28.04.1965
Sameinað þing: 44. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2729)

118. mál, ræktun lerkis á Fljótsdalshéraði

Frsm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr., hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela landbrh. að hlutast til um, að Skógrækt ríkisins hefji nú þegar ræktun lerkis á Hallormsstað eða grennd með það fyrir augum að leitast við að fullnægja þörf Íslendinga fyrir girðingarstaura.“

Fjvn. sendi mál þetta til umsagnar til Skógræktarfélags Íslands og Skógræktar ríkisins og fékk álit þeirra um þáltill. Báðir þessir aðilar mæla með því, að till. verði samþ. og með því að álitsgerðirnar eru ekki langt mál, vil ég leyfa mér að lesa þær. Umsögn Skógræktarfélags Íslands hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sem svar við bréfi hv. fjvn. Alþ. dags. 16. marz 1965, þar sem leitað er umsagnar Skógræktarfélags Íslands varðandi till. til þál. um ræktun lerkis á Fljótsdalshéraði til framleiðslu á girðingarstaurum, vill stjórn Skógræktarfélags Íslands taka fram eftirfarandi:

Stjórn Skógræktarfélags Íslands fagnar þessari till. og álítur, að hún miði í rétta átt, en telur, að hún sé aðeins einn þáttur í viðtækari athugun og framkvæmd, sem nauðsynlegt sé að verði gerð hið fyrsta, þ.e. skógrækt til viðarframleiðslu á Fljótsdalshéraði með ræktun lerkis. Stjórn Skógræktarfélags Íslands mælir því eindregið með því, að þáltill. þessi verði samþykkt.

F.h. Skógræktarfélags Íslands,

Hákon Guðmundsson,

Einar G. E. Sæmundsen.“

Og í umsögn frá Skógrækt ríkisins segir svo, með leyfi forseta:

Hv. fjvn. Alþ. hefur beðið umsagnar Skógræktar ríkisins um till. Jónasar Péturssonar til þál. um ræktun lerkis í Fljótsdalshéraði. Með því að ræktun lerkis allt frá 1922 hefur sýnt, að það er bæði auðvelt og ekki seinlegt að rækta lerki á Hallormsstað, ekki aðeins til ræktunar á girðingarstaurum, heldur og til viðar, virðist sjálfsagt að samþykkja þessa till. Þess má geta, að þegar er búið að gróðursetja lerki í yfir 30 ha. lands á Hallormsstað og er það allt í góðum vexti. Viðarmælingar hafa sýnt, að meðalvöxtur þess hefur verið 6 teningsmetrar viðar í svonefndum Guttormslundi og með slíkum vexti hefur það gefið yfir 2.600 kr. í nettóarð á ha. á ári. Nú þegar er búið að fella um 4.600 girðingarstaura í Guttormslundi auk 1.700 staurarengla, en samt stendur hávaðinn af viðarmagninu eftir og eru flest trén orðin svo stór, að þau munu gefa margfalt meiri arð eftir fá ár með því að vera söguð í borð og planka heldur en ef þau væru felld nú og rifia niður í staura. Loks má geta þess, að girðingarstaurar úr lerki ganga næst eikarstaurum að endingu og eru því a. m. k. tvöfalt, ef ekki þrefalt endingarbetri en staurar þeir, sem íslenzkir bændur nota nú.

Með virðingu.

Hákon Bjarnason.“

Í grg. fyrir till. þessari segir flm., að hann hafi nýlega séð áætlun um ræktun á girðingarstaurum úr lerki, sem nægja mundi til þarfa landsmanna og er þá miðað við þann innflutning á slíkum staurum, sem verið hefur að meðaltali undanfarin ár. Þar segir m. a. að heildarnotkunin sé um 60 þús. staurar árlega, og samkv. áætlun, sem Sigurður Blöndal skógarvörður á Hallormsstað hefur gert, telur hann, að rækta megi 10 þús. girðingarataura á ha. lands, ræktunin taki til jafnaðar um 20 ár og ætti því að þurfa að fullrækta um 120 ha. í þessu skyni til þess að fullnægja þörfum landsmanna.

Eins og fram kemur í áliti fjvn. um mál þetta, leggur n. einróma til að till. verði samþ.