18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

106. mál, söluskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hér hefur nú þegar verið af hálfu stjórnarandstæðinga bent á svo margt, sem mælir gegn því, að söluskatturinn sé hækkaður, að meira þarf varla við að bæta honum til fordæmingar. Það hefur verið sýnt fram á, að söluskattur er álöguform, sem leggst á gjaldendur alveg án miðunar við gjaldgetu þeirra og í mörgum tilfellum í öfugu hlutfalli við gjaldþolið, bent á, að hann er fátækraplága, áníðsla á fátæku fólki, sem berst í bökkum. Hann er hinn ósýnilegi draugur, sem étur græðgislega frá börnunum við borð barnmörgu, fátæku fjölskyldunnar. Hann leggst líka þungt á atvinnureksturinn og dregur hann niður. Þennan draug tilkynnir nú hæstv. ríkisstj., að hún sendi heimilunum til framfærslu strax upp úr nýárinu. Góður glaðningur það!

Þá hefur verið rækilega á það bent, að söluskatturinn, sem tekinn er án miskunnar af neytandanum, kemur ekki allur til skila. Milliliðirnir sumir er talið að taki sér sneið af ostinum, áður en þeir skila honum, þó að ríkið eigi hann, og er erfitt að fyrirbyggja slíkt. Máske er það ekki heldur vel samrýmanlegt núverandi stjórnarstefnu áð vera með rekistefnu út af slíku. Loks hefur verið bent á, að allar líkur séu til, að hægt væri að komast af með það fé, sem hæstv. ríkisstj. hefur undir höndum og fær í hendur á næsta ári, án þess að hækka söluskattinn, ef vilji til þess væri fyrir höndum og skyldugrar ráðdeildar væri gætt. Áhætta væri a.m.k. áreiðanlega ekki mikil að reyna þetta fram eftir næsta ári. Eða hvenær ætlar hæstv. ríkisstj. að hætta að láta berast fyrir stormi og straumi eins og flak á öldu? Hvenær ætlar hún að hætta flótta sínum undan örðugleikunum? Hækkun söluskattsins er flótti frá mörkum og miðum, sem ríkisstj. þarf að hafa. Í stað þess að keppa að þeim mörkum er um flótta frá þeim að ræða. Álagning söluskattsins er stökk á flóttanum. Hvar nemur staðar með efnahagslífið, ef svona heldur áfram með verðbólguvöxtinn? Söluskattshækkunin er trygging fyrir því, að verðbólgan haldi áfram að vaxa, og lögmál þeirrar tryggingar er sett inn í sjálft frv., þar sem gert er ráð fyrir álögum vegna verðbólguaukningar, sem aftur leiðir af sér nýjan vöxt verðbólgunnar.

Ég get ekki að því gert, að hæstv. ríkisstj. minnir mig stundum og einmitt núna á strákinn á Akureyri, sem frægur varð fyrir það að fara á bak benzínhjóli, setja það af stað, geta ekki stöðvað það, komast ekki af baki og ríghalda sér, meðan benzínið entist, en það entist suður í botn Eyjafjarðar. Að vísu má kannske segja, að sá sé munurinn á hæstv. ríkisstj. og stráknum, að hún gæti hent sér af baki.

Hæstv. núv. ríkisstj. og stuðningslið hennar á Alþingi og í blöðum hefur stundum talað um það niðrandi, að vinstri stjórnin hafi farið frá vegna verðbólgu, sem hún hafi ekki viljað bera ábyrgð á. Þá er vitnað til 17 vísitölustiga hækkunar. Miðað við núgildandi vísitölustig voru þessi 17 stig víst sama og 8 1/2 stig eftir útreikningum nú. Já, það er rétt, vinstri stjórnin sagði af sér, af því að hún gat ekki myndað nægilega sterka samstöðu til að vinna bug á þessum verðbólguvexti, svo samvizkusöm var hún sem ríkisstj., að hún dró sig í hlé og gaf Alþingi kost á að mynda samstöðu um nýja stjórn, sem að vísu tókst ekki mjög vel. En hvað gerir núv. hæstv. ríkisstj.? Í hennar tíð hefur dýrtið vaxið, að mér skilst, um nálega 130 stig, ef reiknað væri eftir sömu reglu og 17 stigin voru reiknuð, en hún situr samt, og enn stofnar hún til meiri dýrtíðar með þessari söluskattshækkun. Hún heldur með því áfram að trekkja upp gangverk dýrtíðarinnar.

Eitt sinn voru stjórnarkreppur til vandræða á Íslandi. Nú er þráseta ríkisstjórnar, sem veldur ekki verkefnum sínum, höfuðvandamál þjóðfélagsins eða eitt af mestu vandamálum þjóðfélagsins. Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. lengi að sitja? Ætlar hún að sitja, þangað til benzínið er búið og allt komið í strand? Og hvað ætlar hinn naumi meiri hluti hennar á Alþingi að láta sér lengi lynda, að svona gengur? Ætlar hann að samþykkja söluskattsfrumvarpið? Fáir hafa látið til sín heyra um það enn. Hefur enginn í því liði dug til þess að rísa gegn öðru eins og þessu?

Hæstv. ríkisstj. viðurkennir, að sívaxandi verðbólga sé böl og sú þróun sé eyðandi eldur í máttarviðum efnahagslífsins. Samt kyndir hún þennan eld. Hún sér, að því er virðist, úr þessu ekki önnur ráð sjálfri sér til lífs enn um stund. Hún hjalar að vísu um, að það þurfi víðtæka samstöðu til þess að ráða við eldinn, og það gera ýmsir stuðningsmenn hennar, m.a. var vitnað í það, sem einn hv. þm., ritstjóri Alþýðublaðsins, segir í því blaði í gær. En hvað er að marka slíkt hjal, þegar verk fylgja ekki? Það virðist svo, að hún vilji ekki aðra samstöðu en þá, sem væri í því fólgin, að henni sjálfri sé þjónað og stefnu hennar. Hún vill ekki samstöðu með jafnrétti. Upphaflega eða nánar tiltekið 1960 bauð stjórnarandstaðan hæstv. ríkisstj. samvinnu skv. tillögu okkar framsóknarmanna, er allir stjórnarandstæðingar greiddu atkvæði með. Till. var um að skipa efnahagsmálanefnd, tvo menn tilnefnda af hverjum þingflokki, er gerði tillögur um lausn efnahagserfiðleikanna. Þessu hafnaði ríkisstj., ekki blátt áfram, heldur með hroka. Slíka samstöðu vildi hún ekki. Hún vildi ekki og vill enn ekki slíka samstöðu, bara þjónustu við sig og sínar tillögur og sín áhrif. Þeir, sem ekki geta fallizt á hennar sjónarmið, gátu vitanlega ekki gengið til slíkrar þjónustu við hana 1960, og enn síður geta þeir það nú, þegar reynsla er fengin af verkum hennar og eldur verðbólgustefnu hennar hefur geisað og á að geisa áfram. Hún virðist ætlast til þess, en það er svo mikil fjarstæða, að það líkist því, að mér virðist, að Neró keisari hefði gert kröfu til þess, að fólkið í Róm hyllti hann, eftir að hann hafði látið kveikja í borginni.

Nei, hv. þm., þetta er ekki hægt lengur. Við verðum að fella þetta frv., sem er olía í eldinn, þann eld, sem er að eyðileggja efnahagslíf þjóðarinnar á mestu uppgripatímum, sem þjóðin hefur lifað, því að á það ber að líta, að hæstv. ríkisstj. hefur notið þeirrar heppni, að á hennar valdatíma hafa þjóðinni fallið í skaut frá náttúrunni meiri aflagóðæri en nokkurn tíma áður, og sölur aflans sem útflutningsvöru hafa gengið mætavel.

Þó er það svo, að þegar þess var farið á leit við hæstv. ríkisstj., að hún lyfti undir bagga, sem fallið höfðu á herðar gjaldþegna í landinu óvænt á þessu ári, þá var það helzt, sem hún gat bent á, að þeir fengju kreppulán. Kreppulán á slíkum tímum. Furðulegt! En satt er það nú samt. Hugur hæstv. ríkisstj. stefnir ekki hærra. Hvar eru peningarnir, sem aflazt hafa? Einhvers staðar hljóta þeir að vera. Að einhverju leyti hefur hæstv. fjmrh. reynt að ná þeim til sín. Nú, það er út af fyrir sig búmannlegt, og ég vil ekki hafa ill orð um hann fyrir það. Hann hefur farið að eins og Faraó forðum, búið sig undir harðærið og lagt 100 millj. á bók í sjóð og talið, að það væri nýmæli í sögu þjóðarinnar, að ríkissjóður færi að safna slíkum innstæðum. Sennilega fær hann góða vexti af þessu innlagi. En spurningin er þá nú: Er ekki komið það harðæri, þegar farið er að benda fólki á að taka kreppulán til að greiða skattana sína og þegar lagt er fram frv. um hækkandi söluskatt, að grípa ætti til þessarar innstæðu? En þá kemur vitanlega í ljós, að innstæðan er lítil og rís varla undir því lofi með ráðh., sem hann bar á sjálfan sig vegna þessarar fúlgu. En hvar eru peningarnir? Menn fara í banka, biðja um lán og segjast ganga þaðan bónleiðir. Það er ekki yfirleitt hægt að veita mönnum úrlausnir í þeim efnum, sem að verulegu gagni koma eða svara til þeirrar verðbólgu, sem þjáir þjóðina.

Fróðir menn segja, að braskarar hafi grætt. Menn, sem eru ekki sérstaklega góðviljaðir í garð hæstv. ríkisstj., telja, að hún sé ánægð með það, og stóreignaskatt er henni nú t.d. mjög meinlega við. Það hefur maður heyrt. En almenningur getur, þó að hann finni ekki fé í bönkum og fái ekki fé í sína pyngju, þá getur hann séð, hvar peningar eru á ferð, ef hann gengur hér um Reykjavík. Hann getur séð, hvar stórbyggingar þjóta upp, og þær geta ekki orðið til, nema peningar séu fyrir hendi. Þeir menn og þau fyrirtæki, sem þar byggja stórbyggingar, hljóta að hafa fengið drjúgan skerf með einhverju móti af góðæri þjóðfélagsins og þjóðarinnar. Þeir hljóta að hafa fengið hann. Kannske hafa þeir að sumu leyti fengið hann með úrlausn hjá bönkunum, einmitt af því að þeir áttu peninga fyrir og höfðu þá í höndum.

Mér hefur dottið í hug, þegar ég hef séð þessar stórbyggingar hér við aðalgötur, frásögn í bók um frumskógalífið í Ámeríku, sérstaklega um háttu skógarbjarna þar. Þeir liggja í híði sínu að vetrinum, en þegar fer að vora, koma þeir á kreik, svangir eftir sveltuna, og leita til laxánna til að ná sér í lax, því að um það leyti fer laxinn að ganga í árnar. Og stóru birnirnir taka sér stöðu á töngunum og nesoddunum við árnar til þess að standa sem bezt að vígi til þess að ná í laxinn, þegar hann fer hjá, og þar veiða þeir. En smábirnirnir verða fyrir því, að stóru birnirnir hrekja þá frá. Þeir mega snópa að baki og á veiðileysum. En stóru birnirnir veiða svo duglega, að jafnvel þótt þeir séu lystugir, torga þeir ekki, en í stað þess að láta litlu birnina hafa afganginn, grafa þeir hann, segir maðurinn, sem skrifar bókina. Mér hefur einhvern veginn sýnzt, að þessi stórhýsi, sem rísa hér upp við aðalgötur yfir viðskiptafyrirtæki, og yfirleitt eru það viðskiptahallir, sem rísa, séu reist á veiðistöðvunum við strauminn, fólksstrauminn, þar sem bezt er að veiða fyrir kaupahéðna. Mér er sagt, að það sé eitthvert samspil milli stefnu hæstv. ríkisstj. og þessara manna, kannske óbeint. Mér er sagt, að jafnvel meiri hluti bæjarstjórnarinnar í Reykjavík sé í þessu samspili og láti þessa stóru birni hafa aðstöðu á töngunum, aðstöðu við strauminn, láti þá sitja fyrir lóðum á þeim stöðum.

Ég held, að það sé að í okkar þjóðfélagi, að stóru birnirnir veiði á þessum árum of mikið, þeir bægi hinum smáu frá, og það eru smælingjarnir, sem verða út undan. Það er rétt að hafa þetta í huga. Ég held, að það sé megingalli þeirrar stjórnarstefnu, sem nú ríkir, að hún lætur viðgangast og styður að þessu misrétti.

Þetta er á vissan hátt dapurlegt ástand. Það er ekki dapurlegt við strauminn í stórhýsunum, en það er dapurlegt hjá smælingjunum, og það er dapurlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa orðið til þess, að þessi þróun hefur átt sér stað, og vera þannig sett, að hún telji sig þurfa að grípa til þess neyðarúrræðis að hækka söluskatt nú upp í 8%. Að vísu hefur hún nú hopað um hálft prósent. Það skal ekki lastað út af fyrir sig, þetta gat hún. Takið eftir: Þetta gat hún, þegar hún varð nógu hrædd um framtíð sína. Af öðru kom það ekki. En hræðsla er slæmur leiðarvísir. Sá, sem hrekst fyrir hræðslu, er ekki heppilegur fararstjóri, en það á ríkisstj. þó jafnan að vera.

Hæstv. ríkisstj. getur, eins og hún féll frá hálfa prósentinu, líka fallið frá söluskattshækkuninni allri, ef hún vill. Hverjir ætli gætu hrætt hana til þess núna fyrir jólin? Ekki jólin sjálf. Þeir, sem gætu hrætt hana til þess, eru stuðningsmenn hennar hér á Alþingi, og þeir ættu að gera það. Það er áreiðanlega á þeirra valdi, og það þyrfti ekki nema einn til þess t.d. hér í þessari hv. d. Það væri drengilegt og yrði lengi munað í sögu Alþingis.

Hæstv. ríkisstj., sem látið hefur dýrtíðina til jafnaðar á ári hverju á sínum valdatíma vaxa 7—8 sinnum meira en þau 17 stig, sem um var að tefla í lok vinstristjórnartímans, og sér nú ekki annað betur henta en gera ráðstafanir, sem herða á verðbólgunni, á vitanlega að viðurkenna sín taflslok og segja af sér. En þó að hún geri það ekki, þá ætti hún að hafa hyggindi og e.t.v. hræðslu til að draga frv. til baka og óska eftir jafnréttissamstarfi við stjórnarandstöðuna eftir áramótin til að meta efnahagsástæðurnar og leita úrræða, er allir gætu skást talið og allir gætu stutt. Um góð úrræði getur varla verið að ræða, úr því sem komið er ekki lík úrræði og gátu verið fyrir hendi 1960. Mér virðist nefnilega svo komið, að öll þessi „eldraun“ sé orðin svo mögnuð og sé búin að gera svo mikið tjón, að allur hroki, sem var 1960, ætti að vera rokinn úr garði hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar líka. Ég hygg fyrir mitt leyti, að stjórnarandstöðuflokkarnir mundu ekki láta á sér standa til sams konar samstarfs og þeir buðu 1960, þó að nú sé, eins og ég sagði, miklu verr komið en þá var. En auðvitað yrði að leggja grundvöllinn í nefnd, sem starfaði á jafnréttisgrundvelli, og þetta frv. mætti þá alls ekki vera orðið að lögum. Hv. þdm., allt, sem máli skiptir, mælir með því, að við fellum þetta frv., og við skulum gera það, og svo skulum við taka höndum saman.