05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

90. mál, síldarflutningar og síldarlöndun

Frsm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar till. til þál. um síldarflutninga og síldarlöndun, sem flutt er af hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) og mér.

Í till. okkar var að því stefnt, að Alþ. gerði ályktun um að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir stofnun samtaka með síldarverksmiðjum og síldarsöltunanstöðvum um rekstur flutningaskipa, sem gætu annazt flutninga á síld. Jafnframt var í till. skorað á ríkisstj. að athuga, hvort ekki væri nauðsynlegt, að hún hefði forgöngu um samstarf eigenda söltunarstöðva og síldarverksmiðja og útvegsmanna um, að komið yrði á fót miðstöð, sem stjórnaði allri löndun síldveiðiskipanna með tilliti til sem fyllstrar nýtingar á afkastagetu vinnslustöðvanna og á veiðimöguleikum síldveiðiflotans.

Nefndin leitaði strax álits nokkurra aðila, sem málið varðar, og bárust umsagnir frá síldarverksmiðjusamtökum Austur- og Norðurlands, Alþýðusambandi Íslands, Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Landssambandi ísl. útvegsmanna.

Álit þessara aðila var nokkuð mismunandi. Landssamband ísl. útvegsmanna tekur mjög jákvæða afstöðu til málsins. Varðandi síldarflutningana vísar stjórn sambandsins til fyrri samþykkta um það efni, þar sem rætt er um gagnsemi síldarflutninga. Stjórn Landssambandsins segir um seinni lið till., þann er fjallar um miðstöð, sem stjórni allri löndun, með leyfi forseta:

„Varðandi síðari lið þáltill., þá teldum við rétt, að athugaðir yrðu möguleikar á því, hvort síldveiðiskipin gætu eigi fengið á einum stað upplýsingar um það, hvernig útlit sé með að fá löndun hjá hinum ýmsu síldarverksmiðjum og síldarverkunarstöðvum, svo að þannig verði komizt hjá því, að þau tefðust frá veiðunum óeðlilega langan tíma.“

Þarna er sem sagt lýst fylgi við þá meginhugsun, sem í þessari till. er fólgin, þó að nokkuð sé dregið úr og ekki reiknað með, að um beina stjórnun sé að ræða.

Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi tók einnig mjög jákvæða afstöðu til síldarflutninga almennt, en í þeirri umsögn er það hins vegar dregið í efa, hvort ríkisvaldið eigi að hafa afskipti af þessu máli.

Síldaverksmiðjusamtökin á Austur- og Norðurlandi segjast hins vegar hafa rætt málið töluvert, en alls ekki náð samstöðu um einróma afgreiðslu og svari því alls ekki í bili og slái málinu á frest.

Alþýðusamband Íslands telur, að hér sé um stórmál að ræða, sem kunni að hafa víðtæka þjóðfélagslega þýðingu og mælir eindregið með samþykkt till.

Eftir nokkra athugun varð algert samkomulag í n. um að mæla með samþykkt till. með nokkurri breyt. og þessi brtt. hefur verið birt á þskj. 494. Í þessari brtt. eru fólgnar fjórar breyt. Í staðinn fyrir að ræða um það, að stofna skuli samtök síldarverksmiðja og söltunarstöðva um rekstur flutningaskipa, er ríkisstj. falið að beita sér fyrir samstarfi þessara aðila. Í öðru lagi er svo komizt að orði, að rekstur síldarflutningaskipa eigi einkum við, þegar móttökuskilyrði séu eigi fyrir hendi í næstu höfnum við miðin. Í þriðja lagi er því skotið inn í till., sem ekki var áður, að sérstaklega skuli hafa í huga að bæta með síldarflutningum atvinnuástand þeirra staða, sem verða hart úti vegna skorts á síld til verkunar og vinnslu. Í fjórða lagi er sú breyt. gerð á því atriði, sem fjallaði um miðstöð til að stjórna síldarlöndun, þá er það orðað svo, „að ríkisstj. hafi forgöngu um samstarf síldarsaltenda, síldarverksmiðja og útvegsmanna um bætt skipulag á löndun og annað, er miðað gæti að sem fyllstri nýtingu á afkastagetu síldarvinnslustöðvanna og veiðimöguleikum síldveiðiflotans.“

Enda þótt ég persónulega sé ekki alveg sannfærður um, að þessar breyt. séu allar til bóta, tel ég till. í hinu breytta formi fullnægjandi og mjög nauðsynlega, og ég er mjög ánægður með, að það hefur náðst algert samkomulag í n. um jákvæða afgreiðslu till. Hér er stórmál á ferðinni, sem getur haft mjög mikil og góð áhrif í för með sér, einkum á þeim stöðum norðanlands, sem búa við erfitt atvinnuástand vegna síldarleysis. Margir þessara staða eru, eins og er, byggðir upp og byggja algerlega afkomu sína á síldarmóttöku og síldariðnaði, eða a.m.k. að verulegu leyti, og síldarleysið á undanförnum árum hefur haft mjög lamandi áhrif á allt atvinnulíf á þessum stöðum. Síldarflutningar mundu geta bjargað ótrúlega miklu og forðað mörgum þessum stöðum nánast frá hruni. Þar á ofan bætist svo það atriði, sem margoft hefur verið bent á og margrætt er, hve geysimikla þjóðhagslega þýðingu það hefur að nýta veiðimöguleika síldveiðiskipanna, sérstaklega þegar mikill afli berst á land og skipin liggja jafnvel í biðröð marga daga og bíða eftir afgreiðslu.

Þetta eru allt saman atriði, sem hafa verið þrautrædd og komu mjög skýrt fram í framsöguræðu hér áður, og ég sé ekki ástæðu til að ræða það frekar. Ég vildi hins vegar bæta því við og skjóta því hér inn í, að þessi till. fjallar einungis um flutning á síld, þ.e.a.s. saltsíld og bræðslusíld. Ég er samt þeirrar skoðunar, að skipulagðir flutningar milli landshluta komi einnig til greina í sambandi við flutning fleiri fisktegunda en síldar. Á undanförnum árum hefur verið mikið og almennt aflaleysi fyrir Norðurlandi, en á sama tíma hefur verið ágæt veiði við Suðvesturland og í vetur a.m.k. við Breiðafjörð. Bátarnir norðanlands hafa í vaxandi mæli flutt sig af heimamiðum og hingað suður, en hér sunnanlands og vestan er aflinn oft svo gífurlegur, að vinnslustöðvarnar hafa tæpast undan. Ég er sannfærður um það, að sá tími kemur, að skip, sem búin eru til síldarflutninga með góðum kæliútbúnaði, verða einnig fengin til þess að flytja bolfisk til þeirra staða, sem við erfitt atvinnuástand búa og þar sem vinnuafl er fyrir hendi ónotað. Ég á þar fyrst og fremst við flutning á þeim fiski, sem þau veiðiskip veiða, sem að norðan eru, en þó kemur það einnig til greina almennt, þegar um mjög mikinn afla er að ræða, sem berst á land og vinnslustöðvarnar hafa, ekki undan.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði, þar sem till., sem var borin fram, hvorki hún né brtt., fjallar um það, en hér er um mikilsvert mál að ræða, sem er nátengt síldarflutningunum og sjálfsagt að drepa það í leiðinni.

Ég vænti þess svo, að till. verði samþykkt í hinu breytta formi og hljóti góða og hraða fyrirgreiðslu hjá hæstv. ríkisstj.