03.03.1965
Sameinað þing: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2733)

108. mál, síldarleit fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Ég hef flutt á þskj. 179 ásamt nokkrum þm. úr Norðurlandskjördæmi vestra till. til þál. um síldarleit fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Norðausturlandi. Hljóðar till. um, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að hlutast til um, að síldarleit á sjó fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Norðausturlandi hefjist ekki síðar en 1. maí ár hvert. Verði skip þau, sem leitina annast, útbúin nauðsynlegum veiðarfærum til síldveiða eða síldveiðiskip fylgi leitarskipunum. Jafnframt hlutist ríkisstj. til um, að a.m.k. eitt síldarleitarskip haldi sig að jafnaði á miðunum fyrir Norðurlandi, meðan á sumarsíldveiðunum stendur.

Eins og í grg., sem fylgir þessari till., segir, er tilefni þess, að hún er flutt það, að undanfarin ár hafa síldveiðar landsmanna í vaxandi mæli verið háðar leit að síldinni í djúpi hafsins og má raunar segja, að hin mikla síldveiði undanfarin 4 sumur hafi nær eingöngu byggzt á leit — ötulli leit síldarleitarskipanna, sem stjórnað hefur verið af dugandi starfsmönnum atvinnudeildar háskólans. Hin eiginlega síldarleit hefur undanfarin sumur yfirleitt ekki hafizt, fyrr en síðari hluta júnímánaðar og hafa síldveiðiskipin yfirleitt ekki látið úr höfn, fyrr en leitarskipin eru komin á miðin, enda telja þau, þ.e.a.s. veiðiskipin, til lítils að halda á miðin, fyrr en leitarskipin eru komin þangað, þar sem leitarskipin hafa venjulega vísað veiðiskipunum á síldartorfurnar, hvar sem þær kann að vera að finna.

Fróðir menn telja þó, að undanfarin sumur hafi síldargöngur haldið norður með Vestfjörðum og síðan austur með Norðurlandi eða komið utan úr hafi upp að Norðurlandi eða Norðausturlandi í maímánuði og fyrri hluta júnímánaðar, þ.e. alllöngu áður en hin eiginlega sumarsíldarleit hefur hafizt og hafi af þessu leitt, að síldveiðiflotinn hafi misst af einni eða fleiri síldargöngum í byrjun vertíðar. Telja fiskifræðingar t.d. nokkurn veginn öruggt, að a.m.k. ein síldarganga hafi verið farin austur um með Norðurlandi vorið 1962, áður en síldarleit og síldveiðar hófust síðari hluta júnímánaðar það ár. Staðreynd er það einnig, að allmikil síldveiði var fyrir norðaustan land síðast í maí og fyrst í júní s.l. vor, en þá voru aðeins fá veiðiskip komin á miðin og hin reglulega síldarleit á hafinu hófst þá að venju ekki fyrr en síðari hluta júnímánaðar. Var hér um að ræða stærstu og jöfnustu síldina og þar af leiðandi beztu söltunarsíldina, sem að landi barst á síðustu sumarsíldveiðum, þótt ekki væri leyft að salta þá síld vegna banns síldarútvegsnefndar.

Með tilliti til alls þessa telja flm. þessarar till. nauðsynlegt að kanna, hvort síldargöngur kunni að vera á ferðinni fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Norðausturlandi, áður en síldarleit og síldveiðar hafa almennt verið hafnar undanfarin sumur, en reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að síld hefur gengið á miðin undan þessum landshlutum fyrri hluta sumars, en á Austfjarðamið síðar á sumrinu. Undantekning frá þessu var þó s.l. sumar, þegar síld tók að veiðast af fullum krafti á Austfjarðamiðum upp úr miðjum júnímánuði.

Þá er í till. þessari bent á nauðsyn þess, að síldarleitarskipin séu búin nauðsynlegum veiðarfærum til síldveiða eða að síldveiðiskip fylgi þeim að öðrum kosti. Hefur það stundum komið fyrir, að leitarskipin hafa fundið torfur í hafdjúpinu, sem þau hafa talið vera síldartorfur, en svo hafa ekki reynzt vera það, heldur t.d. kolmunni, loðna eða þorskaseiði. Hefur stundum leitt af þessu gabb og vonbrigði sem koma mætti í veg fyrir með því, að leitarskipin væru svo búin sem í till. þessari er gert ráð fyrir.

Þá er loks í síðari hluta þessarar till. lögð áherzla á nauðsyn þess, að a.m.k. eitt síldarleitarskip haldi sig á miðunum fyrir Norðurlandi, meðan á síldveiðunum stendur, jafnvel þó að þar virðist ekki vera mikla síld að finna. Með þessu er á engan hátt reynt að kasta rýrð á þá menn, sem síldarleitinni stjórna eða störf þeirra, meðan leitarskipin halda sig á miðunum, en nokkuð hefur sumum Norðlendingum fundizt á það skorta undanfarin sumur, að síldarleitarskipin væru nægilega stöðug á miðunum fyrir Norðurlandi síðari hluta sumars, sérstaklega þegar lítil von er talin um, að leit mundi bera þar árangur, svo sem t.d. var á s.l. sumri.

Skal ég svo ekki að sinni hafa fleiri orð um þessa till., en legg til, að umr. um hana verði frestað og henni vísað til hv. allshn.