07.04.1965
Sameinað þing: 40. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (2754)

144. mál, tekjustofnar sýslufélaga

Flm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Á þskj. 305 hef ég ásamt 3 öðrum hv. þm. leyft mér að flytja till. til þál. um endurskoðun á gildandi reglum um tekjustofna sýslufélaga, en tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta, svo fljótt sem auðið er, hefjast handa um endurskoðun á gildandi reglum um tekjustofna sveitarfélaga í því skyni að setja skýrari ákvæði um tekjustofna sýslufélaga og sjá þeim fyrir nægilegum tekjum til þess að mæta lögboðnum og öðrum óhjákvæmilegum útgjöldum.“

Till. þessi er flutt eftir beiðni sýslunefnda Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, en á fundum þeirra, sem haldnir voru í júnímánuði s.l., samþykktu báðar sýslunefndirnar ályktanir, sem hnigu í sömu átt og till. þessi kveður á um.

Verkefni sýslufélaga eru bæði margvísleg og í sumum tilfellum binda þau sýslufélögunum fjárhagslega bagga, enda verða þau þá að standa undir ýmsum sameiginlegum kostnaði sveitarfélaganna. Verksvið sýslufélaga má segja, að sé sérstaklega markað í IV. kafla l. nr. 58 1961, um sveitarstjórnir. Er þar sett fram sú meginregla, að sýslufélögin skuli annast stjórn á öllum sveitarstjórnarmálum, sem varða sýslu í heild. Eftir lögum eru sveitarfélög tvenns konar. Annars vegar eru það hrepparnir, en hins vegar kaupstaðir, sem eru þá jafnframt sjálfstæð lögsagnarumdæmi.

Sem dæmi um almenn lagaákvæði, sem leggja skyldur og fjárhagslegar skuldbindingar á sýslufélög, má nefna vegalög, nr. 71 frá 1963, lög um almenningsbókasöfn, þar sem sú skylda er lögð á sýslufélög að sjá héraðs- bókasöfnum fyrir húsnæði. Þá eru lög um lax- og silungsveiði, sem skylda sýslusjóð til bótagreiðslna vegna friðunaraðgerða í fallvötnum, lög um húsmæðrafræðslu, þar sem lagt er á sýslufélög að greiða hluta kostnaðar við byggingu og rekstur húsmæðraskóla í sveitum, lög um lögreglumenn, en þar er ákveðið, að viss hluti kostnaðar af löggæzlu í viðkomandi sýslu eða lögsagnarumdæmi sé af þeim greiddur. Þá er rétt að benda á þátt sýslnanna í greiðslu kostnaðar við byggingu og rekstur héraðsskjalasafna, byggðasafna, framlög í þágu heilbrigðismála, t.d. greiðslu ljósmæðralauna og til byggingar sjúkrahúsa. Þá er nokkur stuðningur við skóla og almenna menntun, íþróttamál og hvers konar æskulýðsmál.

Eins og segir í grg. fyrir till., er í 101. gr. sveitarstjórnarlaganna frá 1961 að finna meginákvæði um tekjustofna, sem sýslufélögum eru ætlaðir til þess að standa straum af hinum sameiginlega kostnaði, en þar segir, að því, sem á vantar, að tekjur sýslusjóðs hrökkvi fyrir útgjöldum hans, skuli jafnað niður á hreppana eftir tilteknum reglum, sem greinir nánar í l. Af þessu orðalagi mætti ætla, að megintekjustofninn sé fastur og því, sem á vanti, að endar nái saman, skuli jafna niður á hreppana. Þessu er þó á annan veg farið. Tekjur sýslufélaga eru að heita má einungis hið niðurjafnaða gjald, sem lagt er á sveitarfélögin. Í þessu sambandi má nefna, sem dæmi, að af heildartekjum sýslusjóða Mýra- og Borgarfjarðarsýslu eru aðeins rúmlega 8% teknanna til komnar frá öðrum tekjustofnum en niðurjöfnuninni. Ég geri ráð fyrir, að svipuð hlutföll séu einnig um tekjur annarra sýslufélaga, þó að ég hafi ekki aflað mér upplýsinga þar um.

Þegar höfð eru í huga þau miklu verkefni, sem sýslufélögunum er skylt að leysa og hafa forustu um, er ekki óeðlilegt, að athugun fari fram á þeim möguleikum, sem sýslufélögin hafa til þess að afla sér tekna og standa með því undir sameiginlegum kostnaði. Ég geri ráð fyrir, að allir séu sammála um, að æskilegt sé að efla frekar, en draga úr sjálfsstjórn héraðanna og með því skapa þeim aðstöðu til þess að hafa forustu og frumkvæði að margvíslegum umbótum og framförum, hvort heldur er á sviði menningarmála, atvinnuhátta eða öðru því, sem helzt treystir og tengir fólkið við sína heimabyggð.

Með því að efla sjálfsstjórn héraðanna og treysta fjárhagslegan grundvöll þeirra, væri á vissan hátt stigið raunhæft spor í þá átt að auka jafnvægi í byggð landsins.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til fjvn.