01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2700)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. og raunar ríkisstj. í heild fyrir þann góða skilning á þörf Vestfirðinga fyrir samgöngubætur, sem fram kom í þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. flutti hér fyrir skömmu og jafnframt staðfestist í þeirri brtt., sem ríkisstj. hefur flutt við vegáætlun á þskj. 399 um Vestfjarðavegi.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því af hálfu þm. úr öllum landshlutum að afla lánsfjár til úrbóta og hraðari framkvæmda í vegagerðum. Í ýmsum landshlutum hefur verulegur árangur orðið af þessari viðleitni, þannig að tekizt hefur að útvega lánsfé og gera stórátök í einstökum vegum. Við Vestfirðingar höfum til þessa litið orðið aðnjótandi þessarar viðleitni. Hins vegar hefur verið unnið mjög mikið að vegaframkvæmdum á Vestfjörðum s.l. 20 ár, og það er ástæðulaust að vanmeta þann mikla árangur, sem náðst hefur í þeim efnum, þrátt fyrir það, þó að ástand veganna á Vestfjörðum sé enn þá mjög lélegt, en svipaða sögu hefur raunar fólk í ýmsum öðrum landshlutum að segja. En nú hefur það tekizt undir forustu ríkisstj. og í framhaldi af þáltill., sem flutt var hér á hv. Alþ. í fyrra af hv. 4. þm. Vestf. um aðstoð frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, að útvega allstórt lán til framkvæmda á Vestfjörðum. Eins og hv. þm. er kunnugt og hæstv. fjmrh. minntist einnig á, er unnið að heildaráætlun um framkvæmdir á Vestfjörðum, sem miðar að því að stöðva fólksflutninga úr þessum landshluta og leggja grundvöll að blómlegu athafnalífi og batnandi aðstöðu á marga lund. Það er aðeins lokið við þessa framkvæmdaáætlun að því er snertir samgöngubætur og þetta lán, sem nú hefur fengizt frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, er fengið til þess að framkvæma þennan þátt framkvæmdaáætlunarinnar.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, er gert ráð fyrir, að samtals verði á næstu 4 árum unnið fyrir 171 millj. kr. að samgöngubótum á Vestfjörðum, þar af að lagningu þjóðvega fyrir 67.7 millj. kr., gerð flugvalla fyrir 32.1 millj. kr. og hafnargerðum fyrir 71.8 millj. kr. Ég mun fyrst og fremst gera vegamálin og lítillega flugvallamálin hér að umræðuefni. Samtals er gert ráð fyrir, að við fáum 34 millj. kr. af erlendu lánsfé til þess að vinna að vegagerðum næstu 4 ár. Skiptist það þannig á milli ára, að á árinu 1965 er gert ráð fyrir 7.2 millj. kr. af hinu erlenda lánsfé beint til vegagerðanna, árinu 1966 7.3 millj. kr., árinu 1967 11.5 millj. kr. og árinu 1968 8 millj. kr. Ég leyfi mér að staðhæfa, að þessi ákvörðun markar þáttaskil í samgöngumálum Vestfjarða. Hér er lagður grundvöllur að skipulögðum framkvæmdum í stærri stíl, en áður hefur þekkzt, til þess að skapa fullkomið vegasamband milli flestra byggðarlaga Vestfjarða, þar sem meginhluti íbúa þessa landshluta býr. Þessar auknu framkvæmdir miða sem sagt fyrst og fremst að því að skapa öruggt akvegasamband allt árið milli kaupstaða, kauptúna og sveita, við utanvert Ísafjarðardjúp, í Vestur-Ísafjarðarsýslu og Vestur-Barðastrandarsýslu. Jafnframt er snúizt að því með aukinni festu að ljúka byggingu aðalþjóðbrautarinnar, sem tengir Vestfirði við aðalakvegakerfi landsins. Þessum höfuðframkvæmdum á að verða lokið á næstu 4 árum. Ég endurtek það því, að hér er um að ræða stórmerka framkvæmdaáætlun, sem markar þáttaskil í samgöngumálum Vestfjarða.

Að lokinni þessari framkvæmdaáætlun um fullkomna vetrarvegi milli þéttbýlustu byggðarlaga Vestfjarða verður kröftunum einbeitt að því að ljúka öðrum vegagerðum á Vestfjörðum. Vegagerðum í öðrum byggðarlögum Vestfjarða verður að sjálfsögðu haldið áfram jafnhliða framkvæmdaáætluninni. Það er ekki áformað að láta niður falla framkvæmdir í þeim vegum, sem hið erlenda lánsfé er ekki veitt til. Það mun t.d. verða lögð áherzla á að ljúka vegagerð um endilanga Strandasýslu allt norður í Árneshrepp. Enn fremur verður haldið áfram að bæta vegina í Austur-Barðastrandarsýslu eftir föngum. Vegagerðinni meðfram sunnanverðu Ísafjarðardjúpi verður einnig haldið áfram, en þar er, eins og kunnugt er, miklu verki ólokið og ber til þess brýna nauðsyn að ljúka því á eins skömmum tíma og mögulegt er.

Samkv. áætluninni er gert ráð fyrir, að varið verði 32.1 millj. kr. til flugvalla á Vestfjörðum næstu 4 ár. Er þar um að ræða tvo flugvelli við Ísafjarðarkaupstað og á Patreksfirði. Er áformað að gera þessa flugvelli eins fullkomna og mögulegt er, búa þá öryggistækjum og leggja að þeim fullkomna vegi, sem eiga að tryggja það, að snjóalög hindri ekki notkun flugvallanna. Þetta mun að sjálfsögðu hafa í för með sér stórbætta aðstöðu í flugmálum Vestfirðinga, ekki sízt eftir að Flugfélag Íslands hefur fengið nýjar hraðfleygari og fullkomnari flugvélar. Það er mín skoðun, að smærri flugvöllum á Vestfjörðum verði að sjálfsögðu að halda við eftir sem áður, að svo miklu leyti sem hinir nýju og fullkomnu vegir tryggja ekki héruðunum afnot hinna tveggja stóru flugvalla. En vitanlega liggur það í augum uppi, að vetrarvegir um mikinn hluta Vestfjarða, sem færir eru svo að segja allt árið, eiga að tryggja miklu almennari afnot af þessum stóru flugvöllum, en nú er um að ræða.

Um þátt hafnargerðanna í framkvæmdaáætluninni skal ég ekki ræða að þessu sinni. Það er gert ráð fyrir, að 36 millj. kr. af hinu erlenda lánsfé verði til þeirra varið á næstu 4 árum. En vitanlega eru öruggar hafnir frumskilyrði útgerðar, sjósóknar og góðra og hagkvæmra samgangna á sjó.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég fagna þessari framkvæmdaáætlun. Ég fagna þeim stórhug og víðsýni, sem kemur fram í henni og það er ekki aðeins von mín, að hún verði Vestfjörðum og vestfirzku fólki að gagni, heldur geti þetta orðið upphaf að miklu skipulegri vinnubrögðum, en áður hefur tíðkazt í margvíslegum uppbyggingarframkvæmdum í öllum landshlutum. Og mundu þá fleiri njóta góðs af því heillaspori, sem hæstv. ríkisstj. hefur með þessari ákvörðun stigið, en við, sem fyrstir eigum að njóta hennar.