01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2710)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur margt borið á góma í þessum umr. og mörgu slegið fram, sem ekki fær staðizt. Í því sambandi get ég ekki látið hjá líða að víkja að þeirri fullyrðingu, sem fram kom hér í kvöld í ræðu hv. 5. þm. Austf. (LJós), að ákveðið væri að skera niður allar framkvæmdir í flugvallamálum á Austfjörðum á þessu ári. Þessi hv. þm. hélt þessu sama fram á fundi síðast, þegar þetta mál var til umr. Þetta var leiðrétt þá af hæstv. samgmrh. En þessi þm. stendur engu að síður upp nú hér í kvöld og heldur þessu fram, þó að hann viti, að hæstv. ráðh., sem fer með þessi mál, hlýtur að vita betur, enda ræður hann þessum málum. Ég þykist og vita, að það stoði lítt, þó að ég lýsi því yfir hér sem meðlimur í flugráði, að skipting á framkvæmdafé til flugmála hefur ekki fengið afgreiðslu enn þá í því ráði.

Ég sagði, að ég gæti ekki látið vera að minnast á þetta. Þetta er gott dæmi um margar þeirra fullyrðinga, sem fram hafa komið í þessum löngu umr. um vegáætlunina. Það hefur verið mjög rætt um það, hvort það hafi verið ætlun ríkisstj. að taka samgönguáætlun Vestfjarða, vegaþáttinn, inn í vegáætlunina. Því hefur verið haldið fram af stjórnarandstöðunni, að það hafi ekki verið ætlun ríkisstj. Sérstaklega hefur staðið fyrir þessum fullyrðingum hv. 3. þm. Vestf. (SE), og hann hefur í þessu sambandi sagt einnig, að það hefði átt að halda leyndum viðræðum, sem fram fóru milli þingmanna Vestfirðinga um þetta mál, vegna þess að það hefði átt að leyna þetta mál þinginu.

Ég vil lýsa því yfir, að hér er algerlega rangt með farið. Það er algerlega rangt með farið. Því var ekki lýst yfir af neinum á fundi þingmanna Vestfjarða, sem ég sat, að það væri ekki ætlunin að setja þessa samgönguáætlun Vestfjarða inn í vegáætlunina.

En hv. 3. þm. Vestf. segir: „Við vorum beðnir um að segja ekki frá þessu og það var vegna þess, að það átti að leyna þingið þessu.“

Þetta er ekki heldur rétt. Það er að vísu rétt, að það var talað um, að þetta mál skyldi vera í bili á milli fundarmanna. Það var vegna þess og það var mjög skýrt tekið fram af mér, að þegar þessi fundur var haldinn, þá var það ekki víst, að þetta lán fengist. Þá var ekki víst, að það fengist framkvæmdalán hjá viðreisnarsjóðnum. Það var ekki búið að taka það mál til afgreiðslu í sjóðsstjórninni, þegar þessi fundur var. Og þess má geta, að það var ekki fyrr en nokkru síðar, sem ákvörðun var tekin um þetta. Og það mun ekki hafa verið fyrr en í gær, að ríkisstj. mun hafa borizt staðfestingarbréf frá sjóðsstjórninni um það, að lánsbeiðnin væri samþ.

Ef menn hafa þetta í huga, þá sjá menn, hve fáránlegt það er að vera að tala um þau vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í þessu máli. Það var mjög eðlilegt, að málið yrði ekki lagt fyrir Alþingi, fyrr en staðfestingarbréf kom um lántökuna frá lánveitanda.

Þá hefur verið haldið fram af 5. þm. Austf. í þessu sambandi, að hæstv. fjmrh. hefði sagt, að gera hefði átt grein fyrir Vestfjarðaáætluninni í sambandi við framkvæmdaáætlun fyrir landið í heild. Auðvitað er þetta rétt, auðvitað lá það beint fyrir að gera grein fyrir þessari áætlun í heildarframkvæmdaáætlun fyrir landið. Þetta er hluti að sjálfsögðu í þeirri áætlun. En það var ekki hægt að gera það áður, vegna þess að vegáætlunina bar fyrr að. En ég sé ekki annað, en það verði að taka þessa samgönguáætlun fyrir Vestfirði inn í heildarframkvæmdaáætlun landsins, þegar hún kemur fram.

Allar hugleiðingar og allt tal hv. stjórnarandstæðinga um þennan þátt málanna er ekki einungis ákaflega ófrjótt og skiptir litlu máli, heldur er það byggt á algerum misskilningi.

Það væri ástæða til þess að fara nokkrum orðum um ræðu hv. 3. þm. Vestf., sem hann hélt hér áðan. Ég sagði, að það væri ástæða til. En ég vænti þess, að enginn lái mér það, þó að ég fari ekki að eyða mörgum orðum til andsvara við þá ræðu.

Nú þegar með þessari framkvæmdaáætlun á Vestfjörðum er verið að stíga eitt stærsta spor, sem hefur verið stigið á Vestfjörðum til framfara í samgöngumálum fyrr og síðar, þá leyfir þessi hv. þm. sér að tala af fullkomnu ábyrgðarleysi og kæruleysi um þetta mál. Það væri undir venjulegum kringumstæðum erfitt að skýra slíkt framferði. En ég held, að það verði naumast hjá því komizt að víkja nokkuð við þetta tækifæri að afstöðu framsóknarmanna til þessa mikla hagsmunamáls Vestfirðinga, víkja að afstöðu framsóknarmanna til þeirrar hugmyndar að leita um aðstoð eða lántöku hjá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins til þess að draga úr eða koma í veg fyrir fólksflótta frá Vestfjörðum. Sú saga er með eindæmum. Mig furðar þess vegna ekki á þeim hálfkæringi, sem lýsir sér í málflutningi hv. 3. þm. Vestf. nú í kvöld í þessum málum.

Þegar var til umr. 15. apríl 1964 till. til þál. um að skora á ríkisstj. að taka til athugunar möguleika á aðstoð viðreisnarsjóðsins til þess að vinna að jafnvægi í byggð landsins, þá lét talsmaður Framsfl. til sín taka í þeim umr. og sagði þá með leyfi hæstv. forseta: „Það má vel vera, að hægt sé að fá hingað fé úr þessum flóttamannasjóði. En ég vil eigi að síður vara við því í fullri alvöru, ef einhverjir láta sér detta það í hug, að þessi vestur-evrópski flóttamannasjóður eða landnámssjóður eða viðreisnarsjóður, hvað sem menn nú vilja kalla hann, muni taka það að sér sem sitt hlutverk að sjá um, að Íslendingar byggi land sitt og verji það þannig á eðlilegan og friðsaman hátt gegn ágangi annarra þjóða, enda þótt sjóðurinn kunni að láta eitthvað fé af mörkum, sé þess beiðzt. Eitt kynni að geta skeð í sambandi við umr. á alþjóðavettvangi um þetta innanlandsvandamál okkar Íslendinga, að einhverjum erlendum aðilum yrði þá ljósara en fyrr, hve mikið land og önnur náttúrugæði eru ónotuð hér á landi og létu sér þá e.t.v. detta í hug, að Íslendingar gætu sér að meinalitlu látið af hendi, t.d. við flóttamenn eða atvinnulitla menn frá ýmsum löndum, en þeir skipta víst milljónum um þessar mundir, meira eða minna af þeim landshlutum, sem nú eiga í vök að verjast vegna fólksfækkunar, landssvæði, sem útlit sé fyrir, að Íslendingar vilji ekki sjálfir byggja eða geti ekki byggt. En ef slíkt ber á góma, þarf áreiðanlega að fara að með mikilli gát, því að þessi fámenna þjóð má því miður ekki við því af þjóðernisástæðum að veita viðtöku fjölmenni af öðrum þjóðernum eða jafnvel kynþáttum. Í seinni tíð hafa borizt hingað raddir utan úr heimi, sem gefa ótvírætt til kynna, að fólk jafnvel í mjög fjarlægum löndum, sem byggð eru okkur óskyldum þjóðum, sé búið að festa auga á hinu mjög svo fámenna framtíðarlandi með auðug fiskimið, orkulindir og gnótt gróðurmoldar hér á norðurhjara og láti sér jafnframt detta í hug, að hér mundi tekið við því opnum örmum. Mér kemur í hug í þessu sambandi blaðagreinin frá Jamaica í Vestur-Indíum, sem Morgunblaðið birti í íslenzkri þýðingu s.l. sumar, þar sem Jamaica-menn voru hvattir til að leita landvistar hér á Íslandi.“ Þetta var innlegg fulltrúa Framsfl, í 1. umr. um hugmyndina um að leita aðstoðar eða fá lán frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, eins og ég hef hér tilfært þau eftir 3. þm. Norðurl, e.

En hvað er þetta? Hvers konar skilningur er á þessu vandamáli, jafnvægisvandamáli, sem kemur fram í þessu? Það er í fyrsta lagi það, að framsóknarmenn, eins og hér kemur fram, hafa verið haldnir þeim skilningi, að viðreisnarsjóðurinn sé, eins og þeir kalla hann, flóttamannasjóður. Þeir halda, að ef við höfum einhver kynni eða samskipti við viðreisnarsjóðinn, þá muni okkar land verða fyrir aðstreymi af flóttamönnum hvarvetna úr heiminum, svo mjög, að við getum átt á hættu að missa stór landssvæði undir byggð manna okkur fjarskyldra — af öðrum kynþáttum. Það er látið liggja að því, að hætta sé á miklum þjóðflutningum hingað frá Jamaica, ef við ræðum möguleikana á því að fá lán úr viðreisnarsjóði Evrópuráðsins til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Ef menn hafa í huga slíkt hyldýpi skilningsleysis, sem fram kemur í þessum ummælum og framsóknarmenn í verki hafa svo tileinkað sér í sambandi við þetta mál, þá geta menn skilið sumt af því, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði hér í kvöld. Þegar þetta mál var til meðferðar í fjvn., höfðu framsóknarmenn ekki áhuga. Þeir höfðu ekki áhuga á því, þó að það væri ekkí annað, en að fá ríkisstj. til þess að athuga, hvort hægt væri að gera raunhæfar aðgerðir í jafnvægismálunum með því að fá sérstakt fjármagn í því skyni. Þeir voru á móti því. Þeir vildu ekki standa að nál. fjvn. Þeir gerðu það ekki. En tvískinnungurinn í þessu máli einkenndi þá við hvert þeirra skref. Daginn eftir gengu þeir í sig og létu gefa út nýtt nál. og skrifuðu þá undir með fyrirvara.

Hvernig stendur á því, að flokkur, sem í tíma og ótíma er alltaf að segja, að hann sé hinn sérstaki útvaldi fulltrúi dreifbýlisins, skuli hafa þessa afstöðu? Hvernig stendur á því, að Framsfl., þegar hann er í stjórn landsins, kemur yfirleitt ekki með neinar uppbyggðar till. til þess að ráðast til atlögu við jafnvægisvandamálið? Hvernig stendur á því, að þegar hann lætur hafa sig í það og það er yfirleitt ekki nema í stjórnarandstöðu, þá gerir hann sig sekan um að koma að jafnaði með ábyrgðarlausar yfirboðstillögur og sýndartill.?

Ég ætla ekki að svara þessum spurningum. Það yrði of langt mál. En ég hygg, að flestir greindir menn geti rennt grun í, hvers vegna þetta er. Og það er með þessari afstöðu Framsfl. almennt til vandamála dreifbýlisins og sérstaklega til hugmyndarinnar um það að brjóta nýjar leiðir í þeim efnum með því að fá aðstoð frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, sem skýrð verður afstaða ræðumanna hans hér í þessum umr. núna.

Ég mun, eins og ég sagði áðan, ekki ætla mér þá dul að reyna að fara að svara efnislega hv. 3. þm. Vestf. En ég get ekki látið þessar umr. líða svo, að ég veki ekki athygli á því, sem aðrir hafa að vísu gert í þessum umr. áður, að með þeim aðgerðum, sem hæstv. ríkisstj. er nú að gera fyrir Vestfirði, er verið að brjóta blað í aðgerðum ríkisvaldsins til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Með þessu er tekin upp ákveðin áætlunargerð. Það er miðað að ákveðnu marki, stefnt að því að koma á ákveðnu ástandi, sem á að stuðla að því að draga úr fólksflóttanum. Hér er ekki um að ræða sérstakar bráðabirgðaaðgerðir, einstakar aðgerðir til þess að leysa aðkallandi vandamál, dægurmál. Hér er verið að leggja grundvöll að uppbyggingu til að skapa fólkinu skilyrði til þess að una betur við sitt á Vestfjörðum, en verið hefur. Það er byrjað einmitt þar sem á að byrja í þessum efnum. Það er ekkert þýðingarmeira, en að bæta samgöngurnar. Það þarf að tengja saman byggðirnar, sem eru meira og minna einangraðar mikinn hluta ársins. Þetta verður gert með því að koma á fullkomnu vegasambandi. Með því að tengja byggðirnar þannig saman og með því einu verður mögulegt að skapa grundvöll fyrir því, að fólkið geti notið lífsins á svipaðan hátt á þessum stöðum og í þéttbýlinu. Með því að tengja byggðirnar saman skapast stærri vettvangur atvinnulega, menningarlega og félagslega. Og það er einungis með því móti, sem hægt er að skapa þá fjölbreytni í atvinnulífinu, sem þarf að vera á þessum stöðum. Það er aðeins með því móti, sem hægt er að koma upp þeim þjónustufyrirtækjum, sem fólkið krefst nú á dögum. Þess vegna er stefnt í rétta átt með þeim aðgerðum, sem nú er verið að gera. Og það er einmitt með slíkri víðsýni og stórhug, sem við þurfum að vinna á sem flestum sviðum.

Hér er til umr. vegáætlunin og á síðustu árum hafa verið teknar upp nýjar vinnuaðferðir í þeim málum. Með setningu nýju vegalaganna er brotið blað í vegamálunum. Það eru tekin upp önnur vinnubrögð, en áður voru. Það eru gerðar áætlanir fram í tímann og það er miðað við að vinna stór verkefni í stórum áföngum. Það var einhver talsmaður Framsfl. hér í kvöld að segja, að við yrðum að ganga fram, en ekki aftur á bak í vegamálunum. En ég fullyrði, að það stærsta skref, sem hefur verið stigið í þessum málum, er einmitt sú löggjöf, sem sett var með nýju vegalögunum. Og ég held því, að það blikni nokkuð aðfinningar, sem stjórnarandstaðan hefur verið með í þessum málum, þegar við höfum þetta í huga og þá ötulu forustu, sem hæstv. samgmrh. hefur haft í þessum málum, síðan hann tók við þeim.