01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2702)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það leyndi sér ekki á þeirri ræðu, sem hæstv. samgmrh. flutti hér fyrr í kvöld, að hann kveinkaði sér nokkuð undan þeim umr., sem hér fóru fram um þetta mál á mánudagskvöldið s.l. Þá fóru hér fram allmiklar umr. um vegáætlunina og framkvæmdir í vegamálum almennt. Þá var umr. þessa máls komin á lokastig og ekki annað vitað, en það ætti að ljúka umr. þá um kvöldið. Hins vegar höfðu komið hér fram allmiklar aths. varðandi þessa áætlun og við stefnuna í vega- og brúagerðarmálum. Og ýmsar spurningar voru settar hér fram, sem í rauninni var alveg sjálfsagt, að hæstv. ráðh. svaraði. En hæstv. ráðh. tók þann kostinn þá að sitja sem fastast í sínum stól og þegja sem fastast, svara engu af því, sem til hans var beint. Það fór auðvitað ekkert á milli mála, að hæstv. ráðh. leið ekkert vel. Það gat ég út af fyrir sig mæta vel skilið. Nú hefur hann hins vegar þann tíma, sem hann hefur fengið síðan, verið að rétta svolítið úr sér, kom hér upp í ræðustólinn fyrr í kvöld og þóttist nokkuð vilja kvitta fyrir það, sem ókvittað var fyrir, áður í þessum umr.

En það var býsna athyglisvert, hvað það var, sem hæstv. ráðh. hafði að segja um þessi mál og þær aths., sem hér höfðu komið fram um þetta þýðingarmikla málefni. Ég hafði alveg sérstaklega gert það að umtalsefni, að mér þætti það óglæsilegt, ef nú ætti að samþykkja fjögurra ára áætlun um vegagerðarmál landsins og sú áætlun ætti að vera í því formi, sem hér væri lagt til, sem sé því, að gert væri ráð fyrir því, að bein framlög til vegagerðarmála ættu að fara lækkandi með hverju ári sem liði næstu 4 ár. Ég benti á það, að samkv. þeirri vegáætlun, sem í gildi vor s.l. ár, 1964, hafði t.d. verið áætlað að verja til nýbyggingar þjóðbrauta í landinu 24.7 millj. kr. En í áætluninni er lagt til að lækka þessa fjárhæð á þessu ári niður í 22.7 millj., árið 1966 niður í 19.4 millj., 1967 niður í 20.2 millj. og árið 1968 niður í 23.6 millj, kr. (Forseti: Mætti ég biðja hv. 5. þm. Austf. að gera stutt hlé á ræðu sinni, meðan leitað verður afbrigða fyrir fram kominni brtt.?) Sjálfsagt. [Frh.]