þá búa við.

Þegar þannig er farið að, eiga vinnustéttirnar auðvitað ekki neinn annan kost, þó að hann sé þeim nauðugur, heldur en þann að beita valdi samtaka sinna til varnar hagsmunum sínum og lífskjörum, og það munu þær gera. Og þá kynni svo að fara, að jafnvel hæstv. ríkisstj. yrði skamma stund því höggi fegin, sem hún reiðir nú að almenningi á sjálfri jólaföstunni.

En því er verr, að þau afglöp, sem hér á að fremja, geta orðið fleirum dýr en sjálfri ríkisstjórninni, því að þau bitna auðvitað fyrst og fremst á meginþorra þjóðarinnar, og það er þess vegna ekki af neinni umhyggju fyrir hæstv. ríkisstj., sem hún er aðvöruð alvarlega við því að slá á þá útréttu hönd almannasamtakanna í landinu, sem enn er tækifæri til að mæta af skilningi og með samstarfsvilja. Það eru hagsmunir alls almennings og þjóðarinnar sem heildar, sem krefjast þess, að ríkisstj. sjái nú að sér. Ef hún hins vegar gerir það ekki, er það skylda Alþingis að taka af henni ráðin í þessu máli og fella þetta verðbólgu- og kjaraskerðingarfrv.